3.3.2009 | 19:38
Í hvað liði ertu vinur?
Af sögunni má margt læra. Til dæmis um viðbrögð einstaklinga og þjóða gagnvart erlendri kúgun og yfirgangi. Þegar Þjóðverjar lögðu undir sig Danmörku þá höfðu þeir mestu áhyggjurnar af umferðarstjórnun enda misstu þeir einn hermann í bílslysi. Danir sem slíkir voru ekki ógn þó þeir væru ekkert hallir undir Nasismann. Á sama tíma réðust Þjóðverjar á Noreg og þar bjuggust þeir við meiri andspyrnu enda Norðmenn mun hneigðari til að verja hendur sínar þó gegn ofurefli væri. Um það gátu Svíar vitnað. En Norðmenn höfðu einn veikleika, þeir áttu sína samfylkingu þjóðernisjafnaðarmanna. Hreyfing sem var höll undir málstað hins erlenda valds og taldi það fásinnu að bregðast illa við hermönnum hinnar nýju heimsskipunar. Leiðtogi þeirra, Kvislingur að nafni var búinn að fullvissa hernámsliðið að lítillar mótspyrnu væri að vænta því margir Norskir hermenn voru traustir liðsmenn hinnar nýju skipan.
En Kvislingur hafði rangt fyrir sér. Hann vanmat algjörlega hið Norska eðli. Þegar á reyndi þá börðust Norðmenn með þeim vopnum sem þeir áttu, en því miður þeirra vegna voru þau flest frá aldamótunum eða eldri og höfðu lítið í nýtísku vopnabúnað Þjóðverja að gera. Þó sökkti setuliðið í Óslóarkastala Þýsku beitiskipi og fórust þar 1000 Þjóðverjar, þar með taldir allir Gestapó liðarnir sem áttu að handtaka konung og ríkisstjórn Noregs. Hákon Noregskonungur náði síðan að sleppa til Bretlands ásamt ríkisstjórn sinni og gullforða Norðmanna. Vonin lifði þó Þýska hernaðarvélin virtist vera ósigrandi og aðeins tímaspursmál hvenær Bretarnir yrðu sigraðir líka. En þegar á reyndi þá var tap Þýska flotans við Noregsstrendur það mikið að innrás í Bretland varð Þjóðverjum um megn.
Af hverju er ég að rifja upp þessa sögu. Jú, sama atburðarrás á sér stað á Íslandi í dag. Í Noregi spurði hernámsliðið heimamenn hvort þeir vildu ekki vera í liði sigurvegaranna og þeim var svarað með skotum úr aldamótabyssum. Allstaðar nema á einum stað. Það var virkið í Álasundi sem gafst upp baráttulaust því þar stjórnaði Norskur kvislingur og hann vildi vera í liði sigurvegaranna.
Á Íslandi er stjórnmálaflokkur sem fer með stjórn landsins ásamt litlum leppflokki á vinstri vængnum. Þessi flokkur vill vera í liði sigurvegaranna. Og hann hefur sýnt mikinn illvilja gagnvart þjóð sinni til að koma henni í það bandalag. Gjaldið sem þurfti að greiða var að samþykkja afarkosti Evrópusambandsins í ICEsavemálinu. Og kalla á frjálshyggjuóbermi í Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og biðja þá um að rústa eftirlifandi efnahag þjóðarinnar með vaxta- og peningamálastefnu sinni. Og neyða síðan þjóðina í miskunnarlausan niðurskurð á velferðarkerfinu. Og banna henni að grípa til þeirra varna sem aðrar þjóðir hafa gripið til við svipaðar aðstæður. Þannig átti að draga úr þjóðinni allan kraft og þrótt og síðan var talið að þjóðin væri það bljúg að hún leitaði eins og klárinn heim til kvalarans síns þar sem átti að bíða hennar gull og grænir skógar. Hversvegna þurfti að kúga þjóðina til að greiða annarra manna reikninga áður en henni varð hleypt inní sæluna hefur alltaf verið óljós spurning sem hefur verið afgreidd með þeirri pottþéttu lögskýringu "Af því bara".
En eftir daginn í dag verður það mjög erfitt. Lögfræðingarnir Stefán Már Stefánsson og Lárus Blöndal jörðuðu "Af því bara" lögskýringuna endanlega í dag. En þeir gerðu meira en það. Þeir færðu fyrir því sterk rök að ríkistjórn Íslands, með utanríkisráðherra í fararbroddi væru sek um landráð. Lagarök þeirra eru þekkt og ég hef fjallað ítarlegar um þau hér í bloggi mínu. Bæði í greinarflokki mínum um "Kvak Fréttablaðsins" og eins þegar ég skrifaði um Gylfa og ICEsave. Eftir að ljóst varð Íslendingar voru neyddir til af Alþjóðagjaldeyrissjóðnum til að samþykkja ICEsave, þvert gegn alþjóðalögum og rétti, þá hef ég aldrei látið neitt út úr mér um þann ágæta sjóð annað en skammir og ennþá meiri skammir. Sterkari er Andspyrna mín ekki því miður. Eins hef ég litið á Evrópusambandið sem siðlaust kúgunarafl og ég hef aldrei getað minnst á hinar svokölluð "vinaþjóðir" okkar nema nota til þess gæsalappir í háðungarskyni. En ég vissi um illvilja Samfylkingarinnar en ég gerði mér ekki ljósa grein fyrir landráðavilja hennar fyrr en ég las grein þeirra félaga í dag.
Áður en ég fer að vitna í þá félaga þá vil ég ítreka af hverju það er glæpur gegn íslensku þjóðinni að neyða hana til að greiða ICEsave.
Vegna hins mikla tekjutaps ríkisjóðs í kjölfar bankahrunsins og neikvæðar afleiðinga þess á atvinnulífið, þá þurfti Ísland fjárhagsaðstoð frá vinaþjóðum sínum á Norðurlöndum því fyrirsjáanlegt var það mikið tekjutap að allt velferðarkerfið var í uppnámi. Síðan hefur ofaná það bæst hrun í útflutningstekjum þjóðarinnar og bara vegna þess á hún ekki fyrir skuldum, hvað þá að hún geti greitt öðrum þjóðum stríðsskaðabætur vegna gjörða einstaklinga af Íslensku þjóðerni, enda störfuðu þeir í fullri sátt við þær þjóðir sem núna vilja láta okkur borga skuldir þeirra.
Að eiga ekki fyrir velferðarkerfinu og neyðast til þess að skera það niður um þriðjung til helming er hverri þjóð ofviða án þess að illa fari fyrir þeim sem á þjónustu þess þurfa að halda. Í Finnlandi í byrjun tíunda áratugarins þýddi þetta blóð fátækra, atvinnulausra og sjúkra. Geðsjúkir voru settir á vergang og féllu í bókstaflegri merkingu. Börn sultu heilu hungri. Stór hluti þjóðarinnar varð þunglyndi og drykkjuskap að bráð. Úr þeim vanda hefur ekki verið greitt ennþá. Þetta fólk er úr leik og er annars flokks þegnar í sínu eigin landi. Fyrir hrunið var þetta venjulegt fólk eins og ég og þú lesandi góður. Eina sök þess var að eiga heima í landi með vondri ríkisstjórn.
Á Íslandi er staða ríkissjóðs hlutfallslega miklu verri en Finnska ríkisins var á sínum tíma. Rauða línan er í frjálsu falli eftir því sem gjaldþrot og atvinnuleysi eykst. Enginn veit hvernig það á að halda uppi lágmarks velferðarkerfi. Nú þegar, áður en greiðsla stríðsskaðabótanna hefst er ríkissjóður rekinn með gífurlegum halla. Jaðarhópar eins og geðsjúkir, fórnarlömb umferðarslysa og svo "landsbyggðarskríll" hafa fengið fyrsta skellinn. Á næsta ári þarf að skera niður ennþá meira ef IFM á ekki að eignast landið. Á sama tíma eru tekjur hættar að koma inn frá neyslu og rekstri fyrirtækja. Útflutningsfyrirtækin munu ekki greiða mikla skatta því bæði er aflabrestur og verðhrun á okkar helstu útflutningsafurðum. Þrátt fyrir það er okkur gert að greiða 150 milljarða í vexti á næsta ári þegar tekjur þjóðarbúsins hafa kannski fallið um allt að helming vegna afleiðinga heimskreppunnar og hruns bankanna.
Á mæltu mannamáli þýðir þetta að Samfylkingin vill greiða aðgöngumiðann að Evrópusambandinu með blóði barna, sjúkra og aldraða því það munu ekki vera til peningar að sinna þeim sem hjálpar eru þurfi og öll bráðaþjónustu mun verða í skötulíki.
Allsstaðar annars staðar í heiminum yrði svona fólk og svona framganga kölluð landráð en við Íslendingar höfum aldrei fyrr kynnst slíkum illvilja eins og hér er í uppsiglingu þannig að ég spyr bara eins og þeir félagar.
Í hvaða liði ertu vinurinn?
En ég ætla að kíkja nánar á röksemdir þeirra félaga og þær forsendur sem að baki liggja þessarar spurningar þeirra. Um það mun næsta blogg mitt fjalla þegar ég er búinn að svæfa strákana.
Kveðja að austan.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Um bloggið
Ómar Geirsson
Færsluflokkar
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (18.4.): 1
- Sl. sólarhring: 8
- Sl. viku: 64
- Frá upphafi: 1438788
Annað
- Innlit í dag: 1
- Innlit sl. viku: 55
- Gestir í dag: 1
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Hvar lastu þessa grein?
Arinbjörn Kúld, 4.3.2009 kl. 00:11
Hún er í Morgunblaðinu á miðopnunni. Hún tekur á ICEsave deilunni lið fyrir lið og hrekur hverja einustu bábilju um það mál.
En hún vakti enga athygli. Mér krossbrá. Mér fannst í dag þegar ég skrifaði þetta blogg að loksins væri komin hreyfing á pattstöðuna. Alvöru umræða myndi hefjast. Ráðamenn yrðu krafnir um svör. Deilan yrði kærð fyrir Evrópudómstólnum eða allavega maður yrði laus við þjóðníðið sem hrjáir svo marga málsmetandi menn. En eina sem ég gat lesið var að Guðmundur rafiðnaðarmaður sá ástæðu til að endurbirta vitleysu eftir sendiherra ESB. Eina sem kom rétt fram í þeirri athugasemd var sú fullyrðing að um ágreining væri að ræða og ESB vildi ekki fara með hann fyrir dómstóla.
En Guðmundur sem er örugglega ágætismaður á að sjá í gegnum svona blaður þegar menn þurfa að nota rökin "hvað hefði þið gert í okkar sporum. Þegar gripið er til frasa úr hugmyndaheimi handrukkara þá eiga menn að hafa gáfur til að geta svarað því sjálfir að þó einhver komi illa fram við þá, þýði það ekki sama að þeir grípi sjálfkrafa til ofbeldis í krafti stærðar eða aflsmunar. Menn leita til dómsstóla með ágreining sinn. Það var meira að segja gert á Sturlungaöld. Og Guðmundur er lesinn í Íslendingasögum. Ef gripið er til svona röksemdarfærslu, þ.e. hvað þú hefðir gert í mínum sporum þá er allt annað í besta falli hálfsannleikur en í versta falli bull. Menn eyðileggja aldrei góðan málstað með rökleysum sem eru settar fram í þeim eina tilgangi að blekkja og afvegleyða. En hálf þjóðin trúir þessari vitleysu og lepur þetta upp eftir Eurokalli. jafnvel þó að hann vilji hneppa börn okkar í skuldaþrældóm. Er hægt að komast neðar í sjálfspíningu?
En við vindmylluriddararnir erum að berjast við myllurnar einmitt vegna þess að bullið veður uppi. En þegar grundvallargrein um grundvallarhagsmuni þjóðarinnar eftir tvo virta lögfræðinga er hundsuð svona gjörsamlega, þá sé ég ekki tilganginn lengur í Andspyrnu minni. Í augnablikinu er þetta svo glatað. Ég ætlaði að fjalla um allt meginmál þeirra félaga í næstu grein minni en þegar á reyndi gat ég ekki hamið vonbrigði mín. Fékk útrás með því að skrifa níð um fréttamenn. Þó þeir lesi það ekki núna, þá mun það örugglega vera skyldulesning fyrir þá þegar þeir fá dóminn í neðra vegna synda sinna gagnvart þjóð sinni. Allavega finnst mér að það ætti alveg að koma til greina sem refsing.
En ég nenni þessu ekki í bili. Ætla að fara að huga betur að heilsunni. Byltingin verður að bíða betri tíma hvað mig varðar. Þakka þér Arinbjörn fyrir dyggan stuðning og jákvæðni. Hún er ómetanleg. Vildi að þú værir fréttastjóri Kastljóssins. Þá hefðu þeir Stefán og Lárus fengið drottningarviðtal í kvöld.
Bið að heilsa ykkur fyrir sunnan.
Takk fyrir mig og góða nótt.
Ómar
Ómar Geirsson, 4.3.2009 kl. 02:08
Heheeh einmitt. Verð að útvega mér þessa grein.
kveðja að norðan
ari
Arinbjörn Kúld, 5.3.2009 kl. 00:06
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.