Plan B.

Þegar núverandi stjórnarflokkar mynduðu sína minnihlutastjórn, þá töluðu þeir um að ríkisstjórnin ætlað að skapa svo og svo mörg störf.

Og eftir kosningar var blásið til blaðamannafundar þar sem tilkynnt var um aðgerðir sem áttu að skapa 6.000 störf, til dæmis með uppbyggingu stóriðju, og með aðkomu lífeyrisjóðanna auk algjörs lýðskrums þar sem tímabundin störf í ferðamannaþjónustu voru eignuð aðgerðum ríkisstjórnarinnar.

Og hvílíkt uppklapp sem hófst hjá Riddurum heimskunnar í öllum fjölmiðlum landsins. 

Nú átti sko að takast á við vandann og allt lofaði þetta svo góðu.

Og eins og fyrr þá náðu Riddararnir að kæfa gagnrýnisraddirnar á hávaxtastefnu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.  Orðavaðall eins og raunsæ efnahagsstjórn, erfiðar ákvarðanir og styrk forysta ríkisstjórnarinnar glumdi um allt.

Gagnrýnisraddir sem bentu á að þessi meinta sköpun starfa væri aðeins falleg orð á blaði, ekkert væri fast í hendi.  Og vextirnir væru að drepa allt.  Síðasti naglinn í líkkistu atvinnulífsins yrði síðan skattahækkanir.

 

Hvað gekk eftir? 

Vextirnir hafa ekkert lækkað sem neinu nemur.  Allstaðar úr atvinnulífinu er öskrað á vaxtalækkanir en landsstjórinn segir nei og þar við situr.

Stóriðjan er í einum stórum hnút því það er vitað að stærstu orkufyrirtækin ramba á barmi gjaldþrots vegna alltof mikillar skuldsetningar.  Aðeins lýðskrumarar tala um virkjanir og stóriðju sem valkost þegar ljóst er að vandinn er endurfjármögnun núverandi skulda.

Og lífeyrissjóirnir, sem áttu að dæla pening inn í hagkerfið, þeir hafa ekki gert það af mörgum ástæðum.   

Allt þetta var vitað.

Það eina sem gekk eftir í sumar voru jákvæð áhrif krónunnar.  Ef Samfylkingin hefði fundið anda í flösku og beðið hann um eina ósk, og sú ósk væri gjaldmiðilskipti strax, þá hefði allt stoppað.  Það sem var úthrópað af Riddurum heimskunnar, það var bjargvættur  efnahagslífsins og eina skýring þess að núverandi efnahagsstjórn hefur ekki sökkt þjóðarskútunni..

En krónan þó sterk sé, getur ekki bjargað til lengdar, þegar allt sem mennirnir gera, er mislukkað, eða þá ekki beinlínis skaðlegt.  Og það sorglega er að allt sem hefur gerst, var fyrirséð.  Þetta var ekki eins og hjá þeim sem koma eftir hamfarir og sögðust hafa séð þær fyrir, mætir hagfræðingar voru búnir að vara við þessu öllu.  

Lilja Mósesdóttir dró upp dökka mynd um það sem myndi gerast ef óráð Alþjóðagjaldeyrissjóðsins yrðu hryggjarstykki efnahagsstefnu þjóðarinnar.  Í góðri grein á Smugunni, í aðdraganda kosninganna, sagði Lilja nákvæmlega hvað myndi gerast og af hverju.  

Jón Daníelsson skrifaði greinar og mætti í sjónvarpsviðtöl síðastliðinn vetur og miðlaði þjóð sinni af reynslu sinni.  Hann er jú sérmenntaður á þessu sviði, og vinnur við að kenna kreppustjórnun og annað því tengt.  Mér er minnisstætt sem Jón sagði að rannsóknir sýndu að efnahagsáföllin í aðdraganda kreppu, skýrðu kannski 10-20% af samdrættinum, restina mætti skrifa á röng viðbrögð stjórnvalda, þau gerðu illt verra með ráðstöfunum sínum.

Þau hækkuðu vexti, drægju úr ríkisútgjöldum með því að skera niður í velferðarkerfinu og þau hækkuðu skatta.  

Hljómar þetta kunnuglega???   Var Jón skyggn, eða hefur þetta allt verið gert áður?

Og svarið er já, óráð Alþjóðagjaldeyrissjóðsins er fullreynd, og ennþá hefur ekki fundist það land þar sem aðstoð sjóðsins hefur verið aðstoð fyrir efnahagslíf viðkomandi landa, í besta falli ef vandinn er ekki mikill og ítök sjóðsins lítil, þá hafa menn sloppið fyrir horn, lítið skaddaðir, en í versta falli þar sem krumlur sjóðsins hafa náð tökum, þá hafa hagkerfin tekið mikla dýfur og þegar þau byrja að hjara við, þá hefur sjóðurinn komið á grundvallarstrúktúr breytingum, velferðarkerfin stórsködduð eða hreinlega eyðilögð með einkavinavæðingu, og auðlyndir viðkomandi landa lentar í höndunum á alþjóðlegu fjármagni.

Þetta eru svín, Óbermi í mannsmynd, og það vita það allir, nema hugsanlega Þorvaldur Gylfason, sem virðist hafa lent á einhverju sýrutrippi þegar hann fékk að ganga þar um ganga fyrir margt löngu.  En jafnvel hann er farinn að skynja Óráðin, í nýlegri grein í Fréttablaðinu, viðurkennir hann að hlutirnir hafi ekki gengið upp, og kallinn má þó eiga að hann veltir upp millileiðinni svokölluðu.   Og þegar uppklapparar eins og Þorvaldur eru farnir að ljá máls á skynsemi, þá er fokið í mörg skjól fyrir Riddarana, þeir hengja sig einna helst á að tafir við ICEsave skuldsetninguna hafi valdið þeim ógöngum sem efnahagslífið er í.

Eins má geta að Vilhjálmur Egilsson, síamstvíburi Gylfa forseta, að hann er einnig farinn að viðurkenna mistök sín og þegar hann gagnrýnir bæði skattahækkanirnar og vaxtastefnuna, þá er hann mjög kurteislega að biðja um að landstjóranum sé hent úr landi.

Það ber allt að sama Brunni, Brunni stöðnunar og langvarandi atvinnuleysis.  Og þetta er ekki ytri aðstæðum að kenna, vandinn er allur heimatilbúinn.  Hamfaraveturinn sem fram undan er í íslensku efnahagslífi, er mannannaverk.  Og hann er ekki töfum á ICEsave að kenna. 

Ef við trúum Riddurum heimskunnar einu sinni enn, þá erum við glötuð sem þjóð.  Ef það er innbyggt í þjóðarsálina að hlusta alltaf á þá sem sannarlega hafa alltaf haft rangt fyrir sér í öllu því sem þeir hafa sagt, eins og til dæmis hagfræðidvergarnir við Háskóla Íslands, þá verður hér kreppa og stöðnun um langa framtíð.  Og þjóðfélag misréttis og ójafnaðar festist varanlega í sessi.

Við megum aldrei gleyma því að það þarf að taka erfiðar ákvarðanir og það þarf a moka flórinn.  En það þarf að moka flórinn í réttu fjósi, og það þarf að taka réttar ákvarðanir.  Þá birtir til að lokum og þjóðfélagið verður eins og við viljum hafa það, ekki eins og alþjóðlegt auðmagn vill að það verði.

Sjálfstæði og velmegun hjá smáþjóð er ekki sjálfsagður hlutur.  Og það er ákaflega auðvelt að glata hvoru tveggja  varanlega.  Og smáþjóð er glötuð, beri henni ekki gæfu til að fara þær leiðir sem færar eru til lausnar þeim vanda sem við er að etja.

Þetta snýst ekki um flokkadrætti eða flokksátök.  Þetta snýst um manndóm, manndóm þjóðarinnar og manndóm þess fólks sem hún hefur menntað til að takast á við svona vandamál.  Það fólk þarf að hafa manndóm í sér til að segja satt og manndóm í sér til að berjast fyrir sannfæringu sinni.  Þó sú sannfæring sé á skjön við almannaróm Riddara heimskunnar, þó sú sannfæring sé á skjön við hagsmuni flokka sem þetta fólk kann að tengjast.

Og þetta snýst um siðferði.  Siðferði þess að skynja að við séum öll ein fjölskylda, og fjölskylda sem á í erfiðleikum, hún leysir ekki sinn vanda með því að fórna einhverjum meðlimi sínum.  Engin lausn á svona tímum, þó skynsamleg virðist vera að öðru leyti, er boðleg siðaðri þjóð, ef hún krefst að þeir sem minna mega sín sé fórnað.  Bara þessi krafa útilokar allt samstarf við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn eins og málum er þar háttað í dag.  Það er sorglegt, því það á ekki að vera svo, en það er svo.  

Hjálp sem vegur að rótum velferðarkerfisins er ekki hjálp fyrir litla þjóð í vanda.  Og ef öll sú hjálp sem býðst, er þessu marki brennd að vera runnin undan rótum siðleysingja, þá þarf þjóðin sjálf að vinna bug á sínum vanda.

Og það er ekki svo erfitt.  Við eigum hlý og góð hús, við eigum mat og við eigum orku.  Og við framleiðum afurðir sem aðrar þjóðir vilja kaupa.  Restin er síðan handavinna, kannski dálítið flókin, en samt aðeins handavinna.  

Einhver góður maður, sem gat ekki lengur níðst á sínum eigin hugsjónum og gat ekki lengur kokgleypt sannfæringu sína, hann talaði um Plan B.

Við ættum öll að fara að hugsa um Plan B. 

Það þarf nýja hugsun og ný vinnubrögð.

Það þarf mannúð og mennsku, kryddaða með smá skynsemi, og þjóðin mun ná vopnum sínum á ný, reynslunni ríkari.

Maður þarf bara að trúa því.

Kveðja að austan.

 

 

 

 


mbl.is Engar framkvæmdir á árinu með aðkomu lífeyrissjóðanna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Andspilling

AÐ lesa svona rugl fær mann bara til að segja eitt: leitaðu þér hjálpar.

Andspilling, 2.10.2009 kl. 23:04

2 Smámynd: Ómar Geirsson

Láttu ekki svona vinur, ég er aðeins að reyna að komast á lista hjá þér.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 2.10.2009 kl. 23:53

3 Smámynd: Andspilling

Eins og ég hef marg ítrekað að þá komst hvorki trúðar né rugludallar á listann (þó vissulega hafi ég gert 2 undantekningar).

Kveðja úr neðra.

Andspilling, 3.10.2009 kl. 01:43

4 Smámynd: Ómar Geirsson

Æ, þar fór í verra gæskur.

Kveðja að austan..

Ómar Geirsson, 3.10.2009 kl. 08:30

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Ómar Geirsson

Höfundur

Ómar Geirsson
Ómar Geirsson
Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Screenshot (49)
  • Screenshot (49)
  • ...img_0104a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 5
  • Sl. sólarhring: 15
  • Sl. viku: 451
  • Frá upphafi: 1412813

Annað

  • Innlit í dag: 5
  • Innlit sl. viku: 390
  • Gestir í dag: 5
  • IP-tölur í dag: 5

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband