22.2.2009 | 22:34
Málsvörn Jóns Baldvins í Morgunblaðinu.
Jón Baldvin fer mikinn í gagnrýni sinni á forystu Samfylkingarinnar í viðtali við Kolbrúnu í Morgunblaðinu á laugardaginn. En maðurinn, sem neitar að horfast í augu við sína sök, er ekki trúverðugur í gagnrýni sinni á sök annarra.
Þetta er ekki í fyrsta skipti sem Jón vill ekki kannast við Bastarð sinn, Hrunið, og kveður hvorki hann né EES samninginn hafa komið nálægt króganum. Þó er ættarsvipur Hannibalista augljós og fingraför bæði Jóns og EES á fæðingarvottorði krógans.
Allt fram að síðustu dögum bankakerfisins var mikilvægi þess fyrir þjóðarbúið vegsamað enda greiddu bankarnir háa skatta, höfðu marga hálaunamenn í vinnu og keyptu mikla þjónustu víðsvegar úr þjóðfélaginu. Svo voru þeir forsenda útrásarfyrirtækjanna, þeir lánuðum þeim og eigendum þeirra gífurlega fjármuni sem nýttir voru til fyrirtækjakaupa erlendis.
Öll þessi útrás og þessi gríðarlega stækkun bankanna var þökkuð fjórfrelsis ákvæðum EES samningsins. Maður að nafni Jón Baldvin Hannibalsson var ólatur að minna þjóð sína á þessa staðreynd ásamt því að geta þess að hann var maðurinn sem með framsýni sinni sneri á Íslenska stjórnmálamenn og fékk þennan samning staðfestan á Alþingi. Sem er reyndar rétt því á einhverjum tímapunkti voru allir aðrir flokkar andsnúnir EES samningnum.
Hins vegar fullyrði ég að ekki sé til stafkorn eftir Jón Baldvin um hættur EES samningsins og að hann gerði bönkum auðvelt að starfa á erlendri grund án þess að nægjanlegar varnir væru gegn útþenslu þeirra og þeirrar áhættu sem þjóðarbúinu stafaði að stærð þeirra. Enda ef maðurinn hefði gert sér grein fyrir því hefði hann aldrei látið samþykkja þessa tifandi tímasprengju. Slíkan vilja til landráða ætla ég honum ekki.
Mjög ólíklegt er að bankarnir hefðu þanist út ef EES samningurinn hefði ekki leyft þeim að stofna útibú í Evrópu ef þeir uppfylltu almenn skilyrði til bankarekstrar á Íslandi. Um slíkt er þó ekki hægt að fullyrða en allavega var fjórfrelsinu þakkað.
Útibú Landsbankans í Bretlandi gat stofnað til innlánsreikninga á breskum innlánsmarkaði vegna þess að Landsbankinn uppfyllti öll skilyrði til þess á Íslandi og Íslensk stjórnvöld máttu ekki neita þeim um leyfi til slíks því slíkt hefði kallast mismunun og verið grundvallarbrot á fjórfrelsinu. Síðan var það breska fjármálaeftirlitið sem setti nánari skilyrði og þau uppfyllti Landsbankinn.
Þegar bretar settu hryðjuverkalög á Landsbankann þá var það með tilvísun til meintra brota Íslendinga á EES samningnum. Stöðvun á öllum fjármagnsfluttningum til Íslands í kjölfarið var höfuðástæða þess að Íslensk stjórnvöld voru neydd til þess að semja við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn um skilyrði sem voru ígildi gjöreyðingar Íslensks efnahags.
Já segir Jón Baldvin en Íslensk stjórnvöld og eftirlitsstofnanir gátu gert þetta og hitt til að hindra útþenslu bankakerfisins og stofnun ICEsave reikninganna. Kannski, kannski ekki því regluverkið var mjög ítarlegt og öll mismunun var skaðabótaskyld. Það hefði t.d verið til lítils að stöðva Landsbankann 2006 og valda í kjölfarið bankakreppu og fá í þokkabót á sig lögmætar skaðabætur hluthafa.
En þetta er ekki kjarni málsins. Kjarni málsins er sá að þetta var ekki gert. Og þess vegna hrundi Ísland. En þá er sökin þeirra sem ekki hindruðu skaðann. Lítum nánar á þessa staðhæfingu.
EES samningurinn var sem sagt það hættulegur þjóðinni að sérstakar ráðstafanir þurfti að gera vegna hans til að hindra vöxt bankanna. En slíkt var mjög erfitt sökum strangra skilyrða sama samnings og í raun yfirlýsing um að bankarnir væru ekki hæfir til starfa á erlendri grundu. Hægt er að ímynda sér að slíkt hefði verið rothögg á alla fjármögnun þeirra. Til hvers var verið að einkavæða bankanna og gera samning sem gerði þeim kleyft að starfa á jafnréttisgrundvelli við aðra banka Evrópu, ef þeim var síðan meinað að nota sama frelsi vegna árangur þeirra var of mikill og þeir stækkuðu of hratt. Engin lög eða reglur voru brotnar við þessa stækkun og viðskiptamódel þeirra var vel þekkt á alþjóðavettvangi. Þó við vitum í dag hvernig fór þá var það ekki vitað árið 2004 eða 2006 og slæmar draumfarir um framtíðina eru ekki lagatæk rök þegar stjórnvöld verjast skaðabótakröfum hluthafa.
Og hvenær er bankakerfi orðið hættulegt efnahagskerfi heimalands? Augljóst mál þegar það er 12-falt en þegar það er 6-falt. Já er augljóst svar en er það ekki stærð Svissneska bankakerfisins. En 4-falt eins og breska eða 2-falt eins og Írska (eftir minni). Hvar á að setja mörkin. Er eitthvað betra að vera gjaldþrota þjóð með 3.000 milljarða skuld en 12.000 milljarða skuld? Það er auðvelt að gagnrýna eftirá en á meðan leiknum stóð sagði enginn neitt fyrr en vandinn var orðinn óviðráðanlegur.
Og hvernig samningur er það sem stjórnvöld þurfa aðstoð völvu til að hindra að hann stórskaði þjóðfélagið. Var ekki augljóst mál að hann var stórgallaður í upphafi. Eins og Jónas Haralz sagði að Ísland hefði fengið frelsi EES samningsins án þess að hafa þær varnir sem aðild að Evrópusambandinu hefði veitt þjóðinni ef illa færi.
Já en ég vildi að Ísland gengi í Evrópusambandið sagði Jón Baldvin. Og hvað með það. Ísland gekk ekki í Evrópusambandið. Sprengjan var ekki aftengd. Vilji til þess aftengir ekki nokkra sprengju. Framkvæmd gerir það. Og þegar virk sprengja springur á miðju stofugólfi þá hljóta eftirlifendur að spyrja hver kom henni fyrir. Og sá sem það gerði getur ekki sagt sér það til afsökunar að aðrir áttu að aftengja hana. Fyrst hann gerði það ekki sjálfur, átti hann ekki að bera sprengjuna inní hús. Í öllum sakamálum yrði hann talinn hinn seki þó aðrir gætu ekki frýjað sig ábyrgð ef þeir vissu af virkni hennar.
En vissu þeir það. Síðustu lofræðu sína um ágæti bankakerfisins skrifaði þáverandi viðskiptaráðherra í ágústlok 2008. Hann hefði varla gert það ef hann haft hinn minnsta grun um hrunið.
Og hvar voru varnarorð Jóns Baldvins? Eru þetta ekki allt samann eftirá skýringar hjá kallinum?
Spyr sá sem ekki veit.
Kveðja að austan.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Um bloggið
Ómar Geirsson
Færsluflokkar
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.11.): 47
- Sl. sólarhring: 623
- Sl. viku: 5631
- Frá upphafi: 1399570
Annað
- Innlit í dag: 40
- Innlit sl. viku: 4804
- Gestir í dag: 39
- IP-tölur í dag: 39
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Fróðlegt. Ertu með öðrum orðum að segja að hrunið sé EES að kenna? Margir vilja meina það. Sérstaklega á það við um sjálfstæðismenn.
Mér finnst það ekki rétt því að frelsi fylgir ábyrgð. Miklu fremur er um að kenna eftirlitsbresti, ábyrgðarleysi, græðgi, oftrú, reynsluleysi, hroka osvfr. frekar en EES samningnum sem slíkum. Hann færði líka öðrum atvinnugreinum sama frelsi en ekki settu þær okkur á hausinn. Nægar reglur voru til staðar en þeim var einfaldlega ekki framfylgt. Einnig hefur verið staðfest að þegar á reyndi þ.e. að framfylgja einhverjum reglum þá mótmæltu bankarnir harðlega og hreinlega þvinguðu yfirvöld til að hætta við. Svo var almenningur blekkur með stöðugum áróðri í fjölmiðlum og séð og heyrt tímaritum þar sem tilveran var máluð bleikum litum og skýjum.
kveðja að norðan
Arinbjörn Kúld, 24.2.2009 kl. 00:50
Blessaður Arinbjörn.
Ó nei, ég er að segja að Jón Baldvin beri mikla ábyrgð því hann er höfundur þess samnings sem varðaði veg hrunsins. Ég var að skemmta mér og skrattanum á Silfrinu í dag undir þræðinum "Handhæg skýring".
Ekkert af því sem gerðist hefði verið hægt ef við hefðum haldið áfram að greiða okkar 200 milljónir í tolla eða hvað það var sem við græddum á samningnum og verið fyrir utan EES. Einnig er mjög líklegt að hrunadansinn hefði verið stöðvaður fyrr ef við hefðum verið í ESB og þá hefðu "varnirnar" verið sterkari.
En það er með þetta eins og almenna eign almennings á hríðskotabyssum. Það nota þær ekki allir til óhæfuverka en þeir sem hafa þannig innræti að vilja drepa mann og annan eiga mun auðveldara með það ef þeir geta keypt byssuna útí næstu búð, í stað þess að brjótast inní næstu herstöð og stela henni. EES samningurinn var fyrir okkur eins og almenn eign drápstóla í Bandaríkjunum, stórhættulegur andskoti.
En Jónas Friðrik, sá gamli fjandmaður, hafði ekki lagaheimild, sem þurfti til að stöðva ICEsave. Ekki bresk stjórnvöld heldur. Þessir reikningar voru púra löglegir eftir regluverkinu. En hvað er að regluverki sem lætur smáþjóð ábyrgjast innlán margmilljónaþjóða? Og hvað er að fólki sem innleiðir þennan andskota? En sem betur fer var regluverkið ekki svona gallað. Enda þarf ígildi loftárása á Reykjavík til að láta Íslendinga borga milljónirnar.
Hinsvegar er ég viss um að Jónas Friðrik hafði engan áhuga á að stöðva Landsbankann en það eru getgátur mínar.
Og ekkert afsakar Íslensk stjórnvöld að láta málin þróast á þá vegu sem þau gerðu. Eða þjóðina að hafa kosið þessa "andskota" yfir sig. En rétt skal vera rétt.
En Arinbjörn. Munurinn á mér og flestum öðrum í Andstöðunni er meðal annars sá að ég hef lítinn áhuga á fortíðinni. Sæki helst í hana til að skamma Frjálshyggjuna, sem er eiginlega það eina sem ég nenni að skamma úr fortíðinni. Hún er aldrei nógu oft skömmuð. Hins vegar hef ég ekkert á móti íhaldinu. Það vill svo bara til að ég er ekki íhald og hef ekkert á móti að það ráði litlu.
En ég held að þú hafir tekið eftir því að mér er ákaflega illa við ICEsave og Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. Jón Baldvin vill í ESB og styður því bæði IFM og ICEsave. Þar með er dýpri tilgangur skrifa minna kominn. Ég get ekki stillt mig um að stríða kallinum vegna þessa. Skiptir mig engu máli þó þetta sé hí útí loftið sem kallinn veit ekki af. En ég ætla að skrifa vel um hann á morgunn. Jón átti mjög góða grein í Morgunblaðinu. Ég held meira að segja að hún sé það góð að ég fyrirgefi honum flest, bankahrunið og allt, en ekki ICEsave. En ég ætla að stilla mig. Vona að mér takist ágætlega upp.
Kveðja, Ómar.
Ómar Geirsson, 24.2.2009 kl. 01:39
Okei, ég skil hvað þú ert að fara. Virði það. Mikið tíl í því. Mér er líka afar illa við Icesave. Finn samt til með hinum almenna sparifjáreigenda sem tapaði á trausti við íslenskt fyrirtæki. Ég hef frá day one verið á móti því að við ættum að borga þá skömm. Ég er enn að reyna átta mig á AGS/IMF og því sem sá sjóður er að gera hér annað en reyna aðstoða okkur við uppbygginguna því þeir láta líta svo út að þeir séu hér til að hjálpa til en ekki rífa niður. Því þarf ég að sjá svart á hvítu hver þessi skilyrði eru og af hverju þau eru tilkomin.
Kv, ari
Arinbjörn Kúld, 24.2.2009 kl. 02:27
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.