Er núverandi efnahagsástand ICEsave töfum að kenna???

Já, segja stjórnir VR og Félags stórkaupmanna.  Í heimskulegustu ályktun, sem saminn hefur verið síðustu áratugi af aðilum sem eiga að teljast ábyrgir, var þetta sagt meðal annars.

Á meðan þingheimur hefur teflt þráskák um Icesave síðustu mánuði hafa á tólfta þúsund störf tapast á vinnumarkaði. Einkaneysla hefur dregist saman um fjórðung á aðeins tveimur árum og fjárfesting hefur hrunið um 60%.

Það er látið í það skína að þessi tólf þúsund störf hafi tafist vegna þess að Alþingi gekk ekki strax að kúgunarskilmálum breta eftir hryðjuverkaárás þeirra á landið.  Ömurleiki lágkúrunnar hefur náð áður óþekktum hæðum í íslenskri orðræðu.´

En hver er innistæðan á bak við þessi orð??  Er ástandið svona í dag vegna þess að við höfum ekki fylgt eftir áætlun Alþjóðagjaldeyrissjóðsins nógu vel eftir eða er það svona slæmt vegna þess að stjórnvöld tóku heimskra manna ráð fram yfir ráð og tillögur okkar best menntuðu hagfræðinga á sviði efnahagsstjórnunar við kreppuskilyrði?

Að meginhluta hefur verið farið eftir tillögum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins nema að því leitinu að lántökur hafa tafist.  Hefur það komið að sök???   Já, segja þeir sem studdu aðkomu sjóðsins, það er skýringin að hér stefnir í mikinn harðindavetur í efnahagsmálum.  Og þau harðindi verða vegna þess að lánin eru nauðsynleg til að hægt sé að aflétta gjaldeyrishöftunum og styrkja þar með gengi krónunnar.  Eins skortir traust og við það fæst ekki lán til orkuframkvæmda. 

En standast þessar fullyrðingar???

Miðað við það sem Seðlabankinn sagði í vetur, þá stóð í fyrsta lagi til að byrja að aflétta gjaldeyrishöftunum í haust, og þá mög takmarkað.  Þetta þýðir á mannamáli, að þó við hefðu samið um ICEsave síðastliðið haust og værum búin að fá öll erlendu lánin, þá átti ekki að aflétta höftum fyrr en í haust hvort sem er.  Ástæðan er óttinn við krónuflótta, en Seðlabankinn mat það svo að fyrst þyrfti að semja við eigendur krónubréfa þannig að þeir hirtu ekki allan gjaldeyrinn í varsjóðnum þegar þeir færu úr landi með peninga sína.  Því strax í upphafi var því lýst yfir að hin erlendu lán ættu að vera varasjóður og ættu ekki að fara í að borga krónubréfin út.

Þetta er skýringin á gjaldeyrishöftunum, og þessi orð Seðlabankans eru til í skýrslum hans og hafa komið skýrt fram í viðtölum og blaðamannafundum sem bankinn hefur haldið.  Það er eftirá söguskýring að kenna ICEsave um að hér séu gjaldeyrishöft.  Að halda öðru fram er annaðhvort heimska eða lygi, eða þá hvorutveggja.

En hvað með lán til orkuframkvæmda???  Nú er það ljóst að að orkufyrirtækin standa mjög illa eftir gengishrap krónunnar og illa stödd fyrirtæki fá ekki lán.  Að kenna ICEsave um er skáldskapur.  Aðeins ríkisábyrgð getur tryggt Orkuveitunni þessa 10 milljarða sem hana vantar til að fjármagna nýframkvæmdir.  Og vextir af ICEsave og IFM lánunum eru nú þegar bókuð hjá ríkissjóði upp á 70 milljarða.  Væri ekki nær að nota hluta af þessum pening til að hjálpa Orkuveitunni í stað þess að borga erlendum lánardrottnum hann til þess að Orkuveitan geti síðan fengið lán, sem hvort sem er yrði að vera með ríkisábyrgð.

Sér einhver skynsemina í svona málflutningi???

Jú, vissulega einhverjir, en þeir trúðu því líka að bankakerfið stæði traustum fótum eins og íslenskir ráðamenn héldu fram í byrjun september 2008.  Sumir trúa jú öllu.

Gangi illa í dag, þá er þar engin tenging við ICEsave.  Þeir sem halda þessu fram, eru þeir sem sögðu að allt myndi batna þegar líða tæki fram á þetta ár, núna í haust átti viðsnúningurinn að verða, ef Íslendingar fylgdu ráðum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.   Það hefur ekki gengið eftir, og þá skapa spunameistarar múgæsingu og skella skuldina á þá þingmenn sem vörðu þjóðarhag í ICEsave deilunni, í stað þess að viðurkenna sín mistök.

Ungu hagfræðingarnir höfðu kannski rétt fyrir sér eftir allt samann.

Þeir greindu ástandið á sama máta og gert var í öðrum vestrænum löndum, og þeir komu með sömu lausnir og framkvæmdar voru í öðrum þróuðum vestrænum hagkerfum.  Og þessi ráð gengu þvert á ráð Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.  Þá var okkur sagt að sérstað Íslands væri gjaldmiðilskreppa.  Og líka krónubréfin sem vildu út.

Núna hefur raunveruleikinn sannað að það ríkti enginn gjaldmiðilsvandi á Íslandi, þvert á móti, OECD og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hafa ásamt mörgum öðrum, bent á að einmitt sveigjanleiki íslensku krónunnar hafi  gefið efnahagslífinu þann þrótt sem þó hefur verið í því frá því að Hrunið varð.  Og strax í upphafi kom Lilja Mósesdóttir fram með mótaðar hugmyndir um hvernig ætti að tækla vandann í sambandi við krónubréfin og byggði þar á lausnum sem gripið var til í Malasíu og Chile, en bæði þessi lönd heftu útstreymi spáfjár með skattlagningu, þvert á ráð Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og lentu ekki í þeim vandræðum sem önnur lönd lentu í sem fylgdu ráðum IFM.

En þessir ungu hagfræðingar vöruðu við hvað myndi gerast ef leið Alþjóðagjaldeyrissjóðsins yrði farin, og þær afleiðingar eru eitthvað sem hælbítar verkalýðshreyfingarinnar eru að eigna ICEsave.  En þetta unga fólk mynntist ekki á ICEsave, það minnti á að rangar aðgerðir hefðu sínar afleiðingar.  Og þær afleiðingar væru þekktar.

Og þessi spá gekk eftir.

En í lokapistli mínum um ICEsave og efnahagsvandann þá ætla ég að vitna í nokkrar greinar um hvernig umræðan var og hverju var spáð.  Þeir spádómar hafa ræst að hluta, og að hluta þá er ástandið betra en menn bjuggust við.  En ICEsave var aldrei inn í þeim spádómum enda byggðu menn spádóma sína á lærdómi annarra þjóða í sömu stöðu.  Og þær þjóðir voru ekki kúgaðar af bretum og Hollendingum til að greiða þeim áætlaða 2/3 af þjóðarframleiðslu vegna viðskipta einkaaðila á frjálsum markaði. 

Ef þær dökku horfur sem aðilar vinnumarkaðarins upplifa fyrir næsta vetur, séu ICEsave að kenna, en ekki því að þjóðin fylgdi eftir röngum ráðum í efnahagsmálum, þá hefur Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn viðurkennt á sig mistök, og beðist afsökunar á, að ósekju. 

Þetta var ekki honum að kenna og ráðum hans, þetta var allt ICEsave að kenna, í Asíu og Suður Ameríku var það ICEsave sem dýpkaði efnahagskreppuna og gerði hana illviðráðanlegri, ekki hávaxtastefna og blóðugur niðurskurður samfélagsþjónustu.

Skyldu Lettar vita þetta áður en allt fer þar í kalda kol.   Þeir gætu hringt í bretana og spurt þá hvort þeim vantaði ekki pening.  Þá myndi aftur birta til í efnahag þeirra.

Já, mikil er viska íslenskra hagfræðidverga.

Kveðja að austan.

 

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Ómar Geirsson

Höfundur

Ómar Geirsson
Ómar Geirsson
Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Screenshot (49)
  • Screenshot (49)
  • ...img_0104a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.1.): 0
  • Sl. sólarhring: 11
  • Sl. viku: 202
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 168
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband