30.3.2009 | 21:59
Til hamingju Ísland, Jóhanna er hætt að skoða.
Hundrað og eitthvað dögum eftir hrun Íslenska hagkerfisins þá kom loksins þingmál frá Samfylkingunni sem snerti almenning.
Frumvarp um tímabundna skuldaánauð í umsjón skilorðsfulltrúa.
Hvílík réttarbót á 21. öldinni. Það er rétt að fjölskyldur skuldara eru ekki lengur seldar hæstbjóðanda eins hjá Rómverjum forðum. Eins er skuldafangelsi sögubóka Dickens frá 19. öldinni of gamaldags.
En það er einföld skýring á þeirri "mannúð". Einhver frjálshyggjuhagfræðingur fann það út að kostnaður við að fæða skuldarann og fjölskyldu hans gæti vegið uppi tekjurnar af vinnuframlagi hans. Þess vegna fær hann sjálfur að afla sér fæðu og húsnæðis en kröfuhafar fá restina af vinnuframlagi hans. Skítt með hag annarra fjölskyldumeðlima. Þarfir barna og maka mega setjast á ís á meðan skuldaþrællinn borgar og borgar. Ætli hann borgi líka kostnaðinn við skilorðsfulltrúann? Kannski verður einu ári bætt við ánauðina til að ríkið fái sitt?
En það er mannúð í kerfinu sagði formaður allsherjarnefndar. Þegar skuldarinn er orðinn gamall og lasburða þá er honum sleppt úr ánauðinni. Og ef á það er litið að annálar níuhundruð og eitthvað greina frá því að í hallæri var veikum og lasburða þrælum kastað fyrir björg. En það er líka ekki góð hagfræði að þrælka gamalt og lasburða fólk. Kostnaðurinn getur verið of mikill.
Gamla maltækið "að þangað leiti klárinn þar sem hann er kvaldastur" hefur öðlast nýja merkingu. Skuldarinn leitar á náðir Samfylkingarinnar því þar mun hann skuldaþrældóm öðlast.
En þetta er mikil réttarbót öskra Snatar Samfylkingarinnar. Og kannski er það rétt. Núverandi gjaldþrotalög eru afsprengi upplýsingarstefnu 18. aldar. Síðasta réttarbót þeirra var þegar fólk slapp við skuldafangelsið en sat uppi með skuldir sínar ævilangt. Gerðist einhvern tímann seint á 19 öldinni en síðan ekki meir, nema andlitsupplyfting hér og þar. Hagsmunir kröfuhafa og þóknun lögfræðinga hefur allt verið grunnforsenda kerfisins. Það hefur alltaf verið góður bissness að sölsa undir sig eigur skuldara fyrir slikk. Í því ljósi er þetta réttarbót. Hefði sómt sér vel í byrjun 20. aldar.
En þó lögfræðingar Alþingis viti ekki að því, þá er 21. öldin langt komin með sinn fyrsta áratug. Og þessir sömu menn, sem samþykktu þetta skuldafrumvarp, frömdu landráð af gáleysi með því að koma þjóðinni á heljarþröm. Það eru þeir sem bera ábyrgð á erfiðum fjárhag einstaklinga, heimila og fyrirtækja. Ef einhverjir eiga að borga aleigu sína til kröfuhafa þá eru það þeir. Og telji þeir það við hæfi að koma upp bandarísku skilorðseftirliti og skuldaánauð þá eiga þeir að gangast undir það fyrstir manna. Ef þeir eru jafnsannfærðir eftir 10 ár eða svo um þessa réttarbót þá má ræða hvort þeir gangist ekki undir hana 10 ár í viðbót.
Á meðan á þjóðin að kjósa mennskt fólk til þingstarfa. Fyrsta verk nýkjörins þings á að vera setja ný lög um gjaldþrot sem eru í takt við mannúð okkar aldar. Og tekur mið af þeirri þjáningu sem aðgerðarleysi og einbeittur brotavilji fyrra þings hafði í för með sér.
Grunnregla hinna nýju laga á að vera skjaldborg um heimili fólks. Aðeins veðlán vegna húsnæðiskaupa eiga að falla á fólk í greiðsluþroti. Og þá þannig að eigandi veðskuldarinnar fái eignarhlut í húsnæði fólks í hlutfalli við vanskil greiðanda. Sá eignarhluti veðhafa kemur fyrst til greiðslu þegar fólk kýs að selja fasteign sína. Þó má þvinga fram nauðungarsölu ef skuldari sýnir einstakan vilja til að standa ekki í skilum þó tekjur leyfi. Slík dæmi verða örugglega innan við 1 % af öllum lánum því Íslendingar eru að uppistöðu skilvíst og heiðarlegt fólk. Aðeins erfiðar fjárhagslegar og heilsufarslegar aðstæður valda greiðslufalli hins meðalborgara og kerfið á að miðast við þarfir hans og hlutverk í þjóðfélaginu. Án Jóns og Gunnu er ekkert þjóðfélag rekið. Jón og Gunna bera ekki ábyrgð á núverandi ástandi þjóðarbúsins eða því atvinnuleysi og tekjutapi sem yfir almenning hefur dunið.
Aðrar kröfur geta gert veðkall í aðrar eigur fólks og við gjaldþrot eignast þrotabúið þær. Þegar það hefur selt tilfallandi eignir þá er þrotabúið gert upp og restin af kröfum afskrifaðar. Skuldarinn getur hafið nýtt líf á hreinu borði og lánveitandinn fundið sér nýja viðskiptavini.
Vissulega mun draga úr skammtímalánum til eyðslu og neyslu en slík lán voru meinsemd sem mátti alveg dragast samann. En fólk í traustri vinnu og með traustan bakgrunn mun ekki finna fyrir þessari kerfisbreytingu. Fjárglæframennirnir munu aðeins mæta meiri tortryggni og er það vel. Breytni þeirra á ekki valda venjulegu fólki erfiðleikum. Það er tími til komin að kerfi verði hönnuð fyrir megin notkun og gerð notendavæn. Hræðslan við mögulega misnotkun á ekki að ráða hönnun þeirra. Hinn venjulegi notandi á að njóta vafans.
Hvað þýðir svona lagasetning? Jú loksins er arfleið þrælahaldsins, sem mótaði siðmenninguna í þúsundir ára, liðin undir lok á Íslandi og það eina sem spurt á að vera er af hverju var þetta ekki gert fyrir langa löngu.
Þeir sem efast skilja ekki inntak mennsku. Þeir sem hæðast og gagnrýna eru ekki mennskir.
Svo einfalt er það.
Og hin nýstofnaða Borgarahreyfing á mikið óunnið verk fyrir höndum þegar fólk áttar sig ómennskunni sem hrjáir núverandi þingheim, og þá mun hún fá mikið fylgi. Eina mótsvar fjórflokkanna er að senda tilvonandi þingmannsefni þeirra á námskeið í mennsku og mannúð.
Ég sting uppá að þeir verði látnir tala við ömmur sínar um heila helgi. Lesi svo Vesalingana eftir Hugo og læri loks faðirvorið. Lokahnykkur þessa námskeiðs er svo vikudvöl í Hveragerði undir handleiðslu Gunnars Dals og Magnúsar Sigmundssonar.
Eftir það mun enginn minnast á þessi smánarlög framar.
Kveðja að austan.
Greiðsluaðlögun komin í gegnum þingið | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Um bloggið
Ómar Geirsson
Færsluflokkar
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.11.): 557
- Sl. sólarhring: 644
- Sl. viku: 6288
- Frá upphafi: 1399456
Annað
- Innlit í dag: 475
- Innlit sl. viku: 5330
- Gestir í dag: 436
- IP-tölur í dag: 429
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Heill og sæll; Ómar !
Ekki fjarri því; að þið kunnið að leyna á ykkur; Austfirzkir, þá á reynir. Þakka þér; þessa ágætu tölu, yfir hinum, vægast sagt; frumstæða þingheimi.
Með beztu kveðjum; úr Árnesþingi /
Óskar Helgi Helgason, frá Gamla Hrauni og Hvítárvöllum
Óskar Helgi Helgason (IP-tala skráð) 30.3.2009 kl. 22:40
Takk fyrir hlýleg orð Óskar.
Ef þú lítur á þessa athugasemd mína þá langar mig til að spyrja þig hvaðan áhugi þinn á afkomendum sænskra víkinga er til kominn. Leit á blogg þitt. Var búinn að gleyma því hvað það er hressilegt.
En svona eru áhyggjurnar og bjargleysið. Maður vill dálítið festast í skömmum á stjórnendum helreiðarinnar. Gleymir gleðileitinni og húmornum. En ég las þig oft í haust.
Þekki ekkert til í Árnesþingi, en Gunnar póstur á Hellu, mágur Ingólfs, var ömmubróðir minn. Kenndi sjálfur í Þykkvabænum einn vetur eftir stúdent. Kynntist fólkinu lítið en fannst krakkarnir vera perlur. Man þó að hrossaæturnar í Þykkvabænum höfðu það fyrir sið að mæta á böll hjá Árnesingum og lemja þá eins og afi gamli í Vaðlavíkinni lamdi harðfisk sinn. Enda var enginn maður með mönnum í kartöflubænum nema hann gat snarað föllnum nauti uppá pallbíl. Reykvískt heljarmenni sagði mér að eftir hann flutti í Þykkvabæinn þá tók hann upp nýja hegðun á böllum. Gekk meðfram veggjum í stað þess að hnykla vöðva.
Spilaði reyndar líka blak með HSK, þar á meðal heljarmönnunum Friðriki og Andrési. Vorkenndi alltaf blakboltanum þegar þeir slógu hann í gólfið. Jason Ívarsson frá Vorsabæ (eða Gaulverjabæ eða eitthvað svoleiðis) var kennari í Landeyjum og tók mig með á æfingar. Veit ekki hvort þú kannast við þessa neðanvegsbúa en þetta eru einu Árnesingarnir sem ég hef kynnst á minni löngu ævi. Þeir voru ekki rússneskir en kannski komnir af Væringjum. Allavega hefði enginn keisari misst kórónu sína ef þeir hefðu séð um gæsluna.
Vona að þú sendir mér línu.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 30.3.2009 kl. 23:22
Þetta er mikil ádeila hjá þér en Borgarahreyfingunni hefur þó vegnað vel og vaxið hratt og kannski að mestu vegna óánægju fólks með "fjórflokkinn".
Hilmar Gunnlaugsson, 31.3.2009 kl. 00:44
Takk Hilmar.
Í ljósi þess að mér þykir vænt um þessa einstaklinga sem mynda rauðgrænu ríkisstjórnina þá getur þú rétt ímyndað þér hvað ég er reiður fyrst ég tek þá svona fyrir. Þetta er ekki félagshyggja enda glotti Sigurður Kári hringinn þegar hann hvatti stjórnina til frekari óhæfuverka.
Það eiga allir flokkar sitt Borgarnes og framtíðin mun ekki byggjast upp út frá gjörðum fortíðar. En sú lífsýn sem skóp þetta skuldafrumvarp mun ekki skapa byggilegt umhverfi fyrir örmagna þjóð í skuldafjötrum.
Og einhver þarf að segja þessu fólki sannleikann. Tími meðvirkni og halelúja kórsins á að vera liðinn. Við hröktum ekki frjálshyggjuna á flótta til að fá þennan uppvakning í staðinn.
Skömm þessa fólks er mikil
Kveðja, Ómar.
Ómar Geirsson, 31.3.2009 kl. 00:55
Hvaða flokk hyggst þú kjósa?
Hilmar Gunnlaugsson, 31.3.2009 kl. 01:16
Það er nú það Hilmar.
Steingrímur Joð átti mitt atkvæði þar til hann gekk fyrir björg.
Reikna með að kjósa Borgarahreyfinguna því hún rímar við skoðanir mínar á frystingu verðtryggingarinnar. Fatta samt ekki þetta uppgjörstal hennar og áhersluna á stjórnlagaþing.
Tel uppgjörið eigi að fara í sinn eðlilega farveg rannsóknarnefnda en ekki hugarheim galdraofsókna. Tel kerfið sekt en einstaklinga á sinn hátt fórnarlömb eigin heimsku og græðgi. Á vissan hátt vorkenni ég þeim.
En þessi aðstaða mín hefur samt með þá praktísku hugsun að þegar allt er í rúst þá byrjar þú ekki að efna til óvinafagnaðar heldur einhendir þér í björgun og síðan uppbyggingu. Ég vil dálítið meta menn eftir framlagi þeirra til endurreisnarinnar en ekki fortíðarheimsku.
Stjórnlagaþing er ákaflega viðkvæm hugmynd sem mjög auðvelt er að hleypa í uppnám. Sé Birgi Ármannsson í anda halda þar 577 ræður á einum mánuði. Tel miklu frekar hugmyndabanka vísra manna marktækari og síðan að fá Björg og Eirík að vinna drög sem síðan eru metin og rædd. Og endursamin þar til fólk er þokkalega sátt.
T.d. tel ég ekki flokkakerfið ekki hafa brugðist meira hér en annarsstaðar í Evrópu. Það var hugmyndaheimur siðleysis og græðgi sem olli hörmungunum og hann kemur flokkum og stjórnskipan ekkert við.
Það er barátta hugmynda sem mótar framtíðina.
Eins fannst mér fólk vera ósköp skammsýnt þegar það tók Franska eða Bandaríska kerfið sem dæmi um skilvirkari kerfi. Frakkar er methafar Vestur Evrópu í spillingu og hrossakaup og spillingargjörðir eru hvergi algengari en í Bandaríkjunum.
Svo vil ég að það taki mínútu að kjósa en ekki hálftíma. Hið svokallaða persónukjör er falskt lýðræði og í raun ávísun á miklu meira lýðskrum en nú er. Forn Grikkir prófuðu það kerfi með slæmum árangri. Mannseðlið hefur ekkert breyst síðan.
Raunlýðræði næst með samþættingu valds og sterkri upplýsingagjöf. Síðan þarf að vera viss heimild um þjóðaratkvæðagreiðslur í mikilvægum málum. Jafn hættulegt að hafa hana of rúma eins og of þrönga. En þessi mál eiga að ræðast í róleg heitum en á meðan aðeins 4 milljarðar komu inní hagkerfið í febrúar þá finnst mér vandinn liggja fyrir.
Síðan þarf að ulla framan í bretana og reka Alþjóðagjaldeyrissjóðinn úr landi. Spurning hvað mörg þúsund manns verða orðin gjaldþrota áður en fólk áttar sig á skaðsemi sjóðsins. Ef einhver flokkur leggur það til þá mun ég kjósa hann ævilangt, nema reyndar Sjálfstæðisflokkinn, hann er ekki fyrir minn smekk.
Svo er Sigmundur góður en gamla góða flokksklíkan er ekki ennþá búinn að fatta sinn vitjunartíma og stíga til hliðar. En drengurinn er traustur. Er bara ekki búinn að fyrirgefa flokknum Kárahnjúkana. En það kemur.
Kveðja, Ómar
Ómar Geirsson, 31.3.2009 kl. 10:09
Réttarbót segja snatarnir, vissulega, ef það er réttarbót að lengja aðfararfrestinn í 40 daga úr 15. 2 ára fyrningafrestur skiptir engu máli ef kröfuhafar endurnýja sífellt kröfurnar sem þeir munu gera, gaman vani er ekki svo auðveldlega aflagður. Kröfur eiga einfaldlega að fyrnast og ekki á að vera hægt að endurnýja þær. Einhvern tíma verða menn að geta hafið nýtt og eðlilegt líf að nýju. Líklega er hér um að ræða leifar "vistarbanda" hugarfarsins sem ríkti hér áður fyrr.
Í hjarta mér óttast ég, (ekki síst eftir stjórnmálafundinn sem ég fór á í gærkvöldi 2. apríl) að ómennska fólkið nái aftur kjöri því ekki fannst mér þeir menn sem þar sátu í forsvari fyrir sína flokka sýna neinn skilning á vanda fólks og einlægan vilja til að leysa hann.
Tillögur þínar um hin nýju lög má segja að séu ferskar og frábær grunnur í hugsun og merkingu nýrra laga sem vonandi Borgarahreyfingin komi í gegn. Sammála þér í öllu Ómar. Við þurfum mennskt fólk á þing. En hefur þú skoðað www.borgarahreyfingin.is ?
Arinbjörn Kúld, 3.4.2009 kl. 14:22
Gleymdi að bæta við að þessi lög eru afar flókin í framkvæmd og úrvinnsla hvern og eins sem lendir í klónum á þessum lögum gríðarlega tímafrek og kostnaðarsöm. Hugsanlega er það þá tilgangur þeirra að fæla fólk frá því að nýta sér úrræði laganna þó takmörkuð séu?
Arinbjörn Kúld, 3.4.2009 kl. 14:25
Blessaður Arinbjörn.
Þetta er spurningin um hugarfar og skynja sinn vitjunartíma. Gamla kerfið er að riðlast og jafnvel að hrynja, þá eiga andstæðingar þess að grípa tækifærið og skapa nýtt og betra, það er ef þú aðhyllist mannúð og félagshyggju, samvinnu og samkennd.
Ekki lappa uppá gatslitinn kapítalismann. Gömlu gjaldþrotalögin náðu aldrei yfir fjárglæframen, fórnarlömb þeirra voru aðallega þeir sem urðu fyrir áföllum, hvort sem það var vegna veikinda eða atvinnumissis. Og þau eiga rætur sínar langt aftur í forneskjuna.
Þetta eiga félagshyggjumenn að vita. En ég varð svona reiður þegar ég hlustaði á Árna Pál tala um hina meintu réttarbót og ávinning þess fyrir skuldara að fá svona tímabundinn þrældóm. Viðtalið við hann var skelfilegt og það eina sem afsakar manninn var sú staðreynd að hann vissi ekki hvað hann var að segja. Það er oft einkenni á mannvonsku að hún er framin óaðvitandi af góðgjörnu fólki og ég efa það ekki eina mínútu að Árni er góður drengur. En að útbúa svona kerfi þegar hann og hans líkar bera ábyrgð á fjárhagserfiðleikum fólks, það kalla ég að kunna ekki að skammast sín.
En nóg um það.
Jú ég hef litið á Borgarhreyfinguna og líst vel á margt en minna á annað eins og ég hef sagt þér áður. Þið fattið t.d ekki af hverju við eigum ekki að greiða ICEsave reikningana nema að undangengnum dómi Evrópudómstólsins og þá eftir þeim skilmálum sem við ráðum við. Ekki þvinguðum skilmálum breta. Þeir sem sömdu þennan texta hefðu t.d mátt lesa blogg mitt því röksemdarfærslan á heimsíðunni meikar ekki sens. ICEsave viðskiptin voru lögleg og algjörlega undir eftirliti, bæði íslenska fjármálaeftirlitsins og þess breska og hollenska. Að bera öðru við er bara til þess eins að láta draga dár að sér.
Rökin komu öll fram í grein Stefáns og Lárusar og hreint ótrúlegt að hreyfingin skuli ekki hafa stokkið á hana strax. Ég er ekki að bulla þegar ég held því fram að lagaálit svipaðs eðlis og kemur fram hjá þeim félögum liggur fyrir hjá öðrum Evrópuþjóðum. Bretar myndu t.d aldrei greiða krónu (pund) fyrir Þjóðverja eða Frakka. Þýddi ekki að ræða slíkt nema þá undir herlögum og bandaríski herinn sæi um að framfylgja þeim.
Lagatúlkun þeirra félaga er sú eina sem meikar nokkra glóru. Og því er hún rétt. Og ef þú keyrir á börnin sem fá ekki þjónustu heilbrigðiskerfisins og mænuskaðaða (hver verður næstur?) og bendir síðan á meintan landráðavilja Samfylkingarinnar, þá ert þú kominn með sterkt vopn í hendurnar. Sérstaklega vegna þess að Steingrímur hugsar það sama en er bundinn stjórnarsamstarfinu.
Og fólk sem sveltur hefur engan áhuga á stjórnlagaþingi. Það eru aðeins gamlir kallar sem kjósa Samfylkinguna. Og svo er Framsóknarflokkurinn að gera út á þann sama markað.
Í guðanna bænum hafið vit á að gera út á mennskuna. Hinn valkostur er endurreist hagkerfi auðmanna og frjálshyggjunnar og hver vill það?
Sjálfstæðismenn, vissulega en þeir kjósa Sjálfstæðisflokkinn. Restin af þjóðinni vill að þjáningar þess skili sér í einhverju betra og réttlátara. Það er ykkar markaður. Markaður sem Steingrímur kaus í heimsku sinni að yfirgefa fyrir núverandi ráðherrastól. Og missti í kjölfarið vopn sín.
Það vantar nýja hreyfingu fyrir vonina og réttlætið og ef ekki þið, hver þá?
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 3.4.2009 kl. 22:04
Ég er sama sinnis þú. Við eigum ekki aðborga icesave. Ekki undir nokkrum kringumstæðum. Ég gæti best trúað að engin okkar hefði séð þessa grein. Hvaða dag kom hún út? Hefurðu nokkuð rekist á hana á netinu? Áttu hana ennþá? Þessi grein hefur eflaust farið fram hjá mörgum í öllu því ölduróti sem skekur samfélagið.
Við erum að reyna höfða til mennskunar í öllum röksemdum okkar fyrir leiðréttingunni á verðtryggingunni og afnámi hennar sem og öllu öðru. Það erum við að gera með vísan í réttlæti og sanngirni.
Arinbjörn Kúld, 3.4.2009 kl. 22:44
Blessaður Arinbjörn.
Greinarnar eru nokkrar en þær síðustu tvær eru dúndur enda bloggaði ég um þær báðar.
Sú fyrri heitir "Lagatæknileg rök um innstæðutryggingar" frá 28.01 og sú seinni heitir "Í hvaða liði eru stjórnvöld" frá 01.03 að mig minnir. Hún er hljóðleg ákæra um landráð Íslensku ríkisstjórnarinnar.
Skyldulesning fyrir alla andstöðu og þarna eru rökin. Borgarahreyfingin gæti t.d boðað málsókn á hendur þeim þingmönnum og ráðherrum sem semja og samþykkja lögleysuna.
Kristaltært mál. Enda hefur ekki nokkur ESB sinni treyst sér til að svara þeim undir nafni. Lygaþvættingi er dreift með nytsömum sakleysingjum, bæði í fjölmiðastétt og hjá Samfylkingarfólki á netinu en það er þannig að ef þú treystir þér ekki í rökræður undir nafni þá hefur þú engan málstað að verja.
Lygin breytist ekki í sannleik þó einhver krakki á Fréttablaðinu skrifi frétt, hafða eftir nafnlausum heimildarmönnum sem voru í of miklu tímahraki til þess að þeir gætu gefið upp nafn sitt. Meikar ekki sens.
kveðja, Ómar.
Ómar Geirsson, 4.4.2009 kl. 20:40
Blessaður Ómar og takk fyrir, ég er búin að senda póst á moggann um að fá þessar greinar.
kv, að norðan
Arinbjörn Kúld, 4.4.2009 kl. 22:24
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.