16.3.2009 | 13:32
Máttur beinna sjónvarpsútsendinga er mikill.
Það á enginn til myndband af því þegar Finnski kommúnistinn reis upp á fundi Finnska kommúnistaflokksins og sagði að innrás Rauða hersins væri söguleg nauðsyn til að tryggja framgang heimsbyltingarinnar. Það á heldur enginn til myndband af því þegar Kvisling hélt sitt útvarpsávarp og hvatti Norsku þjóðina til að styðja Þýsku bræðraþjóðina í baráttu hennar við villmennsku kommúnismans.
En við Íslendingar eigum á myndbandi vilja forystumanns í Samfylkingunni til meintra landráða í ICEsave deilunni. Í dæmunum hér að framan var um úrkast viðkomandi þjóða en hér á Íslandi er það ráðandi flokkur í stjórn þjóðarinnar sem vílar sér ekki að leggja óbærilegar skuldabyrðar á þjóð sína í þeim eina tilgangi að draumur flokksins um aðild landsins að Evrópusambandinu verði að veruleika. Málstaður Evrópusinna er svo veikur að þeir telja sig þurfa svíkja þjóð sína til að ná fram þessum markmiðum sínum.
Í grein sinni um ólögmæti þess að Íslenska ríkið greiði bretum og Hollendingum þá upphæð sem vantar uppá að Ábyrgðarsjóður innlánstrygginga geti greitt lágmarks innlánstryggingu Íslensku einkabankanna, vegna ICesave og Kaupþing EDGE, spyrja þeir Stefán Már og Lárus Blöndal
"Í hvað liði eru Íslensk stjórnvöld"
Ríkisstjórn Íslands með liðsinni spilltra fjölmiðla (það er spilling að hindra eðlilegan fréttaflutning vegna einkaskoðana viðkomandi ritstjóra) hefur komist upp með að hunda þessa spurningu. Enginn flokkur í stjórnarandstöðu hefur krafið stjórnina svara í þessu lífshagsmunamáli íslensk almennings sem á alsaklaus að greiða fyrir bankasukk Björgólfsfeðga og Evrópudraum Samfylkingarinnar.
En núna kom svarið skýrt og skorinort í hita leiksins í Silfri Egils. Árni Páll Árnason sagði að auðvitað ættu Íslendingar að greiða þessar ábyrgðir og þegar hann var spurður út í rétt Íslands til að leita réttar síns, þá hló hann og vitnaði í eitthvað reikningsdæmi úr kennslubók í stærðfræði fyrir 7 ára. Það skildi hann enginn, ekki hann sjálfu heldur, en það var skýrt svar að Íslensk stjórnvöld myndu ekki sækja réttar síns á meðan Samfylkingin væri í stjórn.
Og þetta brot á stjórnarskrá Íslands er með fullum stuðningi VinstriGrænna en eins og tilvonandi þingkona þeirra sagði þá vildi hún frekar að félagshyggjustjórn skæri niður á sinn milda hátt í velferðarkerfinu vegna þeirra tugmilljarða sem árlega fara í að greiða ólögin. Hún virtist ekki skynja samhengið að til þessa niðurskurðar þyrfti ekki að koma ef Ísland stæði á rétti sínum og neitaði ólögunum nema að undangegnum dómi Evrópudómsstólsins. Þess dóms þarf Ísland ekki að kvíða því þegar handrukkar beita ofbeldi og kúgun til að ná fram fjárkröfum sínum þá er það vegna þess að þeir treysta sér ekki í dómsstólaleiðina. Enda er til svipuð greinargerð lögfræðinga og þeirra félaga, Stefáns og Lárusar, í öllum fjármálaráðuneytum Evrópu. Það hvarflar ekki að nokkurri annarri þjóða að nota skattpeninga sína til að greiða ábyrgðir innlánskerfa annars ríkis.
Aðeins Íslenskir minnimáttarpúkar telja slíkt svo sjálfsagt að þeir brjóta stjórnarskrá lýðveldisins til að verða menn með mönnum en eru í raun aðhlátursefni allra í Evrópusambandinu.
En það er von. Nýr þjóðarleiðtogi er í burðarliðnum. Bjarni Benediktsson er alltaf að koma sterkari og sterkari inn sem leiðtogi og markar sér æ meir bás með staðreyndum en ekki bábiljum. Hann hefur þegar fært fyrir því sterk rök að lenging lána og greiðsluaðlögun sé gagnslaust tæki eitt og sér til að hindra algjört efnahagshrun. Hann er búinn að færa öll rökin fyrir Frystingu verðtryggingarinnar en á bara eftir að segja það upphátt sem skynsemin segir honum undir niðri.
Eins er það með ICEsave deiluna. Í þætti Egils viðurkenndi hann að þrátt fyrir stjórnarskrárbrot (sjá grein Stefáns og Lárusar um heimild til ábyrgðar ríkisins en ekkert slíkt er til staðar í ICEsave ábyrgðinni) þá hefðu þáverandi stjórnvöld með Geir Harde og Þorgerði Katrínu að hálfu Sjálfstæðisflokksins, viðurkennt að deilan væri erfið pólitísk og lausn hennar væri á pólitískum nótum en ekki lagalegum. Svona fyrir utan að viðurkenna brot sem varðar við Landsdóm þá dró hann í land stefnu flokksins í ICEsave deilunni vegna hörku og óbilgirni breta. Vill greinilega ekki lengur að flokkur hans fremji landráð gagnvart íslensku þjóðinni. Á aðeins eftir að segja það upphátt sem hann hugsar í hljóði.
En þegar Bjarni Benediktsson fer að tala upphátt þá mun það verða aumt fólk sem styður Samfylkinguna eftir 6 vikur. Þeim til upplýsingar sem finnst orðið "aumt" vera gífuryrði um samlanda sína þá má þess geta að Norðmenn árið 1945 höfðu uppi mun stærri og harkalegri orð um gjörðir meðlima "systurflokks í anda" Samfylkingarinnar í Noregi.
Það er nefnilega ekki sniðugt að láta saklausan almenning blæða fyrir sinn pólitískan metnað.
Það er rangt og má aldrei gerast að Íslenskur almenningur verði seldur eins og hver annar búfénaður til að Evrópudraumur Samfylkingarinnar rætist.
Kveðja að austan.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Um bloggið
Ómar Geirsson
Færsluflokkar
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.1.): 15
- Sl. sólarhring: 24
- Sl. viku: 1239
- Frá upphafi: 1412793
Annað
- Innlit í dag: 6
- Innlit sl. viku: 1089
- Gestir í dag: 6
- IP-tölur í dag: 6
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Bjarni Ben þjóðarleiðtogi? Ég held að leiðtogin sé ekki komin fram. Hvað varðar icesave kjaftæðið þá ber okkur engin skylda til að greiða fyrir rán björgólfsfeðga og þeirra tindáta. ALþingi verður alltaf að samþykkja greiðsluna og komi til þess að alþingi gerir það þá.........
Arinbjörn Kúld, 16.3.2009 kl. 21:48
Blessaður Arinbjörn.
Drengurinn er að koma sterkt inn. Það þýðir ekkert að vera velta honum uppúr aldri, ættum og fyrri störfum. Jónas frá Hriflu (minn pólitíski guðfaðir, þess vegna fer ég svo létt með að skammast til hægri og vinstri) var alltaf að núa Ólaf Thors uppúr bernskubrekum hans eins og stuðningi Ólafs við kúgun sjómanna þegar þeir reyndu að knýja á vökulögin.
Það er jú alltaf framtíðin sem blífur. En ef Samfylkingin og VinstriGrænir halda áfram núverandi stjórnarstefnu mikið lengur þá verður hér hægri stjórn eftir kosningar. Ég held ég hafi sagt það áður en ég bloggaði einhvern tímann á Silfrinu um hve auðveldlega flokkurinn gæti skipt um stefnu ef hann sæi fyrir stefnu glataða. Það gerðist síðast í landhelgisstríðinu þegar flokkurinn stal útfærslunni af Lúðvík og lét Lúðvík vera í eilífri vörn við að verja af hverju hann fór ekki strax í 200 mílurnar. Skipti engu þó þeir hefðu hamast sem vitlausir menn á Lúðvík fyrir ósvífnina að færa einhliða út í 50 mílur.
Aldrei að vanmeta valdaflokk. Og þjóðin mun í næstu kosningum kjósa stefnu til framtíðar en ekki flokka eða fortíð þeirra. Spurningin er bara hvað er hægt að gera til að hindra þjóðargjaldþrot.
Þó ég sé orðhvass við Samfylkinguna (tók samt þátt í prófkjöri hennar til að styðja Benedikt) þá er það allt í góðri meiningu. Það er stefnan sem er röng en ekki fólkið. Og ef enginn hlustar á mig ( og af hverju ætti nokkur að gera það ) þá mun Sjálfstæðisflokkurinn stela Félagshyggjunni og ná völdum að nýju.
Og Bjarni mun verða leiðtogi því hann er ekki svo heimskur að reyna að verja helstefnu IFM.
Og af hverju er ég að skamma þá sem gjöra illt og hrósa þeim sem sjá villu sinnar fyrri stefnu. Jú, það þarf þjóðstjórn því það er HEIMSKREPPA og vandi Íslands því margfalt verri en ef það væri bara normal kreppa eða staðbundin kreppa.
Allir sem tala í rétta átt fá prik, hinir fá skammir og þeir vilja borga ICEsave eins og Árni Páll, þá eru þær blóðugar. En ekki illa meintar. Mér er aldrei nokkurn tímann full alvara þegar ég rífst og skammast eða áreiti og stríði, en mér er alltaf full alvara þegar ég hrósa eða sé eitthvað jákvætt. Því það er aðeins jákvæðnin og samstaðan sem kemur okkur í gegnum þessa kreppu. Ég skammast aðeins vegna þess að það virðist enginn taka þann pól í hæðina sem ég geri í öllum mínum skrifum, burt með ICEsave og IFM. Ef bloggheimurinn væri logandi eftir hvert svikaviðtalið á Bláskjá eða rangfærslur frjálshyggjumanna, þá væri ég bara í því sem mér finnst skipta meira máli og það er heimspeki Bangsapabba í Dýrunum í Hálsaskógi. Tímarnir eru nefnilega þannig og sú framtíð sem býður okkar ef við fetum slóð sundrungar og deilna, er skelfileg. Og ef við höfum ekki efni á henni þá er ég góður við alla sem vilja vera góðir við börnin mín. En ef þeir styðja ICEsave, þá sé ég rautt og yrði sjálfsagt rekinn samstundis úr Hálsaskógi. En það þurfa allir að hafa sína djöfla að draga.
En ég geri aldrei málamiðlun við Frjálshyggjuna, en ég get látið mig lynda við Frjálshyggjumenn. Allflestir hafa ekki hugmynd um hvað þeir eru fínir náungar. Þetta er bara einhverskonar barnaveiki sem eldist illa af þeim. En það er önnur saga.
En mín kristalkúla er eins og aðrar góðar kristalkúlur, sér það sem gæti gerst en þarf ekki að gerast. En þá þurfa vinstri öflin að þroskast og fara að hlusta á fullorðið fólk. Annars endar þetta með Bjarna sem þjóðarleiðtoga. Vil það miklu frekar en helkaldan náðarfaðm Jóhönnu.
Kveðja, Ómar.
Ómar Geirsson, 17.3.2009 kl. 00:00
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.