Hafið þið þökk Morgunblaðsmenn fyrir að hafa rekið af ykkur sliðruorðið

Sem dyggur lesandi Morgunblaðsins frá 8 ára aldri, hef ég ekki misst úr nema örfá blöð um ævina, það er áður en ég gat tamið ruslatunnuna hennar Mömmu að láta ólesin blöð í friði, þó ég þyrfti að bregða mér að bæ í einhverja daga eða vikur.  Mest biðu mín 33 blöð ólesin þegar ég kom úr frí.

En í Kreppunni átti Morgunblaðið að lenda í næsta niðurskurðarátaki.  Þó ég hafi oft verið fátækari en Steinn Steinar uppá hanabjálkalofti, þá hefur áskrift á Morgunblaðinu verið mikilvægari en flest annað, jafnvel en góð Whiskíflaska.  Og þá er nú mikið sagt þegar slíkir guðaveigar eru annars vegar.

Og það hefur aldrei hrjáð mig að blaðið og ég höfum aldrei verið sammála, eða þar til Styrmir hætti að vera erkiíhald, alltaf, og tók sig til að skrifa eins og hann væri stöðugt að lesa upp úr Vesalingunum eftir Hugo.  Mannúð spyr ekki um flokkslínur eða pólitík, hún er lífsskoðun guðanna.

En mig sveið svo orðið að lesa Morgunblaðið, að ég hélt það oft ekki út að klára blaðið.  Undirlægjuháttur gagnvart skuldaeigendum blaðsins og blind Evrópusýn virtust leggjast á eitt í þá átt að blaðið sveik þjóð sína dag eftir dag. 

Það tók þátt í þöggun á röddum Íslands í ICEsave deilunni og ýtti undir þá fölsku sögutúlkun að Íslandi bæri samkvæmt orðannahljóðan í EES samningnum að greiða hluta af skuldum einkabanka.  Þjóðin var aldrei spurð álits þegar bankarnir voru einkavæddir og þjóðin var heldur ekki spurð álits þegar Jón Baldvin skrifaði upp á EES samninginn.  Núna áttu þessir tveir gjörningar að hlekkja þjóðin um ókomna tíð við skuldklafa og ef hún stæði ekki í skilum, þá var kúgurum hennar heimilt að nota þrælapíska á börnin okkar.  Sjálfa eigur þjóðarinnar voru settar að veði.

Allan tímann tókst Morgunblaðinu að skauta framhjá þeirri staðreynd að það er ekki minnst einu orði á skuldaþrældóm í EES samningnum enda er Evrópa klúbbur siðaðra þjóða.  Og sú tilskipun ESB um innlánsábyrgðir sem alltaf er verið að vitna í, hún tekur það skýrt fram að aðildarríki geta aldrei verið í ábyrgð fyrir skuldbindingum innlánstryggingakerfa, enda er Evrópa ekki þrælaklúbbur.

En dyggir lesendur Morgunblaðsins vita ekki um þessa staðreyndir, þær hafa aldrei birst í fréttum eða fréttaskýringum blaðsins, en orð ritstjóra blaðsins um að Ísland verði að standa við skuldbindingar sínar samkvæmt EES samningnum, voru endurtekin í sífellu, og þessu trúir heiðarlegt, grandvart fólk, því hvað sem mátti segja um pólitísk vinnubrögð blaðsins og túlkun þess á staðreyndum, þá laug aldrei blaðið í ritstjórnargreinum sínum.

En blað Valtýs og Sigurðar, skjöldur íslenskrar sjálfstæðisbaráttu, laug um grundvallaratriði, um mál sem ef illa fer, gæti sett lokapunktinn á fullveldi þjóðarinnar.

Og fyrir mig þá var það orðið of sárt að lesa.  Það er betra að vera án Morgunblaðsins en að upplifa niðurlægingu þess dag eftir dag.

En svo gerðist eitthvað um síðustu helgi.  Líkt og í ævintýrinu um Öskubusku, þá virðist heilladís Íslands hafa snert blaðið með töfrasprota sínum og tötrar niðurlægingar og ósjálfstæðis, féllu af blaðinu og þjóðin hefur aftur eignast sinn Mogga.  Hvassan, beinskeyttan Mogga, sem tekur hagsmuni íslensku þjóðarinnar fram yfir sína eigin.  Sum mál eru þess eðlis að má aldrei líta á þau flokkspólitískum gleraugum, stundum þarf bara að segja satt, og sú krafa ómar af síðum Morgunblaðsins þessa dagana.

Segi menn svo að ævintýrin geti ekki líka gerst í raunheimi.

En þetta er langur formáli um stutta athugasemd um stórt mál.  Enn einn meintur landráðahugsunarháttur hefur verið afhjúpaður.  Þegar mennirnir, sem áttu að verja hagsmuni íslensku þjóðarinnar, hugsa svona, þá er ekki nema von að þeir komu með þrælasamninga heim.

Lítum á hvað Hugi Freyr Þorsteinsson segir í þessari frétt. 

Nefndinni var einfaldlega farið að klára samningana enda hafði dómstólaleiðin þá fyrir löngu verið útilokuð. Hlutverk okkar var ekki að undirbúa dómsmál og því ekki talin ástæða til að láta útibúa lagalega álitsgerð.“

Rök sem studdu málstað Íslands voru virt að vettugi.  Fyrirmæli samninganefndarinnar voru ekki að ná fram réttlátri og réttmætri niðurstöðu.  Fyrirmælin voru að taka því sem bretar og Hollendingar voru tilbúnir að fallast á.

Vildu þeir ekki ræða lögfræðiatrið sem sýndu fram á að fjárkröfur þeirra voru ólöglegar, þá átti að spyrja þá kurteislega að því, hvað þeir vildu þá ræða.  Og hvað eigum við að borga?

Halldór Laxnes hélt því fram í Íslandsklukku sinni að niðurlæging Íslands hefði náð hæstu hæðum þegar eina sameign þjóðarinnar var höggvin á Þingvöllum og send utan til bræðslu.  Kannski er það rétt hjá honum, en að mörgu er að taka í köflóttri sögu þjóðarinnar.  

En ekkert veit ég sem toppar þessa niðurlægingu og þann þrælahugsunarhátt sem ráðamenn þjóðarinnar hafa tileinkað sér.  

Smán þessa fólks er algjör.

En þetta þarf ekki að vera svona.  Ísland þarf að komast að samkomulagi við nágrannaþjóðir sínar en það samkomulag þarf bæði að vera réttlátt og réttmætt.  Þær raddir hafa heyrst að við eigum að fá erlenda samningamenn, eins og við kunnum ekki sjálf að tala og standa á rétti okkar.  Vissulega á að leita sér aðstoðar færustu erlendra sérfræðinga en íslenska samninganefndin á að vera skipuð hæfu fólki sem trúir á málstað okkar og finnur öll þau rök sem styðja hann.  

Og valið er ekki flókið.  Stefán Már Stefánsson, lagaprófessor, Herdís Þorgeirsdóttir lagaprófessor og Jón Steinar Gunnlaugsson, hæstaréttardómari, eiga að mynda kjarnann í íslensku samninganefndinni.  

Þetta fólk myndi tryggja réttláta samninga og um leið bjarga æru Evrópu frá því að endurtaka rúm 60 ára gömul vinnubrögð kúgunar og óréttlætis, vinnubragða sem síðast voru notuð þegar Vesturveldin kúguðu Tékkóslóvakíu til að láta hluta af landi sínu til þriðja ríkisins.   Sú smán Evrópu leiddi að lokum til mikilla mannvíga því kúgun lætur aldrei staðar numið.  

Réttarríkið var fundið upp til að koma í veg fyrir slík vinnubrögð.  

Gleymum því aldrei.

Kveðja að austan.

 


mbl.is Ekki leitað eftir álitsgerð frá Mishcon de Reya
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Ómar Geirsson

Höfundur

Ómar Geirsson
Ómar Geirsson
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • Screenshot (49)
  • Screenshot (49)
  • ...img_0104a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.11.): 45
  • Sl. sólarhring: 624
  • Sl. viku: 5629
  • Frá upphafi: 1399568

Annað

  • Innlit í dag: 38
  • Innlit sl. viku: 4802
  • Gestir í dag: 37
  • IP-tölur í dag: 37

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband