10.7.2009 | 08:55
Ég svaraði kalli húsbónda minna.
Og þetta var það besta sem ég gat gert.
Eða hvað á maður að halda þegar maður les grein Dóru Sif Tynes, hdl., sem kynnir sig þannig að hún sé "fyrrum starfsmaður lagadeildar Eftirlitsstofnunar EFTA og hefur lokið meistaraprófi í Evrópurétti". En linkur á grein Dóru er hér: http://lugan.eyjan.is/2009/06/24/abyrgd-islenska-rikisins-a-innlanum/
Greinin hét því fróma nafni "Ábyrgð íslenska ríkisins á innlánum" og var rökstuðningur Dóru í þágu þess málsstaðar að láta íslenskan almenning borga skuldir Björgólfs og Björgólfs. Í byrjun greinar sinnar telur Dóra samviskusamlega upp þau lög sem gilda og hvert markmið þeirra er. En svo fullyrðir Dóra svolítinn hlut, nauðsynlegan ef það á að koma þrælahlekkjum á almenning, en á sér engan stoð í tilskipun ESB um innlánstryggingar.
Dóra segir að: "Íslenska ríkið hefur val um á hvaða formi tryggingarkerfinu er komið á fót og hvernig það er fjármagnað en fjárhagsleg geta þess á að vera í samræmi við tryggingaskuldbindingar".
Í tilskipun ESB segir þetta hinsvegar um fjármögnun tryggingakerfisins.
Það er ekki bráðnauðsynlegt í þessari tilskipun að samræma leiðirnar við fjármögnun kerfa sem tryggja innlánin eða lánastofnanirnar sjálfar, meðal annars vegna þess að lánastofnanirnar skulu sjálfar almennt bera kostnaðinn við fjármögnun slíkra kerfa og einnig vegna þess að fjárhagsleg geta kerfanna skal vera í samræmi við tryggingaskuldbindingarnar. Þetta má samt ekki stefna stöðugleika bankakerfis aðildarríkisins í hættu.
Aðrir valkostir eru ekki nefndir. Og hvað varðar frekari fjrámögnun þá er ekki minnst á hana, nema það var tekið fram í tilskipun ESB að aðildarríki væru ekki í ábyrgð fyrir henni. Þeirra ábyrgð fólst í því að stofna áðurnefndan tryggingasjóð.
Dóra færir rök fyrir því að íslenski sjóðurinn hefði verið vanfjármagnaður: "Við fall bankanna haustið 2008 má því gera ráð fyrir að heildareign Tryggingarsjóðs innistæðueigenda hafi numið 1% af meðaltali tryggðra innistæðna á árinu 2006 og sjóðurinn því tæplega í stakk búinn til að koma til skjalanna ef innlán yrðu ótiltæk". En það er skýrt kveðið á í tilskipuninni að gjaldið á fjármálafyrirtæki mætti ekki stefna stöðugleika bankakerfis aðildarríkjanna í hættu. Og í íslensku lögunum var gert ráð fyrir að sjóðurinn gæti tekið lán ef fjárþurrð yrði, sem væntanlega yrði þá greitt með framtíðartekjum sjóðsins. En kæmi til algjörar gjaldþurrðar sjóðsins þá var það tekið fram að sjóðurinn væri sjálfseignarstofnun, og til þess að ríkið hefði þurft að bakábyrgjast sjóðinn, þá hefði það þurft að vera tilgreint í lögunum. En það var ekki og er slíkt í samræmi við hina umdeildu klausu að aðildarríki beri ekki ábyrgð, hafi þau stofnað löggilt tryggingarkerfi.
En Dóra fullyrðir að kerfið hafi ekki getað staðið við skyldur sínar og því hafi komið til vanefnda íslenska ríkisins. En þetta er meinloka eða þá hreinlega blekking því skyldur aðildarríkja fólst í því að koma á fót löggiltum tryggingakerfum, ekki að fjármagna þau. Og um það er tilskipun ESB skýr.
Tilskipun þessi getur EKKI gert aðildarríkin eða lögbær yfirvöld þeirra ábyrg gagnvart innstæðueigendum ef þau hafa séð til þess að koma á einu eða fleiri kerfum viðurkenndum af stjórnvöldum sem ábyrgjast innlán eða lánastofnanirnar sjálfar og tryggja að innstæðueigendur fái bætur og tryggingu í samræmi við skilmálana í þessari tilskipun.
Og það er fráleit lögfræði, þó það sé góður áróður, að halda því fram að þegar aðildarríki fer í einu og öllu eftir tilskipun ESB, að það geti borðið ábyrgð á þeim göllum sem fram koma. Það mætti ætla að það væri skylda reglusmiðanna að uppfylla ábyrgðina, ef þá um ábyrgð er að ræða.
Enn og aftur, það var kerfið sem átti að ábyrgjast innstæðutryggingarinnar. Og Ísland gerði ekki neitt annað en að uppfylla skyldur sínar með því að koma þessu kerfi á fót, enda eins og Dóra segir sjálf,
Tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 94/19/EB um innlánatryggingakerfi (innlánatryggingatilskipunin) er hluti af IX. kafla Samningsins um Evrópska Efnahagssvæðið (EES-samningurinn). Frá því að tilskipunin varð hluti EES samningsins hefur hún því skuldbundið íslenska ríkið samkvæmt reglum þess samnings.
Og ef íslensk stjórnvöld hefðu misskilið þessa tilskipun svona algjörlega og lögleitt hana á rangan hátt, það er ekki gert ráð fyrri nægjanlegri fjármögnun, þá er ljóst að samningurinn um EES kveður á um eftirlit Eftirlitsstofnunar EFTA á framkvæmd tilskipanna og ef um ranga framkvæm er að ræða, þá á ESA að kæra viðkomandi land til EFTA dómstólsins.
Það segir allt um málflutning Dóru að engin slík kæra hefur borist. Og íslensku lögin eru frá árinu 1999. Þess vegna er það dálítið broslegt að lesa þennan kafla greinar Dóru.
Enginn fyrirvari er um að skylda þessi sé háð því hvort nægilegar eignir séu til staðar hjá viðkomandi tryggingakerfi enda væri lítið hald í ákvæðum tilskipunarinnar ef unnt væri að koma sér hjá skuldbindingum samkvæmt þeim með þessum hætti. Þar sem lög um innistæðutryggingar tryggðu Tryggingarsjóði innistæðueigenda takmarkaðar eignir gat sjóðurinn ekki sinnt hlutverki sínu samkvæmt tilskipuninni síðastliðið haust. Kemur þá til skoðunar hvort tilskipunin hafi verið innleidd með réttum hætti hvort framkvæmd ríkisins hafi brotið í bága við hana. Báðar þessar aðstæður kunna hins vegar að fela í sér ábyrgð íslenska ríkisins samkvæmt EES rétti, enda hafa bæði EFTA dómstóllinn og Hæstiréttur komist að þeirri niðurstöðu að brot gegn EES samningnum kunni að baka íslenska ríkinu bótaábyrgð.
Dóra talar eins og lögin hafi verið samin í gær, en svo er ekki. Hún hundsar þá staðreynd að Ísland fór eftir tilskipun ESB og hún hundsar þá staðreynd að ESA hefur engar athugasemdir gert á framkvæmd íslensku laganna. Ekki einu sinni núna, eftir að ljóst er að íslenski tryggingarsjóðurinn er gjaldþrota. En hún gefur það í skyn að peningaleysi sjóðsins hafi stafað af viljaleysi Íslands til að fara eftir fjármögnunarákvæðum tilskipunarinnar. En hún leynir lesandanum þeirri staðreynd að annað var ekki í boði, nema þá bein fjármögnun ríkisins, en um slíkt var hvorki getið eða ætlast til. Ríkið var einmitt tekið út úr kerfinu svo einstök aðildarríki væru ekki að yfirbjóða hvort annað og valda samkeppnisröskun eins og það var orðað.
Síðasti kafli Dóru fjallar um hina meintu mismunun sem íslensk stjórnvöld sköpuðu við við setningu neyðarlaga sinna. Mjög vinsæl fullyrðing sem víða hefur farið. Sumt fólk hér á landi skilur ekki að það er skylda stjórnvalda að bregðast við neyðarástandi, og ef íslensk stjórnvöld hefðu ekki gert það, þó um leiðirnar megi deila, þá hefði orðið hér allsherjar hrun. Ekkert nútímaþjóðfélag rekur sig án bankakerfis. En leiðina má gagnrýna, og sá sem gagnrýnir verður þá að koma með annan og betri valskost. En gagnrýnendur þjóðarinnar horfa fram hjá a.m.k. tvennu þegar þeir ætla að ráðstafanir stjórnvalda hafi skapað okkur greiðsluskyldu í ICEsave ábyrgðinni.
Í fyrsta lagi þá er það gagnályktun að ófullkomin lög leiði til greiðsluskyldu, því eðlilegra er að þeim sé breytt eftir kröfum ESA, eða þá þau séu felld niður. Og í öðru lagi þá hefur ESA ekki fellt neinn úrskurð í þessu máli, lögin eru í skoðun. Og samt koma íslenskir aðilar fram og segja að þetta sé svona en ekki hinsegin og við skulum bara gjöra svo vel að samþykkja óskyldar ábyrgðir núna strax, þó sú röksemd sem þeir vísa í sé í skoðun og alls ekki svo einhlít eins og þeir vilja vera láta.
Það er svona málflutningur sem fær mann til að spyrja hvaða húsbændum sé verið að þjóna.
Ég ætla að birta hér á eftir þann kafla greinar Dóru sem fjallar um hina meintu mismunun og á eftir kemur langur kafli úr grein þeirra Stefáns og Lárusar. Þetta er fróðlegur samanburður og óhætt að segja að vinkillinn sé ólíkur. Og ég ætla lesandanum að kveða upp sinn dóm um þá húsbændur sem reka greinarhöfunda áfram. ´
En hér kemur umfjöllun Dóru.
Við hrun bankanna stóð val ríkisins á milli þess að aðhafast ekkert og hætta á áhlaup á bankana með tilheyrandi áhrifum á innlend greiðslukerfi eða grípa til einhverra ráðstafanna til að tryggja innistæður. Með hinum svonefndu neyðarlögum voru innistæður gerðar að forgangskröfum. Jafnframt gaf ríkisstjórnin út yfirlýsingu þar sem áréttað var að innistæður í innlendum viðskiptabönkum, sparisjóðum og útibúum þeirra hér á landi væru tryggðar að fullu. Tilgreint var að með innistæðum væri átt við allar innistæður almennra sparifjáreigenda og fyrirtækja sem innistæðudeild Tryggingarsjóðs innistæðueigenda næði til en lögum samkvæmt heyrðu innlán í útibúum á EES svæðinu þar undir. Verður því ekki annað séð en að íslenska ríkið hafi í október 2008 tekið á sig skuldbindingar samkvæmt innlánatryggingatilskipuninni.
Því hefur verið fleygt að innlánatryggingatilskipunin eigi ekki við í tilfelli íslenska bankahrunsins þar sem hér hafi verið um allsherjar kerfishrun að ræða. Í ljósi þess að ríkisstjórnin greip til þeirra aðgerða sem að framan er lýst þegar í október á liðnu ári er þó erfitt að láta á þá kenningu reyna nú enda hefur talsverður hluti tryggðra sparifjáreigenda þegar notið réttar síns. Slík afturvirk röksemdafærsla er til þess fallin að brjóta gróflega gegn meginreglu íslenskrar stjórnskipunar og EES samningsins um jafnræði. Þá snýst uppgjör á Icesave reikningum um innistæður í erlendum útibúum eins banka en ekki um bankakerfið í heild þó fjárhæðirnar séu vissulega svimandi. Nú heyrast jafnframt þær raddir að ríkið eigi að hafna því að bera ábyrgð gagnvart afmörkuðum hópi sparifjáreigenda sem kusu að eiga viðskipti við útibú Landsbankans í Lundúnum eða Rotterdam frekar en á Raufarhöfn. Fara eigi með málið fyrir dómstóla.
Og hér kemur það sem þeir Stefán og Lárus segja um hina meintu mismunun:
Fólst mismunun í stjórnsýsluákvörðuninni um yfirtöku banka?
Með 3. mgr. 1. gr. neyðarlaganna var gert ráð fyrir því að ríkið geti stofnað hlutafélag til að taka við rekstri fjármálafyrirtækis. Samkvæmt þessari heimild tók íslenska ríkið yfir Glitni banka hf., Kaupþing banka hf. og Landsbanka Íslands hf. að öllu leyti á haustdögum 2008, samkvæmt ákvörðun Fjármálaeftirlitsins.
Með stjórnsýsluákvörðun Fjármálaeftirlitsins var innlend bankastarfsemi tekin út úr gömlu bönkunum og stofnað um þau hlutafélög í opinberri eigu. Þar með fylgdu innistæður í bönkum hér á landi hvort sem þær tilheyrðu innlendum eða erlendum aðilum. Hér er um að ræða hlutafélög sem njóta ekki ríkisábyrgðar að neinu leyti. Fullt verð verður greitt fyrir þann hluta, sem tekinn var, þannig að nettóandvirði rennur inn í bú gömlu bankanna og kemur þar til úthlutunar með venjulegum hætti.
Gera verður ráð fyrir því að innistæðueigendurnir í nýju bönkunum séu einkum persónur eða fyrirtæki sem eiga heimili og stunda vinnu eða hafa starfsemi hér á landi. Það er forsenda fyrir tilvist hvers fullvalda ríkis að til séu bankastofnanir sem eru tengdar ríkinu traustum böndum og hafa það hlutverk að geyma, ávaxta og miðla peningum til verkefna innanlands. Fullvalda ríki verður tæpast byggt og rekið á annarri forsendu.
Spyrja má hvort innistæðueigendur íslenskra bankaútibúa erlendis hafi með umræddri aðgerð verið beittir mismunun miðað við eigendur innistæðna sömu banka hér á landi.
Þess er þá fyrst að geta að ríki eru sjálfstæðir aðilar bæði að EES- og ESB-rétti og mynda raunar grundvöll eða stoðir samninganna um þau. Þannig er réttur og tilvist þjóðríkja sérstaklega varinn í samningunum um ESB og EES-samningurinn telst samningur milli sjálfstæðra ríkja og ESB. Sú grundvallarregla gildir að þær stofnanir sem starfa eftir samningunum um ESB eða EES geta ekki tekið sér neitt vald sem ekki er veitt þeim í samningunum.
Samkvæmt Maastrichtsamningnum ber ESB að virða einkenni og stjórnkerfi aðildarríkjanna enda er þar gert ráð fyrir tilvist aðildarríkjanna með margvíslegum hætti. Þessi sjónarmið eiga auðvitað enn frekar við um EFTA/EES-ríki sem hafa ekki tekið þátt í þeim samruna sem ESB stefnir að. Af því leiðir svo aftur að heimilt er og lögmætt að taka tillit til sjónarmiða sem varða brýna efnahagslega hagsmuni eins aðildarríkis án þess að taka tillit til efnahags annars aðildarríkis þar sem slík sjónarmið eiga ekki við að sama skapi. Það er því ljóst að hvert ríki hefur víðtækan rétt til að verja tilverurétt sinn hvort sem miðað er við samningana um ESB eða EES.
Niðurstaðan af þessum hugleiðingum er sú að fyrrgreindar aðgerðir stjórnvalda voru taldar nauðsynlegar til að verja og viðhalda bankakerfi innanlands. Slíkt hefði ekki verið unnt að gera með því að tryggja innistæðueigendum í erlendum útibúum sömu meðferð. Þeir sem þar áttu innistæður eru ekki í neinum sambærilegum hagsmunatengslum við Ísland og þeir sem eiga innistæður hér á landi. Verulegar líkur eru á því að innstæðueigendur erlendis hefðu einfaldlega tekið út allar innistæður sínar ef reglurnar hefðu verið látnar ná til þeirra og þar með gert innlenda bankastarfsemi að engu. Auðvitað er ekki hægt að ætlast til þess að eigendur innistæðna erlendis hefðu leyst út íslenskar krónur og notað hér á landi með sama hætti og þeir sem áttu innistæður hérlendis.
Meginatriðið er að innistæðueigendur útibúa, t.d. í Bretlandi og Hollandi, eru ekki tengdir íslenskum hagsmunum með sama hætti og menn og fyrirtæki með heimili hér á landi, t.d. með hliðsjón af fjárfestingum, félagslegri aðstoð, sköttum og fleiri atriðum.
Af þessu má ráða að innistæðueigendur í erlendum útibúum íslenskra banka voru í annarri stöðu heldur en þeir sem áttu inneignir í sömu bönkum hér á landi. Réttarstaða þeirra var með öðrum orðum ekki sambærileg. Af því leiðir að ekki var um mismunun að ræða við fyrrgreinda aðgerð.
Þessu til viðbótar er rétt að koma því á framfæri að það er vel þekkt í Evrópurétti að ráðstafanir sem kunna að fela í sér mismunun en eru engu að síður óhjákvæmilegar vegna þjóðfélagsþarfa í almannaþágu fá staðist. Má nefna marga dóma dómstóls ESB því til sönnunar. Enginn vafi er á því að verði talið að efnahagslegt hrun hafi blasað við hér á landi nægir það til að réttlæta frávik frá umræddri meginreglu.
Skilyrðin fyrir frávikunum eru þó ávallt þau að gætt sé meðalhófs. Er erfitt að sjá að vægari kostur hafi verið í stöðunni. Þess ber einnig að gæta að samkvæmt dómafordæmum dómstóls EB hafa aðildarríkin sjálf talsvert mat um það hvort fyrrgreindum skilyrðum hafi verið fullnægt enda tæpast á færi dómstóls að meta aðgerðir til að koma í veg fyrir efnahagshrun heillar þjóðar.
Það er vægast mikill munur á þessu tvennu. En síðan er það þessi eilífar spurning um dómstóla. Dóra bendir réttilega á að það er ESA, Eftirlitsstofnun EFTA sem á að fjalla um meint brot á framkvæmd Íslands á EES samningnum. ESA hefur ekki sett út á íslensku neyðarlögin, og ESA hefur ekki sett út íslensku lögin um Tryggingasjóð innlána. Aldrei. Samt veður fólk uppi og segir að við höfum brotið þessa sömu tilskipun.
Margt gáfumennið þekkir ekki muninn á úrskurð almannaróms og úrskurð dómstóla. Þetta er harmleikur Íslands í hnotskurn að bæði ráðamenn okkar og fjölmiðlamenn, háskólamenn og þekktir kjaftaskar tala eins og íslenska þjóðin hafi brotið einhver lög og ætli ekki að standa við skuldbindingar sínar, en eini rökstuðningurinn er almannarómur. Þetta ágæta lið sem á sér þann draum heitastan að hér muni ríkja allsherjar neyð og hörmungar hjá breiðu böku þjóðfélagsins, því það veit að það þarf ekki sjálft að bera birgðarnar, það skautar alveg framhjá þeirri staðreynd að þar til bær yfirvöld, ESA og EFTA dómstóllinn hafa ekki sett út á íslensku lögin um innlánstryggingar, þau hafa ekki sett út á framkvæmd þeirra og þau hafa ekki sett neytt út á núverandi neyðarlög, en margir Borgunarsinnar fullyrða einmitt að þau séu ástæða þess að Nauðungin sé samþykkt.
Það er því eðlilegt að spurt sé hverjum þetta fólk þjónar?
En loks svo ég klári að afgreiða lögfræði Dóru, þá fullryðir hún að íslensk stjórnvöld hafi ábyrgst íslensk innlán, vísar í yfirlýsingar ráðamann máli sínu til stuðnings. En ég kalla til vitnis þá Stefán og Lárus og hvað þeir segja um þessar fullyrðingar.
Forsætisráðherra gaf þá yfirlýsingu seint á síðastliðnu ári að íslenska ríkið myndi tryggja innlánseigendum hér á landi fjárhæðir þeirra á innistæðureikningum. Yfirlýsingin mun hafa verið sett fram umfram skyldur íslenska ríkisins og væntanlega í þeim tilgangi að tryggja að unnt væri að starfrækja innlenda innlánastarfsemi í framtíðinni, reyna að viðhalda sparnaðarvilja almennings, tryggja efnahagslegan stöðugleika og koma í veg fyrir efnahagslegt hrun.
Þrátt fyrir þetta er hér aðalatriðið að yfirlýsing ráðherra af þessu tagi er óskuldbindandi því henni var aldrei fylgt eftir með lögum (hún krefst samþykkis í fjárlögum, fjáraukalögum eða venjulegum lögum) né kom hún til framkvæmda á einn eða neinn hátt. Þvert á móti verða innistæðueigendur í nýju bönkunum að sætta sig við að bankarnir eru reknir í formi hlutafélaga og ábyrgðin í aðalatriðum takmörkuð við gjaldþol þeirra félaga.
Af þessum sökum fellur umrædd yfirlýsing stjórnvalda hvorki undir 4. gr. EES-samningsins né önnur ákvæði hans um fjórfrelsið. Í fyrri skrifum okkar höfum við einnig talið að yfirlýsingar af þessu tagi féllu ekki undir gildissvið nefndrar 4. gr. Verður sú umræða ekki endurtekin.
Að manneskja sem kallar sig Meistara í lögum, skuli ekki þekkja muninn á yfirlýsingu og lögbundinni ábyrgð, Ótrúlegt.
Meira er ekki um málið að segja.
Kveðja að austan.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Um bloggið
Ómar Geirsson
Færsluflokkar
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.11.): 371
- Sl. sólarhring: 755
- Sl. viku: 6102
- Frá upphafi: 1399270
Annað
- Innlit í dag: 314
- Innlit sl. viku: 5169
- Gestir í dag: 292
- IP-tölur í dag: 289
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Amen. Meira get ég ekki sagt. Afar furðulegt hve harðir margir eru á því að okkur beri að undanbragðalaust að standa skil á þessum ógnarskuldum.
Kveðja að norðan.
Arinbjörn Kúld, 10.7.2009 kl. 11:00
Takk Arinbjörn.
Mér þykir vænt um að þessi vinna mín sé ekki til einskis og einhver lesi þó langt sé. Það er þannig að það er auðvelt að fullyrða eins og Borgunarfólkið gerir út um allar trissur, en röksemdir taka alltaf sinn tíma og þurfa alltaf sitt pláss.
Þess vegna lesa fleiri bullið en rökin.
Kveðja að austan.Ómar Geirsson, 10.7.2009 kl. 11:11
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.