1.3.2009 | 02:12
Er leiðtogi að fæðast?
Bjarni Benediktsson, verðandi formaður Sjálfstæðisflokksins, tók stórt skref í viðtali við Morgunblaðið á föstudaginn að skapa flokknum nýja vígstöðu.
Í það fyrsta þá aðgreindi hann sig frá forystu þeirrar Geirs og Þorgerðar. Hver man ekki eftir fólkinu sem var alltaf að bjarga einhverju, var í miðjum björgunaraðgerðum með Jóhönnu Sigurðardóttur og Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Sömu björgunaraðgerðum sem Jóhanna fékk VinstriGræna til að hjálpa sér með, eftir að hún gat ekki einbeitt sér að verkum sínum sökum búsáhaldahávaða.
Lítum á hvað Bjarni segir um þetta tímabil í sögu flokksins.
"Ég held að það sé staðreynd að aðgerðir sem stjórnvöld hafa gripið til í vetur og birtast í frumvörpum sem eru núna til meðferðar í þinginu muni ekki duga til að koma nægilega til móts við vanda heimila og atvinnulífsins. Ég tel að það þurfi að taka stærri og meira afgerandi skref og mér finnst að afskriftir skulda eigi að koma fyllilega til greina í því samhengi."
Ég hef svo sem sagt þetta hundrað og eitthvað sinnum víðsvegar um netheima en þegar verðandi formaður Sjálfstæðisflokksins segir að það sem gert hefur verið og það sem mun gert vera ef Líknardeildin fær að ráða, það dugi ekki til að leysa þann vanda sem við er að etja, þá er von um að von kvikni í svartnættinu. T.d verður erfiðara fyrir fjölmiðlafólk að kokgleypa lygina og endurvarpa henni. Meira að segja Spaugstofan gæti verði sannspá um fréttir sjónvarpsstöðvana af næsta blaðamannafundi Jóhönnu Sigurðardóttir og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins um áframhaldandi björgunaraðgerðir þeirra. AFSAKIÐ HLÉ. Svoleiðis byrjaði t.d fall lyganna í Austur Evrópu. Sjónvarpsfólk bara gat ekki meira.
Og Bjarni blæs á bullið um aðeins 10% samdrátt eins og hagfræðingahjörðin hefur kvakað um síðustu mánuði í boði Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Og hann tekur ekki undir þann lygaþvætting að ástandið sé ekki eins slæmt og af er látið. Við skuldum svo lítið Nettó eins og Tryggvi Hebba hélt fram og ástandið sé að batna eins og Óbermin hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum voru að halda fram á blaðamannfundinum og þökkuðu það markvissri framgöngu sinnar efnahagsáætlunar.
Eða hvernig á að túlka þessi orð Bjarna á annan hátt en að ástandið sé grafalvarlegt og enga veginn sé hægt að spá um hvernig hlutirnir þróist nema þá á versta veg ef sama ruglið heldur áfram. En gefum Bjarna orðið:
"En menn verða fyrst að staldra við þá staðreynd að ef það er verið að tala um allt að 50% niðurfærslu á kröfunum, hvaða mynd er verið að draga upp af stöðu íslensks atvinnulífs? Það er einhver dekksta mynd sem hefur verið dregin upp í nokkurri krísu sem dunið hefur yfir lönd og við höfum verið að skoða til samanburðar. Þetta er meiri kreppa í atvinnustarfseminni en dæmi eru um. Og til að bregðast við því dugir ekki að lengja í lánum og fresta aðfarargerðum"
Það dugar ekki að lengja í lánum og fresta aðfarargerðum segir Bjarni því þetta er einhver dekksta mynd sem hefur verið dregin upp í nokkurri krísu og þetta er meiri kreppa í atvinnustarfsemi en dæmi eru um. Það er ekki hægt að orða þetta skýrar. Hér er kominn fram leiðtogi sem greinir ástandið rétt. Hann lætur ekki hagfræðihjörð Íslands lengur ljúga í sig. Hann segir bara það eitt sem blasir við skynsömu fólki.
Og svo er foringi vinstri manna að ræða við Óbermin sem fyrirskipa okkur að halda úti hæstu vöxtum á byggðu bóli. Síðan kemur þessi sami foringi í sjónvarpið, horfir uppí loftið þegar hann talar við fréttamanninn og muldrar eitthvað um að vissulega ráðum við Íslendingar hvaða vexti við höfum í landinu. Veit hann ekki hvað hann er að segja. Segjum að þetta sé satt. Þá er þessi talsmaður verkalýðs og félagshyggjufólks að segja að honum sé svo illa við umbjóðendur sína, að hann vilji með öllum ráðum gera þá atvinnulausa. Það finnist ennþá rekstur í landinu sem standi í lappirnar og því þurfi með öllum ráðum að eyða honum.
Í allri samanlagðri sögu vinstri hreyfinga Vestur Evrópu finnst ekki aumlegra viðtal við nokkurn mann en þetta viðtal sjónvarpsins við Steingrím Joð. Og það er engin afsökun fyrir hann þó hann ranghvolfdi augunum og muni seinna meir halda því fram að hann hafi verið með lygamerki á tánum. Svona segir bara ógæfufólk í því grafalvarlega ástandi sem hér er. Og það ógæfufólk hefur hingað til verið á hægri væng stjórnmálanna. En ekki lengur á Íslandi.
Og Bjarni heldur áfram að segja satt og rétt frá hvernig staðan er í atvinnulífinu í dag:
"Þeir sem væru skuldlausir yrðu að spyrja sig hvort þeim litist á umhverfið ef innheimtur bankanna myndu ganga af 40% af atvinnulífinu dauðu. Að sjálfsögðu væru engar hugmyndir gallalausar. Hann hefði hitt forsvarsmenn fyrirtækja sem skulduðu lítið eða ekkert en þeir hefðu sagt að ef ekki yrði tekið í taumana og hjólum atvinnulífsins komið í gang á nýjan leik myndu fyrirtæki einnig fara á hausinn, jafnvel á einu ári."
Og loks kjarni málsins sem gildir líka um einstaklinga og heimili en hljóðar svona hjá Bjarna :
"Það hafa öll fyrirtæki hagsmuni af því að hjól atvinnulífsins stöðvist ekki og við erum í stórhættu á að það gerist."
Það sem verðandi leiðtogi Sjálfstæðisflokksins er að segja á mannamáli er að eftir hundrað og eitthvað daga þrotlaust starf ríkisstjórnar Íslands undir forystu Jóhönnu Sigurðardóttir og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins þá eru Íslendingar í stórhættu að allt efnahagslíf landsins stöðvist. Þar með velferðarkerfið, menntakerfið og heilbriðiskerfið því þetta er allt rekið fyrir tekjur af atvinnulífinu.
Ef þetta er ekki einkunn uppá 0,0 hvað einkunn er þetta þá?
Kveðja að austan
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Um bloggið
Ómar Geirsson
Færsluflokkar
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (18.1.): 8
- Sl. sólarhring: 57
- Sl. viku: 2648
- Frá upphafi: 1412706
Annað
- Innlit í dag: 4
- Innlit sl. viku: 2312
- Gestir í dag: 4
- IP-tölur í dag: 4
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Ómar - Góðar greinar hjá þér - ég hef ekki séð síðuna þína áður.
Hvaðan að austan er kveðjan?
Kveðja úr Reykjavík.
Benedikta E, 1.3.2009 kl. 02:33
Takk fyrir Benedikta.
Ég er borinn og barnfæddur Norðfirðingur og bý þar með konu og tveimur strákum, 4 ára tvíburum.
Kveðja, Ómar.
Ómar Geirsson, 1.3.2009 kl. 10:24
Ég tek undir flest allt sem þú segir Ómar en.... það eru að koma kosningar og þá skyldi maður trúa sjálfstæðismönnum varlega og mér finnst mikil kosningalykt af Bjarna. Getur maður trúað nokkru sem frá þeim kemur eftir allt sem á undan er gengið?
Steingrímur er enn að reyna telja sér og okkur trú um að sjálfstæðið sé í okkar höndum en við vitum betur. Fólk vill bara ekki trúa því að IMF ráði hér okkur.
kv, að norðan
Arinbjörn Kúld, 1.3.2009 kl. 17:22
Bjarni hefur verið harður stuðningsmaður þeirrar atburðarrásar sem hefur leitt til þeirrar niðurstöðu sem við stöndum frammi fyrir í dag.
Honum er ekki treystandi fyrir horn í tækifærisdílum með framsókn.
Jakobína Ingunn Ólafsdóttir, 1.3.2009 kl. 18:22
Blessaður Arinbjörn
Vissulega er að koma kosningar. Vandi Sjálfstæðisflokksins er sá að stefna hans er ekki að virka gagnvart þungamiðju hans fastafylgis. Þá er ég að meina fólkið sem tengist atvinnurekstri á einn eða annan hátt. T.d. þann hátt að eiga þann draum að geta stofnað til atvinnurekstrar sem endar með ríkdæmi.
Og sú hætta er alltaf til staðar að einhver annar flokkur eignist nógu sterkan talsmann sem útskýrir ábyrgð flokksins á hruninu og tengir hann síðan föstum böndum við það ógæfufólk sem trúir því að eyðing sé uppbygging. Við verðum að athuga í þessu samhengi að þessi kjarni finnur það vel á ávísanahefti sínu að núverandi efnahagsstefna er engan veginn að hjálpa neinu nema hún flýtir fyrir gjaldþroti. Allt málskrúð heims kemur ekki í stað þeirrar staðreyndar að heftið er í mínus. Og þó vitgrannir (tískuorð mitt í dag) fjölmiðlamenn trúi því eins og nýju neti að trúverðugleiki gjaldmiðils er grunnforsenda uppbyggingar þá veit fólk í atvinnurekstri eins og er að þú þarft að eiga fyrir daglegum útgjöldum til að geta rekið fyrirtæki og engin fyrirtæki=engin uppbygging.
Eða með öðrum orðum þá eru það hörðustu stuðningsmenn flokksins sem eru fyrstir að sjá í gegnum lygina. Svona fyrir utan einn og einn kverúlant eins og mig sem suðar án nokkurrar athygli. Þó t.d Jakobína fái alltað 1000 innlit á dag þá fær hún ekki mikil viðbrögð á blogg sitt, þrátt fyrir að þar séu pistlarnir hver öðrum betri. En svo fá allskonar bjánabelgir og heil hjörð af strútum hundruði athugasemda sem eiga það sameignlegt að fólkið er ennþá statt í huga og vitund á síðustu öld. En tékkheftið lýgur ekki og ekkert er kverúlant við það. Og þeir, sem eiga hefti, eru flestir í Sjálfstæðisflokknum.
Þess vegna skrifaði ég mína fréttaskýringu fyrst að vitgrönnu (ég hlýt að hafa lært þetta orð í dag fyrst að ég nota það svona mikið) fjölmiðlamenn okkar föttuðu ekki stóru tíðindin. Sjálfstæðisflokkurinn er að taka kúvendingu gegn Alþjóðagjaldeyrissjóðnum eins og hann gerði gagnvart útfærslu landhelginnar á sínum tíma.
En hlutskipti Steingríms er þyngra en tárum tekur. Ég vona það heitt og innilega að hann sjái að sér í tíma áður en hann eyðileggur sinn annars ágæta flokk. Ég veit bara ekki hvort hljómsveitarstjórinn þarna uppi hlustar á mig. Ekki gerir Steingrímur það.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 2.3.2009 kl. 01:04
Blessuð Jakobína.
Í sjálfu sér er ég ekki að taka neina aðstöðu til Bjarna. Ég er einfaldlega að benda á að tíðindi eru í vændum í Sjálfstæðisflokknum og ég tel þau gleðileg fyrir þjóðina.
Ég útskýrði það í mínum fyrsta bloggi, "Í upphafi skal maður endann skoða" af hverju ég væri að leika Don Kító og eltast við vindmyllur. Þreyta og bakverkur er ekki draumaástand mitt. En ég er í andspyrnu við illsku öfl og leppa og skreppa þeirra. Vegna þess að ég verð,fyrst ég asnaðist til að eignast börn á gamals aldri. Það datt einhverjum í hug úti í hinum stóra heimi að drengirnir mínir ættu ekki sama rétt til lífs og mannréttinda og öðrum börnum Evrópu. Og lepparnir og skrepparnir hamast við að breiða út boðskapinn með níði um foreldra mína og tengdaforeldra (ég á örugglega margt slæmt skilið), og þannig vilja þeir meina að það sér réttlát ráðstöfun guðlegra afla að barnabörnin greiði fyrir syndir feðra sinna.
Ég bara get ekki sætt mig við þetta og þar sem ég er einfaldur maður, þá er barátta mín mjög einföld. Þeir sem eru á móti ógnaröflunum (IFM og ICEsave) eru bandamenn mínir í baráttunni. Fortíð þeirra skiptir mig engu. Aðrir geta séð um uppgjör við hana ef þeir hafa nennu til. En ég hef talað gegn því að fortíðarhjal yfirskyggi nauðsyn þeirrar baráttu sem þarf að heyjast. Landlaus þjóð hefur lítið við löggilta sökudólga að gera. Hvar ætlar hún til dæmis að reisa gálganna?
Ég tel Andstöðuna sem við tilheyrum ekki nóga sterka til að knýja fram uppgjöf fólanna. Við erum bæði það fámenn og sundurlaus. Í raun er það eina, sem sameinar okkur, er fólgið í orðinu Andstaða. En Andstaðan er samt nauðsynleg. Hún drífur áfram baráttuna og það er meðal annars fyrir hennar tilverknað að menn eins og Bjarni Ben móta þá stefnubreytingu sem ég sé að er í uppsiglingu. Og margur fjölmiðlamaðurinn er að breytast úr vitgrönum bjánabelg í þá vitiborna manneskju sem móðir hans var að reyna að ala upp. Allt þetta gerir lyginni erfiðara að þrífast.
En hvernig sem á það er litið þá er vandinn of mikill til að við megum slá á hjálpandi hönd. Málflutningur okkar getur tryggt heilindi hennar. Þrátt fyrir allt eru flestir í stjórnmálum til að hafa völd og áhrif. Stuðningur við helstefnu IFM er ávísun á hið gagnstæða.
En endurreisn Íslands þarf stuðning allra, jafnt komma sem krata, íhalds eða framsóknar. Það er ekki fyrst og fremst vegna þess að þetta er stór hluti þjóðarinnar. Það er vegna þess að þessir flokkar hafa svo mikinn styrk til sundrunar og það er aðeins sundrungin sem getur hindrað endurreisn Íslands.
Verkjakveðja að austan.
Ómar Geirsson, 2.3.2009 kl. 01:36
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.