6.3.2009 | 23:49
Fréttir af líknardeild. Vááaá. 4000 ársverk.
Ég féll næstu því stafi. Svei mér þá ef þau eru bara ekki að fara gera eitthvað. En svo sá ég frosna mynd af Össuri. Þetta voru þá gamlar fréttir.
Ég man haustið 2007, þá var kvótinn skorinn niður í þorski. Þungt högg fyrir sjávarbyggðir landsins. Þá boðaði þáverandi ríkisstjórn til blaðamannafundar og tilkynntu hinar svokölluðu mótvægisaðgerðir. Ofsalega, ofsalega margir milljarðar fóru í að skapa atvinnu á landsbyggðinni. En daginn eftir kom eitt stórt HA í fjölmiðlum, landsbyggðarfólk fattaði ekki þessar mótvægisaðgerðir. Ríkisstjórnin hafði beðið einhverja skrifstofublók að safna saman þeim liðum fjárlaga sem komu til útborgunar á landsbyggðinni á fjárlagaárinu. Með öðrum orðum þá voru hinar boðuðu mótvægisaðgerðir sýndarmennskan ein. Hugsanleg viðbótarútgjöld, miðað við það sem þegar var ákveðið, voru kannski nokkrar milljónir sem fóru í skýrslugerð um námsframboð á háskólastigi, sú vinna var unnin í Reykjavík, en á þeim tíma vantaði ekki störf í Reykjavík vegna aflabrests. Enda var vandfundinn sá bjáni sem mælti þessu showi bót, einna helst keyptir leppar á fjölmiðlum. Þó ráðherrar Sjálfstæðisflokksins hefðu gengið naktir um götu, þá hefðu ákveðnir fjölmiðlar sagt þá í Boss fötum.
Eins var það í dag. Ríkisstjórnin lýsti því yfir að niðurskurður ríkisútgjalda yrði ekki algjör. Einhver peningur yrði eftir í framkvæmdir. Það er auðvitað frábært að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn skuli ekki banna alla sjálfsbjargarviðleitni. En var það stórfrétt að eitthvað ætti að gera? En minnugur skrípaleiksins frá 2007 þá hlustaði ég aðeins betur og hann Össur brást ekki.
Kíkjum á tvennt sem toppar lýðskrum síðustu vikna.
Ríkisstjórnin ætlar í fiskvinnslu. Þrjú hundruð ársverk eiga að skapast við að það á að flytja minna út af fiski. Núna fer Steingrímur Joð á fullt að kaupa kvóta af Vestmannaeyingum og svo mun stjórnin sjálfsagt kaupa hús út á Granda og fara á fullt í verkun. Jóhanna setur jafnvel á sig svuntu um helgar og fer að flaka eða þannig. En reyndar var þessi sami Steingrímur í gær að segja í fréttum að fiskvinnslan neyddist til að flytja út óunnin eða lítt unnin fisk því hún hefði ekki efni á að fjármagna vinnsluna vegna hárra vaxta. Líklegast þarf Steingrímur að kaupa megnið að kvóta fiskvinnslunnar því aðeins hugsanlega ríkisstjórnin hefur efni á þeim vöxtum sem atvinnulífið þarf að borga.
Ekkert orðagjálfur heims getur hindrað stórkostlega fækkun starfa í fiskvinnslu miðað við núverandi rekstrarskilyrði. Jafnvel þó Össur haldi tíu blaðamannafundi á dag og talar samfleytt í þrjá tíma í hvert skipti, þá mun störfum ekki fjölga í fiskvinnslu á næstu mánuðum. Hversu veruleikafirrt fólk er að öðru leyti þá dylst það engum hve staðan er alvarleg í sjávarútvegi. Yfirlýsing um fjölgun starfa í fiski hlýtur því vera sérstaklega ætluð til að hughreysta starfsfólk fjölmiðla, enda veitir ekki af þar sem atvinnuöryggi þar er lítið.
Hitt atriðið eru störfin sem tengjast virkjunarframkvæmdum og álveri í Helguvík. Björg Eva Erlendsdóttir afhjúpaði fáránleika þeirrar umræðu í Kastljósi kvöldsins. Ég ætla aðeins að hnykkja á þeirri umræðu. Móðurfélag Grundartanga stefnir í gjaldþrot innan árs. Ef það lifa af hremmingarnar þá þarf það nýtt fjármagn. Sami vandi og milljónir fyrirtækja er í um þessar mundir. Fjármagn í boði er í fluglíki miðað við þörf. En það má vel vera að endurfjármögnun takist. En það fé mun fara í varnarbaráttu, ekki frekari uppbyggingu. Þetta vita allir nema þá nokkrir afdalabúar sem vinna á fjölmiðlum og eru að bíða eftir næsta póstskipi sem kemur í vor. Ég vona að í þeim fréttapakka sé ekki gjaldþrot Rio Tinto eða Alcan. Allavega er allt í lagi að fjalla um hugsanleg rekstrarstöðvun álvera og hvað ríkisstjórnin geti gert til að vernda þau störf sem eru í hættu. Að tala um uppbyggingu álvera og ný störf í þeim geira, er ekki einu sinni heimska, kannski veruleikaflótti en líklegast þarf að nota orð eins og afneitun eða stjarfa til að lýsa því fólki sem ætlar að vekja von með slíku bulli.
Og það er ekki rétt hjá Björg Evu að um kosningabrellu sé að ræða. Slík lýsing gerir ráð fyrir einhverri skynsamri hugsun en hún var því miður ekki á þessum blaðamannafundi.
Skapa fjögur þúsund störf. Hvaða kjaftæði er þetta. Allt atvinnulífið kallar á lækkun vaxta, tafarlaust. Hvað eru fjögurþúsund störf á móti þeim þúsundum starfa sem tapast vegna okurvaxtastefnu ríkisstjórnar Íslands?
Hvenær ætlar Íslenska þjóðin að átta sig á því að það er verið að grafa hana lifandi. Þessi ríkisstjórn bjargar engu því grunnstefna hennar er skaðleg. Allt það góða sem hún reynir að framkvæma, er sjálfkrafa dæmt til að mistakast vegna efnahagsstefnu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.
Svo einfalt er það.
Kveðja að austan.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Um bloggið
Ómar Geirsson
Færsluflokkar
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (23.1.): 0
- Sl. sólarhring: 11
- Sl. viku: 202
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 168
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.