7.3.2009 | 10:19
Gullmolar prófessorsins.
Guðmundur Hálfdánarson sagnfræðiprófessor var í viðtali í Speglinum í gær. Hann var að fjalla um það sem hann kallaði neikvæðar afleiðingar þjóðernisstefnu. Mér fannst viðtalið það skondið að ég ákvað að blogga um það því ég þjáist af svo neikvæðri þjóðerniskennd. Vissi það reyndar ekki en veit það núna. En lítum á nokkur gullkorn prófessorsins.
- á 19. öld komu Íslendingar sér upp þeirri sögusýn að erlend yfirráð væru neikvæð.
Ég vissi ekki að það væri sögusýn að erlend yfirráð væru neikvæð. Rússar hefðu átt að ráða Guðmund í vinnu. Þá réðu þeir kannski ennþá yfir Austur Evrópu. Hvað var Jón Baldvin að asnast til Vilnius? Voru það bara rómantískar sögublekkingar sem ráku allar þessar milljónir út á götur í löndum eins og Tékklandi eða Austur Þýskalandi? Það er greinilegt að sagnfræðideild Háskóla Íslands þarf að endurrita sögu þessa þjóða. Þær þjást af neikvæðri þjóðerniskennd.
- neikvæð afleiðing þjóðernisstefnunnar birtist í minnkandi fylgi við Evru og aðildar að Evrópusambandinu.
Greinilega ofviða fyrir fræðimanninn að fatta að aðrar ástæður geta legið að baki eins og blákalt hagsmunamat. Gott og vel, hann vitnaði í alla helstu hagfræðinga landsins en eru það bara ekki sömu mennirnir og dásömuðu útrásina og íslenska efnahagsundrið Greinilega óskeikulir menn. Og getur framkoma ESB þegar það beitti Ísland efnahagsþvingunum til að kúga þjóðina til greiða ábyrgðir vegna ICEsave reikninganna, þvert á lög og tilskipanir sambandsins. Guðmundur hefur greinlega ekki lesið vandaða grein eftir annan prófessor við Háskóla Íslands, Stefán Már Stefánsson. Kannski þjáist Stefán af annarri afleiðingu neikvæðrar þjóðerniskenndar sem er:
- líta sjálfan sig sem fórnarlömb. Leita að öðrum sökudólg en manni sjálfum.
Ja hérna, aumingja Stefán. Þegar hann bendir á löglegar kúgunaraðgerðir ESB gagnvart Íslandi þá er hann að upplifa sjálfan sig sem fórnarlamb og er í sökudólga leit. Vill ekki axla ábyrgð á sinni sök og krefjast skuldaþrældóms yfir sér og niðjum sínum um ókomin ár. Það er sem sagt neikvæð þjóðerniskennd að verja rétt sinn gegn kúgun og yfirgangi. Hitler hefði átt að fá Guðmund í sína þjónustu til að útskýra fyrir þjóðum Evrópu að það væri bara neikvæð þjóðernisstefna að verja hendur sínar. Bara að gefast upp og ganga brosandi undir ok kúgunar og yfirdrottnunar ofbeldisseggja. Ef ég vill vera jákvæður þá sleppi ég því að kæra til lögreglunnar ef Glanni glæpur brýst inn hjá mér og stelur öllu steini léttari. Bara að leita að minni sök. Kannski átti ég of mikið sem ég mátti missa. Kannski gleymdi ég að læsa. Ég hlýt að hafa gert eitthvað sem réttlætir glæpi Glanna.
Og ekki síst rúsínan í pylsuendanum.
-við getum sjálfum okkur um kennt, okkur sjálfum sem einstaklingar.
Þá veit ég það. Ég ber ábyrgð á bankahruninu. Mín sök er sjálfsagt sú að hafa ekki skipulagt byltingu og komið á kommúnísku þjóðfélagi. Þá hefði ekkert bankahrun orðið á Íslandi. Bara í útlöndum. En mér er það fyrirmunað að skilja hvernig ég sem einstaklingur átti að framkvæma þetta upp á eigin spýtur. En ég hef heldur aldrei skilið að Skaftáreldarnir væru syndugu lífi Íslendinga að kenna. Eða eldgosin í HEKLU máttu rekja til Vikivaka. En þetta orsakasamhengi skilur prófessorinn í sagnfræði. Fer bara létt með það að klína eitt stykki bankahruni á mig.
En ég er ekki alveg sammála honum og þess vegna ákvað ég að blogga gegn þessum útsmogna áróðri. Það er greinilegt að ESB sinar á Íslandi ætla að koma landinu í ESB með góðu eða illu. Þeir augljóslega eiga engin svör við grein þeirra Stefáns Más og Lárusar Blöndal um landráð ESB sinna um að vinna að því í samvinnu við ESB að Íslenska þjóðin taki á sig ICEsave ábyrgðirnar án undangengins dóms þar um. Málstaður ESB er það slæmur að myrkraverk eru notuð í anda samskiptahátta miðalda þar sem lögmál hins sterka réði ríkjum og réttaröryggi var ekkert.
Núna á að koma því að í þjóðarsálina að hún þjáist að neikvæðri þjóðerniskennd þegar hún er að ná áttum og sjá lögleysuna og landráðin kringum ICEsave deiluna.
Og svo er ég þjóðernislega neikvæður þegar ég sætti mig ekki við að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn er að rústa efnahag þjóðarinnar endanlega með óráðum sínum. Ég á sem sagt að vera jákvæður gagnvart 18% stýrisvöxtum og afnámi velferðarkerfisins.
En starfsmönnum Spegilsins og Guðmundi sagnfræðingi vil ég segja þetta. Andstaða mín við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn hefur ekkert með þjóðerni þessa manna að gera. Það eru Óráðin sem ég hef mikið á móti enda er þeim hvergi beitt annars staðar á jarðkringlunni og örugglega hvergi í sólkerfinu heldur. Það heimskuleg eru þau. Ef sjóðurinn héti Innlendi frjálshyggjusjóðurinn, þá væri andstaðna mín sú sama. En það hefur allstaðar talist aumt þegar innlendir leppar og skreppar vinna með erlendum kúgunaröflum. Það má vel vera að slíkt sé dæmi um neikvæða þjóðerniskennd að álíta svo en ég er þá í góðum félagsskap. Kvislingar eru ekki félagsskapur sem ég vill vera á meðlimaskrá. Ekki heldur hjá Hell Angels eða Banditos eða Kú Kux Klan eða ...
Og hvað varðar meinta neikvæðni mína og annarra landa minna út í Evrópubandalaginu, þá hefðu allar siðaðar þjóðir komið Íslandi til hjálpar eftir bankahrunið því öllum mátti ljóst vera að þarna höfðu örfáir einstaklingar komið smáþjóð útí ballarhafi í mikla neyð. Auðvita gerist svona ekki að sjálfu sér en þú byrjar ekki fyrst að skjóta og síðan að spyrja. Þú neitar ekki drukknandi manna um björgunarhring þó þú hafir ýmislegt út á lífsstíl hans að setja. Aðeins líkræningjar láta mann í neyð afsala sér öllum eigum sínum áður en þeir koma honum til hjálpar eða þeir þá hjálpa honum á annað borð. Kannski senda þeir Alþjóðagjaldeyrissjóðinn á vettvang
Hefðu þjóðir ESB sent strax hingað sendinefnd og boðið fram aðstoð sína og hjálp og veitt hana á óeigngjarnan hátt, þá væri Ísland núna í aðildarviðræðum við Evrópusambandið.
Fólk eins og Guðmundur gleymir oft þeim vísdómi að sá veldur sem heldur. Sumt fólk er þannig gert að það telur alltaf þann volduga hafa rétt fyrir sér í deilum við smælingjann. Oft mótast sú afstaða af því að sá voldugi fæðir vel en smælinginn á oft ekki upp á annað að bjóða en siginn fisk og úldin hákarl. En málstaðurinn þarf ekki að vera neitt verri fyrir það.
Þannig að lokaspurningin er kannski, Hver borgar fæðið?
Kveðja að austan.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:28 | Facebook
Um bloggið
Ómar Geirsson
Færsluflokkar
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (23.1.): 0
- Sl. sólarhring: 12
- Sl. viku: 202
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 168
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Takk fyrir pistilinn Ómar. Ég tók líka eftir þessu viðtali. Ályktunarhæfni mannsins er mjög sérstök.
Jakobína Ingunn Ólafsdóttir, 7.3.2009 kl. 14:34
Blessuð Jakobína.
Það er málið að svona frasar fljúga í loftið vegna þess að elítan vinnur markvisst af því að kæfa alla umræðu um ESB og ICEsave. Þetta á að vera eitthvað svo sjálfsagt. Það eru bara molbúar eins og ég og erkiíhald eins og Björn Bjarna sem eru á móti.
Svo þegar koma vel rökstuddar greinar eins og eftir þá félagana Stefán og Lárus, þá er því ekki svarað með rökum heldur þöggun. Samt erum við að ræða um hundruðir milljarða með vöxtum og vaxtavöxtum. Hluti skýringarinnar er sú að fólkið sem lætur svona heldur að þungi byrðanna lendi ekki á þeim. Á vissan hátt er hér um að ræða eina tegund siðleysis. Slíkt er t.d. svart blettur á Finnum að þeir blóðfórnuðu hluta þjóðarinnar í þeirra bankakreppu og eru ekki ennþá búnir að bíta úr því. Eins mun gerast hérna ef fólk áttar sig ekki á rangindum þess sem er í uppsiglingu. Ótrúlegt t.d. að prestar landsins skuli ekki halda eldmessur sunnudag eftir sunnudag í kirkjum landsins gegn ICEsave. Lágmarkskrafa að þeir sem vilja borga, geri það ekki fyrir hönd annarra. Fórni sér og sínum en ekki fjölskyldunni í næsta húsi. Yfirvofandi siðrof og siðleysi mun eyðileggja þessa þjóð. Og næstum því öllum er sama eða neita að horfast í augun á raunveruleikanum.
En fullt af venjulegu fólki þarna úti er að hugsa að eitthvað er rangt við þennan málflutning. Af hverju á móðir að leggja þrengingar á börn sín ofan á sem þegar er orðið. Til þess að stjórnmálamenn okkar séu gjaldgengir í kokkteilboð í Brussel? Þessi pistill minn og fleiri um ICEsave er mitt framlag til að orða þá hugsun að í það minnsta þá er önnur hlið á málinu. Þó við séum ekki mörg þá erum við þó til sem finnst það ekki sjálfsagt að börn okkar verði dæmd úr leik vegna gjörða auðmanna. Ég hélt alltaf að tími aðalsins væri liðinn og jón og gunna ættu sinn rétt til lífs án þess að vera endalaust með yfirstéttina á bakinu. En orðræða 18. aldar virðist lifa blómlegu lífi á Íslandi 21. öldinni.
Látum fátæklinga streða og borga. En ég get ekki verið sammála því. Til hvers var öll verkalýðsbarátta og þjóðfrelsisbarátta 20. aldar ef svona áróður eins og Guðmundur var með fer sjálfkrafa í loftið á útvarpi allra landsmanna. Er þetta bara útvarp yfirstéttarinnar og þjóna hennar í ríkisstjórn Íslands?
Til hvers var barist?
Kveðja að austan
Ómar Geirsson, 7.3.2009 kl. 17:52
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.