Niðurstaða kosninganna er skýr.

Þjóðin er ekki ennþá tilbúin að horfast í augun á efnahagskreppunni.

Í vikunni fyrir kosningar mátti lesa t.d þetta á forsíðu Morgunblaðsins, haft eftir Haraldi Benediktssyni, formanni bændasamtakanna.

Ríkisvaldið hefði ekki bent á lausnir fyrir bændur sem ættu í rekstrarerfiðleikum, frekar en aðra sem reka lítil og meðalstór fyrirtæki.

Og eftir aðalfund Samtaka atvinnulífsins á miðvikudag fyrir kosningar þá sagði Þórður Magnússon stjórnarformaður Eyris Invest þetta við blaðamann Morgunblaðsins.

Þórður segir vaxtastigið vera "óskiljanlega hátt" og það geti ekkert annað verið, en að Seðlabanki Íslands skilji ekki hversu alvarleg vandamál skapast af þessu háa vaxtastigi, bæði fyrir heimili og fyrirtæki.  Ekkert réttlæti svo háa vexti og það gefi augaleið að fyrirtæki og heimili þoli ekki vaxtastigið

Og í sömu frétt er þetta haft eftir Þóri Sigfússyni, formanni stjórnar Samtaka atvinnulífsins.

Vextirnir eru alltof háir, það gefur augaleið.  Það er lítil sem engin eftirspurn í hagkerfinu, verðbólgan  á undanhaldi og stíf gjaldeyrishöft til þess að verja gjaldmiðilinn frekara falli.  Það réttlætir ekkert þessa háu vexti.  Það sem nú er orðið mjög alvarlegt er að þau fyrirtæki sem hafa staðið traustum fótum, þrátt fyrir hremmingarnar í vor, eru að lenda í vandræðum í raun vegna þessa fráleita vaxtastigs.

Það er ljóst, að ef þessir talsmenn atvinnulífsins eru ekki samsekir í einhverju samsæri gegn stjórnvöldum til að sverta ástandið, þá er staða atvinnulífsins mjög erfið.  Meginskýring er minnkandi eftirspurn í kreppunni og stóraukinn kostnaður vegna falls krónunnar.  Þar vegur þyngst  það háa vaxtastig sem Seðlabanki Íslands leggur á atvinnulífið til að "skapa stöðugleika" og byggja upp "trúverðugleika  krónunnar".  Seðlabankinn hefur sagt það mikilvægasta markmið sitt að verja krónuna með vaxtamúr svo allt laust fjármagn hverfi ekki úr landi um leið og gjaldeyrishöftunum er afllétt.  Á meðan þurfi atvinnulífið að lifa við þessu háu vexti.  

En skapast einhver stöðugleiki og trúverðugleiki þegar atvinnulífið er í rúst?  Um þetta eru vægast sagt skiptar skoðanir en ljóst er að vandinn er í það minnsta alvarlegur.

 

Og þá er það skuldavandi heimila og fyrirtækja.

Í frétt í Morgunblaðinu 25. apríl segir að "áætlanir gera ráð fyrir að hátt í 75 prósent af lánum gömlu viðskiptabankanna til íslenskra rekstrarfyrirtækja verði afskrifuð"  samkvæmt  minnisblaði ráðgjafarfyrirtækisins Olivers Wymans sem vann úttekt á stöðu bankanna fyrir Fjármálaeftirlitið.  Sigmundur Davíð taldi þetta vera sterka vísbendingu um fyrirsjáanlegt efnahagshrun ef staða atvinnulífsins væri svona bágborin en Gylfi Magnússon bar þetta til baka og sagði stöðuna ekki svona alvarlega.  En hvað alvarlega upplýsti hann ekki.  

Því er ljóst að skuldastaða fyrirtækja er mjög alvarleg.

Og Seðlabanki Íslands hefur unnið skýrslu þar sem fram kemur að allt að helmingur heimila landsins eigi ekki fyrir skuldum sínum.  Gífurlegt atvinnuleysi og fréttir úr atvinnulífinu um lækkun launa starfsmanna benda til þess að mikill fjöldi heimila muni eiga mjög erfitt með að standa í skilum.  Enda hefur megin þungi ríkisstjórnarinnar beinst að því að hindra yfirvofandi greiðsluþrot þeirra.  En lausn stjórnvalda felst í greiðsluaðlögun og framlengingu lána en þau hafa ekki treyst sér í almennar aðgerðir eins og Frystingu verðtryggingarinnar.

Ljóst er að stjórnvöld hafa með aðgerðum sínum náð að koma í veg fyrir greiðslufall almennings og náð að viðhalda þeirri bjartsýni að ástandið geti lagast.  

En er það nóg?  

Jóhanna Vigdís Hjaltadóttir benti talsmönnum ríkisstjórnarinnar á í sjónvarpssal að Hagsmunasamtök heimilanna hefði gefið ríkisstjórninni falleinkunn fyrir aðgerðir sínar í þágu heimilanna.  Í þessu samhengi ber að geta að þessu sömu samtök fögnuðu mjög þegar núverandi ríkisstjórn var mynduð þannig að ef um samsæri er að ræða þá er mjög djúpt á því.  Miklu líklegra er að djúpstæð vonbrigði með aðgerðapakka ríkisstjórnarinnar skýri þessa hörðu umsögn.

Annar aðili sem málið varðar og var líka jákvæður í garð núverandi ríkisstjórnar þegar hún var mynduð, er Ingibjörg Þórðardóttir, formaður félags fasteignasala.  Hún var einn harðasti gagnrýnandi fyrri stjórnar, sem hrökklaðist frá í lok janúar, og sagði að hún hvorki skildi vandann eða hefði nokkuð gert til að takast á við hann.  Og var hún þá að tala um hið alvarlega ástand sem ríkti á fasteignamarkaðnum.  En í sjónvarpsviðtali í vikunni fyrir kosningar sagði Ingibjörg að greiðsluúrræði ríkisstjórnarinnar væru aðeins frestun á vanda sem yrði aðeins illviðráðanlegri með lengingu lána, "lenging á hengingarólinni" sagði Ingibjörg.  Á meðan ekki væri tekist á við skuldavanda heimilanna gerðist ekkert á fasteignamarkaðnum annað en hrun á eignum fólks þannig að æ stærri hópur ætti ekki fyrir skuldum sínum.  Og þeir sem væru í greiðsluerfiðleikum gætu ekki losnað við eignir sínar.

Hvernig sem á málin er litið er ljóst að skuldastaða heimila og fyrirtækja er mjög alvarleg.

 

Og hvað sögðu svo flokkarnir fyrir kosningarnar?

Eini flokksformaður fjórflokkanna sem hafði kjark og þekkingu til að tala um ástandið eins og það blasir við, kolsvart og ískyggilegt, var Sigmundur Davíð framsóknarmaður.  Deila má um framsetningu hans, sérstaklega var það óheppilegt að tengja saman úrræði vegna skulda heimila og fyrirtækja saman í eina niðurfellingu.  Skuldavandi fyrirtækja er miklu flóknari en svo og sem og hitt miklu umdeildara hvernig á að takast á við þau mál.  Skynsamar lausnir flokksins á vanda heimilanna lentu í hártogunum á því að flokkurinn vildi aðeins hjálpa stóreignamönnum.   En Sigmundur benti réttilega á þá staðreynd að án atvinnulífs og fyrirtækja yrði hvorki laun eða velferð.  Og hann átti heiður skilinn fyrir að leita sér aðstoðar þess manns sem mestu og bestu þekkinguna hefur á aðgerðum gegn kreppu, Jóni Daníelssyni, hjá London School of Economist.  Hefði verið hlustað strax á Jón þá væri Ísland ekki í þeirri slæmu stöðu sem við blasir. 

Sjálfstæðisflokkurinn týndi sér í gömlum vinstri Grýlum, skorti kjark til að vinna úr tillögum Tryggva Þórs Herbertssonar.  Flokkurinn toppaði líka allt lýðskrum og vitleysu þegar hann boðaði 20.000 störf í stóriðju og tengdri starfsemi, sem lausn á núverandi efnahagsvanda.  Raunhæfara hefði verið að benda á leiðir til að hindra yfirvofandi greiðsluþrot Landsvirkjunar á næsta ári.

Ríkisstjórnarflokkarnir gerðu líka sitt til að toppa vitleysuna.   Steingrímur Joð fullyrti í sjónvarpinu að ástandið væri að lagast.  Hafði fyrir því tilfinningu sína eftir að hafa talað við kjósendur sína í heila viku.  Jóhanna var hörð á því að lenging lána hjá fólki, sem ætti ekki fyrir skuldum sínum og sæi ekki fram úr þeim, dygði sem lausn á vanda þeirra.

Og svo töluðu bæði Jóhanna og Steingrímur alltaf um 2 milljarðana sína sem lausnina miklu.  Upphæð, sem t.d er sirka 10% af því sem á að setja í að klára Tónlistarhúsið, á sem sagt að hjálpa fólki yfir mestu erfiðleikana.  Það jákvæðasta, sem um þennan málflutning má segja er að til hvers er verið að tala um bráðavanda heimila og það að slá skjaldborg um þau, ef heilir tveir milljarðar duga til að leysa hann?

Einnig er allt tal stjórnarflokkanna um Norrænt velferðarkerfi hjákátlegt í ljósi samstarfs þeirra við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn.  Kæling efnahagslífs, með hávöxtum og og niðurskurði ríkisútgjalda, er leið fjármagnsins út úr efnahagsþrengingum, ekki leið velferðarkerfis.  Lágmarkið er að segja fólki satt um hlutina.

Frjálslyndiflokkurinn reyndi sitt besta við erfiðar aðstæður að bjóða landsmönnum upp á valkost við frjálshyggjuna en honum skorti trúverðugleika eftir veru Jóns Magnússonar í flokknum.  Svo einfalt er það.

Borgarahreyfingin boðaði lýðræði og uppgjör við fortíðina.  Hún tók einnig undir sjónarmið heimilanna um skuldaniðurfellingu og sjónarmið fyrirtækjanna um tafarlausa vaxtarlækkun.  Hún hafnaði í raun samstarfi við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn á þeim grunni sem um var samið í haust.

 

Og niðurstaða kosninganna var skýr.

Flokkarnir sem báru ábyrgð á efnahagshruninu og aðgerðarleysinu í kjölfar þess, fengu samtals 35 þingsæti.  Þess vegna geta þeir myndað nýja stjórn um samstarfið við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn, uppgjöfina í ICEsavedeilunni og aðildarumsókn að Evrópusambandinu.  Meirihluti kjósenda hefur allavega ekkert á móti því sem þessir flokkar gerðu og því sem þeir vilja þjóð sinni.

OG flokkarnir, sem mynda núverandi ríkisstjórn, og hafa það sem grunnforsendu sinnar efnahagsstefnu að hlýða Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, þeir fengu meirihluta upp á 34 þingsæti.  Aðvörunarorð talsmanna atvinnulífsins um alvarlega stöðu mála efnahagslífsins voru hundsuð af þjóðinni.  Hún telur greinilega núverandi efnahagsstefnu virka.

Og Andstaðan fékk um 10% fylgi.  Það var ekki stærri hluti þjóðarinnar sem var ósáttur við hlutskipti sitt.  Restin treysti gömlu flokkunum, með gömlu lausnirnar, fyrir framtíð sinni.

 

Og hvernig verður sú framtíð?

Joseph Stiglitz, nóbelsverðlaunahafi í hagfræði hefur fært fyrir því sterk rök að ofuráherslur Alþjóðagjaldeyrisjóðsins á hækkun vaxta og niðurskurð ríkisútgjalda, sem svar við fjármálakreppu, sé sú leið sem dýpki kreppuna.  Fleiri fyrirtæki verði gjaldþrota, atvinnuleysi miklu meira og allur þróttur efnahagslífsins miklu minni.  Kenningar Stiglitz eru það óumdeildar að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefur sjálfur viðurkennt villur sínar og beðist afsökunar á þeim en síðan hefur hann haldið sínu striki og heyir núna blóðuga baráttu við almenning á Íslandi, Ukraníu og Lettlandi svo einhver lönd séu talin upp þar sem fólk er pínt í nafni Nýfrjálshyggjunnar.

En vandi Íslands er ekki bara fjármálakreppa, heldur líka djúpstæð skuldakreppa.  Bæði atvinnulífið, sveitarfélög og heimili eru alltof skuldsett til að þola mikinn samdrátt og tekjumissi.  Við þessar aðstæður er leið Alþjóðagjaldeyrisjóðsins ekki aðeins vond fyrir efnahagslífið, heldur hreinlega tilræði við sjálfstæði þjóðarinnar.

Virtur bandarískur fræðimaður, Michael Hudsson, sem er einn af leiðandi hagfræðingum heimsins í stríðinu við heimskreppuna, kom til Íslands og benti stjórnvöldum og almenningi mjög kurteislega á að þjóðin gæti ekki staðið við skuldbindingar sínar og ef hún reyndi það þá myndi allt hrynja.  Hann benti líka á að betra væri að semja um skuldir þegar eitthvað væri til að semja um en að reyna það þegar allt er hrunið.  Sú heilbrigða skynsemi að eignarlaus, allslaus maður er ekki í neinni samningsstöðu gagnvart lánardrottnum sínum, gildir líka um þjóðir sagði Hudson.  Ef þjóðin tæki á sig meiri skuldbindingar en hún réði við, þá yrði hún rúin inn að skinni með góðfúslegri aðstoð Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, og þá væri of seint að semja, þegar bæði almannaeigur og auðlyndir væru komnar í eigur lánardrottna og einkafyrirtækja. 

Þó allir hagfræðingar Íslands gætu sameinast í einu sjálfi, þá yrði þeir samt dvergar við hlið þessa fræðimanna.  Að hundsa ráð þeirra og þekkingu er heimskra manna ráð.

Heimskra manna ráð var kosið af meirihluta þjóðarinnar þann 25. apríl síðastliðinn. 

Það var skýr niðurstaða kosninganna.

Kveðja að austan.

 

 

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Ómar Geirsson

Höfundur

Ómar Geirsson
Ómar Geirsson
Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Screenshot (49)
  • Screenshot (49)
  • ...img_0104a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.1.): 0
  • Sl. sólarhring: 12
  • Sl. viku: 202
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 168
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband