Andstaðan nær aldrei árangri á meðan hún .......

Lýtur upp til manna sem tala eins og Geir Harde gerði eftir Hrunið.  Hver man ekki eftir Litlu kreppunni, haustið 2008.  Ástandið að vísu alvarlegt en þeir hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum sögðu Geir að samdráttur  landsframleiðslu yrði 10% og þjóðfélagið þyldi alveg 18% stýrisvexti svo hægt yrði að skapa þann "trúverðugleika" að gengið yrði aftur leikfang auðmanna.  Atvinnuleysið 6-8%, en samt skammtímavandi því efnahagslegar undirstöður þjóðfélagsins svo traustar að fólk yrði fljótt að finna sér aðra vinnu eða skapa sér ný atvinnutækifæri.  Til að flýta þeirri þróun setti sjóðurinn á 18% stýrisvexti og boðaði blóðugan niðurskurð ríkisútgjalda.  Ekkert að óttast sagði Geir, í raun er vandinn ekki meiri en sá að við förum aftur til þjóðartekna og landsframleiðslu ársins 2004 og var ástandið svo slæmt þá?  Og svo sagði hann að Tryggvi Þór segði að við skulduðum ekki svo mikið NETTÓ, rétt um helming af þjóðarframleiðslu. 

Og svo fór Geir Harde að bjarga og bjarga og bjarga og .....( alls 30 sinnum sagði hann í ræðu á Alþingi), eftir forskrift góðra manna hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.

Um raunveruleikaskyn Geirs má hafa mörg orð en ætli það sé ekki best að gefa samflokksmanni hans orðið í lýsingu sinni á þeim raunveruleika sem blasir við.  Guðlaugur Þór Þórðarson hafði þetta að segja í Morgunblaðinu þann 11. mars síðastliðinn.

Íslensk heimili og fyrirtæki þurfa á tafarlausum aðgerðum að halda.  Vandi þeirra er gífurlegur vegna aukins atvinnuleysis, hárrar verðbólgu, gengisfalls íslensku krónunnar og hás vaxtastig.  Heimilin kalla á aðgerðir þar sem ráðstöfunartekjur duga í mögum tilvikum ekki fyrir greiðslubyrði lána.  Um leið yrði komið til móts við fyrirtæki því ef of stórum hluta af ráðstöfunartekjum heimilanna er varið til greiðslu lána mun minnkandi velta í hagkerfinu leiða af sér aukið atvinnuleysi.  Það mun skila heimilunum enn minni ráðstöfunartekjum.  Í versta falli lendum við í fjöldagjaldþrotum einstaklinga og lánastofnanir standa uppi með mikið af íbúðarhúsnæði.  Þennan vítahring verður að rjúfa

Harðari getur dómurinn ekki orðið á ríkisstjórn Geirs Harde og athyglisvert að það er fyrrverandi ráðherra sem skrifar þessi orð.  Hin meinta björgun gerði aðeins illt verra og það sem var verst að Geir fylgdi ráðum arfavitlausra ímyndunarráðgjafa að gera lítið úr hinum raunverulega vanda.  Hvernig á þjóðin að taka á sig niðurskurð og þrengingar ef vandinn var ekki svo mikill eftir alltsaman?

En víkjum að andstöðunni.  Steingrímur Joð Sigfússon var sá stjórnmálamaður sem skeleggast tók málstað þjóðarinnar.  Hann kvað vandann alvarlegan og hvatti til samstöðu og þjóðstjórnar.  Tími hins pólitíska orðaskaks var liðinn.  Hann varaði sterklega við ICEsave samningunum og kvað vafa leika á lögmætti slíkra greiðslan.  Taldi það fráleitt að samið yrði um slíkar greiðslur nema til kæmi samþykki Alþingis.  Eins varaði Steingrímur Joð mjög við aðkomu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.  Ráð hans hefðu reynst þjóðum í erfiðleiki illa og sérstaklega væri það áberandi hvað almenningur viðkomandi landa væri grátt leikinn vegna efnahagsstefnu sjóðsins. 

Svo bauðst Steingrími Joð 30 silfurpeningar og buxnaskipti við Árna Matt.  Boðið þáði hann með þökkum og fór inn í stjórn með sömu stjórnarstefnu og hin fyrri, þ.e. efnahags(Ó)ráð Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og skuldaáþján ICEsave.

Og þessi fyrri skeleggi talsmaður íslenskra alþýðu er farinn að tala eins og Geir Haarde.  Á Alþingi á dögunum þá kvað hann vissulega atvinnuleysi verið mikið og það yrði um 10% en hann kvað ýmis teikn í lofti að botninum væri náð og landsframleiðslan færi að aukast aftur um mitt næsta ár.  Ekki síst að þakka markvissum efnahagsráðstöfunum Íslensku ríkisstjórnarinnar í samvinnu við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn.

En bíðið við.  Hvað er það sem bendir til bata?  Hver segir að atvinnuleysið fari ekki mikið niður fyrir 10 %?  Og hver segir að landsframleiðslan taki við sér á næsta ári?  Jú ég veit.  Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn og talsmenn frjálshyggju á Íslandi en hverjir aðrir?  Hvað efnahagslegar forsendur eru fyrir þessari bjartsýni?

Eru það viðskipti við útlönd?  Viðskipti milli landa hafa stórlega dregist saman í kreppunni.  Útflutningshagkerfi eins og Þýskaland og Japan sjá fram á gífurlega erfiðleika.  Enginn alvöru hagfræðingur treystir sér til að spá hvenær viðsnúningur verður aftur.  Einn virtur Harvard prófessor sagði nýlega að ýmislegt benti til að kreppan framundan væri sú versta sem vestræn hagkerfi hafi staðið frammi fyrir í 100 ár.  Orð hans hafa ekki verið hrakin  því eiginlega veit enginn hvað vandinn er djúpur.  Því hið vestræna fjármálakerfi er hrunið.

Það á aðeins eftir að auglýsa jarðarför hins vestræna fjármálakerfis.  Fyrrum aðalhagfræðingur Alþjóðagjaldeyrissjóðsins sagði að áætlað gat í bandaríska fjármálakerfinu væri 2.800 milljarðar dalir.  Fyrir minni pening yrði það ekki reist við.  Sagði hann það eina raunhæfa væri að setja kerfið í þrot og byrja uppá nýtt.  Það þarf ekki að fjölyrða um keðjuverkun slíkra aðgerða.   En á meðan mun ekki nokkur fjármálastofnun erlend dæla inn lánsfé í Íslenska hagkerfið.  Allt tal um slíkt er óráðshjal.  Bati Steingríms kemur ekki úr þeirri áttinni.

Og ekki mun innlend eftirspurn rífa hagkerfið upp.  Eftir að ljóst var að ríkisstjórn Íslands ætlar ekki að hjálpa heimilum landsins, heldur útvöldum hópi heimila, þá mun það gerast sem Guðlaugur lýsti hér að ofan.  Heimilin verða ekki aflögufær í miðri skuldasúpunni.  Tal um fyrirhugaðar vaxtalækkanir eiga sér ekki neinar forsendur.  Til þess þarf gengið að styrkjast en það mun ekki gera það á meðan hvorki erlent lánsfé er til staðar eða útflutningstekjur aukast.  Núverandi styrking gengisins er Barbabrella sett á svið fyrir kosningarnar og til þess er notað erlent lánsfé frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.  Í raun er um tilræði við sjálfstæði þjóðarinnar að ræða til að stjórnarflokkarnir geti sýnt fram á árangur fyrir kosningarnar. 

Staðreyndin er sú, hvort sem menn sætta sig við hana eða ekki, að á meðan óráðum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins er fylgt, þá mun ástandið aðeins versna.  Því lengur sem það er gert, því verra verður ástandið.  Lilja Mósesdóttir hagfræðingur útskýrir þetta mjög vel í grein á Smugunni þann 4.  mars síðastliðinn.  Þar segir hún:

Hátt vaxtastig og skortur á fjármagni er að sliga bæði fyrirtæki og heimili. Til að þóknast stefnu AGS þarf ríkið auk þess að skera niður útgjöld til að standa undir afborgunum og vaxtagjöldum af lánum frá AGS og vinaþjóðum. Á meðan að heimilin hrópa á hjálp til að takast á við stóraukna skuldabyrði og atvinnuleysi keppast fyrirtæki og ríkisstofnanir við að ná niður kostnaði með því m.a. að segja fólki upp eða banna nýráðningar en það bitnar hvað harðast á ungu fólki. Aukið atvinnuleysi leiðir til vítahrings minnkandi tekna ríkissjóðs á sama tíma og opinber útgjöld aukast. Við þessar aðstæður dregur úr spurn eftir vörum og þjónustu fyrirtækja. Þörfin fyrir niðurskurð hjá hinu opinbera og fyrirtækjum eykst í kjölfar aukins atvinnuleysis. Atvinnulífið sogast inn í vítahring aðhaldssamrar efnahagsstjórnar sem mun með tímanum draga úr hagvexti og þar með möguleikum þjóðarinnar til að geta staðið undir skuldabyrðinni sem einkavæddu bankarnir lögðu á hana.

Núna er það stóra spurningin hvor hafi rétt fyrir sér, tilvonandi þingmaður Vinstri Grænna eða Steingrímur Joð.   

Steingrímur talaði í þinginu í dag að nú fengi þjóðin tækifæri til að kveða upp dóm yfir þeim sem hefðu með stefnu sinni leitt hrun yfir Ísland.  Og hann sagði að núna væri tækifæri til að skipta um stefnu og setja ný markmið fyrir Íslensku þjóðina.

Þetta er rétt mælt hjá Steingrími Joð og það er hlutverk Andstöðunnar að sjái til þess.  En Andstaðan gufaði upp eftir að Steingrímur fór í buxurnar hans Árna.  Og hún virðist trúa Steingrími Joð Harde.  

Á meðan er ekki von á góðu.

Kveðja að austan.

 

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hilmar Gunnlaugsson

Steingrímur missteig sig er hann hætti að ræða möguleikann á þjóðstjórn. Þjóðin studdi hann vegna þeirrar hugmyndar aðallega. Góður pistill hjá þér að vanda Ómar.

Hilmar Gunnlaugsson, 13.3.2009 kl. 15:49

2 Smámynd: Ómar Geirsson

Takk Hilmar.

Steingrímur hafði öll ráð í hendi sér að verða næsti leiðtogi þjóðarinnar.  Þá sveik hann hana.

Sorglegt.

Kveðja, Ómar

Ómar Geirsson, 13.3.2009 kl. 18:49

3 Smámynd: Arinbjörn Kúld

Þú ert mikill hugsuður Ómar og hefur mikið til þíns máls. Andstaðan mun vakna, við erum nokkur sem erum enn vakandi. En almenn vakning verður ekki fyrr en of seint þegar íslendingar vakna umm við niðurskurðin og raunverulega stöðu sem ég og þú vitum að er hrikaleg en almenningur er enn í afneitun. Í haust við gerð nýrra fjárlaga þá mun þjóðin vakna og nýjar kosningar verða svo aftur næsta vetur.

Arinbjörn Kúld, 14.3.2009 kl. 17:33

4 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Arinbjörn.

Já líklegast verður þetta eitthvað í þessum dúr.  Of seint en samt aldrei of seint.  Það er alltaf hægt að snúa við og byrja að feta réttu slóðina. 

Svo er alltaf möguleiki að þetta eigi að gerast fyrr.  Það þarf ekki marga sterka einstaklinga til að snúa við þessari þróun því eins og Davíð Oddson benti réttilega á  þá er  engin forysta til staðar í dag.  Og það þýðir einfaldlega að ef Andstaðan trúir og treystir á sinn styrk þá mun hún geta breytt miklu því varnirnar eru svo veikar.  Sérstaklega er Samfylkingin háðuleg í sinni endurnýjun.  Og ég trúi því ekki þó ég verði vitni af því 5 sinnum í röð að Steingrímur Joð muni bregðast þjóð sinni á úrslitastundu.  Hann er enginn Harde þó einhver hafi náð að dáleiða hann í augnablikinu.  Og svo getur Harde sjálfur vaknað úr dái og tekið lokaorrustuna.  Það eitt getur hindrað að hans orðstír verði hrikalegur á spjöldum sögunnar.  Hans arfleið átti að vera önnur en þetta hrun.  Eins er það með Davíð.  Eftir að Ingibjörg er farinn er enginn í forystuliði Samfylkingarinnar sem hefur nokkuð í hann að gera.  Ef hann fer að skrifa ljóð núna þá verður hann bara alltaf Davíð í Seðlabankanum sem brást.  Og svo er það Jón Baldvin.  Eini sem bauð sig fram í Reykjavík sem ekki talaði í frösum, svo og jú Valgerður Bjarna en hún styður Hrunið.

Ég veit að þú ert búinn að hrista hausinn tíu sinnum en staðreyndin er sú að ef "gömlu" mennirnir vilja geta horfst í augun á sjálfum sér á banabeði sínu þá er tíminn NÚNA að gera yfirbót.  Staðreyndirnar liggja allar fyrir en þær eru ekki ræddar því þöggun er í gangi.  Aðeins jaxlar eða velskipuð Andstaða nær í gegnum þennan þöggunarmúr.  Andstaðan er út í móa að ræða um stjórnlagaþing eða spillingu.  Barbabrellan um Tortilla og allar milljarðana þar (Tortilla er eyja með 24 þúsund íbúa og þú getur ímyndað þér umfang banka þeirra) hefur slæpt andstöðuna við ICEsave því fólk trúir þeim þvættingi að einhverja pening sé að fá úr hólfum auðmanna til að greiða skuldirnar.  

En jaxlarnir eru ekki stöðvaðir.  Þeir ná eyrum almennings og afhjúpa nakta keisarann.  Það er nefnilega þannig að það skiptir máli hver bendir á nektina.   Og allir hafa samvisku og æru.  Líka þeir sem báru ábyrgð á hruninu.  Spurning bara hvenær þeir átta sig á því sjálfir.

En ef ekki þá mun hörmungarnar vekja fólk í haust.  Sammála því.

Kveðja, Ómar.

Ómar Geirsson, 15.3.2009 kl. 00:57

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Ómar Geirsson

Höfundur

Ómar Geirsson
Ómar Geirsson
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • Screenshot (49)
  • Screenshot (49)
  • ...img_0104a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.11.): 398
  • Sl. sólarhring: 526
  • Sl. viku: 5937
  • Frá upphafi: 1400694

Annað

  • Innlit í dag: 358
  • Innlit sl. viku: 5116
  • Gestir í dag: 338
  • IP-tölur í dag: 334

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband