4.3.2009 | 01:22
Í hvaða liði eru Íslendingar?
Þessi spurning hefur komið upp í huga mér eftir lestur frétta dagsins. Og ég hef reglulega kíkt á bloggsíður og þar er umfjöllunin eins. Engin, það er engin umfjöllun um tímamótagrein þeirra Stefáns og Lárusar. Það er eins og fólk sé ekki læst á staðreyndir. Þegar eitthvað er sett fram af hógværð en samt miklum þunga. Kýrskýrt og rökrétt en án upphrópana og vitleysu, þá kveikja ekki Íslendingar. Erum við orðin svo samdauna lélegum fjölmiðlamönnum að ekkert sé fréttnæmt nema um það sé fjallað í upphlaupsstíl og hálfsannleik? Þurftu félagarnir að nafngreina einhvern og bera uppá hann róg til að grein þeirra vekti athygli?
Eins var ég að lesa frábæran pistil á blogginu hans Bensa um sameiginlegt áhugamál okkar sem er Frysting verðtryggingarinnar. Það sem sló mig var að hann hafði ekki fengið eitt einasta komment á þann pistil. Eins og öllum væri sama. Þetta er ótrúlegt. Það er yfirvofandi þjóðarvá útaf þessum tveimur málum og öllum er sama. Svo vælir fólk og skælir yfir því að lífið sé erfitt og vont og enginn gerir neitt og en samt trúir það bjánabelgjum sem er alltaf að segja því að ekkert sé í raun hægt að gera. Hvað er það þá að kvarta yfir því að ekkert sé gert? Fyrst það lætur allt yfir sig ganga. Og trúir alltaf sömu mönnunum sama hvað þeir hafa oft rangt fyrir sér.
En svona er þetta og ég ætla að svara þessari spurningu sjálfur áður en lengra er haldið. Og svarið er mjög einfalt. Íslendingar eru ekki í liði með sjálfum sér. Og verst er að það skuli bitna á börnunum mínum. En þau munu bjarga sér. En víkjum að samantekt úr grein þeirra félaga.
Í hvaða liði eru stjórnvöld?
Þessi spurning vaknar hjá þeim félögum, Stefáni og Lárusi vegna svars utanríkisráðherra við fyrirspurn hvort hann hafi látið kanna lögfræðileg rök fyrir því hvort Íslendingum beri lagaleg skylda til að greiða ICEsave ábyrgðirnar og hver sé þá niðurstaða þeirrar skoðunar. Niðurstaða lögfræðilegra álita hníga öll í þá átt að íslenska ríkið eigi að greiða það sem vantar uppá til að tryggingasjóðurinn geti greitt lágmarkstryggingar sem sjóðurinn er skuldbundinn til segir í svari utanríkisráðherra.
Það sem vekur furðu þeirra félaga er sú staðreynd að ráherra vill ekki kynna þessi álit. Álitsgerðirnar og rökin eru trúnaðarmál.
"Við undirritaðir höfum ítrekað sett fram þessar gagnstæðu skoðanir og engin rök hafa enn komið fram sem hnekkja þeim. Í máli sem varðar hagsmuni fyrir okkur Íslendinga upp á 650 milljarða króna er ekki boðlegt að láta við það sitja að fullyrða að til séu "þungvæg" rök gegn því sem við höldum fram en ekki sé hægt að segja frekar frá þeim rökstuðningi"
Og þetta er stóra spurningin. Hvað gengur stjórnvöldum til að fela álitin sín. Er það af svipuðum ástæðum og lögfræðingarnir sem Fréttablaðið leitaði til með upplýsingar en eftir að þeir mötuðu aumingja blaðamanninn á bulli, þá skildu þeir hann eftir einan úti á berangrinu og báru því við að sökum anna þá gætu þeir ekki komið fram undir nafni. Eins og þeir hefðu svo mikið að gera að þeir gætu ekki sagt nafnið sitt. Veit ráðherra kannski ekki nöfn álitsgjafanna eða vita þeir kannski ekki sjálfir nafn sitt? Eða eru þessi "þungvægu lögfræðileg rök" ekki pappírsins virði heldur skoðanir manna sem finnst eitthvað þó þeir geti þannig séð ekki fært rök fyrir máli sínu? Allavega ekki rök sem þyldu opinbera umræðu?
Ef eitthvað má læra af kreppunni þá er það sú staðreynd að þegar stjórnvöld og hagsmunaaðilar eru með leynimakk þá er það vegna þess að málið þolir ekki dagsljósið. En rök Evrópusambandsins þola dagsljósið þó þeir embættismenn sem stóðu að kúgun Íslands og lugu því í yfirmenn sína að Ísland ætti að borga, þekktu ekki þau rök enda byggðu þeir alltaf málflutning sinn á viðtekinni skoðun. En viðtekin skoðun er ekki lögfræðilega dómtæk fyrir dómi heldur lögskýringar sem byggja á tilvísun fyrir dómi. Oftast er það þannig að málsaðilar eru ósammála og er það þá hlutverk dómsstóla að skera úr um. Í þessu tilviki þarf þess ekki því lagarök ESB eru þau sömu og rök Stefáns og Lárusar. Það kemur skýrt fram í skýrslu frá ESB frá því í maí 2008 og eins hefur franski Seðlabankinn komist að sömu niðurstöðu í skýrslu frá árinu 2000. Svipaðar skýrslur eru örugglega til í öllum fjármálaráðuneytum Evrópu því ekkert Evrópuríki á tryggingasjóð sem getur staðið af sér allsherjar bankahrun. Ef Samfylkingin hefði viljað skapa ágreining um þetta mál í nafni ríkisstjórnar Íslands til að sýna hundstryggð sína við Evrópusambandið þá hefði hún þurft að flytja mál um að Ísland ætti að borga og því máli hefði Íslenska ríkið tapað fyrir Evrópudómstónum.
Það er ljótt að segja það en þarna eru þeir félagar með spurningu sinni í fyrirsögn greinarinnar að segja að í besta falli séu íslensk stjórnvöld að reyna að fremja landráð af gáleysi. Þau reyna ekki að halda uppi vörnum í máli sem getur kostað Íslenska ríkið fjárhagslegt sjálfstæði sitt því ef ekki er hægt að greiða af lánum breta og Hollendinga, þá þarf að endurnýja þau og þar með er ríkið ekki lengur sjálfstætt í ákvarðanatökum sínum. Ef þetta er ekki tilraun til landráðs hver er hún þá? Skuldsetja ríkið um 750 milljarða. Eða 1000 milljarða eða kannski bara 100 milljarða?
Það er ótrúlegt að það skuli ekki allt vera brjálað í þjóðfélaginu eftir birtingu þessa greinar.
Hver einstakur kafli tekur á hálfsannleik og lygum sem hafa riðið röftum í þjóðfélaginu. Hvort henni takist að kveða niður draugaganginn er mér til efs því sjálfspíning Lúterskunnar er svo sterk í þjóðarsálinni. Ef Ísland væri alvöru lýðræðisríki þar sem fjölmiðlar landsins væru skipaðir hæfu fólki þá myndi Samfylkingin hrökklast úr ríkisstjórn á morgunn.
En því er bara ekki að heilsa. Fyrir utan fréttaþættina á rás 1 þá er leitun að frambærilegu fjölmiðlafólki sem getur fjallað um mál út frá rökum og staðreyndum mála en ekki upphrópunum og slúðri. Sjálfstæðisflokkurinn var kosinn 2007 vegna vanhæfni íslenskra fjölmiðlamanna. Notkun flokksins á starfsmönnum fjármálaráðuneytisins til að ljúga að þjóðinni um skattalækkanir áttu einar og sér að kosta fjármálaráðherrann dóm Landsdómar og síðan afsagnar í kjölfarið. Stór hópur Sjálfstæðisflokksins hefði aldrei þolað slíkt og þar með hefði stjórnin fallið. En fjölmiðlar landsins með Bláskjá í fararbroddi tóku undir lygina og kaffærðu gagnrýnisraddir. Önnur stjórn hefði aldrei verið eins glámskyggn og sú sem var og þannig má segja fyrst alltaf er verið að kenna Davíð um allt sem miður hefur farið í þessu þjóðfélagi, þá mættu fjölmiðlamenn hafa það í huga að fyrir utan vanhæfni bankanna, þá var vanhæfni Íslenskra fjölmiðla næsta í röðinni yfir Hrunvalda. Þeir ættu því að grýta minna úr glerhúsum og einbeita sér meira að því að benda á nakta keisara. Nóg af þeim labba um götur, meinandi þjóð sinni um bjargráðin. Eða trúir því einhver að 18% stýrisvextir hleypi nýju lífi í Íslenskt efnahagslíf? Jú 45 manns, þar af eru 30 í félagsskap sem kallast Íslenska hagfræðihjörðin en hinir eru allir fréttamenn, flestir á Bláskjá. Að þessu leytinu hefur Morgunblaðið sérstöðu en það virðist enginn hlusta á það eftir að Styrmir hætti, því miður.
En nóg af væli og skæli. Ég hef lagt spurningu fyrir margt gáfumennið og spurt hvort það treysti sér til að fara í banka með "áætlun um verðgildi eigna" og fá þar með að greiða vexti og afborganir af nettóskuld. Fátt um svör en mikið um bull. Núna síðast í slúðurdálki Fréttablaðsins þegar það reyndi að slá ný met í innantómri heimsku í árásum sínum á Sigmund Framsóknarformann. Þess vegna ætla ég að láta lokaorð mín vera tilvitnun í þá Stefán og Lárus þar sem þeir fjalla um ICEsave ábyrgðirnar.
"Í þessu samhengi má ekki láta rugla sig í ríminu með tali um að kostnaðurinn við ICEsave ábyrgðirnar verði á bilinu 70 til 150 milljarðar kr. Sú upphæð byggist á því að verulegar eignir séu til í Landsbankanum gamla og að neyðarlögin svokölluðu haldi, en með þeim voru innistæður gerðar að forgangskröfum á kostnað annarra krafna. Í fyrsta lagi getur auðveldlega brugðið til beggja vona með að áætlanir um verðmæti eigna í gamla Landsbankanum standist. Í öðru lagi liggur það fyrir að látið verður reyna á það hvort neyðarlögin standist að þessu leyti. Reynist neyðarlögin ekki standast þá verðum við að borga alla 650 milljarðana með vöxtum og vaxtavöxtum"
Skýrar getur þetta ekki verið. Ég var sáttur við að orð mín um þetta hér á blogginu og í netheimum væru hundsuð í umræðunni og fólk héldi áfram að bulla um þessar nettó skuldir eins og gefna staðreynd. Það er mjög algengt að það sem er ekki lesið sé hundsað. En þegar tveir af okkar færustu lögfræðingum benda á þessi augljósu sannindi þá fá þeir minni athygli en suðandi fiskifluga. Yfirleitt reyna fréttamenn þó að bægja henni frá sér. En þessa heiðursmenn virða þeir ekki viðlits. Það er sorglegt til þess að vita, bæði fyrir þjóðina og foreldra fjölmiðlamannanna að vitið skuli ekki vera meira en guð gaf. En foreldrarnir hafa nóg af því. Hvað veldur?
Er þetta enn eitt dæmið um Íslands ógæfu? Verður henni allt að vopni?
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Um bloggið
Ómar Geirsson
Færsluflokkar
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (10.4.): 3
- Sl. sólarhring: 6
- Sl. viku: 96
- Frá upphafi: 1438710
Annað
- Innlit í dag: 3
- Innlit sl. viku: 78
- Gestir í dag: 3
- IP-tölur í dag: 3
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Sæll Ómar
Pistlar þínir koma að kjarna málsins og er þessi engin undantekning frá því. Það jaðrar við landráð hvernig okkur er gert að undirgangast þær kröfur sem gerðar eru vegna icesave. Ég hef ekki lesið grein þeirra félaga Stefáns og Lárusar en ætla að bæta úr því og "guggla þá" hið fyrsta. Sjálfur þekki ég á eigin skinni eins og allir að vexti greiðir maður af bruttó skuld en ekki aðeins af nettó skuld.
Ég hef haft fyrir því að "gúggla" orðin depositers incurense scheme og gluggað í skýrslur vinnuhópa á vegum Alþjóða bankans, háskóla og fræðimanna um allan heim. Eftir þá athugun hef ég komist að þeirri niðurstöðu að tryggingasjóður innistæðueiganda hefur það hlutverk eitt að forða banka frá áhlaupi. Niðurstaða þeirra sem hafa unnið að skýrslum um tryggingasjóði innistæðueiganda er alltaf sú sama, slíkur sjóður hefur ekkert hlutverk í banka eða efnahagshruni. Í sumum skýrslum kemur fram sú skoðun að tilvist tryggingasjóðs ýti undir óábyrga útlánastarfsemi banka.
Þeir sem hafa fyrir því að lesa lög um tryggingasjóð innistæðueiganda á alþingi.is sjá að sjóðurinn er sjálfseignarstofnun og eina ábyrgð ríkisins er að koma honum á fót og skipa stjórnarformann. Fjárhagsleg ábyrgð ríkisins á sjóðnum er engin, það er allveg á hreinu. Þessi lög eru sett vegna ees samningsins.
Eftir að hafa kynnt mér þetta er það niðurstaða mín að um landráð sé að ræða þegar stjórnvöld hafa undirgengist kröfur vegna icesave, eða hafa ekki komið þeim skilaboðum á framfæri að við höfum engar skyldur umfram skyldur og eignir sjóðsins.
En ég tel það sjálfsagt mál að við aðstoðum Breta og Hollendinga við að ná út innistæðum fólks hjá icesave.
Skortur á athugasemdum getur stafað af því að flestir eru sammála færslunni.
Bestu kveðjur úr höfuðborginni
Toni
Toni (IP-tala skráð) 4.3.2009 kl. 11:21
Blessaður Toni og takk fyrir.
Þegar ég heyrði fyrst af þessu ICEsave dæmi þá rak mig í rogastans. Allt þetta hámenntaða fólk í Brussel gæti ekki hafa útbúið tryggingasjóð með þeim formerkjum að smáþjóð ætti að ábyrgjast innlán stórþjóða. Rökvillan er sú að í því er ekki fólgin ábyrgð vegna öfugra stærðarhlutfalla. Síðan las ég stórmerka grein Jakobínu Ólafsdóttir í Morgunblaðinu um þá siðferðisbresti sem í því væri fólgnir að fjármálamenn gætu stunda sín viðskipti hvar sem er í Evrópu en þegar illa færi þá væru börnin hennar í ábyrgð. Þau sem höfðu aldrei neitt um málið að segja. Slíkt hlýtur hreinlega að vera ólöglegt eftir alþjóðalögum. Síðan kom ábending um að það mætti ekki stofna til óbeinna skuldbindinga í nafni ríkisins nema að hámarksupphæð væri tilgreind. Mér er mjög minnisstætt svar ESB sendiherrans (þennan sem Guðmundur rafiðn er alltaf að vitna í eins og guð almáttugan) þar sem hann sagði að brot á stjórnarskrá Íslands væri ekki vandamál sambandsins. Svoleiðis er nú virðingin á þeim bænum gagnvart smáþjóðum.
En ef þú leggur allt þetta saman þá er mér það óskiljanlegt að 9/10 hluti þjóðarinnar skuli taka þessari nauðung sem staðreynd. Þeir sem mótmæltu þessum gjörningi voru hrópendurnir í eyðimörkinni. Skil t.d ekki Gylfa prófessor, þann greinda mann, að hann skuli ekki fatta rökvillur sínar þegar hann tjáði sig um ICEsave.
Og auðvita var þetta ekki svona. Það er skýrt kveðið á um hlutverk tryggingasjóða í lögum og reglum ESB og þeir félagar Stefán og Lárus sýna það svo ekki verði um deilt að það er tryggingasjóðurinn sem eftir ákveðnum reglum ábyrgist innlán. Og þá sem vörn við "eðlilegar" aðstæður. Eftir greinar þeirra félaga finnst mér fólk, sem heldur hinu gagnstæðu fram, sé að gera það af annarlegum hvötum, hverjar sem þær eru.
En þöggunin er mér óskiljanleg. Og ég sé ekki marga taka undir með honum Bensa. Eða þá grein Lilju á Smugunni um Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. Þetta þrennt er grundvallaratriði Andstöðunnar við hrun Íslands þ.e að bankahrunið valdi hruni Íslands. Fólk er bálreitt en það hlustar bara á Ingva Hrafn eða Guðmund Ólafsson og skilur svo ekkert í því að allt sé að fara til helvítis. Samkenndin er engin með örlögum náungans en ef hægt er að smjatta og slúðra, þá vantar ekki undirtektirnar.
Skil þetta ekki en þannig er þetta bara.
Enn og aftur takk fyrir gott innlegg. Ég vissi ekki að Árni Páll landráður hefði getað farið inná vef Alþingis þegar hann talaði fyrir sjónarmiðum ræningja í sölum Alþingis. Gerir skömm hans ennþá meiri.
Kveðja, Ómar
Ómar Geirsson, 4.3.2009 kl. 13:52
Hmm ég er nú ekki gefin fyrir að monta mig en strax 20 okt renndi mig í grun um hvað væri í vændum og fékk rökkstuddan grun um að verið væri eða að framin hefðu verið landráð. http://blogg.visir.is/arikuld/2008/10/20/landra%C3%B0/
og fékk sömu grein birta á smugunni, http://www.smugan.is/pistlar/adsendar-greinar/nr/500
Arinbjörn Kúld, 5.3.2009 kl. 00:18
Blessaður Arinbjörn.
Núna sé ég hvaðan landráðminnið mitt er komið. Ég las báðar þessar greinar á sínum tíma. En ég var aldrei sammála þér með að stofnun þessar reikninga væri landráð því þeir voru löglegir samkvæmt EES. Kerfið átti einmitt að virka svona. Menn bentu á dótturfélög en það var kostnaðaraukandi og innri markaðurinn gekk út á einmitt að lækka kostnað, þess vegna með allskonar svínarí. En kjarni innri markaðarins var að einmitt að fyriræki máttu starfa þar sem þeim sýndist, óháð heimalandi. Stærð þess átti ekki að skipta máli. Bara að það færi eftir leikreglunum. Og minn gamli fjandmaður, Jónas Friðrik kom með óyggjandi rökstuðning að hann gat ekkert gert. Icesave var allt eftir reglunum.
Þá fannst mér landráðin (þú plantaðir því í hausinn á mér, ég hélt að það hefði verið Bjarni Miðbæjaríhald) vera Jóns Baldvins og þeirra sem samþykktu EES samninginn með þessa tímasprengju innanborðs. Og svo var það spurning um ríkisstjórnina, var hún sek um landráð af gáleysi með afskiptaleysi sínu. En kerfið gat ekki verið svona heimskulegt og eftir fyrstu grein Stefáns og Lárusar, þá tók ég allar skylmingar út frá þeim pól að það væri ólögleg kúgun að láta Ísland borga. Flestir borgunarmenn lúffuðu þegar við tókum fætinginn og svo loks létu þeir mig komast upp með að hæðast að þeim aftur á bak og áfram á Silfrinu. Þeim fannst það of fáránlegt að svara sjálfsagt en ég fann að margir tóku undir loksins þegar einhver þorði að berjast gegn "því sem allir vita"
En í mínum huga jarðar það við landráð að styðja fjárkröfur ESB á hendur okkur og þegar greiðslurnar eru farnar óbeint að kosta mannslíf þá verður þetta fólk fordæmt. En ætli maður neyðist þá ekki að bera í bætifláka fyrir það. Það er ekkert gaman að fylgja meinstríminu.
En ég tel það hins vegar flokkast undir fyrsta flokks landráð að mæla bretum bót. Jafnvel þó það sé aðeins 1% bót. En ég man það á sínum tíma að mér fannst grein því það góð að ég var ekkert að argast í þér. En mig minnir að ég hafi einu sinni komið með athugasemd inná bloggið þitt í haust eða byrjun janúar. Ef hún hefur verið leiðinleg þá vona ég að þú virðir það við mig að ég var alltaf að slást við IFM og bretana. Vegir mínir í andstöðunni voru órannsakanlegir á þeim tíma.
En ég lagaðist af þunglyndinu í morgun eftir bloggleiðangur og er aftur byrjaður að skamma mann og annan. Er búinn að semja innslag um Kastljós kvöldsins þar sem ég argast í heilabúinu á Sigmari. Vona að hann eigi aldrei eftir að lesa þetta. Til vara að ég hitti hann aldrei en hann átti þetta skilið drengurinn. Það gengur ekki hvernig sjónvarpið er að endurskrifa söguna með aðstoð frjálshyggjuafla. Af hverju tala þeir ekki við heiðarlegt íhaldsfólk þegar þeir vilja fá hægri slagsíðu á sjónvarpið. En ég sendi það inn á morgun. Ætla síðan að klára næstsíðasta kaflann um Guð og Ísland. Það þýðir ekki að vilja losna við leppstjórnina ef enginn veit hvað á að taka við. Ég hef svarið. Og ég skal ljóstra því upp núna.
Það er að gera það sem gera þarf til að fólk haldi vinnu og heimili.
Einfalt, er það ekki. En ég er bara með bílprófið og pungaprófið svo ég lét ekki hagfræðina blinda mig. En hins vegar eru hagfræðingar góðir í að koma með lausnir. En stjórnmálamenn eiga að koma með dæmið og hagfræðingar reikna. Þeirra hlutverk er ekki að gefa ordur um hvaða dæmi á að reikna.
Kveðja og góða nótt.
Ómar
Ómar Geirsson, 5.3.2009 kl. 00:59
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.