Þið verðið að henda Alþjóðagjaldeyrissjóðnum úr landi

sagði bandaríski hagfræðingurinn og prófessorinn Michael Hundsson í viðtali við Egil Helgason, í Silfrinu síðasta sunnudag.  Orð í tíma töluð.  Öllum ljóst sem eiga börn og vilja að þau fái sömu tækifæri til lífs og menntunar og foreldrar þeirra fengu.

Kreppan hverfur ekki við þá gjörð en þjóðin eignast von um að henni muni einhvern tíma linna.  Stefna sjóðsins í dag er andstæða allri skynsemi og sett fram í þeim eina tilgangi að gera þjóðina gjaldþrota og eignalausa.  Þá verður eftirleikurinn auðveldur fyrir alþjóðleg stórfyrirtæki að sölsa undir sig auðlyndir landsins.  

Ein stóra ástæða þess að ég byrjaði mitt Andófsblogg var sú að mér var strax ljóst að stefna sjóðsins væri stefna hörmungar og fátæktar fyrir íslenskan almenning þó einhverjir auðmenn og Leppar þeirra myndu hagnast á þjáningum þjóðar sinnar.  Fyrir nokkrum vikum síðan átti ég þetta innslag hjá Birni Inga þar sem ég skoraði á hann að stíga skrefið til fulls og gagnrýna gjörandann en ekki endalaust mennina sem framfylgdu stefnu sjóðsins.  Sjóðurinn kemst nefnilega upp með illvirki sín því hann er álitin heilög kú hér á landi og talið guðlast að hjóla í hann.  En ég vona að orð og málflutningur Michaels Hudson breyti því.

En hér er mín stemma:

Blessaður Björn Ingi.

Það tók þig 2 mánuði að viðurkenna að orðagjálfrið sem var kallað björgunarpakki fyrirtækja, var bara einskisnýtt kjaftæði, sem kom engum að gagni. Enda voru atvinnurekendur og ASÍ búnir að fá nóg af aðgerðarleysi ríkisstjórnarinnar um miðjan janúar.

Vertu núna heiðarlegur og komdu útúr skápnum. Þjóðin þarf forystu, ekki meðvirkni. Grunnforsenda aðstoðar IFM er ICEsave skuldabagginn, (700 milljarðar segir Sigurður Kári). Hvernig er fé afgangs til að hjálpa fólki og reka velferðarkerfið á meðan við greiðum vexti og afborganir af þessum fjármunum. Þú notar aðeins sömu krónuna einu sinni. Forsenda númer tvö er geipihátt vaxtastig fyrir eigendur Krónubréfanna. Friðrik prófessor og ráðgjafi IFM viðurkenndi þetta núna í síðustu viku í viðtali við Morgunblaðið. Flest heimili og fyrirtæki eru mjög skuldsett (eins og er oftast í lok bólu), þau standa ekki undir þessum vöxtum. Á ég að vitna í Eddu Rósu frá 28.okt í viðtali í Fréttablaðinu. Þar segir hún: “…en skili markmið um eflingu krónunnar sér, hjálpi það fyrirtækjunum, svo framarlega sem þau haldi lífi”. Já, hvernig geta þau lifað af svona háa vexti? Gefa eftir skuldir? En þá er komið að öðrum skilmálum IFM eins og jafnvægi í ríkisfjármálum og eiginfjárstöðu bankanna. Þetta er dilemma sem engin leið er út úr. Þú getur trúað skottulækni sem segir þér að mikil inntaka af arseniki lagi liðagigt þína en það breytir því ekki að þú deyrð af meðferðinni.

Þeir segja að þetta sé gert til að endurreisa trúverðugleika krónunnar og skapa stöðugleika. Til hvers? Dautt hagkerfi notar ekki gjaldmiðil og sá hluti þjóðarinnar sem hefur lappir verður farinn. Ríkissjóður verður gjaldþrota sökum greiðslufalls heimila og fyrirtækja.

Já, en við þurfum erlendar fjárfestingar. Við sem fengum þær ekki í góðærinu, sem neinu nemur, eigum að trúa því, að þær komi í kreppunni, í miðri heimskreppu, sem enginn sér fyrir endann á. Er hægt að bulla meira?

Jú, honum Vilhjálmi Egilssyni, “trúverðugleikapostula” tókst það, þegar hann sagði, að við verðum að gefa bankana svo erlendu bankarnir fari að lána stórfyrirtækjum okkar aftur. Í fyrsta lagi þá gátu þessi fyrirtæki ekki borgað lánin sín í góðærinu en þau eiga að geta það núna í kreppunni þegar öll viðskipti hafa stórdregist saman. Þvílík rökleysa, að útlendingarnir, nýbúnir að tapa stórfé, vilji lána sömu fyrirtækjum aftur, þegar þau eiga ekki fyrir skuldum sínum. En látum þessa heimsku vera, hefur maðurinn ekki fylgst með erlendum fréttum. Á heimaslóðum þessara banka, er atvinnulífið að blæða út, vegna þess að bankarnir eru hættir að nýlána og þjónusta illa daglega starfsemi. Sjá t.d. fréttir frá Bretlandi og þetta er að byrja í Þýskalandi. Svo vogar Vilhjálmur sér að reyna að telja þjóð sinni í trú, að hún eigi að sætta sig við afarkosti IFM því þá muni útlensku bankarnir lána aftur til Íslands. OG ÞEIR LÁNA EKKI HEIMA HJÁ SÉR. Af hverju ættu þeir þá að lána til Íslands? Er hægt að bulla meira??

Og þriðja forsenda IFM er afskiptaleysi af afleiðingum forsendna 1 og 2. Þeir sem ekki geta borgað skuldir sínar, eiga að fara á hausinn. Þannig virkar frjálshyggja IFM. Ef þú styður aðstoð IFM, hvað ertu þá að kvarta?

Þú veist það jafn vel og ég að efnahagsástandið er miklu alvarlega en svo að smáskammtalækningarnar, sem getið er um í stjórnarsáttmálanum, hafa ekkert að segja til að hindra fyrirsjáanlegt hrun. Gættu að því að útflutningstekjur okkar munu dragast saman um alltaf 50% í erlendri mynt á þessu ári. Það eitt og sér myndi valda harkalegum samdrætti í þjóðarbúskapnum. Þegar bankahrunið og allt hitt bætist ofan á, þá lifir þjóðin þetta ekki af NEMA FÓLK KOMI ÚTÚR SKÁPNUM og segi hingað og ekki lengra.

Það er ekki nóg að biðja um IFM en gagnrýna svo allt sem frá honum kemur. Færa fyrir því sterk rök eins og þú gerir í pistli þínum að allt sé að hrynja. Það er ekki bæði sleppt og haldið. Og það er of seint að iðrast í sumar. Þá er þinn tími liðinn og allra þeirra sem gátu en gerðu ekki neitt til að reyna að hindra hörmungarnar. Hörmungar sem eru af mannavöldum, hörmungar, sem eru af völdum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Því það er hann sem meinar okkur bjargirnar. Þú rífst ekki á strandstað, um hver strandaði skipinu. Þú reynir að sleppa lifandi í land. Ef þér er meinað að skjóta út líflínu sökum trúarbragða erlendra illmenna í óboðnu björgunarskip, þá slærðu þau köld og bjargar þér og þínum.

Ef þú ert fjölskyldumaður Björn Ingi, þá er tímabært að þú takir afstöðu. Barnanna okkar vegna.
Kveðja að austan.

Það þurfa fleiri að fara koma út úr skápnum en hommarnir. Fernisúlfur illskunnar er auðveldari viðureignar núna er hann situr við veisluborðið, albúinn til að gleypa þjóðina en þegar hann hefur lokið málsverð sínum.  

Þá getur verið of seint að iðrast skápalífsins.

Kveðja að austan.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hilmar Gunnlaugsson

Já IMF lánið er sannarlega umdeilt. Góður pistill eins og iðulega hjá þér Ómar minn.

Hilmar Gunnlaugsson, 7.4.2009 kl. 20:49

2 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Hilmar.

Þú sást fréttirnar í dag.  Eina réttlæting þessa háa vaxta, hinn meinti gengisstöðugleiki, er brostin.  Ástæða; það er verið að borga úr vexti til eiganda krónubréfanna.  Öflum ekki nægs gjaldeyris á móti.  Hvað gerist þá?  Jú gengið fellur.  

En ef vextirnir væru 4 % þá væri þessi vandi ekki svona mikill og gengið miklu stöðugra.  Bæði lægri vaxtagreiðslur og ekki hvað síst þá væri ekki eins sterkur hvati fyrir fiskútflytjendur að losa sig strax við fiskinn.  Hvort sem viðkemur frekari vinnslu eða meiri styrk til að standast verðþrýsting niður á við.  Það þarf jú að fjármagna allar birgðir á hæstu vöxtum í heimi.

Og fyrst að krónan þolir ekki krónubréfin, hvernig verður ástandið þegar vextirnir af ICesave koma inn í dæmið og vextirnir af IFM láninu sem svo enginn þykist ætla að nota en öllum fyrst svo mikilvægt að eiga á lager til að skerða lífskjör þjóðarinnar því þú notar ekki þessa peninga tvisvar, fjármagna nauðsynlegan innflutning og borga vexti með sama pundinu.

Fólk á eftir að verða fyrir miklum vonbrigðum með boðaðar vaxtahækkanir því þrýstingur á krónuna niður á við er óbærilegur fyrir hana með allar þessar erlendu afborganir.

Vilji fólk alvöru efnahagsstjórn þá er nr 1 að stöðva allar erlendar afborganir og vaxtagreiðslur af spáfé og nota þann pening sem sparast til að skjóta einhverjum stoðum undir nýsköpun.  Og svo lækka vexti.

En til þessa þarf að reka IFM úr landi.  Það skiptir engu máli þó aðrar þjóðir hætti við allar lánveitingar til okkar.  Við höfum ekki efni á að borga þeim til baka.  En ég gæti trúað að erlendir bankar yrðu auðveldari viðfangs því þeir treysta á það í dag að IFM þvingi Íslendinga að ganga að kröfum þeirra.  Öll endurfjármögnun ætti að vera auðveldari því ef þeir vilja ekki semja á hagstæðum kjörum þá Ísland engan pening  til að borga þeim af lánunum.  Það er beggja hagur að niðurstaðan sé hagstæð báðum aðilum en IFM er sérhæft í að tryggja hag hins alþjóðlega fjármálakerfis.  

En þá er spurt hvort þetta eyðileggi ekki öll ný lán og erlendar fjárfestingar.  Því er til að svara að það er ekki hægt að eyðileggja það sem ekki er til.  Okkur bjóðast engin ný lán og hvað fjárfestingu erlendra aðila eru menn að tala um.  Þessi svokallaða fjárfesting á góðæristímanum var öll í formi spáfés eða ríkisstyrkta stóriðjuframkvæmda.  Og ef betur árar í álheiminum þá er álfurstunum alveg sama hvort við gefum IFM að éta eða ekki.  Þeir spyrja um tvennt.  Skatta og raforkuverð.  

Að halda öðru fram er blekkingar eða fáviska.  Miðað við svipinn á mörgum hagfræðingnum sem grætur erlendar fjárfestingar þá virðist það vera að þeir trúi sjálfum sér þannig að þetta er orðin dálítil spurning um "trúverðugleika" þeirra.  Hvernig er hægt að taka mark á fólki sem trúir á bábiljur?

Eins og t.d þá að vöxtur geti varað endalaust og því sé skuldsetning til tunglsins í góðu lagi.

Ég get ekki að því gert að mér finnst þetta fólk hafa minni trúverðugleika en krónan. En það er önnur saga.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 8.4.2009 kl. 00:02

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Ómar Geirsson

Höfundur

Ómar Geirsson
Ómar Geirsson
Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Screenshot (49)
  • Screenshot (49)
  • ...img_0104a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.1.): 29
  • Sl. sólarhring: 29
  • Sl. viku: 1253
  • Frá upphafi: 1412807

Annað

  • Innlit í dag: 20
  • Innlit sl. viku: 1103
  • Gestir í dag: 19
  • IP-tölur í dag: 19

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband