Leikhús Fáránleikans.

Átti sitt stóra augnablik þegar vígreifur talsmaður Íraksstjórnar fullyrti í beinni útsendingu á CNN að "there are no american tanks in Bagdad".  Kvikmyndatökumaðurinn brá þá vél sinni yfir á árbakkann hinum meginn og þar sást lest bandaríska skriðdreka.

Steingrímur Joð sló því augnabliki við í sjónvarpsfréttum gærkvöldsins.  Hann sagði að núverandi ríkisstjórn ætlaði ekki að vera sú ríkisstjórn sem velti byrðunum yfir á börn þessa lands.  

Hann telur það sem sagt ekki vera byrðar að þúsundir heimila eru í upplausn vegna gífurlegra fjárhagserfiðleika.  Hann skilur greinilega ekki orð Högna Óskarssonar geðlæknis sem varaði stjórnvöld við að núverandi ástand á Íslandi væri keimlíkt því sem skapaði "Týndu kynslóðina" í Finnlandi.  Hann er búinn að gleyma því þegar hann tók undir orð Sigurbjörgu Árnadóttir sem sagði að"Ástandið í Finnlandi var skelfilegt".  Þá var Steingrímur í stjórnarandstöðu.  Þá taldi hann að þungar byrðar legðust á börn ef fjölskyldur og  heimili flosnuðu upp vegna atvinnuleysis og gjaldþrota.  Honum fannst það ekki sniðug lýsing að börn á grunnskólaaldri hefðu orðið eiturlyfjum og áfengi að bráð.  Börn sem áttu mannvænlega framtíð áður en að kreppan skall á í finnsku fjármálalífi.

Núna er Steingrímur búinn að mynda Vinstristjórn og þá kallar hann mannlegar hörmungar vegna efnahagshrunsins ekki byrðar á börnin.  Honum er svo umhugað að vernda þau að hann hikar ekki við að svipta þúsundir heimila von um hjálp.  Hann telur sig hafa rétt til að velja þá leið, sem Finnar brenndu sig svo illa á, að fórna fjölskyldum en bjarga auðmönnum.  Fjórir auðmenn fengu rúma 2 milljarða í meðlag með rekstri áróðursrits Kvótaeiganda og Fjármagnsbraskara.  Allar fjölskyldur landsins fá  2 milljarða sér til hjálpar í þeirri verstu neyð sem þær hafa staðið frammi fyrir í nútímasögu landsins.  

Þúsundir sjálfstæðra atvinnurekanda sjá ekki fram úr að geta staðið við skuldbindingar sínar.  Við þeim blasir persónulegt gjaldþrot ef bönkunum sýnist svo.  Þeim stendur ekki til boða nein aðstoð að hálfu ríkisvaldsins.  Þó Steingrímur Joð  gangi út frá því að allt þetta fólk sé barnlaust, þá upplýsti sjónvarpið að allavega einn úr þeirra hópi, einstæð 4 barna móðir, sem hafði verið dagmóðir, ætti jú sín 4 börn.  En Steingrímur ætlar ekki heldur að velta byrðum auðmanna yfir á  þá sem lökust hafa kjörin.  Það væri gaman að vita hver staða þeirra einstaklinga er, ef þessi móðir fær ekki aðstoð góðhjartaðra vinstrimanna.  

Eru það kannski einstæðar mæður með 6 börn sem eru að missa húsin sín en hafa samt alltaf geta greitt af lánum sínum, því jú öll úrræði miðast við að fólk sé í skilum með lán sín þegar aðstoð er veitt?  Hvar eru íslenskir rannsóknarblaðamenn?  Hví finna þeir ekki þetta lánsama fólk sem Steingrímur ætlar að hjálpa?  En kannski þarf að tala við Magnús í Sálarrannsóknarfélaginu ef um huldufólk er að ræða.

En allur almenningur, sem þiggur vinnu en veitir hana ekki, og telst því til æðri þjóðfélagsþegna, hann fær hjálp ef hann stendur í skilum.  Og getur borgað af lánum sínum.  En öll hin þúsundin, sem ráða ekki við sín lán, þau geta leitað til dómstóla og fengið greiðsluaðlögun segir Steingrímur.  Það er bæði hollt og gott fyrir börn að tilheyra fjölskyldum, sem geta þurft að bíða vikum eða  jafnvel mánuðum saman að fá úrlausn sinna mála.  Úrlausn, sem einn af talsmönnum VinstriGrænna í málefnahópi um efnahagsmál, Ámundi Loftsson, sagði að "fólk væri eins og fangar á reynslulausn í fimm ár og síðan verða skuldir mögulega felldar niður".  Þetta er það jákvæðasta sem Ámundi gat sagt um aðgerðir Steingríms.  Hvað hefði Ámundi sagt ef fjármálaráðherra hefði verið dýralæknir?

Og við megum aldrei gleyma því þó hýenur nályktarinnar taki undir þau orð viðskiptaráðherra að fólk hefði ekki átt að taka gengistryggð lán, að venjulegt fólk hefur engar aðrar forsendur til að fara eftir á eðlilegum tímum en að treysta orðum ráðamanna sinna, hvort sem er í stjórnmálum, hjá bönkum eða í eftirlitsstofnum fjármálalífsins.  Yfirvofandi hrun banka, krónu eða efnahagslífs var ekki hrópað á torgum fjölmiðla  eða í þingsölum Alþingis.  Eini glæpur hinna verðandi "fanga" vinstrimanna er sá að þetta fólk treysti sínum stjórnvöldum.  Og fyrir þetta traust eru börnin látin blæða.

 

Börnin þurfa ekki að bera byrðarnar!

 

Ef fólk er ekki lamað í hugsun eða þá hreinlega ekki siðblint þá lætur það ekki börn þessa lands bera byrðar efnahagshrunsins.  Hvorugt virðist hrjá fólkið sem skipar málefnahóp VinstriGrænna um efnahagsmál.  Hann leggur til hið óumflýjanlega:

  1. að vaxta og verðbótaútreikningur vegna húsnæðislána verði leiðréttur og hann miðaður við þær aðstæður sem uppi voru fyrir efnahagshrunið.
  2. að lán í erlendri mynt verði færð yfir í íslenskar krónur.   Íbúðalánin verði síðan færð niður sem nemur verðbólgunni sem leiddi af fjárstreymi bankanna inn á fasteignamarkaðinn þannig að höfuðstóll þeirra verði í ekki  í neinum tilfellum hærri en sem nemur tiltekinni hámarksprósentu af fasteignamati.

Svipaðar tillögur og Hagsmunasamtök heimilanna hafa lagt til og fleiri og fleiri.  Í raun allir þeir sem eru hvorki siðblindir eða lamaðir í hugsun.

En kostnaðurinn öskra blóðhýenurnar.  Já kostnaðurinn?'

Hann er ekki blóðfórnir Finna, engin börn, sem sprauta sig í æð fyrir framan nágranna sína, því þau þola ekki sinn innri sársauka.   Við losnum við "Týndu kynslóðina" og allan þann ömurleika sem felst í gjaldþroti og upplausn fjölskyldna.  Og heimili landsins vita að stjórnvöld eru í sama liðinu.  Liðinu sem veðjar á von og framtíð og vill jöfnuð og réttlæti öllum til handa.  

En þetta eru huglæg verðmæti öskra hýenurnar.  Við höfum ekki efni á því að vera ein þjóð.

Þær halda að blóðfórnir kosti ekki neitt í beinhörðum peningum.  Þær halda að ríkir Evrópubúar komi og kaupi upp þær eignir sem bankarnir tóku af fólki, svo tapa bankanna af gjaldþrota stefnunni verði óverulegt.  Þær átta sig ekki á því að vonleysið, sem mun smitast út í samfélagið, þegar fólk áttar sig á að hin boðaða þjóðarsátt vinstristjórnarinnar er sátt sem var hönnuð fyrir banka og auðmenn, að það mun kosta þjóðfélagið beinharða peninga.   Því það er hagfræði heimskunnar að byrja á að fórna stórum hluta þjóðarinnar en krefja síðan alla um samstöðu og stuðning við nauðsynlegar aðgerðir til að forða þjóðarvá í efnahagsmálum.  Hvort sem fólk flýr land eða segir sig úr þeim vistarböndum sem hnýta saman þjóðir, þá mun engin samstaða skapast um eitt eða neitt af því nauðsynlega sem þarf að gera.  

Í því er hinn raunverulegi kostnaður fólginn og þeir peningar sem færu í að gera tillögur félagshyggjufólksins hjá VinstriGrænumn að veruleika, eru smámunir miðað við þann mikla kostnað sem mun falla til á beinan en sérstaklega óbeinan hátt ef ekkert er að gert.

 

Og kostnaður Bjargræðisins er ekki mikill ef hann er látinn falla á langt tímabil.  Kannski um eitt prósent af samneyslu næstu 40 ára.

Og hvort er líklegra að börnin myndu velja ef þau væru spurð?  Mundu þau vilja að kalla yfir sig það hörmungarástand sem leiddi af sér "Týndu kynslóðina" í Finnlandi?  Eða myndu þau kjósa von og mannsæmandi líf öllum til handa?  

Í mínum huga er ekki minnsti vafi hvað börn okkar vildu.  Jafnvel þó 1 % af samneyslu þeirra færi í að borga af ríkisskuldabréfi Bjargræðisins.  

Þeirra draumur er ekki fólginn í eymd og örbrigð þeirra bjargráða sem Steingrímur býður foreldrum þeirra uppá.  Þau vilja bara að lífið haldi áfram og mamma og pabbi ráði við skuldbindingar sínar án þess að fjölskyldan  flosni upp eða lendi á götunni.

Þetta skilja allir nema þeir sem eru staddir í Leikhúsi Fáránleikans.  

Og einnig er þessi afstaða barnanna torskilin þeim sem glíma við siðblindu.

En á þá er aðeins hlustað í Leikhúsi Fáránleikans.  Alls staðar annars staðar væri þetta fólk undir læknishendi eða vistað á viðeigandi stofnunum.

Blóðfórnir eða mannvonska er nefnilega ekki liðin í siðaðra manna samfélögum.  Því er það óskiljanlegt að það skuli vera deilt um Bjargráðin.  

Við eigum að hjálpa öllum sem þurfa á hjálp að halda.  Það má vel vera að það kosti fórnir allra en á neyðartímum er slíkt ekki val.  "Einn fyrir alla og allir fyrir einn" lét Alexander Dumas Skytturnar þrjár orða þessi grunnsannindi siðaðs fólks.

Og tíminn er að renna út áður en fréttir af fyrstu blóðfórnunum verða efni fjölmiðlanna.

Ábyrgð Steingríms er mikil!!

Kveðja að austan.

 

 

 

 

 

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jakobína Ingunn Ólafsdóttir

Ætla að lesa þennan pistil a morgun.

Jakobína Ingunn Ólafsdóttir, 11.5.2009 kl. 02:45

2 Smámynd: Jakobína Ingunn Ólafsdóttir

Takk fyrir pistilinn Ómar. Það sem þú segir er einmitt kjarni málsins. það hefur í raun ekkert breyst frá því haust. Markmiðið er að þjóna útrásarvíkingunum, alþjóðafyrirtækjum, auðmagningu og fjármálakerfinu.

Þannig mun staðan verða meðan þessi klíka í samfylkingunni hefur völdin.

Jakobína Ingunn Ólafsdóttir, 11.5.2009 kl. 14:14

3 Smámynd: Arinbjörn Kúld

Sammála ykkur tveimur. Það býður okkar ekkert annað en bylting.

Arinbjörn Kúld, 12.5.2009 kl. 17:00

4 Smámynd: Ómar Geirsson

Kannski, eða við erum lömb sem þráum að heimsækja sláturhúsið. 

Var ekki Konan í Silfrinu að tala um að stjórnvöld hafi rofið sáttmála milli þegna og ríkis þegar forsendur skuldbindinga fólks voru eyðilagðar af stjórnvöldum.

Hún talaði á ensku, þannig að það er hugsanlegt að kjaftastéttin ranki við sér í tíma.  Svona til að bjarga æru Steingríms.  Annars er hætt við að nafn hans verði skammaryrði eftir nokkur ár.  Þeir sem lofa fögru, en svíkja, hljóta oftast mun þyngri dóma í sögunni en þeir sem þóttust aldrei vera neitt annað en illmenni, eins og t.d Nýfrjálshyggjustrákarnir.

Sjáum hvað setur, en mér leið miklu betur þegar ég var búinn að koma þessum skömmum frá mér.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 12.5.2009 kl. 19:34

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Ómar Geirsson

Höfundur

Ómar Geirsson
Ómar Geirsson
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • Screenshot (49)
  • Screenshot (49)
  • ...img_0104a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 609
  • Sl. sólarhring: 633
  • Sl. viku: 6340
  • Frá upphafi: 1399508

Annað

  • Innlit í dag: 522
  • Innlit sl. viku: 5377
  • Gestir í dag: 478
  • IP-tölur í dag: 472

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband