16.10.2009 | 01:00
Efnahagskreppan og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn.
Íslenska efnahagskreppan var ekkert einsdæmi haustið 2008. Í grein sem birtist í netútgáfu Daily Mail frá 13 október 2008 má lesa þessa klausu; "Britain was just three hours away from going bust last year after a secret run on the banks, one of Gordon Brown's Ministers has revealed." Og í fyrsta sjónvarpsviðtalinu sem Ben Bernanke seðlabankastjóri Bandaríkjanna veitti eftir bankahrunið mikla haustið 2008 þá sagði hann að aðeins markvissar aðgerðir seðlabankans bandaríska hefðu hindrað algjört bankahrun á heimsvísu. "Og það hefði munað mjög mjóu".
Á Íslandi urðu strax áberandi í umræðunni hagfræðingarnir Gylfi Zöega, Jón Daníelsson og Lilja Mósesdóttir, allt ungt fólk með doktorspróf í hagfræði, og sérsvið bæði Lilju og Jóns var tengt kreppum og efnahagsstjórnun á kreppu tímum. Gylfi og Jón vöktu mikla athygli fyrir greinar og viðtöl þar sem þeir komu bæði með rökstuddar tillögur um lausn á skuldamálum fyrirtækja og heimila, sem illu heilli var ekkert hlustað á, og eins lögðu þeir til eftirspurnarráð til að örva atvinnulífið.
Í Kastljósi 230 október 2008 segir Jón Daníelsson meðal annars þetta.
Það skiptir öllu máli að halda hjólum atvinnulífsins gangandi. Allstaðar í heiminum eru seðlabankar að bregðast við efnahagssamdrættinum með því að lækka vexti og dæla peningum inn í hagkerfin.
Jón var að tala um peningaprentun og beinan stuðning við atvinnulífið. Í fyrirlestri sem Jón hélt í Háskóla Íslands þá hefur Morgunblaðið eftir honum í frétt 3.11 2008
Hann segir að núna sé þróunin í þá átt að seðlabankar fari að lána fyrirtækjum beint. Mjög mikilvægt sé að atvinnulífið stöðvist ekki þrátt fyrir hrun fjármálakerfisins. Þetta sé að gerast í Bandaríkjunum og Þýskalandi. "Þeir líta svo á að ef fyrirtækin fái ekki lánsfjármagn og fari í gjaldþrot, þá sé ekkert eftir". ... Hann lýsir núverandi ástandi sem slökkvistarfi. Öllu máli skiptir að slökkva eldinn til að hann breiðist ekki út. Annað sé aukaatriði.
Í grein 6. nóv segja þeir félagar Jón og Gylfi þegar þeir kynna tillögur sínar að "Því lengur sem stjórnvöld bíða með aðgerðir til þess að stemma stigu við vítahring gjaldþrota fyrirtækja og heimila, þeim mun verra verður ástandið."
Það er fróðlegt að skoða þessi ummæli Jón í ljósi greinar sem Dominiqe Strauss- Kahn, fékk birta í Morgunblaðinu 1. nóvember 2008, en hann er framkvæmdastjóri Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.
Eina leiðin til þess að endurlífga traust er að beita efnahagsaðgerðum til þess að auka eftirspurn og viðhalda framleiðslu. Nota má peningamálastefnuna til þessa í löndum þar sem vextir eru háir en hætt er við því að áhrifin verði takmörkuð vegna lánaþurrðarinnar. Þess vegna verða ríkisfjármálin að leika aðalhlutverk. Aukin útgjöld hins opinbera eru ávallt varhugaverð þar sem þau auka skuldir og auka seinni tíma áhættu, en miðað við stöðuna vegur ávinningurinn upp á móti kostnaðinum í löndum sem ekki eru of skuldug.
Þess ber að geta að íslenski ríkissjóðurinn var skuldlítill í upphafi kreppunnar og því fyllilega í stakk búinn að taka á sig skuldbindingar. Og þjóðin var með eigin mynt og því var peningaprentun raunhæfur möguleiki.
En þó Jón og Strauss væru samstíga, þá var hlustað á hvorugan á Íslandi. Margt var að vísu gert í anda þess sem Jón og Gylfi sögðu og vissulega stöðvaðist ekki efnahagslífið. Þar höfðu aðgerðir stjórnvalda mikið að segja. En vextir voru ekki lækkaðir og fjármagni var ekki dælt inn í efnahagslífið.
Í stað þess var gengið til samstarfs við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. Og um það samstarf má margt segja og margar greinar til dæmis eftir Lilju Mósesdóttur sem ég get vitnað i. En ég á geymda í tölvu minni ágæta grein eftir Jónas Guðmundsson hagfræðing þar sem hann varar við ráðum sjóðsins og vitnar í Nóbelsverðlaunahagfræðinginn Joseph Stiglitz. Greinin heitir
Heftir Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn endurreisnina?
Og ég ætla að gefa Jónasi orðið. Grein hans dregur fram grunn þess ágreinings sem um er að ræða, og aðvörunarorð ef ráðum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins yrði fylgt eftir.
NÚ ÞEGAR samkomulag hefur verið gert milli Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og ríkisstjórnar Íslands um stórt gjaldeyrislán og enduropnun viðskipta við umheiminn varpa margir landsmenn öndinni léttar. Líklega var það nauðsynlegt fyrsta skref í stöðunni, vegna þess hvernig alþjóðapeningakerfið er byggt upp og hefur þróast.
En framhaldið er síður en svo ljóst. Alls ekki er ljóst í smáatriðum hvernig skilyrði Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefur sett varðandi stjórnun efnhagslífsins, hvaða efnahagsáætlun liggur til grundvallar, hvaða tryggingar sjóðnum hafa verið gefnar, hvaða baksamninga ríkisstjórnin kann að hafa gert í þessu sambandi. Þetta þarf að upplýsa sem fyrst og ræða opinskátt áður en gengið verður endanlega frá samningum.
Yfirlýsingar fulltrúa Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og ríkisstjórnarinnar á síðustu dögum, t.d. varðandi vexti og ríkisbúskap, vekja spurningar um hvaða afleiðingar þessir samningar munu hafa fyrir íslenskt efnahagslíf á næstu misserum, þegar mestu máli virðist skipta að koma hjólum atvinnulífsins í gang með öllum tiltækum ráðum.
Joseph Stiglitz, nóbelsverðlaunahafi í hagfræði, formaður efnahagsráðs Clintons og fyrrverandi aðstoðarbankastjóri Alþjóðabankans, hefur skrifað mjög gagnrýna úttekt á skilyrðum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins gagnvart ríkjum heims sem lent hafa í gjaldeyrisvandræðum á undanförnum áratugum. Hann lýsir því hvernig ofuráherslur sjóðsins á háa vexti, verðbólgumarkmið, hallalausan ríkisbúskap og frjálsa markaði, án tillits til aðstæðna í löndunum, hafa verið aðalsmerki í aðgerðum sjóðsins gagnvart aðstoðarlöndunum. Þessar áherslur hafi oft reynst skaðlegar.
Og síðan vitnar Jónas í Stiglitz um vinnubrögð sjóðsins.
Hann segir í bók sinni Globalization and its Discontents, sem gefin var út árið 2002: Auðvitað segir Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn að hann ákveði aldrei heldur semji um skilyrði fyrir lánssamningum við löndin sem slá hjá honum lán. En þetta eru einhliða samningaviðræður þar sem allt vald er á hendi sjóðsins, aðallega vegna þess að löndin sem sækjast eftir aðstoð hans eru í örvætingarfullri leit að fjármunum. Þó ég hafi séð þetta skýrt í Eþíópíu og öðrum þróunarlöndum, sem ég hafði afskipti af, var það undirstrikað í heimsókn minni til Suður-Kóreu í desember árið 1997, þegar fjármálakreppan í Austur-Asíu var að breiða úr sér. Suðurkóreskir hagfræðingar vissu að stefnan sem lagt var að landi þeirra að taka upp yrði hörmuleg. Þó að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hafi síðar viðurkennt að hafa knúið fram of mikið aðhald í ríkisfjármálum, fannst fáum hagfræðingum (utan Alþjóðagjaldeyrissjóðsins) að nokkurt vit væri í þessari stefnu. Samt kusu þeir sem sáu um efnhagsstjórnunina í Suður-Kóreu að þegja. Ég undraði mig á hvers vegna þeir hefðu þagað, en fékk ekki svar fyrr en tveimur árum seinna, þegar efnhagur Kóreu hafði jafnað sig... Kóreskir embættismenn útskýrðu hikandi fyrir mér að þeir hefðu ekki vogað sér að lýsa andstöðu sinni opinberlega. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn gat ekki aðeins stöðvað flæði peninga úr sjóðum sínum til landsins, hann gat ennfremur með yfirlýsingum latt fjárfestingar úr sjóðum einkaaðila og upplýst fjármálastofnanir í einkageiranum um efasemdir sínar um efnahagslífið í Kóreu. Þannig að Kórea átti engra kosta völ.
Hljómar þetta ekki kunnuglega þegar tæplega ársreynsla af störfum sjóðsins á Íslandi er skoðuð? Tökum við eftir því að Stiglitz minnist hvergi á ICEsave, en hann lýsir því vel hvað gerist þegar rangt er brugðist við fjármálakreppum.
Samt kenna aðilar vinnumarkaðsins ICEsave um. Og hin vitgranna fjölmiðlahjörð eltir. En lengdar þessa pistils vegna þá ætla ég ekki að hafa tilvitnanir mínar fleiri. Aðeins að vitna í hógvært viðtal sem tekið var við Josep Stiglitz í dönsku blaði nýlega. Og hans orð segja allt sem segja þarf og hvað ber að varast.
Stiglitz var spurður um mismunandi sveigjanleika AGS eftir löndum og sagði hann að alltaf þyrfti að skoða hvort skilyrði sjóðsins væru viðeigandi og aðgengileg.
Engin áætlun betri en vond
»Þetta sögðu Argentínumenn alltaf, þeir kysu að fá áætlun frá sjóðnum, en teldu að betra væri að hafa enga áætlun en vonda áætlun. Þeir fengu aldrei góða áætlun.«
Stiglitz sagði að líkan Alþjóðagjaldeyrissjóðsins væri að ákveðnu leyti gallað. Sjóðurinn legði mikla áherslu á að endurreisa traust og stæði í þeirri trú að áætlun frá honum stuðlaði að því. Hann var spurður hvað gerðist þegar áætlun sjóðsins væri endurtekið slegið á frest.
»Hér vil ég segja tvennt. Í fyrsta lagi hneigjast hagfræðingar til að leggja ekki jafn mikla áherslu og fjármálamarkaðir á galdraorðið traust. Þeir segja að það sem skipti máli upp á traust sé raunveruleikinn, það sem í raun er að gerast. Tökum Suðaustur-Asíu, ef þar er stuðst við AGS-áætlun, sem leiðir til mikils atvinnuleysis, eyðileggur það traust. Áætlun AGS kann að vera til staðar, en ef það drepur hagkerfið drepur það traust. Við sögðum að það sem skipti máli væri ekki áætlunin eða orð eða ræður. Ræður hjálpa í klukkustund. Ef áherslan er á hlutabréfamarkaði og hreyfingar upp og niður skiptir það máli. En hafi menn áhyggjur af störfum fólks skiptir það sem er undirliggjandi máli - ekki ræða, sem heldur mörkuðunum uppi klukkustund í viðbót.
Hitt atriðið er, hafi menn á annað borð áhyggjur af orðunum, að ein hættan af áætlunum AGS er að orðin koma þér oft í mjög erfiða klemmu. Taumur sjóðsins er mjög stuttur sem þýðir að geri ríki ekki það, sem hann vill, frestar hann áætluninni. Það er neikvætt merki og þess vegna spyr margt fólk hvort nú sé málið að Íslendingar þakki Alþjóðagjaldeyrissjóðnum fyrir að koma fyrir ári og segi: »Nú höfum við náð jafnvægi, það er ekki neyðarástand og við þurfum sem lýðræðisríki á því að halda að borgararnir komi saman og ræði hvað gera þurfi.« Þar er ýmislegt í húfi, en mikilvægast er að halda fullri atvinnu.«
Stiglitz sagði að hinn mikli niðurskurður á fjárlögum, sem AGS færi fram á, myndi leiða til meira atvinnuleysis á Íslandi.
»Þeir segja að kostnaðurinn við að fá traust sé að eiga mikla varasjóði, kostnaðurinn við varasjóðina er háir vextir. Kostnaðurinn við varasjóðina samsvarar niðurskurðinum í heilbrigðismálum eða menntamálum og Íslendingar spyrja sig: Er það þess virði?« sagði Stiglitz. »Ég held að þetta séu góðar og lýðræðislegar spurningar.
Atvinnuleysi og niðurskurður er afleyðing af stefnu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins þegar mestu skiptir fyrir efnahagsbatann að viðhalda atvinnu, galdraorðið traust er hins vegar dýru verði keypt.
Og Stiglitz spyr hinnar stóru spurningar sem þingmenn og fleiri eru að ræða þessa daganna og fá vonandi botn í áður en rústir einar blasa við þeim. Og spurning spurninganna í dag er mjög einföld:
Er það þess virði????
Kveðja að austan.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:11 | Facebook
Um bloggið
Ómar Geirsson
Færsluflokkar
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (23.1.): 0
- Sl. sólarhring: 12
- Sl. viku: 202
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 168
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Þakka þér fyrir vandaðan pistil Ómar.
Jakobína Ingunn Ólafsdóttir, 16.10.2009 kl. 01:21
Takk Jakobína.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 16.10.2009 kl. 08:42
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.