Oft ratar kjöftugur að kjarna málsins.

Davíð Oddsson hafði rétt fyrir sér að kattarþvottur Vilhjálms Egilssonar á ábyrgð Sjálfstæðisflokksins  væri ekki pappírsins virði.

Vilhjálmur neitar að horfast í augun á sekt sjálfrar stefnunnar, græðgi og siðleysi Nýfrjálshyggjunnar.  Allt var leyfilegt í nafni gróðans.   Auðmenn máttu sölsa undir sig stórfyrirtæki og skuldsetja þau til helvítis.  Öll samkeppni var kæfð niður.  Hún var annaðhvort keypt upp eða brotin á bak aftur með tímabundnum undirboðum.  Allt regluverk, sem átti að hamla græðginni og fákeppninni, var miskunnarlaust rutt úr vegi.  Ekki nema að hluta með afnámi þeirra heldur fyrst og fremst að fulltrúar frjálshyggjunnar voru fegnir til að stýra regluverkinu og látnir sjá til þess að það léti gangverk græðginnar í friði.  Það sem var ekki skýlaust bannað var leyft og látið í friði.  En lagabreytingar með óljósu orðalagi sáu um þau bönn sem ekki var pólitískur styrkur til að afnema.  

Allt kerfið stuðlaði að því einu að þeir ríku yrði ríkari og það urðu þeir svo sannarlega.  Og um leið veiktustu undirstöðurnar.  Æ fleiri, fyrrum velstæð fyrirtæki, áttu í raun ekki annað en skuldirnar og viðskiptavildina.  Smáfyrirtækjum, lífæð kapítalismans, var úthýst úr hverri atvinnugreininni af annarri.  Fákeppni eða einokun auðhringa varð reglan frekar en undantekning.  

Og allt kerfið var keyrt áfram á skuldasöfnun og græðgi.

Og græðgin var góð.  Ofurlaun og kaupaukar voru æðstar dyggða.  Í könnun sem gerð var á meðal menntaskólanema þá sögðust 40% af þeim stefna á viðskiptanám í þeim eina tilgangi að verða rík.  Enda ekki nema von því auðmenn voru menn dagsins og fjölmiðlafólk og stjórnmálamenn dönsuðu kringum gullkálfinn.  Ögmundur Jónasson var Marteinn Mosdal okkar Íslendinga.  Réttmæt gagnrýni hans var afgreidd sem tuð.  

Hvernig heilt þjóðfélag gat trúað því að lífsafkoma til framtíðar gæti byggst á pappírsviðskiptum og græðgi er verk trúboða frjálshyggjunnar og þeir voru áhrifamenn í Sjálfstæðisflokknum.  Og þeir áttu og ráku Viðskiptaráð.  Þar var hugmyndafræðin útfærð og gerð að boðskap ríkisstjórnar og Alþingis. 

Þaðan kom feigðin.

Og það var þetta kerfi sem brást.  Ekki mennirnir sem unnu eftir því.  Kerfið sjálft var með innbyggt sjálfseyðingarforrit.  Þegar auður safnast á of fáar hendur, þegar skuldir verða of miklar, þegar grunnforsenda kapítalismans, öflug framleiðsla og samkeppni margra fyrirtækja á markaði,  er hundsuð,  þegar allt er leyfilegt í nafni græðginnar; Þá hrynur kerfið.

Og afleiðingarnar fyrir þjóðina og þá ekki síst kjarna Sjálfstæðisflokksins, smáatvinnurekendur og aðila viðskiptalífsins, er augljós.  Atvinnulífið er gjaldþrota.  Heimilin eru gjaldþrota.  Þjóðarbúið er gjaldþrota.  Æra þjóðarinnar er tötrar einir.

Endurreisnarskýrsla, sem skautar framhjá hinum alvarlegu brotalömun græðiskapítalismans, og kennir um þeim sem störfuðu eftir kerfinu er ekki pappírsins virði.  Skýrsla sem kennir um þenslu ríkisvaldsins en ekki græðgi viðskiptalífsins er ekki pappírsins virði.  Skýrsla sem hefur það eina markmið að endurreisa hið gamla græðgiskerfi auðmanna og siðvillinga er ekki bara ónýtur pappír, hún er stórhættuleg sjálfri framtíðar þessarar þjóðar.

Þess vegna hafði Davíð Oddsson rétt fyrir sér hvað þetta atriði varðar.  Hann opnaði vissulega Öskju Pandóru en hans glæpur var að sleppa mönnum eins og Vilhjálmi Egilssyni lausum.  Hans yfirbót er að benda á afleiðingar þess ef þeir fá ennþá að ganga lausir, boðandi helstefnu Nýfrjálshyggjunnar.

Fyrir það á Davíð Oddsson heiður skilið.

Un annað sem hann sagði má deila um og deila á.  En það er ekki efni þessa pistils.

Kveðja að austan.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Hvað er nýfrjálshyggja. Er Framsókn nýfrjálshyggjuflokkur, var 12 ár í stjórn með XD. ER samf. þá líka nýfrjálshyggjuflokkur, var líka í stjórn. Er það nýfrjálshyggja að auka fé til mnntamála, heilbrigðismála, félagsmála og vegamála
 

haukur gunnarsson (IP-tala skráð) 30.3.2009 kl. 11:04

2 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Haukur og takk fyrir innlitið.

Nýfrjálshyggja er uppvakningur þeirrar taumlausrar markaðshyggju sem kennd var við frjálslyndi (liberal) og varð endalega gjaldþrota í kreppunni miklu.  Meðal hennar helstu afreksverka var andlát milljóna manna á Írlandi og tugmilljóna á Indlandi.  Gamla frjálshyggjan átti sína helstu hugmyndafræðinga í hinum enskumælandi heimi og því urðu fórnarlömb hennar flest þar.  En öflugustu andmælendur hennar voru einnig enskumælandi og aðal andstæðingur hennar t.d í Bretlandi var íhaldsflokkurinn, málsvari aðals og landeiganda.  Þeir tóku víst biblíusögurnar það alvarlega að þeim fannst ekki rétt að láta fátækt fólk deyja eins og ómálga skepnur.  Það fannst frjálshyggjumönnum hinum fyrri vera íhlutun í náttúrlögmálin um afleiðingu skortar.  Um þetta var rifist í hartnær öld þangað til að frjálshyggjan gafst formlega upp en leifar hennar gekk til liðs við íhaldsöflin og beið þar í rólegheitum eins og drápsvírus þar til þeirra tími kæmi aftur.

Og hann kom.  Og frjálshyggjan hin seinni er kölluð Nýfrjálshyggja, mun skaðlegri skepna en sú fyrri því sú gamla taldi mannfallið og skortinn vera náttúrlögmál sem lítið væri við að gera en sú nýja bætti SIÐLEYSINU í vopnabúr sitt og henni er alveg sama á meðan einhver græðir.  Gamla frjálshyggjan var í eðli sínu aðeins mislukkuð hagfræðikenning en sú nýja var fullburða hugmyndakerfi með átrúnaði siðleysisins og sérhyggjunnar utanum vúdú kenningar í hagfræði.  Í raun sama eðlis og Nasisminn og Kommúnisminn.  Átrúnaðurinn tryggir blinda fylgispekt og fylgismenn viðkomandi helstefna hafa ríka tilhneigingu til að hafna lærdómi sögunnar með rökum eins og mennirnir brugðust en stefnan ekki og því er bara að reyna aftur.  Allar milljónirnar sem voru drepnar í Kambódíu eru fórnarlömb þessarar "Reynum aftur" þráhyggju.

Það er rétt að hagkenning frjálshyggjunnar var ríkjandi stefna Samfylkingarinnar og vissra afla í Framsóknarflokknum en átrúnaðurinn, sem er samgróinn frjálshyggjunni, var ekki innanborðs.  Aðeins Sjálfstæðisflokkurinn treysti Nýfrjálshyggjunni fyrir stefnunni.

Það er ekki Nýfrjálshyggja að auka fé til menntamála, heilbrigðismála, félagsmála og vegmála.  Sú stefna rúmaðist innan allra fjórflokkana fyrir daga Nýfrjálshyggjunnar.  Rætur Sjálfstæðisflokksins voru í klassískri og kristilegri íhaldsstefnu.  Þú mátt ekki gleyma því að kristlegi íhaldsmaðurinn Bischmark var faðir nútíma velferðarkerfisins.  Ólafur Thors og Bjarni Benediktsson gerðu Sjálfstæðisflokkinn af velferðarflokki og það býsna öflugan.  Geir Hallgrímsson, sá merki stjórnmálamaður, framfylgdi þeirra stefnu til þrautar.  Enda var hann fyrsta fórn Nýfrjálshyggjunnar.  Viljirðu lesa meira um klassíska Sjálfstæðisstefnu, þá vil ég benda þér á stórgóða bók Guðmunds Magnússonar sagnfræðings, Nýja Ísland.  Guðmundur er fyrrverandi frjálshyggjumaður sem fékk vitið.  Ætti að vera skyldulesning í stjórnmálaskóla SUS.

Og ef þú trúir ekki Guðmundi þá mun amma þín örugglega geta útskýrt fyrir þér manngildi og tengsl þess við borgaralegan hugsunarhátt.  Sjálfstæðisfólk er nefnilega að uppistöðu gott fólk.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 30.3.2009 kl. 13:44

3 Smámynd: Arinbjörn Kúld

Góður Ómar, fín fræðsla.

Arinbjörn Kúld, 31.3.2009 kl. 23:48

4 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Arinbjörn.

Gaman að heyra í þér.  Ég átti ágætan dag í gær.  Var að athuga hvað ég þyrfti að gera til að koma innlitum í 200 hundruð.  Það tókst ekki þó ég spriklaði líka hjá Agli.  En þar hitti ég á Hreggvið vin minn.  Vona að hann hafi ekki lesið þennan pistil.  Hann má ekkert gott heyra um Davíð Oddsson.  Vona samt að hann sé búinn að átta sig á því að stundum vitna ég í andskotann til að skamma ömmu hans.  Og svo er ég með þeim ósköpum gæddur að kunna oftast vel við fólk.  Líka Sjálfstæðismenn.  Það skemmtilegasta sem ég geri er að rífast við þá.  Ómissandi fólk. 

En ég átti góðan pistil um skuldaþrældóminn  og ég meinti hvert einasta orð af því sem ég sagði.  Engin setning laut lögmáli stílbragða eða stríðni.  Og mér fannst að einhver þyrfti að segja þetta sem ég sagði.  Og ég tók eftir því að hann var lesinn en veit ekki um viðbrögðin.  Þó fékk ég kveðjur úr Árnesþingi frá alíslenskum fornrússa.  Verst að hann las ekki andsvar mitt því hann bjargaði deginum.  Hefði viljað spjalla við hann og forvitnast um rætur hans.  En öðrum virtist vera sama, þann daginn.  Það er eins og fólk telji að hlekkirnir séu eitthvað sem sé óumbreytanlegt og jafnvel sjálfsögð refsing fyrir syndir þess.  En hvað um börnin?

Skil þetta ekki.  En vona samt að ég hafi hreyft við einhverjum.

Kveðja, Ómar.

Ómar Geirsson, 1.4.2009 kl. 00:38

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Ómar Geirsson

Höfundur

Ómar Geirsson
Ómar Geirsson
Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Screenshot (49)
  • Screenshot (49)
  • ...img_0104a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 9
  • Sl. sólarhring: 16
  • Sl. viku: 455
  • Frá upphafi: 1412817

Annað

  • Innlit í dag: 9
  • Innlit sl. viku: 394
  • Gestir í dag: 9
  • IP-tölur í dag: 9

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband