16.3.2009 | 16:05
Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn er ekki lengur í þessum heimi.
Starfsmenn hans er alfarið komnir á draumasviðið. Kerfishrun Nýfrjálshyggjunnar, þeirra hagtrúarbragða sem þeir hafa þvingað upp á fátækar þjóðir víða um heim, er þeim svo mikið áfall að þeir höndla ekki raunveruleika ársins 2009.
Þetta kom skýrt og greinilega fram í stuttu viðtali Boga Ágústssonar í Fréttaaukanum í gær. Með hnitmiðuðum spurningum þá tókst Boga að afhjúpa fáráð þessara manna.
Bogi spurði Mark Flanagan hvenær hann teldi að birti til á ný í hagkerfum heimsins. Flanagan vísaði í aðgerðir Seðlabanka og ríkja og taldi að það færi að skila árangri í árslok eða byrjun næsta árs. En bíddu við, Bogi var ekki að tala við bjartsýnan Tryggva Þór heldur hagfræðing hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Er þessum manni virkilega ókunnugt um stöðu hins vestræna fjármálakerfis. Rogoff, fyrrum aðalhagfræðingur sjóðsins, taldi að gatið sem þyrfti að fylla uppí í Bandaríkjunum einum væri að minnsta kosti ígildi 2.800 milljarða dollara og hann sagði að það eina sem kæmi kerfinu á stað aftur væri gjaldþrot þess og síðan endurreisn. Núverandi inngjöf fjármagns dygði ekki nema hún lokaði gatinu og núverandi innspýting er aðeins brot af þörfinni. Hann taldi engar lýkur að bandaríska hagkerfið næði sér fyrr en kerfisbreyting hefði átt sér stað. Og það þarf að afskrifa skuldir og sú umræða er komin á fullt í Bandaríkjunum eins og hjá VerðtryggingarBensa hér heima á Íslandi.
Vandinn er það alvarlegur að engar smáskammtalækningar duga. Það eitt er víst. Og tala um bata án þess að kerfisbreyting eigi sér stað er bara bull eða vitleysa eftir því hvernig menn vilja orða það.
En þessi meinti bati átti að koma Íslenska atvinnulífinu í hagvöxt árið 2010. En bíddu við. Allt að helmingur heimila er með neikvæða eiginfjárstöðu og stór hluti þeirra horfir fram á mikla greiðsluerfiðleika. Samtök atvinnulífsins segja að ástandið sé skelfilegt og allt að 70% atvinnulífsins sé við að verða gjaldþrota. Samt er vöxtunum haldið í 18%. Hvernig getur gjaldþrota atvinnulíf staðið undir hagvexti? Hingað til er slíkt ávísun á mikið atvinnuleysi. Og það er staðreynd nú þegar en hinn meinti hagvöxtur er orðagjálfur bjánaprika sem halda að hagvöxtur verði til úr engu.
Hvað á að starta þessum hagvexti árið 2010? Útflutningur? En hann er að hrynja, ekki bara hjá okkur heldur líka í útflutningshagkerfum eins og Þýskalandi, Svíþjóð, Frakklandi og Japan. Og svo er öll Austur Evrópa komin að fótum fram. Mun það hjálpa til að skapa hagvöxt á Íslandi? Muna ganga svo vel að selja þeim fiskafurðir okkar þegar þeir eiga engan gjaldeyrir til að borga fyrir þær? Eða mun hrun loðnu og síldveiða ýta undir hagvöxt? Eða sú staðreynd að mikillar sölutregðu gætir á mörkuðum okkar fyrir fiskafurðir.? Eða helmingslækkun á afurðaverði áls?
Er það sem sagt eitt stórt samsæri sú kenning sem Íslendingum hefur verið talið í trú um að efnahagur þjóðarinnar standi og falli með afkomu útflutningsgreinanna? Var þetta bara samsæri til að ríkisstjórnir gætu fellt gengið þegar þeim leiddist? Svona til að hafa eitthvað til að rífast um við stjórnarandstöðuna?
En innlend eftirspurn? Hvað með hana? Það er ljóst að sú tilraun til að endurreisa hið gamla fjármálahagkerfis er að ganga bæði af neytendahagkerfinu og framleiðsluhagkerfinu dauðu. Verðtryggingin, hæstu vextir á byggðu bóli og full harka í innheimtu skulda er að þurrka upp allt fjármagn sem við eðlileg skilyrði heldur uppi veltu í hagkerfinu. Lítið dæmi er sú frétt að núna eru bátarnir farnir að landa aftur í Grimsby. Vinnslan hefur ekki lengur efni á að fjármagna vinnslu í dýrar afurðir vegna hins geipiháa vaxtakostnaðar.
Það sem heldur ennþá eftirspurninni gangandi er hið mikla peningamagn sem var í umferð þegar kreppan hófst en smátt og smátt er það að klárast og þar sem innspýting fjármagns er lítil sem engin þá mun allt smátt og smátt stöðvast. Skuldpíndur almenningur mun aldrei ná að hleypa nýju lífi í þá stöðvun sem við blasir. Ekki nema að til róttækra ráða verði gripið í anda þess sem er rætt í Bandaríkjunum með niðurfellingum hluta skulda almennings og fyrirtækja. Og að vextir verði lækkaðir niður í 4-5% strax á morgunn.
Þó 30 hagfræðingar frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum mæti til Íslands og kyrji sína hagvaxtaspá þá mun risna þeirra ekki duga til að snúa þróuninni við. Hvað þá orð þeirra.
Til þess þarf aðgerðir og þær einu sem hafa komið frá sjóðnum hafa verið til ills en ekki til góðs. Slæmt ástand var gert óviðráðanlegt.
Flanagan talaði líka um að ef vextirnir yrðu lækkaðir þá ykist verðbólga og slíkt hefði áhrif á verðtrygginguna. Sú lausn að gera fyrirtækjum kleyft að halda uppi atvinnu þýðir verðbólgu í miðri kreppunni. Í það fyrsta þá eru okurvextir sjálfstæður verðbólguþáttur og í öðru lagi þá eru það gjaldeyrishöftin sem tryggja jafnvægisgengi krónunnar en ekki okurvextirnir. Í þriðja lagi þá er engin innlend verðbólga til staðar (hann benti t.d sjálfur á launalækkanir sem dæmi um sveigjanleika hagkerfisins). Ef jafnvægisgengi leitar niður á við vegna minnkandi útflutningstekna, þá er um tekjuskerðingu þjóðarbúsins að ræða en ekki verðbólgu. Við fáum einfaldlega minna fyrir krónur okkar.
Og í fimmta lagi þá er lausn þessa vanda mjög einföld, hvort sem verðhækkanir vegna gengisbreytinga kallast verðbólga eður ei. Og sú lausn kallast FRYSTING VERÐTRYGGINGARINNAR á meðan hamfarirnar ganga yfir. Það á sér stað gífurleg tekjuskerðing í þjóðarbúinu og allir, jafnt ríkissjóður, launþegar, fyrirtæki og fjármagnseigendur þurfa að sætta sig við hana. Ef einhver hluti efnahagslífsins ætlar að beita Alþjóðagjaldeyrissjóðnum fyrir sig til að vera stikkfrí eins og fjármagnseigendur eru að reyna með því að ríghalda í verðtrygginguna, þá gengur það einfaldlega að hinum hluta hagkerfisins dauðum og þá munu fáir borga af skuldabréfum sínum. Þetta er svipuð speki eins og að taka hjarta úr sjúkling til að til að tryggja heilsu hans. Slíkt leiðir alltaf til eins, dauða. Fjármálakerfið er ekkert eyland í hagkerfinu sem getur þrifist án neytenda eða framleiðslu.
Heilbrigð skynsemi sér þetta samhengi. Og viðreisn Íslands mun ekki eiga sér stað fyrr en Verðtryggingin er fryst og vextir lækkaðir. Fyrir þjóð sem lítið á annað en skuldir, þá er um lífsnauðsynlegar aðgerðir að ræða.
Einnig má gera grín að þeirri fullyrðingu Flanagans að heimili landsins munu geta staðið við skuldbindingar sínar þrátt fyrir að hann spái fallandi fasteignaverði og stóraukið atvinnuleysi. Og síðan eru það okurvextirnir og verðtryggingin. Kannski eiga allir að fara að spila í lottó. Gæti verið en Bogi hefði kannski átt að spyrja hann af hverju fólk ætti að vera þátttakendur í þessari arfavitlausu tilraun sjóðsins á Íslendingum. Tilraunin "Hve mikið má pína fólk áður en það gefst upp". Því auk stóraukinna skulda þá er verið að boða skattahækkanir, lækka launin og svo hefur allur framfærslukostnaður stórhækkað. Hví ætti fólk sjálft og börn þess að lifa öreigalífi næstu árin og jafnvel áratugina til þess eins að fjármagnseigendur og auðkýfingar hafi allt sitt á þurru og geti blóðmjólkað það endalaust? Kannski eru Íslendingar orðnir svona vondir foreldrar að þeir bjóði börnum sínum upp á líf skuldaþrælsins.
En ég stórlega dreg það í efa.
Þessi maður Flanagan er ekki í neinu jarðsambandi.
Hann er kominn upp á Astralsviðið.
Er kannski von á Astraltertugubbi á vormánuðum? Hve lengi tekur það þjóðina að þrífa þann viðbjóð af sér?
Kveðja að austan.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Um bloggið
Ómar Geirsson
Færsluflokkar
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (23.11.): 470
- Sl. sólarhring: 541
- Sl. viku: 6009
- Frá upphafi: 1400766
Annað
- Innlit í dag: 412
- Innlit sl. viku: 5170
- Gestir í dag: 383
- IP-tölur í dag: 376
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Já Ómar minn, allt svo satt og rétt. Ég velti því fyrir mér HVERS VEGNA stjórnvöld eða þá Steingrímur gera ekki það augljósa í stöðunni. Hvers vegna haga þeir sér eins og strengjabrúður IMF? Hvað veit Steingrímur núna sem við vitum ekki?
kv, að norðan
Arinbjörn Kúld, 16.3.2009 kl. 23:15
Veit ekki, veit ekki. Hef ekki efni á Whiskíflöskunni sem þarf til að veiða hann. En vísa í svarið á undan. Bjarni og Tryggvi eru að stela byltingunni.
kveðja ómar
Ómar Geirsson, 17.3.2009 kl. 00:02
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.