Vandi Samfylkingarinnar í hnotskurn er:

Afneitun á sinni ábyrgð og tilhneigingin að varpa sök á aðra.

Ingibjörg Sólrún er sterkur leiðtogi sem hefur reynst félagshyggjufólki vel.  En hún tók afdrifaríka ákvörðun þegar hún ákvað að framlengja valdatíma Sjálfstæðisflokksins um 4 ár eftir kosningarnar 2007.  Og hún "lenti" í hruninu og síðan þá hefur ferill hennar verið ein sorgarsaga.  Sorgarsaga, sem kristallast í því að hún horfist ekki í augun á sinni ábyrgð.  Og þegar hún sumpart afneitar henni og sumpart bendir á aðra sekari þá flækir hún sig alltaf meira og meira í vef hálfsannleika og afneitunar.  

Í kvöld sagði hún frá því að Fjármálaeftirlitið og Seðlabankinn hafi brugðist algjörlega því þessar stofnanir höfðu þau tæki og tól sem dugðu til að ná böndum á bankanna og draga úr umsvifum þeirra.  Sérstaklega alvarlegt í ljósi þess segir hún að Seðlabankar Norðurlanda og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn lögðu hart af þessum stofnunum í apríl 2008 að grípa tafarlaust til aðgerða  gegn bönkunum.  Sem þær að einhverjum ástæðum gerðu ekki.  Síðan bætir Ingibjörg við að ef finna megi sök hjá stjórnvöldum þá er það að fylgja þessum ábendingum ekki nógu vel eftir en þau hafi talið að verið væri að vinna að þessum málum.  

Hljómar þetta vel?  Kannski hjá þeim sem telja Davíð Oddson upphaf og endir alls vanda sem á okkur hefur dunið.  En maður spyr sig hví þetta sama fólk er að kjósa til Alþingis fyrst völdin voru öll hjá einum manni í Seðlabankanum?  Ef það hefði ekki gert það, þá hefðu VinstriGrænir komist í oddaaðstöðu og þeir þjást ekki af þessum Davíðs ótta.   

En lítum á helstu rökvillurnar og mótsagnirnar í málflutningi Ingibjargar.

1. Segjum að Seðlabankinn og Fjármálaeftirlitið hefðu brugðist vel við og náð stjórn á bönkunum og jafnvel leyst þá upp að hluta (selt erlenda starfsemi þeirra).  Þá hefðu þessar stofnanir náð að hindra þjóðarvá og hér væri bara kreppa, ekki hrun.  Frábært er það ekki?   En segjum að þær gerðu það ekki eins og Ingibjörg lýsir og hér varð hrun.  Ekki eins frábært.  En hver fól embættismönnum þessi völd að meintar aðgerðir þeirra eða aðgerðarleysi geta kallað slíkt ástand yfir Ísland.   Til hvers höfum við þá Alþingi og ríkisstjórn ef 2-3 menn geta rústað áratuga uppbyggingu samfélagsins og eyðilagt líf og störf tugþúsunda manna.  Hver kaus þá til þess?  

2. Segjum að þeir hafi gripið til aðgerða sem hefðu ekki heppnast betur en það að "Markaðnum" og erlendum lánardrottnum hefði verið ljós veikleiki bankanna og hann hefði brugðist við með því að gjaldfella lán þeirra og virði hlutabréfa bankanna hefði þurrkast út.  Hver hefði þá verið ábyrgð þessa embættismanna?  Svo hefði kannski lánsfjárkreppan gegnið til baka um sumarið.  En við stæðum uppi með ónýtt bankakerfi og skaðabótakröfur hluthafa uppá þúsundir milljarða.  Vill einhver þjóð að nafnlausir embættismenn geti tekið sér slík völd uppá eigin spýtur?  Eru ekki svona grundvallargjörðir unnar í samráði og í raun undir forystu og fyrirmæla stjórnvalda því aðeins þau hafa vald til að kalla saman alla krafta þjóðfélagsins til að takast á við hættuástand af þessari stærðargráðu?   Til hvers er ríkisstjórn ef hún tekst ekki á við hættuástand sem getur leitt til þjóðarváar?  

3. Fyrir utan fundina 6 í febrúar með stjórn Seðlabankans þá segir Ingibjörg að ríkisstjórninni hafi verið kunnugt um þessar aðvaranir sem á undan er getið.  Hún heldur því fram að ábyrgð aðgerða hafi verið í höndum stjórnar Fjármálaeftirlitsins og Seðlabanka.  Varaformaður stórnar Seðlabankans og stjórnarformaður Fjármálaeftirlitsins var Jón Sigurðsson, fyrrverandi bankastjóri Norræna Fjárfestingarbankans og  iðnaðar- og viðskiptaráðherra Alþýðuflokksins í Viðeyjarstjórninni.  Hann er sérstakur trúnaðarmaður Samfylkingarinnar.  Samt veit Ingibjörg ekkert um hvað þessar stofnanir voru að gera til að hindra yfirvofandi hrun bankanna.  Hún segir að vísu í viðtalinu að það hafi ekki verið reiknað með kerfishruni en í hvað stefndi þá fyrst bankarnir voru hættir að geta fjármagnað sig?  Hver var þá vandinn í hennar huga?  Allavega ekki það mikill að hún sá ástæðu til þess að vera með í samráði og samstarfi við Jón frá fyrstu stundu og hvað þá að hún hefði séð ástæðu til að funda með Jóni til að fá fréttir og fylgjast með þeim aðgerðum sem voru í bígerð.  Hún bara viðurkenndi það að hún hafi hreinlega ekki gert neitt og eftir á telur hún það gagnrýnisvert.   En menn eins og Páll Skúlason tala um að þetta andvaraleysi í aðdraganda hrunsins sé ígildi landráðs af gáleysi.  Það er reyndar ekki mín túlkun en þetta andvaraleysi olli því að ekkert var gert raunhæft til að hindra það sem síðar varð.  Og á því er lágmark að biðjast afsökunar og bera hana fram af fullri auðmýkt.  T.d fellst í auðmýkt að vera ekki endalaust að benda á sakir annarra.  Því fleiri sem kannast við sína ábyrgð, því aumlegri verður afstaða þeirra sem gera það ekki.

4. Þó Ingibjörg hafi trúað því að sem ráðherra í ríkisstjórn Íslands og  formaður annars stjórnarflokksins hafi hennar hlutverk verið að skipta sér ekki að gjörðum embættismanna þó um hættu á þjóðarvá væri til staðar, þá er sú gjörð hennar að fara til Kaupmannahafnar með Sigurði Einarssyni til þess eins að útskýra fyrir erlendum blaðamönnum að Íslensku bankarnir stæðu vel og að Íslenska ríkið hefði alla burði til að hlaupa undir bagga ef illa færi, með öllu ófyrirgefanleg.  Eða réttara sagt óréttlætanleg því auðvitað á að fyrirgefa fólki sem biðst afsökunar í einlægni.  En hún játar núna að hún hafi samt farið til Köben þrátt fyrir hinar alvarlegu ábendingar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og Norrænu Seðlabankanna.  Spunameistarar Samfylkingarinnar hafa með ágætis árangri geta talið vitgrönnum Íslenskum fjölmiðlamönnum í trú um að Ingibjörg hafi ekki getað tekið mark á Davíð Oddsyni því hann var jú Davíð, maður með fortíð.  En Ingibjörg er ekki vitgrönn og þegar staðfesting á málflutningi Seðlabankans kemur frá þessum aðilum þá átti hún aldrei og mátti aldrei gera þetta.  Láta eins og allt var í lagi.  Hún vissi að það var ekki allt í lagi og hvað sem hún svo annars gerði eða gerði ekki, þá mátti hún ekki auka vanda Íslendinga með þessum yfirlýsingum.  Því það voru svo margir sem trúðu henni.  Hún hefði t.d getað haldið fundi með Össur Skarphéðinssyni og upplýst hann um stöðu mála.  Þá væri hann ekki þessi bjáni eins og hann er í umræðunni í dag.  Og hún hefði getað talað við Jón Sigurðsson eða þá hreinlega Davíð Oddsson.  En ekki blaðamenn erlendra fjármálablaða sem dreifðu því um allan heim að íslenska ríkið myndi ábyrgjast allar skuldir bankanna þrátt fyrir augljósa vangetu þar um.   Þessi gjörð hennar var skaðleg.

Það má taka fyrri ummæli Ingibjargar um af hverju ekki ætti að benda á hana sem eina af ábyrgðaraðilum hrunsins (með prókúru og allt).  T.d. sagði hún í frægu Kastljósviðtali að víst hefði hún gert eitthvað til að afstýra bankahruninu.  Ein af skýringunum þess hefði verið sú að íslenska krónan hefði ekki dugað við þessar kringumstæður og hver var það sem hefði talað um Evru og ESB í öll þessi ár og einmitt varað við þeirri hættu sem svona lítill gjaldmiðill hefði fyrir efnahagslífið.  Vissulega voru til vitgrannir fréttamenn sem gleyptu þessum rökum og töldu töluð orð vera ígildi  aðgerða.  En flestir, sem sáu og hlustuðu, hristu hausinn í forundran.  

En þetta er kannski ekki kjarni málsins.  Að "lenda" í að vera í langþráðri stjórn sem stóð vaktina  í aðdraganda hrunsins og upplifa það síðan að allt það versta sem gat gerst, gerðist, bara aðeins miklu verra, það er það hrikalegast sem nokkur manneskja getur "lent" í.  Það sem slíkt er nægileg "refsing" í mínum huga.  Ég meina, það vildi þetta enginn og það vann enginn að þessu.  Það vill enginn að þjóð sín lendi í svona stöðu.  Og vera fólkið í brúnni þegar martröðin raungerðist, það er eitthvað sem ég vildi ekki óska mínum versta óvini.  Í mínum huga á að læra af þessu en ekki velta sér uppúr þessu.  En til þess að einhver lærdómur getur orðið, þá þurfa helstu leikendur harmleiksins að stíga fram og játa sína ábyrgð.  Undanbragðalaust og í fyllstu auðmýkt.  Vilji þeir bjóða fram krafta sína áfram til uppbyggingarstarfa þá gera þeir það og stuðningsmenn þeirra og síðan þjóðin tekur aðstöðu til þess.  

En það verður ekkert uppgjör og það verður enginn lærdómur ef enginn biðst afsökunar.

 

 

 

 

 

  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Arinbjörn Kúld

Mikið rétt. Það var engu líkara en ISG og hennar fólk væri að baða sig í einhverjum ímynduðum dýrðarljóma alveg frá því ógæfustjórnin var mynduð með GHH. Þau misstu allt jarðsamband kvöldið sem gengið frá stjórnarmyndun. Samfylkingin ætlaði sé að fá kredit fyrir íslenska efnahagsundrið. Síðan þá hefur SF ekki náð neinu sambandi við raunveruleikann. Ég hef enga trú á þeim flokki eftir landráð hans og mun ekki öðlast þá trú aftur frekar en sjálfstæðisflokki og framsókn. Ég hefði trúað þessu upp á framsókn og sjálfstæðismenn en ekki samfylkingu sem eftir allt saman sveik þjóðina. Ömurlegt. Svo kórónar ISG allt saman með þessum orðum: þið eruð ekki þjóðin!

Arinbjörn Kúld, 2.3.2009 kl. 16:15

2 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Arinbjörn.

Jón Baldvin var með svipaða greiningu í Silfrinu hjá Agli.   Fólk getur haft mismunandi skoðun á eigið ágæti og annarra en þetta snýst um grundvallarábyrgð.  Auðvitað átti stjórnin að víkja korteri eftir hrun og þar sem allir flokkar voru umboðslausir til að takast á við þær aðstæður sem voru, þá átti að mynda þjóðstjórn.  Og allir áttu að biðjast afsökunar.  Síðan var það þjóðarinnar að dæma hverjum hún treysti til góðra verka.  Að mínum dómi er það ekki þannig að mistök í fortíðinni eigi að koma í veg fyrir framtíðarstörf.  Sá sem gerir mistök og lærir af þeim er oftast miklu sterkari leiðtogi en sá sem forðast ákvarðanir til að losna við mistök.   Og þar sem flestir kjósa flokka eftir grundvallar lífsskoðunum þá verða alltaf til vinstri og hægri flokkar, sama hvað annars hefur gengið á.  Þess vegna er ábyrgð og viðurkenning mistaka svo nauðsynleg svo sama vitleysan haldi ekki áfram trekk í trekk.

En ég hef goldið varhug við Samfylkingunni eftir svikin við Kárahnjúka.  Sú framkvæmd var sköpuð í lygi og lygin fylgdi henni alla tíð, og loks ógæfa.  Menn móðga ekki landvættina svo glatt.  Sástu línuritið hjá Datakallinum hjá Agli.  Hún var dýru verði keypt þessi atvinnubótavinna Grafarvogsbúa og Kínverja.  En Samfylkingin sveik eftir síðustu kosningar.  Hún var kosin vegna þess að stór hluti þjóðarinnar treysti henni til að leiða andstöðuna við íhaldið.  Ekki til að leiða samstarfið við íhaldið eins og þau voru alltaf að monta sig af. 

Svo er manndómurinn ekki meiri en sá en að reyna að koma öllum skítnum á Sjálfstæðisflokkinn og Davíð.  Þar lagðist Samfylkingin lægst.  Ef þau hötuðu Davíð svona mikið þá áttu þau aldrei að fara í stjórn með Sjálfstæðisflokknum upphaflega.  Eftir á hljómar þetta eins og einhver masókismi.  Þau vildu láta pína sig og þjóðina með Ný-frjálshyggjuna.  Hún var greinilega ekki fullreynd eftir 16 árin ef marka má ummæli Dags.  Svei attan.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 2.3.2009 kl. 22:36

3 Smámynd: Arinbjörn Kúld

Mikið rétt Ómar mikið rétt.

Arinbjörn Kúld, 3.3.2009 kl. 13:31

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Ómar Geirsson

Höfundur

Ómar Geirsson
Ómar Geirsson
Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Screenshot (49)
  • Screenshot (49)
  • ...img_0104a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (18.1.): 9
  • Sl. sólarhring: 35
  • Sl. viku: 2649
  • Frá upphafi: 1412707

Annað

  • Innlit í dag: 5
  • Innlit sl. viku: 2313
  • Gestir í dag: 5
  • IP-tölur í dag: 5

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband