Að svíkja þjóð sína í tryggðum

er sérstakt áhugamál margra Íslendinga sem telja að annars komi þeir ekki landinu inní Evrópusambandið.  Álit þeirra á réttarreglum og framkvæmd þeirra innan sambandsins er ekki meira en það

Þetta kom uppí huga minn þegar ég las leiðara Morgunblaðsins frá því á síðasta sunnudag.  Rifjaðist þá upp fyrir mér eldri fyrirsögn úr frétt sem segir að "Ísland mismunar kröfuhöfum".  Og síðan eru rök breta notuð gegn þjóðinni, sem heilagur sannleikur.

Í leiðara Morgunblaðsins segir þetta:

Það hefur til dæmis hleypt illu blóði í hundruð þúsunda manna í ríkjum Evrópu, sem áttu fé á Icesave-reikningum Landsbankans, að stjórnvöld hér hétu íslenzkum viðskiptavinum bankanna fullri innistæðutryggingu, en erlendum viðskiptavinum aðeins lágmarkstryggingunni, sem reglur EES kveða á um.  Það væri glapræði að ætla ekki að standa við þá lágmarkstryggingu, jafnvel þótt regluverkið hafi verið gallað.

Það er langt síðan sem ég hef lesið jafn hnitmiðann texta af rangfærslum og hálfsannleik og hér er að ofan.  Allt hlutir sem leiðarahöfundi er fullkunnugt um en kýs að skauta yfir því æðri markmið stýra penna hans.  Og þau markmið er að koma Íslandi í Evrópusambandi með góðu eða illu.

Í það fyrsta þegar hann segir að regluverkið var gallað þá var það gallað í þeirri merkingu að það lofaði ábyrgð upp að 20.887 Evrur en það gerði ekkert ráð fyrir allsherjar hruni bankakerfisins.  Enginn innlánstryggingasjóður í aðildarlöndum Evrópska efnahagssvæðisins er í stakk búinn að mæta slíku hruni en þeir starfa allir í samræmi við reglur og tilskipanir Evrópusambandsins, þar á meðal sá íslenski. 

Af hverju starfa þeir eftir lögum og reglum?  

Jú það er vegna þess að innan Evrópusambandsins  gilda lög og reglur og eftir þeim þurfa aðildarríkin að fara.  Ef reglur tryggingasjóðs er á skjön við lögin og tilskipanirnar þá grípur framkvæmdaráðið inn í og krefst úrbóta og beitir síðan þvingunarúrræðum til að aðildarríkin fari eftir reglunum.

Engar slíkar athugasemdir voru gerðar af hálfu Evrópusambandsins víð íslenska tryggingasjóðinn enda  uppfyllir hann allar reglur sambandsins.

Í tilskipun Evrópusambandsins nr. 94/19/EB er innistæðutryggingakerfi innlána útfært þannig að aðildarríkjum sambandsins (og þar með Evrópska efnahagssvæðisins) ber að stofna Tryggingarsjóð innistæðueiganda, sem er sjálfseignarstofnun, og lánastofnanirnar sjálfar bera kostnaðinn á við fjármögnun sjóðsins.  Íslenska ríkið uppfyllti skyldur sínar með stofnun þessa sjóðs og ber enga frekari ábyrgð á innlánum bankanna og fari sjóðurinn í þrot þá gilda um hann reglur og lög eins og önnur þrotabú.  Eigi búið ekki fyrir skuldum, þá á það ekki fyrir skuldum.

Um þetta er ekki hægt að deila því það stendur ekkert annað í lögunum.  Hefði ætlunin verið að aðildarríkin bæri ábyrgði umfram innistæður Tryggingasjóðsins, þannig að þær dygðu fyrir þeirri lágmarks innistæðuupphæð, sem sjóðnum væri ætlað að tryggja, þá hefði það verið nefnt í lögum og tilskipunum sambandsins.  Í réttarríkjum verður aðila ekki gert að greiða fjárskuldbindingar eða ábyrgðir ef hann er ekki skyldur til samkvæmt þeim lögum sem vitnað er í.

Þú segir ekki við dómarann þegar þú þarft að standa fyrir máli þínu vegna ölvunaraksturs: "Herra dómari, ég mátti keyra fullur því það hefði getað staðið í lögunum".  En í lögunum stendur að þú mátt ekki keyra fullur.  Orðið "hefði" hefur ekki lagalega merkingu.

Nema hjá ritstjóra Morgunblaðsins.  Það að það standi ekki í lögum Evrópusambandsins að Íslenska þjóðin er ekki í ábyrgð fyrir ICEsave-reikningunum, heldur Tryggingasjóður innlána, kallar hann "gallað regluverk"  Honum finnst að þjóðin eigi að borga.  Ekki hann, hann er hálaunamaður sem stýrir fyrirtæki sem þegar hefur fengið milljarða af ölmusufé ríkisins.  Nei hann vill að sjúkir og aldraðir borgi því peningarnir sem fara til ólöglegrar greiðslna ICEsave, verða teknir af fólki sem má verst við skerðingu sinnar framfærslu.  Hálaunamennirnir sleppa og þess vegna eru þeir uppistaðan í hjörðinni sem öskrar  BORGUM.

Hvað kemur íslensku þjóðinni það við að fólk, sem var það trúgjarnt og gráðugt, að það treysti örbanka frá örríki fyrir sparifé sínu á tímum alþjóðlegrar fjármálakrísu.  Hvað kemur okkur það eiginlega við?  Eigum við þá að borga tap þess?  Ætlar það þá að borga okkar tap?  Það er ekki þannig að tugþúsundir Íslendinga hafi ekki tapað miklu, sumir aleigunni á falli íslensku bankanna.  

Af hverju skrifar leiðarahöfundur Morgunblaðsins ekki um hvernig á að bæta því fólki tap sitt.  Af hverju krefur hann ekki bresk stjórnvöld um það tap?  Samkvæmt hans hundalógík þá voru bresk yfirvöld að mismuna þegar þau komu sérvöldum breskum bönkum til aðstoðar og forðuðu þeim frá gjaldþroti.  Bæði Landsbankinn og Kaupþing voru að falla og þeir störfuðu báðir í Englandi.  Hví var þeim ekki hjálpað?  Er þetta ekki mismunun vegna þjóðernis?

Nei, þetta er ekki mismun í augum íslensks landráðafólks.  Það er bara mismun ef íslensk stjórnvöld grípa til neyðaraðgerða til bjarga sínu bankakerfi.  Um útlendingana gilda allt önnur lögmál því þeir tala útlensku.  Og allt sem þeir segja er rétt og satt og ígildi laga segja þessir sömu landráðamenn.

Í anda þessarar hugsunar sem ég reyndi að orða um þankagang borgunarfólksins þá er lúmskasti áróðurinn og lygin uppá íslensk stjórnvöld það sem kemur fram í þessum orðum:

 ... stjórnvöld hér hétu íslenzkum viðskiptavinum bankanna fullri innistæðutryggingu, en erlendum viðskiptavinum aðeins lágmarkstryggingunni...

Þessi lúmska rangfærsla breta hefur víða farið um Netheima og ítrekað verið haldið fram af fjölmiðlum Evrópusinna og afleiðing þess að lygin er nógu oft endurtekin þá trúir fullt að heiðarlegu og grandvöru fólki þessari staðleysu.

Íslensk stjórnvöld hafa ekki mismunað neinum eftir þjóðerni.  En þeim bar skylda til að hindra hrun bankakerfisins á Íslandi og með neyðarlögunum var það gert.  Íslenska ríkið yfirtók íslenska hluta bankakerfisins og stofnaðu um það nýja banka.  Það er enginn munur á þessu og því þegar bretarnir til dæmis björguðu sínum stórbönkum frá gjaldþroti.   Orðið mismunun er kjaftavaðall sem þjóðir hunsa á neyðartímum.  Þjóðir bjarga sínum fyrirtækjum, ekki fyrirtækjum annarra þjóða. Svona neyðarráðstafanir, í einni eða annarri mynd eru framkvæmdar um alla Evrópu núna í aðdraganda kreppunnar og þegar kreppan er skollin á að fullum þunga þá munu mörg Evrópuríki neyðast til að bjarga sínum bönkum á svipuðum forsendum og íslenska ríkið þurfti að gera.  Við vorum aðeins fyrst til að lenda í hremmingunum.

En íslensku neyðarlögin mismuna ekki eftir þjóðerni.  Að halda því fram er ekki einu sinni rangfærsla, það er meðvituð lygi þess sem heldur fram og mjög sorglegt að sjá slík vinnubrögð í trekk í trekk á Morgunblaðinu.

Íslendingur, búsettur í London, sem átti innistæðu á ICEsave reikningunum, hann fær ekki innlán sín að fullu greidd eins og Morgunblaðið lýgur í leiðara sínum.  Hann fær sömu meðferð og aðrir innlánseigendur. óháð þjóðerni því Tryggingasjóður innlána mismunar ekki eftir þjóðerni.

Breti, búsettur í Hafnarfirði, hann fær öll innlán sín tryggð sem hann á í Sparisjóði Hafnarfjarðar (Byr).  Alveg eins og íslenski nágranni hans.  Breti búsettur í London, en á pening inná íslenskum reikningi í Sparisjóð Hafnarfjarðar, hans peningur þar er líka tryggður.

Menn hafa gert mikið grín að enskukunnáttu Árna Matthíassyni fjármálaráðherra og sagt að Darling hafi ekki skilið Árna.  En hingað til hefur Árni verið talinn kunna að tjá sig á íslensku en það virðist ekki duga ábyrgðarmönnum Morgunblaðsins þegar þeir sí og æ afbaka orð Árna um að neyðarlögin mismuni ekki eftir þjóðerni.

Kannski hefur Árni alltaf talað við blaðamenn Morgunblaðsins á ensku?

En í alvöru talað þá er ömurlegt til þess að hugsa að hátekjumenn á Íslandi eigi þá hugsjón heitazta að  kjör fátæks fólks verði skert niður fyrir hungurmörk svo hægt sé að brjóta lög Evrópusambandsins og stjórnarskrá Íslands í þeim eina tilgangi að þjónka erlendum ofstopa mönnum, sem í krafti stærðar hafa vanist því að valta yfir varnarlausar þjóðir, og styðja þá í hervirkjum þeirra.

Það eru rök að segja að íslensk stjórnvöld neyðist að lúta að kúgun erlendra ofbeldismanna en að segja að við eigum að gera það og hvað þá að okkur beri skylda til þess,

það er landráð.

Kveðja að austan

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Ómar Geirsson

Höfundur

Ómar Geirsson
Ómar Geirsson
Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Screenshot (49)
  • Screenshot (49)
  • ...img_0104a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.1.): 30
  • Sl. sólarhring: 30
  • Sl. viku: 1254
  • Frá upphafi: 1412808

Annað

  • Innlit í dag: 21
  • Innlit sl. viku: 1104
  • Gestir í dag: 20
  • IP-tölur í dag: 20

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband