8.9.2009 | 09:02
Örvænting
Samfylkingin er búin að klúðra draumi sínum um skjóta inngöngu Íslands í Evrópusambandið.
Henni mistókst að afla breiðs stuðnings á Alþingi því hún hagaði sér eins og sá sem valdið hefur, taldi sín 30 % í kjörfylgi gefa kröfunni um aðildarumsókn einhvern guðlegan rétt. Mætti halda að aðal ráðgjafar hennar í þessu máli hafi verið einhverjir uppgjafaprófessorar með sérþekkingu á gömlu einvaldskonungunum.
En þó "ríkið sé ég og ég heiti Lúðvík sólkonungur" þá er Samfylkingin ekki Ísland og situr aðeins í ríkisstjórn vegna náðar Steingríms Sigfússonar. Engin annar vill þá eftir tvöföldu svikin í vor, fyrst við íhaldið á ögurstundu og síðan við Sigmund flokksformann, sem settur var á ís um leið og minnihlutastjórnin kom á koppinn.
Steingrímur lét bjóða sér hrokann á meðan forystumenn Samfylkingarinnar voru drullugir upp fyrir haus í miðjum greftri við sína eigin gröf. Í dag er Steingrímur sterki maður þessarar ríkisstjórnar og það er hans vilji sem heldur henni saman. Í dag man enginn hver forsætisráðherra Íslands er. Í raun man enginn neitt um ráðherra Samfylkingarinnar nema þann sem vill þrælka unga húsnæðiskaupendur á höfuðborgarsvæðinu. En sá er jafn æskilegur á mannamót eins og svínaflensa. Enginn vill kannast við þann dreng.
Og þegar úr vöndu er að ráða, þá er stutt í svikin.
Og þá er kallað á meistara Össur, manninn sem hlaut sína eldskírn í aðförinni að Gvendi Jaka forðum daga.
Núna á Össur að byggja brú yfir til íhaldsins.
Örvæntingin er svo mikil að maðurinn sem gróf undan fyrri ríkisstjórn, er fenginn til að moka aftur ofan í þann svikapytt.
Og haldreipið er Þorsteinn Pálsson, sá gamli stjórnmálarefur. Hverjum dettur í hug eitt lítið augnablik að hann aðstoði Samfylkinguna??? En hann kann sitt fag og vinnur vel í því sem honum er trúað fyrir að hálfu flokksins, að mynda fleyg milli Samfylkingarinnar og Steingríms Joð.
Plottið er öllum augljóst sem lásu viðtali drottningarinnar við Þorstein í Mogganum á laugardaginn og lásu um leið níð Þorsteins um Ögmund í Fréttablaðinu. Atlagan að Steingrími Joð er augljós öllum sem lásu. Þorsteinn veit eins og er að gagnrýni hans á Ögmund er samstundis send heim í föðurhúsin en hvernig á Steingrímur að svara hinu vafasama hrósi að Sjálfstæðisflokkurinn þurfi ekki að vera í stjórn því VinstriGrænir undir stjórn Steingríms sjái samviskulega um að framfylgja helstu stefnumálum íhaldsins á þann hátt að betur verði ekki gert. Og síðan kórónar hann ósvífnina með því að tjá opinberlega áhyggjur sínar af baklandi Steingríms. Var formaðurinn fyrrverandi að bjóða Steingrími skjól hjá íhaldinu??? Þar er bakland fyrir núverandi endurreis auðkerfisins í óbreyttri mynd.
Já, illa er farið með góðan dreng. Og Steingrímur er svo rænulaus gegn plottinu að hann samþykkir viðtal við hákarlinn sem birt er í Sunnudagsblaðinu. Og þar er dreginn upp mynd af honum sem tifandi gamalmenni sem er firrtur starfsþreki og hugsjónum. Og stefna hans dregin sundur og saman í háði. Hann missir meira segja út úr sér að stefna VinstriGrænna í málefnum heimilanna sé sú að bíða og sjá til hvaða bankamennirnir gera til að linna þjáningar þeirra. Hænsnin eiga sem sagt að bíða eftir næstu máltíð minksins.
Já illa er farið með góðan dreng. Spunameistarar íhaldsins eiga sviðið.
Og núna kasta þeir Össur fram í kastljós fjölmiðlanna. Vitandi að maðurinn elskar það ljós. Jafnvel á meðan hann stundar skurðgröft og byggir svikabrýr. Og dregur þar með athyglina að verki sínu.
En hvernig Samfylkingarforkólfum dettur í eina mínútu í hug að þeir nái taumhaldi á Steingrími með því að daðra við íhaldið, er mér spurn. Í þerra sporum myndi ég fá lærða menn til að fletta upp á Gallastríði Sesars og læra þar sitt hvað um listina að deila og drottna og þá kúnst að spila með hégómagjarna smáhöfðingja.
Það þarf mikla örvæntingu til að sjá ekki hið augljósa.
Kveðja að austan.
Þorsteinn og Össur funda | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Um bloggið
Ómar Geirsson
Færsluflokkar
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.1.): 2
- Sl. sólarhring: 13
- Sl. viku: 1226
- Frá upphafi: 1412780
Annað
- Innlit í dag: 2
- Innlit sl. viku: 1085
- Gestir í dag: 2
- IP-tölur í dag: 2
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.