Andstaðan mun ekki ná árangri á meðan hún notar rökfærslur Péturs Blöndals.

Vandi heimilanna er gríðarlegur.  Seðlabankinn áætlar varlega að 30-40% allra heimila sé með neikvæða eiginfjárstöðu eða við að verða það.  Þegar áhrifa tekjuskerðinga vegna launalækkunar eða atvinnuleysis ásamt hinnar gríðarlega hækkunar á framfærslu vegna gengishrunsins, er ekki varlega áætlað að 50-60% allra fjölskyldna í landinu sé að horfast í augun á miklum vanda.  Margir munu verða gjaldþrota en enn fleira fólk mun verða bundið í skuldaklafa og þrældóms það sem eftir er sinnar ævi ef það reynir að standa í skilum við sína lánardrottna.  Slíkt mun aðeins leiða hörmungar yfir þjóðina.

Ljóst er að vandinn er það mikill að það er allra hagur að hann sé leystur með ráðum sem duga.  Hálfkák sem vekur vonir mun aðeins gera illt verra.  Því ekkert mun fara verr með fólk í miklum erfiðleikum en brostnar vonir.  Það sem þarf að gera tók ég lauslega fyrir í síðustu "Blessunar" grein minni.  Aðgerðirnar þurfa bæði að vera almennar (Frysting "Hrun" verðbóta) og sértækar eins og sú greiðsluaðlögun sem ríkisstjórnin boðar.  

Ríkisstjórnin hefur hafnað Frystingu veðtryggingarinnar.  Segir það of dýrt og komi þeim ekki að gagni sem mest þurfi á hjálpinni að halda.  Segist frekar ætla að meta stöðu hvers og eins skuldara.  Þetta hljóma ágætlega og gæti verið skynsamlegt ef um takmarkaðan vanda er að ræða.  

En það er Neyðarástand, ígildi afleiðinga hamfara.  Það þarf gífurlegar hamfarir í einu landi til að 50-60% allra heimila eigi við mjög erfiðan greiðslu- og eignavanda að ræða.  Hver telur sig hafa þann mátt og það siðferði að hann geti valið og hafnað beiðnum frá fólki í neyð?  Hvernig á að velja og hafna?  

Og það er líka gífurlegur kostnaður í því fólgin að neyta fólki um aðstoð.  Lánin hverfa ekkert við það að fólk fari í gjaldþrot.  Og við bætist hinn félagslegi kostnaður.  Og hann getur varað í áratugi.

Á Íslandi var eignabóla eins og í svo mörgum öðrum löndum.  Í kreppu leiðréttist eignarverð.   Seðlabanki Íslands áætlar t.d að húsnæðisverð falli um 25% og þá er reiknað með að aðgerðir ríkisstjórnarinnar hindri kerfishrun.  Annars verður verðfallið miklu meira, getur orðið meira en 50% á dýrum eignum.  Allstaðar útí hinum stóra heimi þá lækka skuldirnar ekki með lækkandi eignarverði og því er talað um kreppu og greiðsluerfiðleika almennings.  En hvergi á byggðu bóli hækkar skuldir fólks á móti þessari eignarrýrnun.  Hvergi nema á Íslandi þar sem slíkt er talið vera lögmál Guðs, byggt á boðorðunum tíu.  

En verðtryggingin var aldrei hugsuð til að mæta svona kerfishruni.  Að viðhalda henni við þessar aðstæður er það sama að viðhalda ójafnvægi og við ójafnvægi þá lætur alltaf eitthvað undan.  Verði það ekki til að hrekja gjaldþrota  fólk úr landi  í þúsunda tali, þá mun þetta sama fólk endalaust reyna að rétta hlut sinn með kaupkröfum langt umfram það sem framleiðniaukning atvinnulífsins gefur tilefni til.  Með öðrum orðum, til staðar verði raki og fúkki sem mygla verðbólgunnar mun þrífast í næstu áratugina.

Það er sama þó öðru verður haldið fram, svona verður þetta bara.  Smásálarskapur og lítilmennska okkar í dag mun skapa ómælda erfiðleika í framtíðinni.  

En Jóhanna Sigurðardóttir má eiga það að hún rökstyður sitt mál og bendir á að hún vilji nota takmarkaða fjármuni í að reyna hjálpa þeim sem mest þurfi á hjálpinni að halda.  Hún er með engin ódýr rökbellibrögð eins og Árni Páll Árnason spurði í grein sinni í Fréttablaðinu hvort fólk vildi virkilega að hjálpa fólki sem skuldaði 125 milljónir.  Eins og það væri málið.

En svona útúrsnúningur og afbakanir eru ættaðar úr búðum Frjálshyggjunnar.  Þegar hún sjálf hefur ekki vald til að hundsa réttmætar kröfur almennings, þá notar hún röktækni lágkúrunnar og sjálfselskunnar til að afvegleiða umræðuna og hindra framgöngu góðra mála.  Pétur Blöndal notaði þessa tækni þegar hann kvað í kútinn, illu heilli fyrir þjóðina, hugmyndir þeirra Jóns Daníelssonar og Gylfa Zoega um eignarhlut sjóða í fasteignum fólks þegar það gæti ekki greitt nema hluta lána sinna.  Á að hjálpa ríka fólkinu spurði Pétur kotroskinn og benti síðan fávísum blaðamönnum á að almenningur myndi aldrei sæta sig við nema fólkið borgaði markaðsleigu á eignarhlut ríkissjóða.  En enginn var að tala um leigu nema hann og þá bábilju tóku fjölmiðlakjánar upp.

Lærisveinn Péturs skrifaði grein um vaxtabætur í Frjálshyggjukálf Morgunblaðsins í gær.  Þar sagði hann þetta út frá eigin brjósti en lét hljóma sem frétt.

Munurinn á þessu aðgerðum er hins vegar mikill, því 20% niðurfærsla yfir alla línuna er hugsuð fyrir alla.  Þá myndu þeir fá mest sem skulda mest, en væntanlega eru það í flestum tilvikum þeir sem jafnframt eiga mest og þéna mest.  Aðstoð í gegnum vaxtabótakerfið nýtist hins vegar fyrst og fremst þeim sem á þurfa að halda og eiga minnst.

En stöldrum aðeins við þessa röksemdarfærslu.  Kaupir fólk þetta.  Má ekki bjarga þjóðfélaginu vegna þess að einhver fær hjálpina sem á hana ekki skilið?  

Á þá þetta "efnaða" fólk enga hjálp að fá.  Þó lendir það í sömu hörmungum og við hin og ber engu meiri ábyrgð á því sem gerðist.  Hefur það ekki greitt skatta eins og aðrir þegnar þessa lands?  Það vill oft gleymast að maður með milljón á mánuði greiðir hærri upphæð til samfélagsins en maður með 300 þúsund á mánuði.  Á hann ekki sömu kröfu til aðstoðar og við hin því hann hefur haft meiri tekjur en við?

Ókei, segjum að við hjálpum honum ekki.  Þetta er ekki Íslendingur, þetta er annars flokks Íslendingur.  Má hann þá flytja úr landi?  Hvað ef þetta er þvagfæraskurðlæknirinn hans pabba eða gjörgæsluskurðlæknirinn sem tjaslar saman börnum okkar eftir umferðaslys?  Má hann samt missa sig?

En ef maki hans er hjúkrunarfræðingur eða leikskólakennari?  Og börnin hans leikfélagar barnanna okkar?  Eru þau ekki Íslendingar?  Hafa þau ekki sömu réttindi og við hin?

Og hvað með foreldra viðkomandi.  Kannski venjulegt alþýðufólk, sem alltaf hefur greitt sína skatta og skyldur, og þau unnu hörðum höndum svo börnin gætu fengið þá menntun sem fátæktin meinaði þeim um.  Hafa þau engan rétt?  Eru skilaboð þjóðfélagsins til þeirra eftir allt þeirra fórnfúsa starf að börn þeirra og barnabörn séu einskis virði sem þegnar þessa lands?

Það má vera að einhver smásálin svari öllum þessum spurningum játandi.  En hver er hagur hennar að hrekja þetta fólk úr landi?  Hverfa skuldir þessa fólks við brottflutning eða gjaldþrot þess?

Hver tekur við að greiða þær????????  Þær hverfa ekki þó fólk sé gert upp.  Heldur fólk virkilega að það finnist einhver kaupandahópur af eigum þessa fólks og yfirtaki skuldir þess?  Er það þá huldufólk eða álfar?

Ef ekki þá þarf að afskrifa skuldir og finna nýja kaupendur.  Er allt í lagi að gefa þeim eftir skuldina?  Bara ekki þeim sem þurfa á skuldinni að halda?  Bara þeim sem vilja gera góð kaup?

 

Bara þeim sem vilja gera góð kaup segir frjálshyggjan því hún hugsar sig  og sína.  Auðmenn og þjóna þeirra.  

Þegar fólk grípur röksemda sjálfselskunnar og spyr hví á ég að hjálpa þessum þá gerir það slíkt í annarlegum tilgangi.  Því þú spyrð ekki þegar þú hjálpar.  Þú hjálpar.  

Siðleysið sem þessi röktækni höfðar til er siðleysi frjálshyggjunnar.

Andstaðan má aldrei gleyma því.  Púkinn sem kom okkur á heljarþröm er sívinnandi við að tryggja yfirráð sinna gömlu herra.  Hans vopn er sundrung og úlfúð.  Á meðan endurreisir hann ríki græðginnar og siðvillunnar því þannig heldur hann að þeir "ríku" vilji hafa þjóðfélag framtíðarinnar.  

Í fyrsta lagi er það ekki rétt.  Og í öðru lagi þá á að kveða hann í kútinn en ekki láta glepjast af úrtölum hans. 

Andstaðan á ekki að tala eins og Pétur Blöndal.  Hann er fullfær um að gera það sjálfur.

Kveðja að austan


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Arinbjörn Kúld

Ég er sammála þér Ómar. Ekkert okkar má missa sín. Við erum öll jafnmikilvæg. Ég hef ekki enn keypt þessi rök þeirra sem eru á móti niðurfellingu hluta skuldana. Það hlýtur að vera þjóðarhagur að sem flestir geti haldið áfram að borga skuldir sínar - okkur er engin hagur að því að setja sem flesta í gjaldþrot með tilheyrandi niðurbroti einstaklinga og fjölskyldna.

Arinbjörn Kúld, 14.3.2009 kl. 17:48

2 Smámynd: Ómar Geirsson

Arinbjörn, það er aðeins ein röksemd sem ég kaupi og það er sú röksemd að okkur sé það bannað og ég trúi að hún spili stórt hlutverk.  En á meðan þetta fólk í stjórninni þykist ráða öllu þá á að skamma það.

En snatarnir sem flykkjast á vigvöllin til að gelta eru aumkunarverðir.  Þeirra höfuðröksemd er sú að það kosti svo mikla peninga að gera við hagkerfið.  Það er þetta eins og með bilaða ABS hemla, það getur verið dýrt að gera við þá en sá sem neitar þeim kostnaði vildi ekki fara niður Bröttubrekku á hemlalausum bíl.  Þá fyrst er hægt að ræða um kostnað og tjón. 

Eins er sú rökvilla að halda að lánin hverfi að sjálfu sér ef fólk er svo hart leikið að það gefist upp á þeim.  Þá falla þau á okkur hin á einn eða annan hátt.  Eins er raunverulega ekki verið að fella eitthvað niður.  Það er einfaldlega verið að taka úr sambandi arfavitlaust mælitæki sem var ekki hannað við þessar aðstæður.  Svo gleyma menn samfélagskostnaðinum sem er mestur.  Sjálfsagt skilja snatarnir þetta þegar málin eru rædd við þá í rólegheitum en þeir halda bara að þeirra hlutverk sé að gelta þegar húsbóndinn kallar.  Gömul og gild vinnubrögð í pólitík en við höfum ekki efni á þessari pólitík í dag.  Þannig að Snatarnir þurfa að mannast.  Það er mikill misskilningur hjá þeim að halda að þeir séu af ætt hunda.  Veit ekki til þes að þeir séu með skott.

En hættulegast röksemd úrtölumannanna er sú að þetta komi þeim að gagni sem þurfa ekki svo mjög á því að halda.  Frægt dæmi er þegar Árni Páll gerði á sig með því að tala um 125 milljóna króna lán og svona bullustampur var kosinn í fyrsta sætið hjá Samfylkingunni.  Kann ekki þá grundvallarreglu forystumanns að láta snatana um bullið.  En þetta er röksemd Péturs Blöndals og því skrifaði ég þennan pistil.  Og hef reyndar hjólað í þessa röksemd á fleiri stöðum.

En að trúa Pétri Blöndal er helsti veikleiki Andstöðunnar.  T.d. er L-listinn ekki 5 atkvæða virði því hann er eins og lítil fló á skinni Péturs.  Ef fólk þekkir ekki muninn á réttu eða röngu þá á það ekki að vera í pólitík.  Láta refina um hana.  Þeir hafa eðlið fram yfir hina sem þykjast ætla að bæta en ætla að gera það með bulli.  Þeim er engin afsökun því stefnuskrá Heimilanna liggur fyrir.  Treysti þeir sér ekki til að hafa aðra stefnu en Pétur Blöndal, þá eiga þeir að vera í flokki með honum eða Árna Pál ef þeir eru of fínir fyrir Pétur.

En ég viðurkenni það fúslega að margt gott fólk hefur smitast af Péturs-vírusnum og er það miður.  En ef þú treystir þér ekki til að hefja þig upp úr argþrasinu og sjá hlutina í samhengi, þá áttu að láta atvinnubjánabelgina um sviðið.  Þeir sem vilja bætt siðferði og ný vinnubrögð verða líka að fá nýjan hugsunarhátt byggðan á siðgæði.  Það er ekki siðgæði að skilja fólk eftir út undan í neyð þó svo vilji til að það hafi verið vel stætt fyrir hörmungarnar.  Það er siðfræði frjálshyggjunnar eða siðleysisins.  

Málið er að fólk staldrar ekki við í reiði sinni og íhugar málin í rólegheitum.   Í upphafi átt þú endann að skoða.  Það er sígild regla sem ekki bregst.

Og þess vegna hét fyrsta grein mín því ágæta nafni.

Kveðja, Ómar.

Ómar Geirsson, 15.3.2009 kl. 01:22

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Ómar Geirsson

Höfundur

Ómar Geirsson
Ómar Geirsson
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • Screenshot (49)
  • Screenshot (49)
  • ...img_0104a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.11.): 350
  • Sl. sólarhring: 527
  • Sl. viku: 5889
  • Frá upphafi: 1400646

Annað

  • Innlit í dag: 314
  • Innlit sl. viku: 5072
  • Gestir í dag: 299
  • IP-tölur í dag: 295

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband