31.3.2009 | 08:42
Af hverju hlustar fólk ekki á Gunnar Tómasson.
Hokinn af reynslu og viti hefur þessi gamli hagfræðingur skýrari sýn á vanda Íslensks hagkerfis en hagfræðingahjörð Íslands samanlagt. Hjörðin skilur ekki ennþá útí hvað forað hún hefur komið Íslensku þjóðinni og hennar eina lausn, vaxtaokur og skuldaáþján er leið Helreiðar ríkisstjórnar Íslands. Söngurinn sem þau kyrja af miklum móð er gamli slagarinn með Chris Rea, Road to Hell.
Egill Helgason fékk Gunnar í viðtal við sig og átti við hann magnað samtal. Í tilefni þess að frjálshyggjustofnun ein í útlandinu birti viðtalið á vef sínum þá opnaði Egill þráð í gær sem ansi gaman var að fylgjast með. Þar sem ég var nýkominn af fjöllum í bloggheiminum þá spriklaði í mér stríðnin og ég skaut þessu innslagi inn til að stríða Guðmundi rafiðnaðarmanni (að ég held).
Blessaður Egill.
Skemmtilegur þráður hjá þér. Góð vísa er aldrei of oft kveðinn. Ef sá gamli gleðimaður og kommúnisti Guðmundur Ólafsson er dreginn á flot til álitsgjafar þá er mesti ótti alvöru hagfræðinga að hann hrósi þeim. Gunnar slapp við þann kaleik.
En þú mátt heldur ekki gleyma GREININNI sem Gunnar skrifaði í Fréttablaðið síðastliðið haust. Þar kom hann með lausn á þeirri deilu sem mun eitra allt mannlíf á Íslandi næstu áratugina ef óréttlætið verður látið viðgangast. Fólk mun ekki sætta sig við að skuldir þess hækki óheyrilega á sama tíma sem eignir þess hrynja í verði og tekjur dragast stórlega saman. Þrátt fyrir allt orðagjálfur og hvatningabull heimsins mun fólk ekki sætta sig við þetta þegar raunveruleikinn fer að bíta.
Og ef ekkert er að gert þá mun þjóðin klofna og bræður berjast.
En verðtryggingin er samningsbundin og sjóðir hafa tapað miklu fé. En lausn Gunnars tekur á þeim vanda á einfaldan og rökréttan hátt. Langtímaskuldabréf ríkissjóðs á hóflegum vöxtum mun vega á móti eiginfjártapi sjóðanna. Klassísk leið þjóðar í neyð. Skuldin er viðurkennd en það er talið forgangsmál að bjarga því sem bjargað verður í núinu. Umræðan um álögur á skattgreiðendur framtíðarinnar er hjáræn þegar við blasir að foreldrar þeirra mun frekar flýja land en að ala börn sín upp við skort og örbrigð skuldaþrældómsins. Og eðli svona skuldabréfa er að þau greiðast upp á löngum tíma þegar betur árar. En þau geta tryggt betra árferði.
Lausn Gunnars er eina leiðin. Það er því miður alveg rétt hjá Gylfa viðskiptaráðherra að það sem er of gott til að geta verið satt er of gott að vera satt. Það er ekki bara ósvinna að ætla erlendum kröfuhöfum að greiða Frystinguna, það er líka óframkvæmanlegt. Afskriftir þeirra eru í takt við þær afskriftir sem eru óhjákvæmilegar hjá atvinnulífinu og skuldsettustu heimilunum.
En það mun aldrei ganga að sumir fái afskriftir á meðan aðrir greiða tilbúna skuldahækkun sem örfáir auðkýfingar ollu í græðgi sinni og fyrirhyggjuleysi. Og stjórnvöld voru samábyrg því þau gerðu ekki neitt.
Eitthvað þarf að gera og lausnin má hvorki skaða nútíð eða framtíð. Lausn Gunnars er þess eðlis að hún uppfyllir þessi skilyrði.
Því var þessi örgrein í Fréttablaðinu, 12.11.08, það besta sem skrifað hefur verið til lausnar frá því að hrunið varð. Það þarf ekki alltaf mörg orð til að orða merka hluti.
Kveðja að austan.
Eftir á hyggja þá var stúfurinn ágætur og ég ætlaði alltaf að skrifa ádrepu á þá sem vilja fá hlutina fyrir ekki neitt. Allt kostar sitt en aðgerðarleysið kostar mest.
En ástæða þess að Guðmundur Ólafsson var dreginn inní þetta innslag var sú að Guðmundur Gunnarsson vitnaði í hann til að hæðast að Gunnari gamla.
Annars er Arinbjörn Kúld, minn góði hvetjari, með frábært blogg þann 25.03 um nauðsyn þess að frysta verðtrygginguna frá árdögum hrunsins. Og Þráinn Bertelsson og Borgarahreyfingin skynja einnig mikilvægi þessa gjörðar.
En aðeins Gunnar Tómasson hefur komið með nothæfa lausn á fjármögnun þeirrar aðgerðar. Þó landsfeður okkar stingi hausnum í sandinn og bulli útí eitt um kostnað og annan óáran þá er leiðin til og hún er nothæf. Þegar hún verður farinn, og það mun verða gert því framrás tímans verður ekki stöðvuð, þá mun Gunnar fá styttu við Austurvöll.
Hann er maðurinn sem fann lausnina sem hindraði yfirvofandi borgarastyrjöld milli þeirra sem eiga og þeirra sem skulda. Þeir sem skulda mikið eru rúmlega helmingur þjóðarinnar og þessi hópur mun ekki láta kúga sig til lengdar. Og hann mun ekki ganga undir skuldahlekki núverandi Félagshyggjustjórnar. Og þetta fólk á ættingja í röðum þeirra sem eiga.
Í dag trúir fólk Helreiðinni en þegar skuldirnar og þrældómurinn fer að bíta þá mun fólk spyrna við fótum. Og krefjast réttlætis. Þá mun það ekki duga fyrir Samfylkinguna að Jóhanna hafi verið góð við lítilmagnann 199ogeitthvað. Í dag er árið 2009 og forn frægð mun ekki duga endalaust til að níðast á fólki.
Og þá mun tillaga Gunnars koma til framkvæmda.
Hjól tímans og réttlætisins verða ekki stöðvuð.
Kveðja að austan.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Um bloggið
Ómar Geirsson
Færsluflokkar
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.11.): 443
- Sl. sólarhring: 732
- Sl. viku: 6174
- Frá upphafi: 1399342
Annað
- Innlit í dag: 373
- Innlit sl. viku: 5228
- Gestir í dag: 344
- IP-tölur í dag: 339
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Ég hef hlustað á Gunnar og lesið greinar hans. Ég get ómögulega skilið hvers vegna á hann er ekki hlustað. Ég, eins og þú Ómar óttast að á hann verði hlustað of seint en kannski ekki. Hugsanlega verður það eini rétti tíminn.
Takk fyrir hlýleg orð í minn garð. Mér finnst blogg þitt afburðagott og er farin að benda ýmsum á þig.
kveðja að norðan
Arinbjörn Kúld, 2.4.2009 kl. 02:01
Blessaður Arinbjörn.
Tíminn í vor og sumar mun leiða í ljós hvort heimskreppan skellur á að fullum þunga eður ei. Seðlabankastjóri Bandaríkjanna vonast til að hann hafi náð til að bjarga fjármálakerfinu en ef ekki þá er vá framundan.
Málið er að kreppa fjármálakerfisins er tilkomin vegna bóluviðskipta og "veðmála" (afleiðuviðskipti). Ennþá hafa lán almennings og framleiðslufyrirtækja ekki fallið á það svo neinu nemi. En bæði almenningur og fyrirtæki eru mjög skuldsett. Og svo er það kerfi ennþá við líði að það er hægt að veðja á greiðslufall eins og t.d fréttin um Landsvirkjun er dæmi um. Á meðan sá banvæni vírus er virkur mun ekkert fá bjargað alheimskapítalismanum. Það er ekki nóg að setja vogunarsjóðina undir eftirlit. Það þarf að loka þeim strax og gera eignir þeirra upptækar. Starfsmenn þeirra eiga líka að sitja inni, allir sem einn. Þannig er heiminum sent skilaboð að tími græðgi og siðleysis er lokið.
En menn skynja ekki alvöru málsins og því verður kreppa. Og þá er eina lausnin að aðlaga vaxtagreiðslur að greiðslugetu til að vernda höfuðstól skuldanna. Gjaldþrota fólk og fyrirtæki greiða ekki krónu upp í skuldir og eignir eru verðlausar þegar ekki er til staðar greiðslugeta að greiða af þeim.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 2.4.2009 kl. 08:57
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.