3.4.2009 | 19:32
Það þarf að lækka laun en það er ekki sama hvernig farið er að því.
Einhliða ákvarðanir, vissulega teknar af brýnni þörf en án samráðs við starfsmenn eru rangar ákvarðanir. Þær vekja upp andstöðu og deilur og skaða það samstarf sem þarf að vera til staðar í framtíðinni.
Því þetta er aðeins byrjunin.
Félagshyggjustjórn Íslands hefur ákveðið að stöðva allt efnahagslíf landsins. Okurvextirnir og boðaðar skattahækkanir munu draga það mikinn þrótt úr atvinnulífinu og heimilum landsins að hið skuldsetta kerfi mun hrynja.
Ekkert getur hindrað að bankarnir falli aftur þegar skuldirnar byrja að falla og falla.
Fyrirtæki sem eru þvinguð til að greiða stóran hluta tekna sinna í vexti, þau greiða ekki laun. Eina ráðið til að endar nái saman eru stórfelldar uppsagnir og atvinnulaust fólk greiðir ekki skatta og það greiðir ekki af launum sínum.
Vítahringur gjaldþrota og atvinnuleysis sem hagfræðingarnir Gylfi Zöega og Jón Daníelsson vöruðu við, er þegar byrjaður að spinnast af fullum þunga. Og hann verður seint stöðvaður þegar spinningin er komin á fullt.
Með auknum gjaldþrotum og minnkandi skatttekjum þarf að skera ennþá meira niður hjá hinu opinbera. Fólk þarf að sætta sig við launlækkanir og ekki víst að það dugi til að það haldi atvinnu sinni.
En ef grunnþjónusta á að haldast þá þarf samvinnu allra aðila.
Hvernig er hægt að verja grunnþjónustuna á að spyrja, ekki bara stjórnendur heldur líka almennt starfsfólk.
Neyðartímar krefjast neyðarlausna.
Það er ekki víst að það dugi að reka Alþjóðagjaldeyrissjóðinn úr landi og taka upp nýja stjórnarhætti félagshyggju og réttlætis.
Það þarf líka fólk við stjórnvölin sem skilur inntak slíkra hluta.
Skyldi Kári geta klónað svona 50 eintök af Ögmundi? Hann virðist einn vera hæfur til verksins af því liði sem núna stjórnar Íslandi.
Kveðja að austan.
Mótmæla kjaraskerðingu hjá Reykjavíkurborg | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Um bloggið
Ómar Geirsson
Færsluflokkar
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 2
- Sl. sólarhring: 30
- Sl. viku: 448
- Frá upphafi: 1412810
Annað
- Innlit í dag: 2
- Innlit sl. viku: 387
- Gestir í dag: 2
- IP-tölur í dag: 2
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Blessaður Ómar. Góð pæling. Akureyrarbær sér nú fram á 300 milljónasamdrátt á þessu ári og 450 milljóna á því næsta. Bærinn fer þó mildilega leið og býður starfsmönnum sínum upp á einn launalausan frídag á mánuði svo ekki þurfi að grípa til uppsagna. Á næsta ári verða þeir því 2-4 launalausir frí dagar á mánuði því bærinn vanáætlar líklega tekjumissinn á næsta ári.
Þetta er að gefa okkur forsmekkin af því sem koma skal. Lækkanid laun þýða að minna verður eftir til að greiða reikninga, minna til að eyða í mat, föt og aðrar nauðsynjar. Spírall/vítahringur sem, eins og þú segir verður erfitt ef ekki ómögulegt að stöðva. Ég eins og þú hef áður bent á að neyðartímar kalla á neyðarlausnir. Lausnir sem engin hefur heyrt talað um jafnvel. Í dag tala menn í gömlum lausnum sem kom berlega í ljós í leiðtogaþættinum á bláskjá í kvöld. Nema hjá Þóri Saari. Hann ræddi um leiðréttingu og réttlæti, mennsku. Nokkuð sem hinir gerðu ekki. Ég hef það á tilfinningunni Ómar að fólk sé ekki alveg tilbúið til að kaupa mennskuna - ennþá. Það kemur að því þegar mannlegu harmleikirnir fara af stað. Mér finnst ekki líklegt að það náist á þessu ári eða í þessum kosningum að ná flokkum og fólki samaní sameiginlegt átak. Það verður ekki fyrr en þjóðin fær eitthvert réttlæti til dæmis með málsóknum á þessi útrásartröll og leiðréttingu skulda.
Ég hef það líka á tilfinningunni Ómar að ég og þú séum að bræða og þróa með okkur svipaðar lausnir! Þær eru að malla í gráa efninu og ennþá of byltingarkenndar til að þær séu hæfar til opinberunar. Þú leiðréttir mig fari ég með fleipur.
kveðja að norðan
Arinbjörn Kúld, 3.4.2009 kl. 23:10
Sæll og takk fyrir pistilinn. Það ver gerð fjármálaárás á Ísland og landið er í rústum. það þarf að finna leið til þess að komast upp úr þessum rústum án þess að lenda í klónum á lénsherrum.
Jakobína Ingunn Ólafsdóttir, 4.4.2009 kl. 21:07
Já, Jakobína og Ómar, ég er í losti eftir að hafa lesið þessa grein. Hrollvekjandi ef satt er. Fjöldahandtökur og húsleitir fáum við þá aðsjá bráðlega ef satt er og hægt að sýna fram á með gönum og upplýsingum. Ævilangt fangelsi býður þá þessara manna íslensku. Eini gallinn er að aðeins dómsmálaráðherra getur ákært fyrir landráð og brot gegn stjórnskipan landsins sem þetta er án alls vafa lengur.
kveðja að norðan
Arinbjörn Kúld, 4.4.2009 kl. 22:40
Nákvæmlega Jakobína, nákvæmlega.
En ég kíkti að eins við fyrir svefninn Arinbjörn.
Það fyrsta sem mér datt í hug var: Úpss, var eitthvað sem ég sagði sem olli þínum orðum. Ég er allavega saklaus. En ég ætla að vakna semma í fyrramálið og festa á blað hugleiðingar mínar um mennskuna og þann hugsunarhátt sem ég tel að sé eina lausnin.
Því draumfarir mínar eru dökkar og mér líst ekki alveg á þetta. En ég ætla að skjóta á þetta pistil handa þér Arinbjörn í athugasemdadálknum hér á eftir. Útskýra aðeins mínar forsendur og heimspeki. Tíminn mun skera úr um hvort ég er sannspár eða ekki en vona samt ekki.
Heyrumst.
Ómar
Ómar Geirsson, 5.4.2009 kl. 00:04
Blessaður aftur Arinbjörn.
Búinn að klára pistil dagsins og ætla núna að taka upp umræðuna um Borgarahreyfinguna og mína sýn á vandann.
Það er rétt hjá þér að margt svipað er að gerjast í kollinum á okkur í Andstöðunni. En það er áherslumunur sem gefur að skilja og þá kannski helst vegna þess að við skynjum vandann á mismunandi hátt.
Ég tel t.d að við séum ekki bara að glíma við Kreppu á Íslandi eða einhverjar venjulega heimskreppu. Málin eru miklu flóknari og eðli vandans miklu dýpri.
Það heimsskipulag og sú hugmyndafræði sem hefur ríkt síðustu áratugina, er komið á endastöð. Þó kreppa fjármálakerfisins hefði ekki komið til þá var og er rányrkjan á auðlyndum, náttúru og fólki komið á endastöð. Hvorki náttúran eða almenningur hinna fátækari landa þolir meira.
Og verði ekki breyting á þá eru miklar hörmungar framundan. Í gegnum aldirnar hafa forspáir menn haft að þessu miklar áhyggjur. Og í dag eru goðsagnirnar að rætast. Eða munu rætast ef við Vesturlandabúar látum eins og það sé allt í lagi.
Ef við Frystum ekki verðtrygginguna þá munum við enda fyrr en varir í miðjum Hávamálum. Bræður mun berjast og að bönum verðast. Vargöld, vígöld, skálmöld mun verða hlutskipti þjóðarinnar.
Að hafna réttlæti og mannúð er ekkert grín. Taki menn ekki mark á goðsögnum þá eiga menn að vinna í þeim anda að þær rætist ekki. Það er okkar vilji sem mótar framtíðina.
En það er ekki nóga að við Íslendingar segjum hingað og ekki lengra. Ógnaröfl eru að losna úr læðingi útí hinum stóra heimi. Geta mannsins til að eyða sjálfum sér er komin á það stig að hann hefur ekki lengur efni á hatri og sundrungu, hvað þá félagslegu óréttlæti, misskiptingu auðs eða ömurleika fátæktarinnar eða örbirgðarinnar.
Og Náttúran er að rumska. Hún kann ekki lengur við félagsskap mannsins. Hún hótar okkur hörmungum ef við hættum ekki rányrkju okkar á auðlyndum og gæðum hennar eins og vatni og lofti
En þetta er samt smámál. Mikil illska hefur skotið rótum í sálum manna. Birtingarmynd hennar til dæmis siðleysi og mannhatur Nýfrjálshyggjunnar og firring okkar gagnvart hlutskiptum annarra. En hún er samt eitthvað miklu djúpstæðari en það. Drengurinn sem skaut skólasystur sínar til bana í Þýskalandi, hann var ekki ráðsmaður sinnar sálar. Eitthvað djúpstæðara afl stóð þar að baki. Ómennskan er algjör. Þetta var hreinræktuð illska í sinni tærustu mynd og það skelfir mig.
Hingað til þá hefur hún verið bundin við kerfi og hugmyndaheim eins og t.d blóðfórnir Azteka eða útrýmingarbúðir Nasista. En núna bilast venjulegt fólk, að upplagi gott fólk, og það fremur hin hryllilegustu ódæði.
Og svona illska lætur ekki staðar numið í svona "smotterí". Hún fær fólk til að sprengja sprengjur í miðri mannþröng og hún krefst ætíð meiri fórnarlamba. Og þær sprengjur sem eru til ráðstöfunar eru stórar og geta drepið milljónir, ef ekki milljarða.
Og hvað gera venjulegir feður á Íslandi þá. Þeir byrja blogga og tala um mannúð og mennsku. Fyrirgefningu í stað haturs og þeir benda á að við erum ekki eyland. Örlög mannkyns er samofin og aðeins nýr hugsunarháttur vinnur gegn illskunni. Við teflum fram hinu góða á móti hinu illa. Verjum sakleysi barnsins og rétt þess til mannsæmandi lífs. Allra barna. Hvort sem þau eru svört eða gul, einhverf eða ofvirk. Sjúk eða fötluð.
Og mannúð og kærleikur eru ekki lengur einkamál trúarbragðanna. Þetta er bláköld hagfræði sem snýr að grunnforsendu alls lífs. Og það er hvötin til að lifa af.
Og barátta okkar hér á Íslandi er samofin baráttu allra, um allan heim, sem vilja betra og réttlátara mannlíf.
Þess vegna eyði ég ekki kröfum mínum í að ná mér niður á auðmönnum og leppum þeirra. Ég vil sjálft kerfið, græðgina og siðleysið í burt. Flækist þeir fyrir þá gerir maður þá óvirka en annars heiðra ég þá ekki með því að telja þá einhvern geranda í hrunadansinum. Og það hvarflar ekki að mér að láta baráttuna fyrir betri heimi stöðvast í skotgröfum bræðravíga og hefndaruppgjöra. Tel mig stærri en það.
Ég var sá lánsamur að þegar ég fermdist þá sendi þjóðkirkjan austur, gamla prest, Séra Jón Kr. Ísfeld, mikilmenni sem hafði varanleg áhrif á mig.
Hann kenndi mér ýmislegt um gildi "hagfræðikenninga" Meistarans frá Nasaret og sérstaklega er mér minnisstætt dýpri gildi þeirrar speki að "það sem þú vilt að aðrir menn þér gjöri, það skalt þú þeim gjöra"
Ég vil t.d ekki að börn mín alist upp við örbirgð og allsleysi fátæktarhverfa þriðja heimsins. Og ég vil ekki að synir mínir séu teknir og handjárnaðir og settir í gæsluvarðhald fyrir að gera það sem kerfið ætlaðist til að þeir gerðu.
Já segið þið i Borgarahreyfingunni, útrásarvíkingarnir brutu lög og þjóðin krefst réttlætis. Vissulega allt rétt og lögin eiga að hafa sinn gang. En þegar lagabrotin eru svona djúpstæð og svo margir tengjast þeim, þá höfum við ekki efni á hefðbundnum lausnum.
Eitthvað stærra og mennskara þarf að koma til. Og við megum aldrei gleyma því hver er óvinurinn. Fallnir útrásarvíkingar eru það ekki lengur. Þeir voru það. Pólverjar svöruðu ekki árás Þjóðverja með því að taka upp baráttuna við Mongóla frá 13.öld. Sú ógn og orrusta var liðin.
Eins er það með hina föllnu. Þeir eru fallnir. En sporgöngumenn þeirra eru að endurreisa hið gamla kerfi og gegn þeim á baráttan að beinast. Að berjast við rangan aðila er sóun á kröftum og það er ekki eins og við í Andstöðunni höfum nóg af þeim.
Og ef við ætlum að hafa þennan kraft, þá verðum við að tileinka okkur nýja hugsun.
Frá okkur á að stafa ljómi mannúðar og mennsku.
Og þá kem ég að því sem ég sagði hér að framan um að gera öðrum það sem maður vill sjálfur að manni sé gert. Og kafa aðeins dýpra í þá speki.
Það er rétt að þeirra glæpir eru ekki okkar glæpir en afleiðingarnar eru okkar. En hvernig ætlar þú að hindra svona glæpi í framtíðinni?
Það sem maður vill ekki að aðrir gjöri, það gerir maður ekki sjálfur. En það sem maður vill að aðrir gjöri, það gerir maður fyrst sjálfur. Vilji maður mennsku og mannúð, þá byrjar maður sjálfur að sýna mennsku og mannúð í þeirri von að fleiri taki upp þá háttu.
Hefnd og mannúð rýmast ekki innan sömu hreyfingar. Það er annað hvort. Þú sparkar ekki í liggjandi menn. Þú níðist ekki á fjölskyldum þeirra. Þú sýnir þeim villu síns vegar með því að kenna þeim hvað þú hefðir gert ef þú hefðir verið í þeirra sporum.
Þú gerir það sem þú vilt að aðrir menn gjöri.
Og þá getur þú hámarkað þá orku sem þarf til að knésetja það kerfi mannvonsku og siðspillingu, sem engu hefur eirt fram að þessu.
Um það snýst hin raunveruleg barátta.
Og ég held áfram í kvöld að ræða mennsku og mannúð. Konan kallar og vill mitt framlag til heimilisins.
Bið að heilsa.
Ómar.
Ómar Geirsson, 5.4.2009 kl. 10:32
Blessaður Arinbjörn.
Svona til að byrja með þá skilst mér að einhver útlendingur hafi verið að lesa upp úr blogginu mínu um Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. T.d blogginu frá 16.03 þar sem ég benti á það sem Flanagan missti úr úr sér. "Þið eigið eigur á móti".
Manstu eftir undirtektum á netinu á þessar greinar? Hefur Borgarahreyfingin tekið undir þessi sjónarmið og látið einhverja stuðningsmenn sína fylgja þessu eftir með blaðagreinum?
Nei. Fyrir utan þig þá virðist áhugi Borgarhreyfingarinnar leita töluvert í það sem ég var að gagnrýna sem fortíðarhjal. Þið bjargið ekki börnunum okkar með því. Á meðan menn ræða um handjárn og gæsluvarðhald þá blogga menn eins og ég fyrir tómu húsi þegar ég bendi á þá staðreynd að NÚNA er verið að selja börnin okkar.
Þetta er kannski kjarni þess af hverju ég er ekki í Borgarahreyfingunni. Hún skynjar ekki ennþá sinn vitjunartíma. Áttar sig ekki á sínu sögulega hlutverki.
En höldum áfram með uppgjörið. Að mínum dómi eiga lögin og rannsóknarnefndirnar að hafa sinn gang. Og flokkarnir eiga að fjalla um framtíðina.
Það er mennska og mannúð að fyrirgefa en á örlagatímum er það líka blákalt hagsmunamat. Spurðu þig nokkrar spurningar.
Hvort telur þú það skipta meira máli að Magnúsi Ármannssyni verði gefið frítt að éta, núna þegar hann er eignarlaus maður, á kostnað ríkisins á meðan "ofsóknir á hendur honum og fjölskyldu hans" (vitna í framtíðarblogg Sigurðar Jónssonar) tryggja guðföður sparisjóðsránsins ráðherradóm?
Finnst þér það góður vegvísir fyrir nýtt og réttlátt þjóðfélag að það logi allt í illdeilum um réttarmorð og ofríki. Hvort sem okkar líkar það betur eða verr þá var útrásin eftir því kerfi sem næstum því full sátt var um og eina rifrildið var um hvernig átti að skipta gróðanum. En það virtust mjög fáir efast um græðiskapítalismann sjálfan.
Hvort viltu hengja kerfið sjálft eða þjóna þess?
Þetta er lykilspurning og í mínum huga má ekkert koma í veg fyrir það að sjálft kerfið sé hengt. Get nefnt þér tvö mjög góð söguleg dæmi um það sem ég er að reyna að segja.
Það fyrra er niðurstaða Enrons hneykslisins fyrir bandarískt viðskiptalíf. Hún var nákvæmlega engin því eftir Enron dómana, brugðust stórfyrirtækin þannig við að þau efldu lögfræðingahjarðir sínar. Og lobbuðu meira til að sveigja lög sér í vil. Enda hrundið kerfið skömmu seinna. Ef áherslurnar hefðu verið á að læra og fá viðskiptalífið í samvinnu t.d með Mandela leiðinni, þ.e sakauppgjöf fyrir upplýsingar þá væri Ísland kannski ekki gjaldþrota.
Og svo er það stóra spurning sjálfrar heimssögunnar. Hvernig væri heimurinn í dag ef samsærisöflin í Bandaríkjunum sem létu skjóta Kenedyana og King, hefðu verið hundelt og krossfest í stað þess að höndin, þ.e. leigumorðingjarnir sjálfir voru teknir? Það eru skuggaöflin á bak við misgjörðirnar sem skipta máli. Ekki þeir sem eru sýnileg birtingarmynd. Og skuggaöflin fórna miskunnarlaust peðum fyrir lýðinn og þau óttast aðeins eitt og það er kerfisuppgjör.
Og að því ber að stefna.
Hver er reynslan úr kreppunni miklu? Þeir sem voru áberandi og spiluðu hátt, þeir féllu í hrunadansinum en í kjölfarið komu þeir sem í raun stjórnuðu og réðu kerfinu og þessi öfl keyptu eigur gjaldþrota fyrirtækja og auðjöfra fyrir slikk. Og í dag bætast við eigur almennings sem falla til græðgisaflana því á meðan fólk berst við vindmyllur, hvort sem þær heita Sigurður eða Hreiðar, Ólafur eða Finnur. Lýður eða Ágúst, þá er hið gamla kerfi auðmanna endurreist. Og börnin okkar seld.
Mannúð og mennska er teflonbrynja riddara réttlætisins sem vilja berjast við drekann ógurlega (Sjálfstæðisflokkinn) og í kjölfarið fella hinn marghöfða þurs græðgi, siðblindu og sjálftöku.
Þráinn er fastur í einhverju spillingartali. Spilling er fylgifiskur mannlegar hegðunar og það var ekki spilling sem felldi Ísland. Það var GRÆÐGI. Þráinn talar um uppgjör en samt er allt það sem ég segi eins og skrifað úr hans mennsku. Ég er lítið að segja annað en það sem Þráinn sagði í Himnafleyjum sínum. Og boðskapur Þráins á einmitt við núna þegar sjálf mennskan er í húfi og framtíð barna okkar.
Borgarahreyfingin á að segja tvennt. Lög gilda og eftir þeim á að fara. Til þess þarf hæft fólk til að framfylgja og rannsaka. Og við viljum sátt. Sátt um framtíð barna okkar. Nýtt, betra þjóðfélag þar sem við höfum lært af reynslu fortíðar og þjóðfélag sem er hæft til að takast á við þá ólgutíma sem eru framundan í heiminum. Við þurfum að vera græn og sjálfbær og okkur á að þykja vænt um hvort annað. Við erum svo fá að við höfum ekki efni á öðru.
Í þágu framtíðar, fyrirgefum við fortíðina. Hún er búin og gerð. Við viljum hinsvegar ekki að hún endurtaki sig.
Þess vegna vill Borgarahreyfingin leið sátta og sannleikar. Gerendur hrunsins gera upp sínar gjörðir og ef um ólöglegt athæfi er að ræða þá gjalda þeir samfélaginu þær eigur sem þeir eignuðust með sinni lögleysu. Um annað ólöglegt athæfi gildir eitt og aðeins eitt.
Sannleikurinn gjörir yður frjálsan.
Og ef þið viljið taka þátt í uppbyggingunni með þjóð ykkar þá sýnið þið iðrun ykkar í verki með jákvæðum stuðningi og verknaði eftir því sem þið hafið tök á.
Annars megið þið eiga ykkur en látið okkur í friði. Öll niðurrifsstarfsemi verður ekki liðinn. Tími lögfræðingahjarðar gráa svæðisins er liðin. Og kemur aldrei aftur á meðan Borgarahreyfingin fær einhverju ráðið.
Arinbjörn. Ef þið fattið þessi einföldu, en fornu sannindi eins og Mandela gerði á sínum tíma og bjargaði Suður Afríku frá miklum hörmungum og blóðbaði, þá er ykkar sérstaða komin. Og sá hópur sem vill eitthvað betra fyrir börn sín og barnabörn mun kjósa ykkur.
Og það er ekki 3-5% þjóðarinnar. Í fyrstu atrennu er það 25-35% þjóðarinnar.
En handjárnin tryggja ykkur 5%. Hef lært nógu mikið í markaðsfræðum til að greina diffinn.
Kveðja Ómar.
PS. Ég á eftir smá tölu um mannúðina og þá er þetta komið hjá mér. Það er þurrausinn.
Kveðja sami.
Ómar Geirsson, 5.4.2009 kl. 21:10
Halló aftur.
Ég er sammála þér að Borgarahreyfingin er að reyna á sinn hátt að feta leið mannúðar og mennsku. Því kýs ég hana.
En betur má ef duga skal. Ég er búin að rökstyðja gildi sáttarleiðar en vil einnig hnykkja á grunnstefnunni.
Þið eigið að fá snjallan textamann og grafískan hönnuð til að útbúa "skema" með hring í miðju og útfrá þessum hring á stefnan að hríslast og tengjast.
Þið eruð hreyfing fólks, ekki hagfræðinga. Því er miðja ykkar stefnu, MANNÚÐ, MENNSKA, SÁTT. Og utan um þennan hring er framtíðin og hvað þarf að gera til að hún verði eins og við viljum.
Í dag er spurt og flokkar svara. Hvað viltu þú gera t.d í málefnum heimila, fyrirtækja, Viltu frysta verðtrygginguna, fella niður skuldir o.s.frv.
Þetta er röng grunnhugsun.
Grundvallaratriði ykkar framboðs er hvað þið viljið. Hvernig framtíð, hvernig mannlíf.
Til þess gerum við þetta. T.d tökumst á við aðsteðjandi vanda með þessum ráðum. Af hverju? Vegna þess að við viljum þetta. Hagfræðingar og hagfræðin er okkar þjónar en ekki okkar herrar. Það sem við viljum er hægt og dýkin eru aðeins til að varast, ekki stöðva för.
Og þetta þetta er t.d það sem Percy orðaði svo vel í grein sinni og ég vitnaði í í grein minni í dag.
Það eru mannréttindi að eiga sér húsaskjól og mat fyrir sig og sína. Það er sameiginleg skylda okkar að tryggja slíkan raunveruleika fyrir alla.
Síðan er framtíðarsýn ykkar, hver sem hún er. Hún verður að byggjast á hugljómun um eitthvað nýtt og betra. Það skapar sérstöðu og tryggir mikinn stuðning meðal mæðra og ömmurnar vilja líka gott og fagurt mannlíf.
Hugljómun gæti verið í þeim anda sem Steinn Steinar sagði í einu ljóða sinna. "Og þá verða allir menn svo góðir, góðir eins og blómin".
Og ég segi eins og Obama sagði í Prag. Ég er ekki barnalegur en núna er ekkert val. Mannkynið þarf nýja von og við Íslendingar getum byrjað á þessari von. Gert hana að okkar markmiði og tekið upp trúverðuga stefnu og fundið nothæfar leiðir að þessu lokamarki mannkyns. BETRI HEIMI.
Og allir ykkar talsmenn eiga að fara á námsskeið þar til þeir trúa þessu sjálfir. Og þá munu aðrir trúa og kjósa.
Meira var það nú ekki.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 5.4.2009 kl. 21:38
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.