22.6.2009 | 15:22
Orðræða Borgunarsinna, þriðji kafli. blekkingar blekkingarmeistarans.
Ef einn maður á Íslandi ætti að biðja þjóð sína afsökunar í ICEsave málinu, þá er það Jón Baldvin Hannibalsson. Hann er maðurinn sem kom því regluverki á sem er að kaffæra okkur. Hann er maðurinn sem hefur mært þetta regluverk og notað hina "velheppnuðu" útrás sem dæmi þess hve samningur hans hefur skilað þjóðinni. Og þau rök notaði hann í Evróputrúboði sínu.
Jón Baldvin fer mikinn þessa daganna og hann vílar sér ekki að koma þeim hugsunarhætti að þjóðin eigi að borga hundruðir milljarða vegna mistaka pólitískra andstæðing sinna. En hvað er rétt og hvað er rangt er aukaatriði í hans huga.
Blekkingameistarinn mikli spáir ekki í staðreyndir þegar hann mærir sjálfan sig.
Í grein í sinni "Af skúrkum og fórnarlömbum ICesave-málsins" fer hann mikinn og rangt með flestar staðreyndir ICesav-málsins. En kíkjum á það helsta.
1.Hver var ábyrgð ríkisins lögum samkvæmt? Með neyðarlögunum sem samþykkt voru á Alþingi 6. október, 2008, tók ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar, undir forystu Geirs H. Haarde og Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur, fulla og ótakmarkaða ábyrgð á sparifjárinnistæðum íslenskra banka. Þetta var gert til að afstýra run on the banks, þ.e. til að koma í veg fyrir að sparifjáreigendur myndu tæma bankana. Þessi lög giltu um alla íslensku bankana og þ.m.t. útibú þeirra, hvar svo sem þau voru staðsett. Hafi nokkur vafi leikið á um ábyrgð ríkisins á sparifjárinnistæðum í íslenskum bönkum áður, þá var þeim vafa eytt að fullu og öllu með neyðarlögunum.
Þetta er ósatt. Sagt til að blekkja. Jón er læs eins og aðrir og hann veit að neyðarlögin með tilvísun í neyðarrétt þjóða gilda aðeins á Íslandi, fyrir fólk búsett á Íslandi. Þau ná ekki yfir útibú íslenskra banka erlendis. Vitleysan verður ekki sönn þó nógu margir haldi henni fram. Þau segja á um umframréttindi og slíkt er heimilt samkvæmt EES samningnum. Í hverju landi Evrópska efnahagssvæðisins er stjórnvöldum heimilt að setja réttindi umfram það lágmark sem tryggt er í tilskipunum Evrópubandalagsins. En þau mega ekki mismuna eftir þjóðerni. Ef breskur banki hefði útibú í Hafnarfirði og hann hefði til þess leyfi íslenskra stjórnvalda, þá mætti ekki útiloka innistæðueigendur hans frá ábyrgðinni. Og ekki heldur banka í einkaeigu á Íslandi. Innstæðutryggingin má ekki bara ná yfir þá banka sem ríkið yfirtók. Og loks má ekki útiloka breta eða Pólverja, búsetta á Íslandi frá þessari innstæðuvernd enda hafi þeir greitt skatta og skyldur til íslenska ríkisins.
En þessi ábyrgð kemur hvorki Tryggingasjóð innlána og tilskipun ESB um innlánstryggingar ekkert við.
2.Jú, en hafa ekki nafngreindir íslenskir lögfræðingar fullyrt, að skv. EES-samningnum takmarkist ábyrgð ríkisins við þá upphæð sem er að finna í tryggingasjóði innistæðueigenda? Þessi lagaskýring er vægast sagt ómarktæk, þ.e.a.s. þeir aðilar fyrirfinnast ekki innan lands né utan, sem taka mark á henni. Sá dómstóll er heldur ekki fyrirfinnanlegur, sem myndi taka mark á svona rökstuðningi. Ástæðurnar eru margar, en þessar helstar:
Reglur Evrópusambandsins(sem einnig gilda á EES-svæðinu) kveða á um innistæðutryggingu sparifjáreigenda að upphæð 20.887 evrur. Einstök aðildarríki mega ganga lengra, en þetta er lágmark. Sú ófrávikjanlega grundvallarregla gildir innan Evrópusambandsins, að óheimilt er með öllu að mismuna einstaklingum eða lögaðilum á grundvelli þjóðernis. Á þessu leikur ekki minnsti vafi. Að settum neyðarlögum var það því frá upphafi hafið yfir allan vafa, að íslenska ríkið væri ábyrgt fyrir sparifjártryggingu íslenskra banka, hvar svo sem þeir væru starfandi. Það hefur aldrei leikið nokkur vafi á þessu grundvallaratriði. Forstöðumönnum Lansbankans og íslenskum stjórnvöldum var þetta fullkomlega ljóst frá upphafi.
Blessaður maðurinn þekkir ekki sinn eigin samning en þar stendur að "aðildarríki beri ekki ábyrgð" hafi þau uppfyllt tilskipun ESB um innlánstryggingar. Sjá beina tilvísun í fyrri bloggum. Jón notar Órök sín um mismun til að réttlæta þessa fullyrðingu en sú mismun stenst ekki. Og það má heldur ekki gleymast að ef íslensku neyðarlögin verða dæmd ómerk fyrir dómstólum, þá fellur íslenska innstæðuverndin úr gildi. Lögin fjalla aðeins um hana og koma EES samningnum þannig séð ekki við. Nema að sjálfsögðu þurfa þau að standast ákvæði samningsins.
3.Er það rétt að með EES-samningnum hafi íslensk stjórnvöld fyrst skuldbundið sig til að veita sparifjáreigendum innistæðutryggingu? Nánast allar þjóðir hafa lögleitt einhvers konar innistæðutryggingu sparifjáreigenda. Það regluverk, sem Íslendingar yfirtóku með EES-samningnum, kveður m.a. á um eftirfarandi: Lágmarksinnistæðutrygging sparifjáreigenda (20.887 evrur) er í gildi á svæðinu öllu. Innistæðutryggingin er á ábyrgð heimalandsins en ekki gistiríkisins. Útibú Landsbankans voru samkvæmt þessu á íslensku bankaleyfi, undir eftirliti íslenska Fjármálaeftirlitsins og með innistæðutryggingu íslenska ríkisins, lögum samkvæmt. Á þessu lék aldrei neinn vafi. Bankastjórar Landsbankans vissu það, þegar þeir stofnuðu Icesave í Bretlandi 10. okt. 2006. Þeir hefðu getað opnað Icesave í dótturfélagi sínu í London, en kusu af ásettu ráði og vitandi vits að gera það ekki. Þeir vissu því allan tímann að ábyrgðin væri íslenska ríkisins (les: skattgreiðenda).
Fjármálaeftirlitið vissi það. Seðlabankinn vissi það. Viðskiptaráðuneytið vissi það. Forsætis- og fjármálaráðherra gátu ekki annað en vitað það. Það er fullkomlega út í hött að reyna að kenna reglum ESB um ófarir Íslendinga í Icesave-málinu. Íslensk stjórnvöld veittu bankaleyfið. Það var á þeirra valdi frá upphafi að krefjast þess að Icesave yrði í formi dótturfélags en ekki útibús og væri þar með undir eftirliti og með tryggingaábyrgð breska ríkisins. Fjáfmálaeftirlitið reyndi á árinu 2008 að forða slysinu með því að krefjast þess að Landsbankinn breytti þessari innlánsstarfsemi sinni í dótturfélag. Bankastjórar Landsbankans þverskölluðust við og FME fylgdi málinu ekki eftir af nægilegri hörku í tæka tíð.
Jú enda uppfyllti íslensk sýna skyldu með stofnun Tryggingasjóðs innlána. Og þar er ekki kveðið á um bakábyrgð aðildarríkis eins og margoft hefur komið fram. Og það er bannað að íþyngja fyrirtækjum samkvæmt reglunum um fjórfrelsi. Þó mönnum sé illa við fjármálaeftirlitið þá hefur það útskýrt ágætlega þær reglur sem gilda á efnahagssvæðinu. En í tilkynningu frá FME segir þetta meðal annars:
EES-löggjöf gerir ráð fyrir því að íslenskum fjármálafyrirtækjum jafnt sem erlendum sé heimilt að starfrækja útibú eða dótturfélög í öðru ríki á Evrópska efnahagssvæðinu. Samkvæmt Evrópulöggjöfinni hafa fyrirtæki frelsi til að velja hvort starfsemi þeirra sé í formi útibús eða dótturfélags. FME hefur ekki lagaleg úrræði til að knýja fjármálafyrirtæki til að færa starfsemi sína úr útibúi yfir í dótturfélag. Engu síður hafði FME frá því snemma á árinu mælst til þess við Landsbankann að Icesave yrði fært í breskt dótturfélag.
Þetta er regluverkið og eftir því þarf að fara. Um óbeinar leiðir má ræða og eitthvað þurfti að gera en ekki man ég til þess að Jón Baldvin hafi talað um þessa hættu í tíma. En lofsönginn vantaði ekki.
4. Hvernig lítur málið út, ef við reynum að setja okkur í fótspor breskra og hollenskra sparifjáreigenda? Þá er ljóst að fórnarlömbin í málinu eru breskir og hollenskir sparifjáreigendur og íslenskir skattgreiðendur. Skúrkarnir í málinu eru ótvírætt bankastjórar og bankaráðsformenn Landsbankans.
Það eru alltaf fórnarlömb þegar fyrirtæki fara á hausinn. Og þegar bankar fara á hausinn, tapa margir. Þess vegna reyna stjórnvöld viðkomandi landa að aðstoða sparifjáreigendur en grunnreglan er sú að þau aðstoða sína skattgreiðendur í sínu landi. Ef einhver heil brú væri í því sem Jón heldur fram, þá má færa fyrir því rök að þegar til dæmis Hollensk stjórnvöld eru að greiða ICEsave ábyrgðir upp í 100.000 Evrur, þá eru þau að mismuna öðrum reikningseigendum ICEsave, til dæmis í Bretlandi. En hver spáir í það. Hollensku lögin koma tryggingasjóði innlána ekkert við og evrópsku reglurnar fjalla um innlánstryggingakerfi, svipað og tryggingakerfi húseiganda vegna brunatjóna.
Liður 5. og 6. eru svona almennar pælingar Jóns og margt ágætt um þær að segja. En þetta eru eftirá pælingar. Betur hefði verið að hann hefði verið jafn skeleggur að vara við hruninu í stað þess að lofsyngja árangur EES samningsins. En svo segir Jón.
7. Hvers vegna hafa stjórnvöld ekki lagt öll spilin á borðið í þessu máli? Ábyrgð ríkisins í formi innistæðutryggingar vegna Icesave að upphæð 650 milljarðar króna lá fyrir, þegar á næstu dögum eftir hrun Landsbankans. Upphæðin hefur ekkert breyst. Hvað hefur náðst fram með átta mánaða samningaþófi? Við mat á því ber að hafa í huga, að ríkisstjórn Geirs Haarde og Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur hafði samþykkt ábyrgð íslenska ríkisins á sparifjárinnistæðum hollenska Icesave og fallist á lántöku í því skyni með 6.7% vöxtum til tíu ára. Þetta spillti samningsstöðu Íslands stórlega.
Rökvilla hans um ábyrgðina liggur fyrir. Og vissulega er það rétt að betra hefði það verið að Samfylkingin hefði ekki verið í stjórn því strax í upphafi var ljóst að málstaður Breta átti mikla samúð í hennar röðum. Og einn af forystumönnum hennar hefur opinberlega lýst yfir stuðningi yfir fjárkröfur breta og Hollendinga. En samt. "Vanhæf ríkisstjórn" skuldbindur ekki þjóð sína gegn stjórnarskrá landsins. Jafnvel þó bretarnir hefðu nógu marga alþingismenn í vasanum til að samþykkja ólögin þá skuldbindur það ekki næstu ríkisstjórn, því ólöglega er staðið af málum. Þetta er alveg eins og það er ekki hægt að verða ríkur á því að kaupa sér byssu og neyða fólk til að afsala sér eigum sínum. Slíkt er nauðung og hefur ekki haft mikið lagagildi frá þeim tíma þegar berserkir gerðu þetta á víkingaöld.
Um annað sem Jón segir er fátt að segja. Ályktun hans um ábyrgð Íslendinga með setningu neyðarlaganna eru rangar og það sem hann ályktar út frá því sömu leiðis. En gagnrýni hans er beinskeytt en hún fer öll í að verja rangan málstað. Málstað sem mun kosta íslenska þjóðarbúið sjálfstæði sitt. En satt er að betur hefði verið að þetta mál hefði ekki komið upp á. Nægar eru hörmunar þjóðarinnar samt með veru Alþjóðagjaldeyrissjóðinn hér á landi.
En það afsakar ekki núverandi og fyrrverandi ráðamenn þjóðarinnar að bregðast íslensku þjóðinni. Þjóðarskútan strandaði vissulega fyrir klaufaskap en það er sjóréttar að dæma úr um það. En á strandstað fórnum við ekki hluta áhafnarinnar með innbyrðis deilum og vitleysisgangi. Það sem er búið, það er búið. Og það þarf að verjast með öllum ráðum þekktum strandræningjum sem dóla í kringum skútuna og ætla að nota sér neyð áhafnarinnar til að ræna hana eigum sínum. Skiptir ekki máli þó við kunnum ágætlega við þessa sömu ræningja meðan skútan flaut.
Og það eru ekki menn eins og Jón Baldvin sem ætla að fórna sínum ofureftirlaunum og hlunnindum til að borga þessa reikninga. Það eru breiðu bökin. Aldraðir, sjúkir, fátækir. Fólkið sem þarf á stuðningi samfélagsins að halda. Og það eru barnafjölskyldur landsins sem fá enga hjálp í skuldavandræðum sínum því peningarnir fara allir í erlenda ræningja.
En fólkið sem hefur það gott og sér tækifæri í hinum nýju nauðungarsamningum til dæmis til að láta drauma sína um aðild Íslands að Evrópusambandinu rætast, það krefst borgunar í þeirri vissu að aðrir mun þjást, en það græða.
Skítlegt eðli í sinni hreinustu mynd.
Kveðja að austan.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Um bloggið
Ómar Geirsson
Færsluflokkar
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (19.1.): 3
- Sl. sólarhring: 16
- Sl. viku: 2022
- Frá upphafi: 1412721
Annað
- Innlit í dag: 3
- Innlit sl. viku: 1775
- Gestir í dag: 3
- IP-tölur í dag: 3
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.