Hvers á þjóðin að gjalda.

Á hörmungartímabili Íslandssögunnar á 17. og 18. öld var það alþekkt að landsmenn voru alltaf að senda bænaskjöl í konungsgarð þar sem þeir báðu um liðsinni konungs gegn yfirgangi embættismanna og lélegri kaupmennsku danskra einokunarjöfra.  Stundum hlustaði konungur, stundum ekki.  Fór það allt eftir gengi þeirra manna hjá dönsku hirðinni sem um var kvartað.

Síðan urðum við sjálfstæð 1918.  Réðum öllu nema utanríkisstefnu okkar.  Fullt sjálfstæði fékk svo þjóðin 1944 og því hélt hún í 64 ár.  Í október 2008 glataði Íslenska þjóðin sjálfstæði sínu í kjölfar alvarlegrar efnahagskreppu.  Þjóðin var kúguð af vinaþjóðum sínum á Norðurlöndum að gangast undir yfirstjórn erlendra frjálshyggjumanna sem iðka blóðfórnir og annan níðingsskap.  Manna sem hafa skipulagt alþjóðlegt rán á eigum ótal fátækra þjóða og monta sig opinberlega á hvað þeir hafa náð að skemma innviði margra þjóðfélaga, eyðilagt heilsugæslu og menntakerfi. rústað landbúnaði og annarri atvinnustarfsemi fátæks fólks undir því yfirskini að frjáls markaður sé allra meina bót.  Blóðslóðin liggur eftir þá því fátæk börn sem deyja úr vannæringu eða skorti á læknisþjónustu, þurfa ekki að deyja ef alþjóðasamfélagið hefið komið til hjálpar með mennsku og mannúð en ekki illmennsku og  frjálshyggju.  

Sporin eftir þessa menn hræða.  Og ekki að ástæðulausu.  Og núna er tími bænaskjalanna runnin upp á Íslandi að nýju.  Þjóðin er hætt að bjarga sér sjálf, hún lítur í auðmýkt erlendu valdi og grátbiður það um að fara ekki svona illa með sig.  Henni líkar ekki maðkað mjöl.

Maður að nafni Björn Rúnar Guðmundsson, titlaður deildarstjóri efnahags- og alþjóðamálaskrifstofu  segir í Morgunblaðinu í tilefni af heimsókn "         " hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum:  "..mikla áherslu verða lagað á það, í viðræðum við IMF að kannað verði ítarlega hvort skilyrði séu fyrir lækkun stýrivaxta sem nú eru 18 prósent. ............    "Við vonumst auðvitað til þess að geta sannfært þá um að hér séu komin skilyrði fyrir lækkun vaxta", segir Björn Rúnar."

Svo eðlislægur er hinn forni bænarandi að hundrað og eitthvað dögum eftir hrunið þá sér enginn athugavert við þetta orðalag.  Fulltrúi "sjálfstæðs" ríkis segir að hann vonist til að hinir erlendu stjórnendur sjái aumur á okkur. 

Og á meðan brennur Ísland.  En það má ekki slökkva eldanna fyrr en hinir erlendu herrar gefa náðarsamlegast leyfi til að slökkvistarf megi hefjast.  Og hvenær sem er getur þeim dottið í hug að skipa íslenskum þjónum sínum að hella aftur eldsmat á bálið.  

Og þessir erlendu herrar tala tungum (enskum) og innlendir leppar þeirra halda ekki vatni yfir vísdómsorðum þeirra.  Svo ég vitni í einhvern Flanagan þá segir hann á þýddu máli:

"...  tekist hafi að ná megin markmiðum áætlunarinnar litið til skamms tíma.  Það hafi öðru fremur verið að koma í veg fyrir að gengi krónunnar félli of mikið, með alvarlegum afleiðingum fyrir íslenskan efnahag.  Það hefði getað komið sér illa fyrir fyrirtæki og heimili.  Þá hefði verðbólga einnig aukist mikið, jafnvel um tugi prósenta, sem hefði hækkað hefðbundin verðtryggð lán mikið og aukið þannig skuldabyrði fólks."

Þvílík mannvitsbrekka.  Hann þakkar óráðum sínum stöðugt gengi.  En jafnvel 5 ára gömul leikskólabörn vita að gengishöftin halda genginu stöðugu.  Og hver meðalbjáni getur séð að það eru engar forsendur í bráð fyrir fleytingu krónunnar.  Alltof mikið af fjármagni mun þá streyma úr landi.  Heitir þetta ekki að brennt barn forðast eldinn.  Enginn lætur gjaldþrota banka fá peninga sína til geymslu nema vegna þess að fólk hefur ekki aðra valkosti.  Og síðan er stærsti hlutinn af  gjaldeyristekjum þjóðarinnar eyrnamerktur í vexti og afborganir af erlendum lánum. 

En auðvita veit Flanagan þetta.  Orðagjálfur hans þjónar þeim eina tilgangi að róa lýðinn.  Friðrik Már Baldursson hefur  sagt það opinberlega að þessu háu stýrisvextir séu gjaldið sem þarf að greiða til að IFM leyfðu stjórnvöldum að setja á gjaldeyrishöft og loka þannig erlent fjármagn inni í landinu.  Gjaldeyrishöftin voru sett til að það gerðist ekki sem Flanagan var að lýsa.  Okurvextirnir voru það gjald sem Íslendingar þurftu að greiða til að geta stundað eðlileg viðskipti við útlönd.  Afleiðing þeirra eru aftur á móti verðbólga og gjaldþrot.  Vextir greiðast ekki af sjálfu sér.  Ef fyrirtæki vilja ekki verða samstundis gjaldþrota þá koma þau þeim útí verðlagið.  Augljóst orsakasamhengi öllum nema bjánum.  En þeir finnast á Íslandi sem trúa þessu orðagjálfri.  

Hvað veldur?

Kveðja að austan.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Villi Asgeirsson

Flottur pistill.

Villi Asgeirsson, 27.2.2009 kl. 21:43

2 Smámynd: Ómar Geirsson

Takk fyrir.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 27.2.2009 kl. 23:21

3 Smámynd: Arinbjörn Kúld

We are toast!

Arinbjörn Kúld, 28.2.2009 kl. 04:17

4 Smámynd: Ómar Geirsson

Nei, Nei Arinbjörn.

Það þurfti þroska til að grípa til réttu aðgerðanna á haust.  Þroska og samstöðu.  Og taugar Geirs Harde gáfu sig þegar honum var ljós illvilji Norðurlandaþjóða í okkar garð.  Við hefðum getað staðið af okkur  árásir breta ef bræðraþjóðir okkar hefðu stutt okkur.  Í stað þess köstuðu þær grjóti úr glerhúsum.  Og Geir hélt að hann gæti ekkert annað en að ganga þrælaöflunum á hönd.

En eitt það besta við slæma, hvort sem það er af mannavöldum eða náttúruhamfarir, er að slíkt virðist alltaf þjappa Íslendingum saman.  Og það mun gerast.  Og valkostirnir eru ekki svo mjög slæmir.  Vissulega er glórulausa neyslusamfélagið úr sögunni en það var hvort sem er komið í þrot, bæði siðferðislega og svo var rányrkja jarðar orðin skelfileg.

Þegar erlendur gjaldeyrir fer í að borga niður lán og kaupa fjárfestingarvörur, þá þarf þjóðin að lifa á því sem hún aflar.  Og hún neyðist til að verða græn og heilbrigð.  Skelfileg framtíðarsýn fyrir lækna en  það verður ekki á allt kosið.

Trúðu mér Arinbjörn.  Frá því að ég byrjaði að blogga á netheimum í haust, þá hef ég verið út í fjósi með tali mínu um alvarleika kreppunnar.  Jæja, núna eru fleiri komnir í fjósið.  Virtur prófessor við Harvard sagði að hún yrði sú versta í 100 ár. 

Af hverju ætti ég þá ekki hafa rétt fyrir mér núna að batinn verði bæði viðráðanlegur og við fáum betra þjóðfélag út úr rústunum.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 28.2.2009 kl. 10:28

5 Smámynd: Arinbjörn Kúld

Vonandi, er með þér í fjósinu. Hér þarf að moka flór.

Arinbjörn Kúld, 1.3.2009 kl. 17:05

6 Smámynd: Ómar Geirsson

Já, vonandi.  En ég verð að játa að seinni spá mín er byggð á tilfinningu og óbifandi trú á manndóm minnar þjóðar.  Bischmark hefði aldrei hrósað hundinum sínum svona ef hann hefði kynnst venjulegum Íslending.  Þeirra helsti galli er sá að svo margir vita ekki af því að þeir eru ágætisfólk og svo margir halda að þeir geti ekki neitt þrátt fyrir að staðreyndir segi annað.

En sú fyrri er búin að vera lengi augljós útfrá þekktum staðreyndum.  Það var búið að skuldsetja allt og alla alltof mikið til að kerfið þyldi samdrátt.  Og á meðan menn áttuðu sig ekki á því og gripu til samdráttarúrræða, þá varð vandinn óviðráðanlegur.  Aðeins nýtt kerfi og ný hugsun  mun endurreisa kapítalismann aftur. Og á meðan verður kreppa.  Það sem ég hef mestar áhyggjur af eru þau átök sem geta blossað upp.  Þriðja heimsstyrjöldin er líklegri en hitt.  Og þetta kemur svartsýni eða bjartsýni ekkert við að slá þessu fram.  Sagan kennir okkur, allavega síðustu 4.000 árin að kreppur hafa tilhneigingu til að enda bæði í innbyrðis átökum ríkja og sem og hitt sem er mun algengara og það er átök innan ríkja, stundum það slæm að um borgarastyrjaldir er að ræða.  T.d hafa Kínverjar mjög sterka tilhneigingu í þá átt og þegar hefur fyrsta skrefið verið stigið í þá átt, þó hljótt hafi farið.

En kreppan hér er, eins og ég hef oft sagt áður,  biti af köku miðað við hinar stærri ógnir.  Hér þarf bara að taka af skarið og fara að takast á við vandann.  Ef svona margir væru að missa heimilin sín og störf vegna jarðskjálfta, þá væru engin útlend ómenni að níðast á bágstöddum, heldur væri hér erlent hjálparlið að störfum við aðstoða þjóðina að bjarga úr rústum og endurreisa byggingar og innviði samfélagsins.  Síðan væru menn ekki með sundrungar tal.  Benda á að þessi væri ljótur og hinn væri kommi og svo er þessi ríkur, hjálpum honum ekki.  Gott að hann missi húsið sitt.  

Nei, fólk væri einfaldlega að bjarga því sem bjargað yrði og síðan að byggja upp og bæta.  Og þess yrði gætt að aldraðir og sjúkir fengju alla bestu aðhlynningu sem unnt væri að veita miðað við aðstæður.  Það yrði engin blóðslóð eins og í Finnlandi í upphafi tíunda áratugarins.  Þetta er svo einfalt að hver meðalbjáni, sem er, gæti leitt þjóð sína út úr þessum erfiðleikum.  En vandinn er kannski sá að spekingarnir hafa ekki hleypt þeim að.  Í stað þess eru hlutirnir flæktir svo mikið að jafnvel augljósustu hlutir eru ekki framkvæmdir.  Og niðurrif er kallað uppbygging. 

En þetta lagast.  Nakið fólk getur ekki til lengdar gengið út í kuldanum.  Það deyr úr ofkælingu.  Þá er komið að okkur hinum, hinum venjulega manni eins og Steinn Steinar benti á.  Og ég veit að fjósið er vel mannað.

Kveðja, Ómar

Ómar Geirsson, 2.3.2009 kl. 00:39

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Ómar Geirsson

Höfundur

Ómar Geirsson
Ómar Geirsson
Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Screenshot (49)
  • Screenshot (49)
  • ...img_0104a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (18.1.): 7
  • Sl. sólarhring: 69
  • Sl. viku: 2647
  • Frá upphafi: 1412705

Annað

  • Innlit í dag: 3
  • Innlit sl. viku: 2311
  • Gestir í dag: 3
  • IP-tölur í dag: 3

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband