29.3.2009 | 11:42
Sælir eru auðmenn því ykkar er afskriftir skulda.
Þannig lýstu Spaugsstofumenn stefnu Vinstrigrænna í skuldamálum þjóðarinnar. Skuldir auðmanna eru afskrifaðar með skilning og næmni þeirra sem sýna aðgát í návist bágstaddra. Okurvextirnir og skuldaþrældómurinn eru aðeins fyrir almenning. Hann má blæða. Hann á að borga.
Þegar Steingrímur Joð varði ákvörðun sína um sérkjör handa auðmannabönkunum VBS og Saga Capital þá sagði hann þetta í Morgunblaðinum: "Annars vegar er verið að reyna að gera þessum kleift að að ráða við þetta, hins vegar er verið að reyna að tryggja að ríkið geti endurheimt þessa fjármuni."
Í þessu er reyndar mikil skynsemi fólgin en þegar vitið er aðeins notað til að hygla auðmönnum þá er félagshyggjan snúin uppí andhverfu sína og er orðin auðhyggja.
Tillögur Hagsmunasamtaka heimilanna um Frystingu verðtryggingarinnar frá ársbyrjun 2008 er grundvallaratriði þess að snúa við því óréttlæti sem myndast við Hrunið mikla. Eigur fólks féllu í verði en skuldir þess hækkuðu á móti. Hálf þjóðin var gerð gjaldþrota á einni nóttu. Frystingin ein og sér leysir ekki allan vanda, til þess þarf meira að koma til, en hún er grundvallargjörð til samfélagslegrar sáttar, milli þeirra sem skulda og þeirra sem eiga, milli almennings og fjármagnseiganda, milli eldra fólks og þeirrar kynslóðar sem núna elur upp kynslóð framtíðar Íslendinga.
Leppar og Skreppar fjármagnseiganda hafa tínt ýmislegt til að hæðast og skælast að réttlætinu. Þeir höfða til sjálfselsku fólks og eigingirni. Hin klassísku rök Frjálshyggjunnar "Af hverju á ég að hjálpa öðrum í stað þess að hugsa um mín eigin rass" hafa öðlast nýjan kraft í munni Snata Samfylkingarinnar. "Ég fór varlega og er með lítið lán, af hverju á ég að hjálpa fólki sem sýndi ekki skynsemi í lántökum sínum". "Á að hjálpa auðmönnum með því að afskrifa skuldir þeirra" er spurt þegar er verið að ræða um björgun heimilanna. Skrumskælingin er svo mikil að meintir frjálshyggjumenn sýna meiri skilning á vanda almennings en ríkisstjórn Félagshyggju og Bræðralags.
En staðreyndir málsins eru þær að fólki er ekki gert kleyft að borga sínar skuldir þá hættir það að borga þær. Fólk getur horfið úr landi en skuldir þess ekki. Þær falla þá á hina sem eftir sitja. Það er rétt að þegar óréttlæti verðtryggingarinnar er afnumið vegna þeirrar hamfara sem yfir almenning hefur dunið, þá fá hærri skuldir meiri eftirgjöf en minni. En í þeirri umræðu þá gleymir fólk einfaldri staðreynd. Skuldirnar hverfa ekkert þó fólki sé gert ókleyft að borga þær. Skuldir hinna meintu auðmanna verða skuldir almennings þegar auðmennirnir segja sig frá þeim. Mesta kjarabót almennings, fyrir utan þá að verðtryggð lán hans hækka ekki eftir Hrunið, er sú að ofurlánin falli ekki á hann eins og Steingrímur bendir réttilega á.
Árni Páll Árnason ritaði blaðagrein þar sem hann býsnaðist yfir að sá sem á 125 milljóna króna verðtryggt húsnæðislán (eins og það sé einhver fjöldi og því megi ekki hjálpa restinni af þjóðinni) fái 25 milljóna niðurfellingu verðtryggingar við Frystingu hennar. Ótækt að láta skattgreiðendur borga fyrir slíka óráðssíu. En er þá sem sagt betra að almenningur borgi höfuðstól lánanna? Eða trúir því einhver í alvörunni að ríkt fólk sé í biðröðum að yfirtaka hina skuldsettu eign uppá 125 milljónir þegar lánið fellur á bankann? Líklegra er að einhver auðmaðurinn hirði þær fyrir slikk af bankanum eins og dæmin þegar sanna. Því bankarnir starfa eins og þeir hafa alltaf gert. Eigur þrotabúa renna til þeirra sem eiga mikið fyrir, nema fyrst eru skuldirnar afskrifaðar en síðan fær sá ríki eigurnar fyrir slikk.
Og þessi vinnubrögð vill núverandi félagshyggjustjórn gera að sínum. Blóðmjólka allt og alla til hins ýtrasta en þegar skuldaranum þrýtur örendið, þá fyrst eru skuldir hans afskrifaðar og þeim sem á er afhent eigur hans á silfurfati.
Þetta eignatilfærslu kerfi auðhyggju í gegnum tíðina er flokkur hennar að hafna en flokkar Félagshyggju að gera að sínu.
Við lifum sannarlega á furðulegum tímum.
Kveðja að austan.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:48 | Facebook
Um bloggið
Ómar Geirsson
Færsluflokkar
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (24.11.): 37
- Sl. sólarhring: 531
- Sl. viku: 5043
- Frá upphafi: 1400870
Annað
- Innlit í dag: 34
- Innlit sl. viku: 4375
- Gestir í dag: 34
- IP-tölur í dag: 33
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Heyr, heyr!
Kveðja að sunnan.
Þórður Björn Sigurðsson, 29.3.2009 kl. 12:28
Þrettán dagar án Ómars, það örlaði á smá áhyggjum hjá manni vegna fjarveru þinnar.
En þú ert mættur og kemur strax að kjarna málsins. Það vantar alla framtíðarsýn hjá stjórnmálamönnunum okkar, þ.e.a.s. hver verður niðurstaðan á því að fara eina leiðina frekar en aðra í gegnum kreppuna, eða öllu heldur hvernig viljum við að staða okkar sé þegar litið er um öxl eftir nokkur ár og afleiðingar þeirra aðgerða sem gripið er til núna eru skoðaðar.
Sú framtíðarsýn sem ég myndi styðja er einfaldlega sú að eftir 2-3 ár eða 5-10 ár búi fjölskyldurnar í landinu ennþá í sínu eigin húsnæði án þess að vera fast í skuldafangelsi, náttúruauðlindirnar séu í eigu þjóðarinnar og ríkið fari með ráðstöfunarréttinn eftir skýrum og gagnsæjum lögum. Ef við ákveðum þetta í stað hinnar hefðbundnu leiðar förum við í gegnum þetta eins volgur hnífur í gegnum smjör, og sátt mun ríkja í samfélaginu.
Eignatilfærslan sem yfir okkur hangir eins og dómur endar með gríðalegum afskriftum hvort sem er, en eignirnar safnast á fárra hendur. Fjölskyldurnar verða leiguliðar þeirra sem eru í náðinni hjá bönkunum og stjórnmálaflokkunum og óréttlætið mun svíða þjóðarsálina.
Þetta er einfalt, setja sér skýrt markmið um að gera landið eftirsóknarvert fyrir okkur að búa í og miða allar aðgerðir við það, eða láta einhver ytri öfl og hendingu ráða og allir sem hafa getu og þor munu flytja héðan og skilja skuldirnar eftir handa heimskri og hníptri þjóð að borga.
Bestu kveðjur úr borginni
Toni (IP-tala skráð) 29.3.2009 kl. 16:57
Takk félagar.
Og Toni, þessi draumsýn okkar á að vera draumsýn Félagshyggjuflokkanna og reyndar allrar þjóðarinnar. Um þetta þarf þjóðarsátt og þetta á að vera stefna allra flokka. Enda hefur skynsamt fólk í öllum flokkum talað á þessum nótum, á einn eða annan hátt.
Þegar Hrunið er afstaðið og stöðugleiki, forsenda uppbyggingarinnar, ríkir, þá vilja í raun allir byggja upp nýtt samfélag á þessum nótum. Aðeins nokkrir frjálshyggjubjánar eru útúr kú en aðalega útaf þeim misskilningi að þeir halda að það sé töff að vera andfélagslega sinnaður. Genin eru jafn góð og í okkur hinum. Ömmur þeirra voru eins. Aðeins villan skilur að.
En í kafaldsbylnum, sem byrgir fólki og flokkum sýn, þá sjást villuljós Alþjóðagjaldeyrisjóðsins útum allt og þau eltir fólk því hann er svo "Alþjóðlegur". Svona eins og gamla konan sem bakaði bestu kleinur á Íslandi (í minningunni) tók upp á þeim fjanda að bjóða okkur krökkunum þurra jólaköku með þeim orðum að hún væri Dönsk. Eins er það með óráð Óbermana, þau vísa fólk út í keldur og foröð. Þegar fólk er búið að fá nóg að drullunni og hreinsunarstarfinu, þá tekur skynsemin völdin og það sem gera þarf, verður gert.
En Toni, blogghléin koma þegar maður sér ekki tilganginn í að eyða kröftum sínum að skamma gamla vini og samherja. Hugmyndin var alltaf sú að nota þennan vettvang til að skamma frjálshyggjuna blóðugum skömmum, já og landráðin í ICEsave. Á dauða mínum átti ég frekar von en að þurfa skrifa færslu eftir færslu um meinta frjálshyggju VinstriGræna. En þetta þarf víst að gerast og ekki undan vikist.
En við lifum á örlagatímum og meiri líkur en minni að atburðirnir í byrjun 19. aldar og byrjun 20. aldar séu að endurtaka sig. Græðgiskapitalisminn er komin að endalokum en fall hans ógnar heimsfriðnum. En það er algjör óþarfi að hann taki Ísland með sér í falli sínu.
Kveðja, Ómar.
Ómar Geirsson, 29.3.2009 kl. 17:52
Heill sé þér Ómar frá Neskaupstað. Hef engu við þetta að bæta nema hvað þín er þörf á vissum vettvangi og við - alla vega ég bíð.
Arinbjörn Kúld, 31.3.2009 kl. 23:34
Blessaður aftur Arinbjörn.
Mér vitnalega er það bara konan sem bíður í rúminu eftir því að ég drattist til að fara að sofa.
En ég hef verið að skemmta mér við að ergja ESB sinna og Samfylkinguna núna seinni partinn, bæði hér og þá sérstaklega á Silfrinu. Tókst meiri að segja að æsa landsölumann uppí ritdeilu. En þetta tekur tíma. Kannski hefði ég bara átt að birta auglýsingu í Mogganum um bloggið mitt. "Lesið nýjustu fréttir um landráð og landsölu". "Í kaupunum fylgir líkan af björgunaráætlun þjóðarbúsins".
En þú mátt lesa svar mitt til Hilmars í athugasemdum þegar hann spurði mig hvað ég ætlaði að kjósa. Ég tók lítillega á stefnu Borgarahreyfingarinnar og þó ég eigi samleið í mörgu þá finn ég mig lítið í öðru. Eins og ég hef sagt þér áður þá vantar hreyfinguna hugljómunina. Hún boðar ekki skýra framtíðarsýn. Það er ekki trúverðugt að ætla leggja hana niður þegar einhverjum áfanga er náð. Í kjarnanum vantar ykkur trúna á bjartara mannlíf. Sem einstaklingar hafið þið hana en sem hreyfing þá eruð þið of tæknileg og of mikið í baksýnisspeglinum. Þið megið aldrei gleyma því að hópurinn sem er sekur í aðdraganda hrunsins er mjög stór og þetta fólk á maka og ættingja, vini og kunningja sem líka eiga vini, ættingja og kunningja.
Nýtt Ísland byggist ekki upp nema á grundvelli mannúðar og virðingu fyrir öllum, jafnt háum sem lágum, heilbrigðum eða sjúkum. Frumprófið til að sýna þessa mannúð er að finna leið til að sætta þjóðina og á því prófi hafið þið fallið. Því miður. Þórir er hagfræðingur en ekki stjórnmálamaður. En hann fellur líka á hagfræðiprófinu því grátandi móðir manns sem gistir fangaklefa mun vekja samúð og í þá samúð munu þeir sækja sem vilja hindra umbætur sökum hagsmuna sem í því eru fólgnir að viðhalda gamla kerfinu. Og þó menn telji sig sigra andstöðuöflin þá er sigur ekki tryggður fyrr en hann er orðinn og hann mun aldrei vinnast nema með miklum tilkostnaði.
Borgarahreyfingin mun aldrei fitna á að gera út á hatrið. Í besta falli skilar það tímabundnu fylgi.
Og til að breyta heiminum þurfa menn að sjá fram fyrir nef sitt.
Og ef menn ætla sér eitthvað minna þá eiga þeir að halda sig við fjórflokkinn.
Svo einfalt er það.
Bið að heilsa Norður.
kveðja, Ómar.
Ómar Geirsson, 1.4.2009 kl. 01:12
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.