Rödd blekkingarinnar í ICEsave deilunni.

Meistaranemi í lögfræði skrifaði grein í Morgunblaðið í dag og þóttist kunna betur í lögfræði en virtir prófessorar eins og Stefán Már Stefánsson og Herdís Þorgeirsdóttir.  Því las ég grein hans af athygli og taldi að loksins fengi ég einhverja vitneskju um rök Borgunarsinna.  Um trú þeirra og vilja til landráða veit ég margt, en rökin hafa vantað.

Stefán Már og Lárus Blöndal hafa skrifað nokkrar vandaðar greinar í Morgunblaðið þar sem þeir hafa bent á nokkrar staðreyndir sem þeir vilja séu rædda og hnekktar ef fólk trúi því að ICEsave þunginn eigi að leggjast á íslenska þjóð.

Tökum það helsta fram.

1. Í tilskipun ESB um innlánstryggingar stendur skýrum stöfum að aðildarríki séu ekki í ábyrgð, hafi þau komið á fót innlánstryggingakerfi þar sem lágmarksupphæð innlánstryggingar er rúmar 20.000 Evrur. 

2. Ef gagnstæð meining býr að baki orðanna hljóðan og aðildarríki EES séu í bakábyrgð fyrir tryggingasjóði sína, þá vantar algjörlega í tilskipunina fyrirmæli hvernig þau eigi að fjármagna þessa ábyrgð.  Þrennt ber þar að hafa í huga.  Í fyrsta lagi þá eiga fjármálafyrirtækin sjálf að sjá um að fjármagna tryggingasjóðinn.  Í öðru lagi þá má sú fjármögnun ekki vera svo íþyngjandi að stöðugleika fjármálamarkaðar sé stefnt í hættu en slíkt væri ef ríkisvaldið skattlegði þau þannig að öruggt væri að engin ábyrgð félli á skattgreiðendur.  Og í þriðja lagi þá mega stjórnvöld landa ekki banna fjármálafyrirtækjum sínum að starfa utan heimalandsins því slíkt bann fer algjörlega gegn fjórfrelsis ákvæðum EES samningsins.

Hvernig eiga þá aðildarríki að verja sig áföllum????

3. Verji aðildarríki sig ekki gegn áföllum og ábyrgð fellur á skattgreiðendur viðkomandi ríkis, þá er slíkt brot á mannréttindasáttmála Evrópu sem kveður á um að saklaus þriðji aðili getur ekki tekið á sig fjárkvaðir vegna frjálsra viðskipta tveggja aðila.  Feli tilskipunin í sér slíkt óréttlæti þá getur hvaða þegn þess lands sem á barðinu verður fyrir fjárkröfum, byggðum á tilskipun ESB, krafist skaðabóta af Evrópusambandinu vegna þessara brota tilskipunarinnar á mannréttindum hans.  Hin meinta neytendavernd getur aldrei verið á kostnað þriðja aðila.

4. Engar athugasemdir hafa komið frá Eftirlitsstofnun EFTA, ESA, eða EFTA dómstólnum um ólöglega framkvæmd íslenskra stjórnvalda á viðkomandi tilskipun ESB.  Sérstaklega verður að hafa í huga að eftir að hinn meinti ágreiningur Íslands og breta kom upp, þá hefur samt enginn úrskurður fallið Ísland í óhag.  Því eru allar yfirlýsingar um meint brot Íslands á tilskipun ESB aðeins vangaveltur fólks, sem krefst þess að aðrir borgi fyrir áhugamál sín eða skoðanir.

 

Og hvað segir meistaraneminn um þessi álitamál.  Hann sló tóninn strax í fyrstu málsgrein og ég ætla að birta þær fullyrðingar:

Fyrir því eru þó sjaldnast færð rök önnur en að vísa í álit einhverra annarra og þegar grannt er skoðað virðist grundvöllurinn ein til tvær blaðagreinar um málið.

Þegar vandaður málflutningur virtra prófessora er kallaður  "ein til tvær blaðagreinar " þá er tónn lyga og blekkinga strax sleginn og af þeirri blekkingu er heiti fyrirsagnar þessarar greinar dregið.  Og meira fylgir á eftir.  Strax í næstu setningu er fullyrðing sem er röng.  "Enda liggur fyrir að íslensk stjórnvöld hafa á síðustu árum aldrei véfengt bakábyrgð ríkisins á innstæðutryggingum. Umræða um lagalega óvissu og dómstólaleið nú er því með öllu merkingarlaus".

Í fyrsta lagi þá á meistaranemi að vita (og þegar hann heldur öðru fram þá er hann að ljúga) að meiningar eða yfirlýsingar stjórnvalda skapa ekki lagalegar ábyrgðir, til þess þarf lög frá Alþingi.  Og í öðru lagi þá byggist lagaleg óvissan á innihaldi tilskipunar ESB un innlánstryggingar en ekki íslensku lögunum, þau eru skýr og kveða ekki á um bakábyrgð ríkisins.  Og það er dómstóla að skera úr um lagaóvissu, ekki fólks út í bæ, hversu vandað sem það annars er.

Bara þessi fullyrðing af hálfu meistaranema í lögfræði sýnir að tilgangur greinar hans er ekki að upplýsa og ræða óvissuatriði ICEsave málsins, tilgangurinn er aðeins einn og hann er áróður fyrri hönd þeirra aðila sem krefja íslensku þjóðina um óheyrilegar fjárhæðir, fjárhæðir sem engin sjálfstæð þjóð myndi borga ótilneydd.  Höfum það hugfast við áframhaldandi lestur greinarinnar.

Í næstu setningu er lygin ítrekuð um "löngu viðurkenndum ábyrgðum íslenska ríkisins" og sagt síðan "tilskipun ESB sem hafði þann yfirlýsta megintilgang að skilgreina samræmt lágmark innstæðna sem tryggðar eru á öllu á EES-svæðinu".  Þetta er hálfsannleikur, vissulega var tilgangurinn sá að samræma lágmarksvernd innstæðna, en alls ekki eini tilgangur tilskipunarinnar og á það hafa Stefán Már og Lárus Blöndal bent.  Til dæmis segir þetta líka í tilskipun ESB:

Samkvæmt markmiðum sáttmálans skal stefnt að samræmdri þróun lánastofnana í öllu bandalaginu með því að fjarlægja allar takmarkanir á staðfesturétti og frelsi til að veita þjónustu og auka um leið festu í bankakerfinu og vernda hag sparenda.

Tilgangur tilskipunarinnar er líka sá að stuðla að "samræmdri þróun lánastofnana í öllu bandalaginu með því að fjarlægja allar takmarkanir á staðfesturétti" eins og það er orðað, þ. e. að styrkja innri markað efnahagssvæðisins óháð heimilisfesti fjármálafyrirtækja.  Augljóst mál er að ef aðildarríki væru í ábyrgð, þá hefðu smærri og meðalstór ríki  engan annan valkost en að banna fjármálastofnunum sínum að starfa annars staðar á innri markaðnum en í heimalandi sínu.  Bakábyrgð aðildarríkja vinnur því gegn innri markað EES og því er það tekið skýrt fram að : "Tilskipun þessi getur ekki gert aðildarríkin eða lögbær yfirvöld þeirra ábyrg gagnvart innstæðueigendum ef þau hafa séð til þess að koma á einu eða fleiri kerfum viðurkenndum af stjórnvöldum."

Engin önnur rökrétt skýring er á þessu ákvæði en sá vilji að tryggja virkni innri markaðar.  Að halda því fram að megin tilgangur tilskipunarinnar hafi verið sá að tryggja innstæðutryggingar er í besta falli rangtúlkun á tilskipun ESB, en í versta falli ómerkileg blekking, sett fram til að afvegleiða lesanda sem hefur ekki lesið viðkomandi tilskipun.

 

Næsta blekkingarbragð meistaranemans er að vitna í hina og þessa sem hafa sagt þetta og hitt, en þó stjórnmálamaður bulli svona, þá má það ekki henda námsmann í lögfræði, það eru jú lögin sem gilda, ekki túlkun hagsmunaaðila á þeim.  Ef svo væri þá væri engin þörf fyrir dómstóla, heldur vopnaða heri, þar sem túlkun þess sterkasta réði, en slíkt var til dæmis ástandð á Sturlungaöld.  Síðan er klykkt út með þessari fullyrðingu:

Allir aðilar taka sérstaklega fram að fjármögnun kerfanna eða uppbygging að öðru leyti sé á valdi hvers aðildarríkis. Sú ákvörðun Íslands að hafa Tryggingasjóðinn í formi sjálfseignarstofnunar sem rekin var innanhúss í Seðlabanka Íslands og með ráðuneytisstjóra sem stjórnarformann breytir engu um grundvallarábyrgðina sem Ísland axlaði 1999.

Það er greinilegt að allir þessir aðilar hafa ekki lesið tilskipun ESB en "vísa í álit einhverra annarra" eins og meistaraneminn afgreiðir svo snyrtilega prófessorana.  Í tilskipun ESB segir að

Það er ekki bráðnauðsynlegt í þessari tilskipun að samræma leiðirnar við fjármögnun kerfa sem tryggja innlánin eða lánastofnanirnar sjálfar, meðal annars vegna þess að lánastofnanirnar skulu sjálfar almennt bera kostnaðinn við fjármögnun slíkra kerfa og einnig vegna þess að fjárhagsleg geta kerfanna skal vera í samræmi við tryggingaskuldbindingarnar. Þetta má samt ekki stefna stöðugleika bankakerfis aðildarríkisins í hættu.

Það er mikil ónákvæmni, þó ekki sé sterkara að orði kveðið, að kalla þessi nákvæmlegu fyrirmæli um fjármögnun tryggingakerfanna, eitthvað sem aðildarríkjum sé í sjálfsvald sett.  Og hvernig geta þau fjármagnað hinu meintu bakábyrgð án þess annað að tvennu, stefnt stöðugleika bankakera í hættu eða þá valdið saklausum þriðja aðila tjóni og brotið þar með grundvallar mannréttindi sem eru tryggð í Mannréttindasáttmála Evrópu.  Allar greinar sem svara ekki þessari lykilspurningum, eru prump í lögfræðilegum skilningi.

Meistaraneminn tekst heldur ekkí á við þessar lykilspurningar, heldur vitnar í skýrslu Bankaeftirlits Evrópu frá 2005 þar sem ýmsu er haldið fram.  Ég ætla ekki að hafa það eftir en minni á að álit bankaeftirlita, fjármálaeftirlita, eða mitt álit, eru ekki ígildi laga, heldur einföld túlkun á lögum.  Og hafi ESB ekki breytt sinni tilskipun, þá er álit þessara aðila í ætt við óskhyggju um hvernig hlutirnir ættu að vera, en án þess þó að grunnspurningunum hér að framan sé svarað.  Vitni þetta ágæta fólk ekki í lagatexta máli sínu til stuðnings, þá er málflutningur þeirra ómarktækur, nema þá því aðeins að það geti vitnað í dómsfordæmi þar sem dómstólar hafa túlkað tilskipun ESB á þann hátt sem þeir gera.

Ekkert slíkt dómsfordæmi er til.

 

Og meistaraneminn heldur áfram og fer svo sem rétt með í eftirfarandi tilvitnun:

Stærsti gallinn við lagatæknilegu smásjárrannsóknirnar er að þar er algerlega horft fram hjá kjarna málsins sem er uppruni og saga innstæðutrygginga og hlutverk opinberra aðila við að tryggja fjármálastöðugleika. Í því ljósi leikur ekki nokkur minnsti vafi á meginefni og markmiðum bæði tilskipunar ESB og innleiðingar hennar hér á landi. Út frá því markmiði innstæðutryggingakerfa að tryggja fjármálastöðugleika með því að skapa sparifjáreigendum öryggi liggur ljóst fyrir hverjar lögmætar væntingar fólks hafa verið árum saman bæði hér á landi og erlendis og hver ábyrgð ríkisins er.

Nema hann skautar alveg frá hinum megintilgangi laganna sem er að styrkja innri markað með því að draga úr samkeppnishamlandi aðgerðum einstakra aðildarríkja.  Og vissulega er það rétt að íslensk yfirvöld ítrekuðu að innlán væru tryggð, en allir gengu út frá þeirri forsendu að um einstök tilvik væru að ræða.  Og þegar alvarleg vandamál komu upp í fjármálakerfum Evrópu þá var ýmislegt fullyrt um ábyrgðir eða annað það sem gat slegið á ótta sparifjáreiganda, en innlánstryggingakerfið sem eftir var unnið, gerði ekki ráð fyrir bakábyrgð ríkja, eins og áður hefur verið bent á með beinni tilvísun í lagatexta, ég endurtek lagatexta tilskipunarinnar, ekki álits fólks út í bæ.  Og framhjá því var alltaf skautað að yfirlýsingar eftirlitsaðila, eða einstakra ráðamanna viðkomandi landa skapa viðkomandi þjóðríkjum ekki fjárhagslega ábyrgð, yfirlýsingunum þurfti að fylgja lagasetning sem staðfesti viðkomandi ábyrgð.  Þetta veit allt fólk sem hefur eitthvað kynnt sér lög, hvað þá fólk sem hefur lært til laga og réttar, að halda öðru fram er argasta blekking.

En fullyrðing meistaranemans um réttmætar væntingar eru mjög athyglisverðar því vissulega var margt saklaust fólk blekkt í þessu dæmi, en frumvæntingarnar koma frá sjálfu regluverkinu, en á bak við þær væntingar var kerfi sem aðeins réði við einstök tilvik, ekki stóráföll.  Um það er ekki hægt a deila með lögfræðinni að vopni, enda eru allar áróðursgreinar eins og eftir þennan meistaranema, settar fram í þeim eina tilgangi og hann er sá að slæva vilja þjóðarinnar að leita eftir réttlátri málsmeðferð.

Og svo það er á hreinu, þá er skaðabótaábyrgðin hjá þeim sem vöktu þessar væntingar, og sá aðili heitir framkvæmdastjórn ESB.  Meistaraneminn ætti að senda þeim erindi og benda á þessar réttmætu væntingar.

 

Og áfram heldur meistaraneminn og þunginn í grein hans vex.

Þau sjónarmið heyrast líka að meginefni tilskipunarinnar eigi hvorki við kerfishrun eins og hér varð né stöðu smáþjóða þar sem hlutfallslegur skaði sé margfaldur á við það sem gerist meðal stærri þjóða. Þetta er hvort tveggja atriði sem huga hefði átt að við innleiðingu tilskipunarinnar hér á landi en engar slíkar kröfur eða fyrirvarar hafa komið fram af hálfu Íslands eða annarra smærri ríkja. Meginreglan er líka sú að hvert ríki ber ábyrgð á því að gæta fullveldisréttar síns og að slíkt ójafnvægi verði ekki í efnahagsmálum þess eða fjármálakerfi að fullveldi sé stefnt í hættu. Fjármálastöðugleiki er eitt af markmiðum hvers ríkis og til að gæta hans hafa öll ríki tæki, eftirlitsstofnanir og lagaúrræði sem þau geta beitt kjósi þau það. Bæði íslenska bankakerfið í heild og þau útibú sem söfnuðu innstæðum erlendra sparifjáreigenda störfuðu undir eftirliti íslenskra stofnana enda ekkert í tilskipuninni um samræmt lágmark innstæðutrygginga sem aflétti ábyrgð af Íslandi.

Þegar bent er á sjónarmiðið um kerfishrun, er bent á þá staðreynd að ef áföll bankakerfisins eru af þeirri stærðargráðu að viðkomandi ríki ræður við það þá er líklegt að það myndi aðstoða sinn tryggingasjóð, með lánum eða annarri fyrirgreiðslu.  Ástæðan er mjög einföld og hún er sú að annars myndast gífurlegt vantraust á bankakerfi viðkomandi landa.  En meistaraneminn slær fram þessari fullyrðingu út frá þeirri röngu forsendu að um bakábyrgð sé að ræða, en menn vilji að falli úr gildi við kerfishrun.  En ef forsendan er röng þá er ályktun af henni dregin, líka röng. 

Eins er það með fullyrðingu meistaranemans um hlutfallslegan skaða smáþjóða, en þar er hann að gera lítið úr þeirri staðreynd að það er lítil ábyrgð fólgin í kerfi sem getur fræðilega gert ráð fyrir því að land eins og Lúxemborg gæti ábyrgst lungann af innlánum nágranna sinna, Frakka og Þjóðverja.  Slíkt er engin ábyrgð og á því tóku reglumeistararnir með ákvæði sínum að aðildarríki væru ekki skaðabótaskyld gagnvart innstæðueigendum.  

Það voru ekki heimskir menn sem sömdu þessar reglur þó efast megi um gáfnafar þess fólk sem ólmt vill koma annarra manna skuldum yfir á þjóð sína.  

En þegar meistaraneminn slær fram þeirri fullyrðingu að  "Þetta er hvort tveggja atriði sem huga hefði átt að við innleiðingu tilskipunarinnar hér á landi en engar slíkar kröfur eða fyrirvarar hafa komið fram af hálfu Íslands". þá tekst honum í einni setningu að fara með tvær grundvallar bábiljur. 

Í það fyrsta þá getur land ekki sett inn fyrirvara í innleiðingu tilskipunar ESB, sem ganga gegn markmiðum tilskipunarinnar, og/eða gegn ákvæðum fjórfrelsisins.  Það var til dæmis ekki hægt að banna íslenskum fjármálastofnunum að stofna útibú í öðrum löndum og það var ekki hægt að taka það hátt gjald sem dygði til að fjármagna hugsanlega bakábyrgð við kerfishrun án þess að stofna fjármálalegum stöðugleika í hættu

Og í öðru lagi þá voru íslensku lögin án bakábyrgðar ríkisins.  Ef það hefði verið á skjön við tilskipun ESB, þá bar ESA skylda til að gera athugasemdir og síðan fylgja henni eftir með kæru til EFTA dómsins, sem síðan bar skylda til að kveða upp úrskurð um lögmæti íslensku laganna.  Það að slíkt var ekki gert segir öllu hugsandi fólki aðeins eitt og það er sú staðreynd að á þeim tíma sem lögin voru sett þá voru þau talin fullkomlega í samræmi við tilskipun ESB um innlánstryggingar.  Og gleymum því aldrei að slík kæra eða þá dómur hefur ekki ennþá borist íslenskum stjórnvöldum.

Og hvað segir það hugsandi fólki sem tekur hag íslensku þjóðarinnar fram yfir hagsmuni skriffinna ESB??????'

 

Meistaraneminn vitnar síðan í vandræðagang íslensks stjórnkerfis og íslenskra yfirvalda haustið 2008 og fer ágætlega rétt með (enda telur þá sannleikann styðja sinn málstað).  En um þetta er tvennt að segja.  Nauðung voldugra þjóða geta fengið smáþjóð til að segja og framkvæma ýmislegt en slíkt er alltaf ólöglegt samkvæmt alþjóðalögum og er alltaf riftanlegt.  En svo var heldur aldrei nein ábyrgð samþykkt og því ekkert í þessum vinnugangi sem skuldbatt íslenska þjóð. 

Og þetta veit meistaraneminn mætavel.

 

Í lokaorðum sínum minnist meistaraneminn á þær kúganir sem yfir okkur vofði haustið 2008 og í framhaldi spyr þeirrar spurninga hvort þjóðin vilji fá þær yfir sig aftur.  Þetta sem slíkt er eini rökpunktur höfundar, sem er fullgildur, því svarið við honum byggist ekki á lögum heldur gildismati og afstöðu fólks til þeirra þvingana sem sannarlega voru beittar af hálfu þjóða ESB.  Svona burt séð frá því hvort fólk telji líklegt að ESB haldi áfram að brjóta öll sín grunnprinsipp og haga sér eins og bandalag villimanna en ekki bandalag siðaðra þjóða þá vill greinarhöfundur meina að það sé betra að vera barður þræll, sem hugsanlega má miskunnar vænta, í stað þess að vera frjáls maður sem krefst réttlætis, en á þá á hættu að hljóta bágt fyrir.

Og hvert er svarið við þessu mati höfundar???  Slíkt er alltaf gildismati háð en greinarhöfundur gat sparað sér allan hálfsannleikann og allar blekkingarnar um lög og rétt, þar sem niðurstaða hans er ekki háð lögum eða lagatúlkun, heldur gildishlaðin afstaða til kúgunar og hvernig manneskja bregst við henni.

Í Evrópu héldu menn víða til fjalla eða út í skóg þegar þeir þurftu að svara þessari spurningu á árum seinni heimsstyrjaldar.  Til dæmis er talið að franska andspyrnan hafi kostað allt að 200.000 þúsund manns lífið, mestan part ungt fólk sem átti lífið fram undan.  Aðrir tóku þann kost að vera skynsamir og að reyna lifa með ástandinu eins og það var.  Aðrir tóku þann kost að græða á kúguninni og spiluðu með kúgaranum.  Og enn aðrir voru sannfærðir um að kúgarinn hefði rétt fyrir sér og skrifuðu margar lærðar greinar þar um.  

Ætli svarið sé það ekki að hver þjónar sinni lund eins og hún er.

Þessari spurningu verður hver að svara fyrir sig en eitt er öruggt með svarið og það er að lögfræði hefur ekkert með það að gera.  Jafnvel þó lærðar greinar séu skrifaðar þar um.

Mitt svar er að vera maður en hvað aðrir vilja, verða þeir að gera upp við sig.

Kveðja að austan.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Benedikt Gunnar Ófeigsson

Takk fyrir mjög góðan pistil

Ég held að þú hafir nelgt þetta í lokinn. Hver þjónar sinni lund.

Sumir eru húsþrælar og standa með húsbóndanum hversu barðir og niðurlægðir sem þeir eru.

Sumir þræla á plantekrunni og láta lítið fyrir sér fara.

Aðrir standa uppréttir, ögra valdinu, standa gegn kúgun og óréttlæti og taka afleyðingunum hverjar sem þær kunna að vera.

hver og einn verður að velja fyrir sig.

takk fyrir góða pistla. skrifa þinna  verður saknað í bloggheimum.

Benedikt Gunnar Ófeigsson, 20.7.2009 kl. 23:07

2 Smámynd: Ómar Geirsson

Takk Benedikt.

Nú er hlé á tölvuleysinu og því vil ég nota tækifærið og kvitta fyrir mig.

Pistlar eins og þessi eru tilgangur minna bloggskrifa.  Áreitið er aðeins til að vekja athygli á þeim.  Það gleður mig alltaf þegar einhver heldur það út að lesa þá til enda.

Já, það þjónar hver sinni lund.

Þess vegna eruð þið góða fólk á Vaktinni svo mikilvæg.  Mjór er mikils vísir.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 29.7.2009 kl. 12:59

3 Smámynd: Guðmundur Jónsson

Skýr og góð grein ÓmarÞetta er sannleikurinn í Icesve deilunni. Skilningur þinn á tilgangi EES laganna um innistæðutryggingar er í samræmi við mínar ransóknir á því..Þeir sem halda því fram að tilskipunin um innistæðutryggingar kveði á um ríkisábyrg. skilja ekki hvert tilgangurinn hennar er því ríkisábyrg á innistæður og markmið tilskipunarinnar geta í raun aldrei farið saman.

Guðmundur Jónsson, 5.8.2009 kl. 19:52

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Ómar Geirsson

Höfundur

Ómar Geirsson
Ómar Geirsson
Apríl 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30      

Nýjustu myndir

  • Screenshot (49)
  • Screenshot (49)
  • ...img_0104a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.4.): 8
  • Sl. sólarhring: 9
  • Sl. viku: 63
  • Frá upphafi: 1438799

Annað

  • Innlit í dag: 5
  • Innlit sl. viku: 52
  • Gestir í dag: 5
  • IP-tölur í dag: 5

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband