19.6.2009 | 09:51
Lögin um ICEsave ábyrgðarnar.
Lögin um ICEsave ábyrgðirnar eru skýr. Íslensku lögin um Tryggingasjóð innlána byggjast á tilskipun ESB um innlánstryggingar og um framkvæmd þeirra og vafaatriði er byggt á EES samningnum.
Það er ljóst að samkvæmt núverandi samningi sem liggur fyrir Alþingi um afgreiðslu, að hundruðir milljarðar munu falla á þjóðina. Fullyrðingar um annað eru rangar. Miðað við þær heimtur á eignasafni Landbankans sem íslenska samninganefndin gengur út frá, og áætlaðan vaxtakostnað, þá eru skuldbindingarnar aldrei undir 200 - 300 milljarðar. En ef allt fer á versta veg, þá er heildarskuldbinding þjóðarbúsins ekki undir 1000 milljörðum. Reyndar hærri því áhrif samningsins munu fljótlega koma fram í lækkuðu gengi sökum óhjákvæmilegrar lækkunar á lánshæfnismati ríkisins og þeirri vantrú sem fjárfestar munu hafa á greiðslugetu ríkisins.
Engar upplýsingar fylgja frumvarpinu um greiðslustyrk lánasafns Landsbankans, aðeins fullyrðingar af ætt ýkjusagna, ýkjusagna sem hver tilvonandi fallít útrásarinnar hefur verið staðinn að.
Í svona grafalvarlegu máli hefur ýmislegt verið fullyrt af hálfu stuðningsmanna samningsins. Flestar þær fullyrðingar eiga það sammerkt að þær byggjast á gróusögum um að það standi í lögum og reglum EES að íslenska ríkið sé í ábyrgð fyrir lágmarksábyrgð ICEsave reikninganna.
En það er rangt. Það stendur skýrt í lögum um Tryggingasjóð innlána að sjóðurinn sé ábyrgur og engin bakábyrgð ríkisins er til staðar. Og íslensku lögin eru í fullu samræmi við tilskipanir ESB um innlánstryggingar enda kæmist Ísland ekki upp með að hafa ófullnægjandi lög og ef svo væri samt að mati þeirra ríkja sem hýstu ICEsave, þá bar þeim skylda til að krefja Landsbankann um þáttöku í sínu innlánskerfi. Lögin um þetta eru mjög skýr.
Í næsta bloggi mínu ætla ég að taka saman þau lög sem um ræðir og linka á þau. Eins mun ég taka fram tilvitnanir sem málið varðar.
Ekkert af þessu eru ný sannindi. Lögfræðingarnir Lárus Blöndal og Stefán Már Stefánsson hafa margsagt frá þessu í blaðagreinum en ekki hlotið hljómgrunn í þjóðfélaginu og fjölmiðlar hafa þaggað niður málflutning þeirra. Eða alveg fram að síðustu dögum.
Hvort fjölmiðlafólki hafi verið mútað eða það er svona algjörlega vanhæft til sinna starfa verður hver að dæma en ljóst er að fjölmiðlar í öllum frjálsum löndum myndu láta hið sanna koma í ljós og ekki leyfa stjórnmálamönnum og öðrum málsmetandi mönnum að komast upp með beinar rangfærslur í jafn mikilvægu máli.
En Ísland er kannski ekki frjálst land og vanhæfni hins venjulega fjölmiðlamanns megi útskýra með óttanum, óttanum við atvinnumissi og jafnvel útskúfun af vinnumarkaði.
Fyrirfram verður ekki trúað að þeir hafi tekið viljandi þátt í lygavefnum. Þá er skömminni skárra að vera algjörlega vanhæfur en lygari.
Greinar þeirra Stefáns og Lárusar hafa verið afgreiddar sem lagatæknileg rök. Ef það stendur sem sagt í lögum að þú megir ekki keyra yfir á rauðu ljósi, þá er það teygjanleg lagatækni. Ef þú ert til dæmis litblindur, máttu þá keyra? Eða ef þú er með rautt hár? Er lögfræðin grein þar sem ekkert er gilt en allt afstætt?
Auðvita ekki. Skýr lög eru skýr lög. En lagaágreiningur getur myndast um mismunandi túlkun ef orðalagið er ekki skýrt eða lög stangast á. Og um lagaágreining fjalla dómstólar. EES samningurinn eins og allir aðrir milliríkjasamningar er með skýr ákvæði um hvernig á að fjalla um lagaágreining. Augljóst er að þegar fyrrverandi utanríkisráðherra gerir grín að "lagatæknilegum atriðum" og kannast ekki við ákvæði síns eigin samnings þá er ljóst að hann var ekki í normal ástandi þegar hann fékk samning sinn samþykktan. Nú eða þá hann er lygari.
Um svona grafalvarlegt mál er engin málamiðlun. Kjósi fólk að fara með rangt mál þá á að nota þau íslensku orð sem lýsa þeim gjörðum.
Og ljóst er að ríkisstjórn Íslands er algjörlega vanhæf og hún brýtur bæði stjórnarskrá landsins og EES samninginn þegar hún neyðir þennan nauðungarsamning upp á þjóðina. Og svo er nauðung bönnuð samkvæmt alþjóðlögum.
Þau eru líka skýr þó ég ætli ekki að googla þau uppi. Treysti á heilbrigða skynsemi fólks að það trúi orðum Björg Thorarensen, forseta lagadeildar Háskóla Íslands.
En Bloggið um lögin kemur hér á eftir og ef tími vinnst til þá mun ég kryfja málflutning helstu borgunarsinna sem dúkkað hafa hér upp á netinu.
Í þessu máli eru staðreyndirnar og lögin með þjóðinni.
Kveðja að austan.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Um bloggið
Ómar Geirsson
Færsluflokkar
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (20.1.): 1
- Sl. sólarhring: 45
- Sl. viku: 1653
- Frá upphafi: 1412767
Annað
- Innlit í dag: 1
- Innlit sl. viku: 1473
- Gestir í dag: 1
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.