15.7.2009 | 18:19
Borgarahreyfingin er með kjarna málsins.
Að vera eða vera ekki í Evrópusambandinu, það er efinn.
En á meðan Evrópusambandið axlar ekki ábyrgð á sínum mistökum í sambandi við innlánstryggingasjóðir sína, en beitir í stað þess samstarfsþjóð sína í EES skefjalausu ofbeldi þannig að seinni tíma saga kann ekki önnur dæmi, þá á Ísland ekkert erindi í Evrópusambandið.
Viðbrögð við kúgun og ofbeldi er ekki sú að skríða að fótum ofbeldismanna og biðja þá um meiri barsmíðar. Rétt viðbrögð eru að krefjast réttlætis og lög og reglur séu virtar. Þetta er eina erindi íslenskrar þjóðar gagnvart valdinu í Brussel.
Taki Evrópubandalagið upp siðaðra manna háttu og leysir þennan ágreining í anda þeirra hugsjóna sem voru hafðar að leiðarljósi við stofnun bandalagsins, þá má aftur taka upp efann.
Margir myndu segja að okkar væri tjónið, því aðild að Evrópusambandinu sé nauðsynleg fyrir viðreisn landsins. Og það má vel vera, um það nær hin mikli efi. En þjóð án sjálfsvirðingar á sér ekki tilverurétt, og því er eins gott að biðja Dani um að taka við okkur aftur en að reyna halda áfram þessu brölti á þeim forsendum að við séum svo smá að við sem þjóð eigum að sætta okkur við hvað sem er.
Herdís Þorgeirsdóttir skrifaði mjög góða grein um kjarna ICEsave deilunnar. Kjarna sem mörgum er fyrirmunað að sjá, sérstaklega ef þeir vinna hjá ríkisfjölmiðlunum. Ég ætla að endurbirta hér kafla úr grein Herdísar til að árétta um hvað ICEsave deilan snýst.
Fámenn þjóð á hjara veraldar stendur ein andspænis voldugum nágrannaríkjum, þjóðum sem hún til langs tíma hefur álitið vinaþjóðir. Þessari þjóð sem háð hefur harða lífsbaráttu á mörkum hins byggilega heims í meira en þúsund ár er gert að kokgleypa samning um óviðráðanlegar skuldir sem kunna að gera út af við efnahagslegt sjálfstæði hennar og skerða grundvallarréttindi þeirra sem áttu engan þátt í að stofna til þeirra. Skuldir sem urðu til í útrás fjármálafyrirtækja, sem uxu ríkinu yfir höfuð þegar þau tóku þátt í darraðardansi óheftrar markaðshyggju.
Íslenska ríkið hafði gengið til samstarfs við aðrar Evrópuþjóðir með undirritun EES-samningsins 1993, sannfært um að evrópskt efnahagssvæði myndi stuðla að uppbyggingu Evrópu á grundvelli friðar, lýðræðis og mannréttinda eins og segir í inngangsorðum samningsins. Þar áréttuðu þessi ríki náin samskipti sín, sameiginlegt gildismat frá fornu fari og evrópska samkennd.
Bretar og Hollendingar eru stofnaðilar að Evrópuráðinu og ásamt Íslendingum í hópi fyrstu Evrópuþjóðanna til að undirrita Mannréttindasáttmála Evrópu 1950. Á rústum síðari heimsstyrjaldarinnar strengdu þessar þjóðir heit um að virða mannréttindi, lýðræði og réttarríki.
Þessum staðreyndum vill fólk gleyma í sínum ákafa vilja að leggja íslensku þjóðina, og þar með sjálfa sig í skuldahlekki. En Evrópa, án "mannréttinda, lýðræði og réttarríkis" er ekki það bandalag sem Ísland, eða nokkur önnur þjóð á erindi í.
Núverandi ICEsave nauðung er sönnun þess að Evrópa hefur villst að leið. Okkur sem þjóð er talið í trú um að ef við samþykkjum ekki óréttlætið, þá muni Evrópa leggja allt hér í rúst. En samt vilja sömu menn sækja um aðild að þessari sömu villimennsku. En kjarni málsins er sá að mannréttindi, lýðræði og réttarríki eru hornsteinar Evrópu og því eigum við að standa á rétti okkar sem þjóðar og krefjast réttlætis í málum okkar.
Fyrsta skrefið í þá átt er að Alþingi Íslendinga felli ICEsave samkomulagið og bjóði síðan fulltrúum ESB og EFTA til viðræðna um lagalegar skuldbindingar Íslands. Gangi það ekki eftir, þá á íslenska þjóðin enga samleið með valdinu í Brussel, en hún mun alltaf eiga samleið með þjóðum Evrópu þar sem ekkert hefur komið upp á sem skaðar þau samskipti.
Því hinar hræðilegu ógnir Evrópu eru aðeins til í hugarfylgsni þeirra sem vilja öllu til kosta að tilheyra elítu Evrópubandalagsins, en þangað eiga þeir að stefna þjóð sinni með sannleikann að leiðarljósi, ekki villuljós blekkinga og hræðsluáróðurs.
Réttlæti fyrst, síðan efinn.
Kveðja að austan.
Enn óljóst um atkvæði þriggja þingmanna | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Um bloggið
Ómar Geirsson
Færsluflokkar
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 5
- Sl. sólarhring: 15
- Sl. viku: 451
- Frá upphafi: 1412813
Annað
- Innlit í dag: 5
- Innlit sl. viku: 390
- Gestir í dag: 5
- IP-tölur í dag: 5
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.