6.10.2009 | 09:21
Jákvæð viðleytni Jóhönnu.
Hverjir bera ábyrgð á þeim mikla doða sem lagðist á íslenska ráðamenn síðastliðið haust. Doða sem læsti krumlum sínum síðan í harða vinstri og félagshyggjumenn þegar leið á veturinn.
Fólk varð ekki sjálfu sér líkt og sumir töluðu meira að segja tungum óvinanna. Þeim sem áður var tamt að tala um "frelsi, jafnrétti, bræðralag", þeir fóru allt í einu að ganga um eins og svefngenglar og muldruðu "vextir, borga, ICEsave", eða eitthvað þaðan að óskiljanlegra þeim sem þá höfðu þekkt.
Aðeins illir gjörningar skýra þessa Holtaþoku hugans. Gjörningar sem varla eru þessa heims. Einna helst þarf að leita í smiðju meistara Tolkien til að fá skýringar á þeim öflum sem að baki standa.
En eru veðrabrigði, er að birta til í huga þessa fólks?
Steingrímur kvaddi land sitt með þeim orðum að lög giltu á landinu, og þau lög kvaðst hann virða. Því er mjög ólíklegt að hann komi með svikasamning heim eins og þjónar hans, helteknir af Holtaþokunni, í vor.
Og Jóhanna okkar, það sést grilla í hina réttu Jóhönnu í þessu viðtali.
Of seint segja sumir, ekki nógu sterkt að orði komist segja aðrir.
En ég segi; Velkomin heim Jóhanna, þín var saknað.
Kveðja að austan.
Jóhanna gagnrýnir Brown | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Um bloggið
Ómar Geirsson
Færsluflokkar
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.11.): 520
- Sl. sólarhring: 675
- Sl. viku: 6251
- Frá upphafi: 1399419
Annað
- Innlit í dag: 442
- Innlit sl. viku: 5297
- Gestir í dag: 406
- IP-tölur í dag: 399
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Ómar, þú átt ekki að fyrirgefa Jóhönnu afglöp hennar svona auðveldlega. Þótt hún hrekist undan vilja þjóðarinnar, þá er vanþekking hennar ennþá fullkomin. Hún telur ennþá, að Íslendskum almenningi beri skylda til að greiða Icesave-reikninginn.
Ekki saknaði ég Jóhönnu !
Kveðja austur.
Loftur Altice Þorsteinsson, 6.10.2009 kl. 09:34
U-beygja Jóhönnu í IceSave skýringum er mögnuð. Hún, af öllum mönnum, talar um gallaða löggjöf ESB, sem hefur verið bannað hjá krötum hingað til. Þetta er svo magnað að Pressan.is passar sig vandlega á að sleppa þessu í frétt sinni af stefnuræðunni.
Spurningin er bara hvort Jóhanna hafi séð ljósið eða hvort hún er að búa sig undir stjórnarslit og nýjar kosningar og vilji hafa skjalfesta ræðu þar sem hún "sagði það" og getur bent á í kosningaslagnum.
Miðaða við það sem næst kom í ræðunni, "við eigum ekki annarra kosta völ", held ég að hún sé ekki að búa sig undir neina stefnubreytingu í IceSave. Bara uppgjöf.
Haraldur Hansson, 6.10.2009 kl. 10:08
Blessaður Loftur.
Núna er það sýran og Lennon. Hættur í andstöðubloggi mínu, í bili a.m.k..
Spurningin sem við þurfum öll að spyrja okkur að, er hvað hefði "okkar flokkur" gert í þessari stöðu? Til dæmis klofnaði sá flokkur sem ég batt vonir við, þegar þingmenn hans fórnuðu einhverju prinsippi á altari ICEsave andstöðunnar. Í flokknum var fólk sem mat prinsip meira en andstöðu við skuldahlekki bretanna.
Vissulega hefur þú alltaf verið einarðlegur á móti ICEsave Loftur, og í mörgu öðru hefur þú farið í gegnum stefnu þíns flokks, til dæmis í peningamálum. En hvað hefði þinn flokkur gert ef hann hefði ekki hrakist úr ríkisstjórn í vetur?? Hefði hann samið????
Loftur, við erum sammála í þessu máli, og ég hef ekki fyrirgefið einum eða neinum, fólk þarf að segja afsakið fyrst. En ég tel okkur vera búna að fella skrímslið, ICEsave verður ekki samþykkt héðan af án þess að um það hafi verið fjallað á lögformlegan hátt innan ESB/EFTA dómsstóla. Engin annar sameignlegur flötur er á þessu máli.
En hvað tekur við???
Ég tel að flokksátök munu ekki leysa núverandi vanda þjóðarinnar. Sama hvað málefni næstu stjórnar verða skynsamleg, það verður aldrei hægt að gera neitt á meðan þjóðin skiptist í tvær fylkingar.
Loftur, ég á börn sem ég vil að erfi land forfeðra minna. Því er það Lennon og "All we need is love", svona nútímaútfærsla á orðum Þorgeirs Ljósvetningagoða að "eigi skal slíta sundur friðinn". Þau hafa aldrei verið ferskari en í dag. Og ég vil líta á Hávamál sem dýran kveðskap, ekki sem raunsæja lýsingu á Íslandi í byrjun 21. aldarinnar.
En ef ICEsave skrímslið rumskar aftur, þá duga aðeins hin breiðu spjót. Því það þarf lifandi fólk til að syngja "All we need is love".
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 6.10.2009 kl. 10:34
Blessaður Haraldur.
Það er okkar að sjá til þess að um stefnubreytingu sé að ræða. Stjórnmálaelítan þarf að skilja, að uppgjöf í ICEsave málinu, er um leið hennar eigin skapadómur.
Og slíkt vill enginn stjórnmálamaður.
Bretunum dugar ekki lengur stuðningur Ruv og Samfylkingarinnar í þessu máli.
Þjóðin vill ekki ICEsave.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 6.10.2009 kl. 10:37
Ómar, ég tel ekki að menn öðlist mikinn persónulegan lærdóm af fortíðinni. Þess vegna tel ég að ekki skipti miklu hvað menn hefðu gert, ef þeir hefðu haft aðstöðu til að velja.
Þótt Jóhanna sé greinilega að breyta stefnunni, þá virðist hún ekki skilja það grundvallar atriði að við megum ekki greiða Icesave-trygginguna, vegna fyrirmæla frá ESB sjálfu. Ef okkur bæri lögum samkvæmt að greiða, væri ég líklega fremstur í flokki þeirra sem vilja greiða, þó með þeim fyrirvara að við getum það með góðu móti.
Loftur Altice Þorsteinsson, 6.10.2009 kl. 11:37
Mikið sammála þér Loftur.
Jóhanna hefur ekki ennþá séð ljósið, þó gjörningsþokunni sé eitthvað að létta til í huga hennar. En hvort það sé af þeim hvötum sem Haraldur bendir á hér að framan, eða þess að gamla góða Jóhanna sé komin í leitirnar, skal ég ekki segja. Á meðan það drepur skrímslið er mér sama, þó ég hugsi mitt.
Þú orðar afstöðu mína í ICEsave deilunni mjög skýrt en stór hluti flokkshesta í öðrum flokkum deila ekki þeirri sýn. Og þar sem ég er einn af örfáum mönnum sem sagði nei við ICEsave, strax í upphafi, og þá út frá réttlætisrökum, sem og hinu að kúgun breta fyrirbauð alla samninga við þá (mikið sammála Davíð í þeirri afstöðu), þá hef ég rekið mig á að bandamannahópur minn er síbreytilegur, og flokksafstaða kemur þar við sögu. Ekki að ég sé að bera slíkan vingulshátt upp á þig Loftur, þín afstaða hefur alltaf verið skýr, og þannig kynntist ég þér og þínum skoðunum hér á netinu.
En flokksmenn þínir eru reikulir þó Bjarni lofi góðu þessa dagana. En er þeim að treysta????
Ekki það að ég sé að spá í hvaðan gott kemur, mér nægir að það sé gott og bætandi fyrir málstaðinn. Að fella skrímslið.
En ég vildi óska þess að við næðum þessum málum út úr flokkshjólförunum, og tel reyndar slíkt vera lífsnauðsynlegt fyrir þjóð vora.
En um staðfestu þína hef ég aldrei efast.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 6.10.2009 kl. 12:25
Ómar, ég skil vel tortryggni þína gagnvart öllum stjórnmálmönnum og ég deili þeirri tortryggni. Ég get því ekki fullyrt, að fólki í einhverjum ákveðnum stjórnmálflokki sé treystandi.
Hvað varðar Icesave-samninginn og Alþjóða gjaldeyrissjóðinn, þá virðist vera að myndast samstaða um að hafna báðum. Samfylkingin er að reyna að fóta sig í þessu nýja umhverfi. Nýleg ummæli Jóhönnu eru til marks um það.
Mig grunar að Steingrímur og fylgdarlið komi frá Istanbul með fréttir af breyttum viðhorfum erlendis. Mín erlendu sambönd gefa það greinilega til kynna. Eins og hér heima, eru menn erlendis að átta sig á að Icesave-kröfurnar eru ekki í samræmi við regluverk ESB eða góða mannasiði.
Kveðja.
Loftur Altice Þorsteinsson, 6.10.2009 kl. 12:44
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.