29.9.2009 | 12:59
"Þegar Jón fór í lögin þá kom Siggi og flengdi hann"
"Og í dómssal réttlætisins sátu Landráðin og grétu".
Einhvern vegin svona mun verða sungið í tjaldútilegum framtíðarinnar við þekk lag Ríótríósins, í tilefni þess að þjóðin losnaði úr myrkviði blekkingarhjúps landráða og svika.
Og tilefnið er þegar Sigurður Líndal, sá mikli lögspekingur, flengdi Jón Baldvin Hannibalsson, eðalkrata, vegna þess að Jón hafði vegið að æru mætra lagamanna, sem Sigurður hafði uppfóstrað.
Grein Sigurðar má finna í þessum link: http://www.pressan.is/pressupennar/lesa_Sigurd_Lindal/ur-thrasheimi-stjornmalamanns
Ég skal játa á mig þau mistök að hafa ekki lesið þessa grein Sigurðar fyrr. Ófyrirgefanlegt því auðvita er betra að vísa í rök spekinganna en sína eigin heimasmíð, byggða af vilja en ekki kunnáttu.
Jón Baldvin er skrýtinn fýr. Hann fékk þá meinloku á gamals aldri að hann væri landráðamaður og ætti að sitja inni ævilangt. Og í stað þess að ræða þessi mál á viðeigandi stofnun og fá lækningu sinnar þráhyggju, þá hefur hann gengið um götur bæjarins og reynt að nappa aumingjagóða fjölmiðlamenn til að taka við sig viðtöl. Í þeim viðtölum þá hefur hann tjáð sekt sína, EES samningurinn, sem hann er höfuðsmiður af, lagði drápsklyfjar skulda og áþján yfir íslenska þjóð.
Vissulega má Jón Baldvin hafa slæma samvisku vegna þessa samnings. Þrælabúðirnar við Kárahnjúka eru honum til ævarandi skammar og öllum þeim sem dásömuðu fjórfrelsið á sama tíma og æra íslensku þjóðarinnar var troðin í svaðið því fjórfrelsinu fylgdi ekki siðleg ábyrgð þannig að skepnur og svín máttu haga sér eins og þau vildu, hefðu þau á annað borð til þess innræti.
En Jón Baldvin er ekki Landráður því EES samningurinn hefur ekki á neinn hátt skuldbundið íslenska þjóð til að greiða útgjöld breska ríkisins. EES samningurinn er réttarsamningur með réttarúrræðum, og það er ekki honum að kenna að íslenskir ráðamenn ljúgi að þjóð sinni að um "þjóðréttarlegar skuldbindingar" sé að ræða í ICEsave Nauðunginni.
En grein Sigurðar er yndisleg aflestrar. Núna skil ég þytinn í fjöllum Vaðlavíkur þennan ágústdag í sumar. Og ég sem hélt að þetta væru þrumur, en þá var þetta ómið af flengingum Sigurðar. Mér til gamans (því ég er ennþá brosandi eftir lestur greinarinnar) ætla ég að birta nokkur atriði úr grein Sigurðar, en annars skora ég á alla að lesa hana. Það þarf ekki að hafa fleiri orð um lögfræðilega hlið þessara deilu, jafnvel þeir vitgrönnu myndu frelsast og fitna af viti eftir lestur hennar.
Sigurður hnykkir á staðreyndum málsins og hvernig það er vaxið lagalega. Eftirfarandi tilvitnanir ættu að gefa góða mynd af þeim.
Samkvæmt upphafsorðum 25. liðar var skuldbatt íslenzka ríkið sig til að koma á fót tryggingarsjóði svo sem nánar er greint í tilskipuninni. Hvergi í tilskipun 94/19EB er mælt fyrir um sérstaka ábyrgð aðildarríkja á skuldbindingum tryggingarsjóðs. Reyndar segir allt annað í aðfararorðum tilskipunarinnar sem Jóni virðist fyrirmunað að skilja eða vill ekki skilja. Í tilskipun 94/19EB eru engin fyrirmæli um fjármögnun innistæðutryggingarsjóðanna og því er einstökum ríkjum látið það eftir, enda er henni hagað með ólíkum hætti. Eftirlitsstofnanir, eins og Eftirlitsstofnun EFTA hefur engar athugasemdir gert við það, hvernig staðið hefur verið að verki hér á landi, enda ekkert sem bendir til annars en innistæðutryggingarsjóðurinn hefði getað staðið við allar skuldbindingar við einstaka banka, þótt honum væri það um megn við allsherjar kerfishrun.
Hann ræðir um langsóttar lögskýringar þegar skýr texti tilskipunar 94/19EB og þá sérstaklega 24.-25. liður aðfararorða hennar blasir við. Hann lætur hjá líða að taka á því að ekki er mælt fyrir um fjármögnun tryggingarsjóða í tilskipuninni. Ekki skýrir hann heldur hvers vegna Eftirlitsstofnun EFTA gerði ekki athugasemdir fyrr en allt stefndi í óefni. Loks lætur hann að því liggja að íslenzk stjórnvöld eigi að annast neytendavernd í Hollandi og Bretlandi. Hvað sem líður reglum ESB/EES þá verður að ætla að það leysi ekki einstök ríki undan að verja neytendur sína. Hefði ekki verið eðlilegt að þarlend yfirvöld hefðu brugðizt við þegar lítt kunnur aðvífandi erlendur banki lék lausum hala í skjóli framangreinds regluverks ESB í stað þess að fela slíkt eftirlit fjarlægu smáríki?
Og þetta segir hann um Kerfishrun.
Eins og að framan greinir er ekkert sem bendir til annars en sjálfseignarstofnunin Tryggingarsjóður innistæðueigenda hefði getað staðið við skuldbindingar sínar við öll áföll sem vænta mætti við eðlilegar aðstæður í hagkerfinu. Þess er ekki að vænta að gert hafi verið ráð fyrir að tryggingarsjóðirnir réðu við alþjóðlega bankakreppu eða allsherjar kerfishrun. Þá hefði án efa verið reynt að taka á því. Þó verður að hafa í huga að illgerlegt er að móta fyrirfram skilmerkilegar reglur þegar ófyrirsjáanlegir atburðir gerast svo sem styrjaldir, uppreisnir, náttúruhamfarir eða efnahagsöngþveiti, þannig að grunnforsendur löggjafarinnar bresta. Þá eru eru mál leyst á grundvelli neyðarréttarsjónarmiða og hvert tilfelli metið sérstaklega.
Fordæmi hefur verið mótað sem síðan má hafa til hliðsjónar og leiðsagnar. Nærtæk fordæmi eru til í réttarsögu Noregs og Íslands.
Maður spyr sig bara hvernig er hægt að deila um svona augljósar staðreyndir. Og hvað varðar uppáhalds röksemd Jóns, sem hann básúnar út um allt, þá hefur Sigurður þetta um hana að segja.
Enn heldur Jón Baldvin áfram og segir að regluverk ESB hafi ekki neytt bankastjóra og bankaráð Landsbankans til að reka fjáröflunarstarfsemi í Bretlandi og Hollandi í formi útibús. Regluverkið neyddi engann. Það bauð upp á þessa tilhögun undir merki fjórfrelsisins án þess að tryggja aðhald sem virkaði. Sá er tilgangur lagareglna að fella samskipti manna í ákveðinn farveg. Í stað aðhalds gaf regluverkið mönnum nánast lausan tauminn.
Málið snýst ekki um það hvort einhver neyddi einhvern til að gera eitthvað eða ekki. Málið snérist um að það mátti og regluverkið bannaði íhlutun ríkisvalds á meðan reglur fjórfrelsisins voru virtar. Og Sigurður hæðist af Jóni þegar hann kennir íslenskum stjórnvöldum um hvernig fór. Málið sé nú flóknara er svo. En pílan til Jóns er dásamleg.
Um þetta segir Jón Baldvin að fjármálaeftirlitið hafi gert hálfkaraðar tilraunir til að knýja Landsbankann til að breyta rekstrarforminu í dótturfyrirtæki og stjórnvöld sofið á verðinum. Athygli vekur að hann gerir ekki sérstakar athugasemdir við framangreinda útlistun; hann tekur ekki á þeim skýringum að reynt hafi verið að færa reksturinn í Bretlandi og Hollandi í dótturfyrirtæki. Hvort rétt sé að kalla þessar tilraunir hálfkaraðar er háð huglægu mati og fullyrðing um að stjórnvöld hafi sofið á verðinum er röng. En hvað sem þessu líður bar Jóni Baldvin að rökstyðja fullyrðingar sínar, taka efnislega á framangreindum skýringum og eftir atvikum hrekja þær. Í stað þess viðhefur hann innihaldslausa orðræðu sem verður eins og vindhögg út í loftið.
Og því miður má hafa þessi orð Sigurðar um alla flesta Borgunarsinna, orðræða þeirra er innihaldslaus eins og vindhögg út í loftið.
Og kafli Sigurðar um "Löglega bindandi yfirlýsingar"er snilld sem ætti að fara sem víðast. Til dæmis hefur Egill Helgason ekki látið Silju Báru bulla svona hjá sér í Silfrinu á sunnudaginn ef hann hefði verið búinn að lesa þessa grein. En lengdarinnar vegna ætla ég aðeins að koma með niðurlag Sigurðar.
En ef Jóni Baldvini er annt um sjálfsvirðingu sína, ætti hann að gefa orðum sínum gaum. Með ummælum um bindandi yfirlýsingar íslenzkra ráðamanna um ríkisábyrgð þótt hann hafi ekki fundið þeim stað er hann að saka þá um að virða ekki stjórnarskrána. Ríkisábyrgð hlýtur að fylgja lántaka og fyrir henni verður væntanlega setja tryggingu og til þess þarf samþykki Alþingis, sbr. 40.-41. gr. stjórnarskrárinnar, sbr einnig 21. gr. Ráðherra sem hefði gefið yfirlýsingu um stórfelldar fjárhagsskuldbindingar með ábyrgð íslenzka ríkisins án fyrirvara um samþykki þingsins kynni að baka sér ábyrgð samkvæmt lögum um ráðherraábyrgð og verða stefnt fyrir Landsdóm. Jón Baldvin er með orðum sínum að saka forystumenn Íslendinga, þar á meðal ráðherra um stórfelld lögbrot. Þrátt fyrir það að vera ekki bindandi er augljóst að slíkar yfirlýsingar hefðu skaðað íslenzka ríkið.
Já, þetta eru alvarlegar ásakanir er sannar eru. En auðvita skuldbinda yfirlýsingar ráðamanna ekki viðkomandi þjóð, hvað þá þvingaðar yfirlýsingar.
Eins og áður sagði þá er grein Sigurðar hrein gullnáma og sorglegt að hún hafi ekki birst á forsíðum allra dagblaðanna. Eins hefði hún átt að fá heila kvöldstund á besta áhorfstíma þar sem þessi rök hefðu verið reifuð og allt málið útskýrt fyrir þjóðinni. Það er ekki þannig að það skeði oft í sögu sjálfstæðrar þjóðar að stórþjóðir krefji hana um fjárgreiðslur með hótunum og þvingunum, fjárgreiðslur, sem ofan á annan vanda, geta gert út um fjárhagslegt sjálfstæði hennar. Það er ekki þannig að þúsund milljarðar séu teknar upp úr hatti töframannsins eins og kanínurnar sem Gylfi töframaður sýnir svo stoltur í sjónvarpinu.
Vissulega má vera að Nauðungin neyði þjóðina til að semja við glæpamennina, en það er með öllu ólíðandi að voldug öfl í þjóðfélaginu ljúgi því til að um löglegar skuldbindingar sé að ræða. Þjóð sem lætur slíka lygi lifa, á ekki tilverurétt. Hún getur þegar farið að pakka samann og látið öðrum eftir landið.
Þegar Sigurður flengir Jón, þá er hann um leið að flengja flesta þá sem vinna nú að þvi hörðum höndum að löghelga þrælahlekki ICEsave. Hvað þessu vesalings fólki gengur til, veit ég ekki. Og ég veit að Riddarar heimskunnar munu áfram gapa og gapa í fjölmiðlum landsins, og þeir vitgrönnu munu kinka kolli. Þannig er það bara. Svona blogg breytir engu þar um.
En fyrir þá sem ennþá nenna að lesa, vil ég birta sálgreiningu Sigurðar á Jóni, finnst hún frábær og verðugt rannsóknarefni hvort um hættulegan vírus sé að ræða. Því þessi lýsing á við svo marga í dag. En þessi orð Sigurðar eru um leið lokaorð mín um ICEsave, í bili að minnsta kosti. Það er engu við að bæta.
En eftirlit hefur víðar brugðizt en á Íslandi, bæði í Hollandi og Bretlandi, sbr. 2. kafla hér að framan, og árum saman gerði Eftirlitsstofnun EFTA engar athugasemdir. Verður ekki dregin af því önnur ályktun en sú að stofnunin hafi talið tryggingarsjóð geta staðið undir skuldbindingum við allar eðlilegar aðstæður og það sem á kynni að vanta mætti jafna með lántökum. Síðast en ekki sízt bauð regluverk EES upp á svigrúm án nægilegs aðhalds. Og svo brothætt var kerfið að hætta var talin á að það hryndi ef látið yrði reyna á lagarök. Loks má spyrja hvort erlendir eigendur innlána hafi sýnt eðlilega aðgæzlu með því að moka peningum í lítt þekktan banka úr fjarlægu landi. Þegar nú þetta er haft í huga er þá ekki eðlilegt að skipta ábyrgðinni milli þeirra ríkja sem helzt eiga hlut að máli, Íslands, Bretlands og Hollands og jafnvel Evrópusambandið tæki sinn skerf, en þetta er sérstakt athugunarefni. (Sjá Stefán Má Stefánss0n og Lárus Blöndal: Er Evrópusambandið bótaábyrgt? Morgunblaðið 14. desember 2008).
Engu af þessu gefur Jón Baldvin minnsta gaum í ákefð sinni að velta allri ábyrgð yfir á íslenzka ríkið og allan almenning í landinu eins og sjá má í textanum sem vitnað var til í upphafi 8. kafla. Og þetta sækir hann af slíku kappi að hann sinnir hvorki augljósum sannindum né réttum rökum eins og hér hefur verið sýnt fram á.
Og málstaður Íslands er nú ekki verri en svo, að þær raddir heyrast æ oftar í brezkum fjölmiðlum, meðal annars í ritstjórnargrein Financial Times að fleira hafi brugðizt en íslenzk stjórnvöld hvorki brezk né hollenzk stjórnvöld hafi haldið vöku sinni og í því samhengi hefur blaðið hvatt til þess að þjóðirnar deili byrðum sínum jafnar en gert sé með Icesave-samningunum. Svipaðar raddir heyrast frá Hollandi, meðal annars í ritstjórnargrein blaðsins Volkskrant. Reyndar þyrfti að greina meira frá skrifum erlendra blaða um þessi efni en gert er.
En Jón Baldvin hefur kosið að taka sér stöðu með harðsvíruðustu öflum í Bretlandi, með Brown forsætisráðherra og Darling fjármálaráðherra í fremstu röð, sem láta einskis ófreistað að knésetja íslenzku þjóðina. Og þetta gerir hann af slíkum ákafa að hann skirrist ekki við að styðja mál sitt við uppspuna og ósannindi málstað þeirra til stuðnings. Hér verður að hafa í huga að maðurinn er fyrrverandi utanríkisráðherra Íslands og sendiherra sem hafði þá æðstu starfsskyldu að gæta hagsmuna Íslands.
Mætti íslenska þjóðin eiga fleiri svona skörunga eins og Sigurð Líndal.
Kveðja að austan.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Um bloggið
Ómar Geirsson
Færsluflokkar
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.11.): 257
- Sl. sólarhring: 844
- Sl. viku: 5988
- Frá upphafi: 1399156
Annað
- Innlit í dag: 220
- Innlit sl. viku: 5075
- Gestir í dag: 212
- IP-tölur í dag: 209
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Amen Ómar.
Kveðja að norðan.
Arinbjörn Kúld, 29.9.2009 kl. 21:36
Takk Arinbjörn.
Þú veist að það gleður alltaf mitt sálartetur að einhver nennir að lesa langlokur mínar. Það eru þær sem gefa bloggi mínu tilgang.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 29.9.2009 kl. 21:58
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.