17.2.2009 | 17:53
"Guð Blessi Ísland" Kreppan er miklu dýpri en þjóðinni er talið trú um.
Spáin um 10% samdrátt í landsframleiðslu og u.þ.b. 7% atvinnuleysi hefði hugsanlega geta staðist ef Alþjóðagjaldeyrissjóðnum hefði ekki verið hleypt inn í landið og eitthvað raunhæft hefði verið gert til að leysa kreppuna. Eitthvað í anda þess sem félagarnir Jón Daníelsson og Gylfi Zoega lögðu til. Samt tel ég að það hefði aldrei tekist að rétta þjóðarskútuna af með minni samdrátt en 20-25% því ástandið er bara miklu verra en landsmenn vilja horfast í augu við og svo bætist ofaná þetta slæma ástand dýpsta og erfiðasta kreppa heimskapítalismans frá upphafi. Ef áhrif þessa tveggja þátta er lögð saman þá er vandinn mjög illskeyttur og alveg ljóst að þjóðin þarf að endursemja um allar sínar skuldir, fresta afborgunum og fá framlengingu lána. Hún er ekki aflögu fær að taka á sig ný lán, og mun ekki geta greitt af slíkum skuldbindingum um langa herrans tíð, ef þá aldrei.
En lítum aðeins nánar á báða þessa þætti. Spáum aðeins í hvað er það sem gerir stöðuna svona erfiða.
Bankakerfið hrundi og þar hvarf á einni nóttu atvinnuvegur sem stóð undir 25 % þjóðarframleiðslunnar. Vissulega situr eftir vængstýfður innlendur hluti bankastarfseminnar en stærstu bankarnir eru komnir í ríkiseigu en restin af fjármálastofnunum stendur mjög illa. Fjárfestingafélögin eru flest gufuð upp eða í gjörgæslu kröfuhafa. Bankarnir dældu gífurlegu fé útí þjónustugeirann. Þeir keypt þjónustu lögfræðinga, endurskoðenda, auglýsingastofa, þeir stóðu undir ráðstefnuhaldi, hótelgistingum, hagkerfi laxveiða, bílaleigum, veitingastaða svo ég nefni eitthvað sem fyrst kemur uppí hugann. Enginn annar eftirspurnaraðili kemur í þeirra stað í bráð.
Bankarnir greiddu gífurlega skatta til hins opinbera. Þeir greiddu starfsmönnum sínum góð laun sem skiluðu sér að hluta inní verslun og þjónustu og auðvita samneysluna.
Þeir stóðu undir hlutabréfamarkaði, sem gerði fólk ríkt (allavega huglægt ríkdæmi) og það fólk stóð líka undir veltu þjónustu og verslunar. Núna er þessir peningar tapaðir og eftir sitja skuldirnar sem fólk tók til að fjármagna hlutabréfaviðskipti sín.
Tilvera þess hluta verslunar og þjónustu sem sérhæfði síg í lúxus varningi er í uppnámi því eftirspurnin hvarf á einni nóttu. Hvað gera þessi fyrirtæki?
En bankarnir fóru ekki bara á hausinn. Þeir höfðu dælt inn gífurlegum peningum inní hagkerfið með hagstæðum erlendum lánum og núna var sú eftirspurnarforsenda horfin. þessir peningar skiluðu sér inní byggingageirann, og ýmsa þjónustu og verslun.
Í raun má segja að stærsti hluti hagkerfis Stór-Reykjavíkursvæðisins hafi snúist um að ráðstafa þenslupeningum, sem lítil innistæða var fyrir. Þegar er skrúfað fyrir innstreymið, hvað gerir þetta hagkerfi þá?
Allavega er þegar ljóst að byggingarstarfsemi hefur stöðvast af miklu leyti. Hún stóð undir 10% af landsframleiðslu.
Þegar þetta þrennt er lagt saman, hrun bankakerfisins, byggingargeirans og mikinn veltusamdrátt í verslun og þjónustu, þá er mér það óskiljanlegt hvernig IFM getur reiknað út 10% samdrátt. Á sama tíma veit sjóðurinn að vaxtagreiðslur til útlanda stóraukast og sá peningur er tekinn beint úr hagkerfinu, sérstaklega með gríðarlegum niðurskurði ríkisútgjalda. Þessi peningur fer ekki í að kaupa innlenda vöru og þjónustu.
Og þá er eftir sjálf skuldsetningin. Eyðsla fólks byggðist á lántökum og skuldir heimila hafa stóraukist. Einnig er gífurleg skuldsetning til staðar í einkageiranum. Það var eins og enginn hagnaður og varasjóðir hafi myndast á þessu þensluskeiði. Skuldsettar yfirtökur voru mjög algengar. Og mikið af þessum skuldum var í erlendri mynt. Og svo var skorið á frekari lántökur. Bara það kallaði fram gjaldþrot margra fyrirtækja því nú er enginn til staðar að fjármagna taprekstur og undirboð. Og það voru settir á 18 % stýrisvextir.
Segjum sem svo að heimilin geti staðið í skilum. Á sama tíma eru mörg þeirra að verða fyrir miklu tekjutapi vegna atvinnumissis eða launalækkunar í formi afnám yfirvinnu og bónusa. Svo hafa laun líka hreinlega verið lækkuð. Þannig að ef þau geta staðið í skilum með lán sín , þá er ekki mikið afgangs í umfram eyðslu. Enda er allstaðar gífurlegur samdráttur í þjónustu og verslun.
Samt spáir IFM ekki nema 10% samdrætti. Og allir trúa þeim.
En þetta er ekki upptalið.
Í frétt í Morgunblaðinu, 07.11.08, er haft eftir hagfræðingunum Jóni Daníelssyni og Gylfa Zoega að "því lengur sem stjórnvöld bíða með aðgerðir til þess að stemma stigu við vítahring gjaldþrota fyrirtækja og heimila, þeim mun verra verður ástandið." Síðan lögðu þeir félagar til aðgerðir í anda Keynes sem er sú hugmyndafræði sem er allstaðar notuð nema á Íslandi.
Lilja Mósesdóttir, hagfræðingur, segir í Fréttablaðinu í nóv síðastliðinn að "hagfræðingar sem hafa rannsakað fjármálakreppu, telja þessar aðgerðir, hækkun vaxta og skattahækkanir, verði til þess að dýpka kreppuna. Vaxtahækkun þýðir að fleiri fyrirtæki geta ekki fjármagnað sig, því þau ráða ekki við kreppuna".
Jónas Guðmundsson, hagfræðingur, vitnar í Joseph Stiglitz, nóbelsverðlaunahafa, fyrrverandi aðstoðarbankastjóra Alþjóðabankans, í Morgunblaðinu 28. okt 2008, að "ofuráherslur sjóðsins á háa vexti, verðbólgumarkmið, hallalausan ríkisbúskap og frjálsa markaði, án tillits til aðstæðna í löndunum, ......... hafi oft reynst skaðlegar."
Með öðrum orðum þá er efnahagsráð IFM sjálfstæður kreppuvaldur. Og stjórnvöld hafa ekkert gert til að stöðva þá keðjuverkun sem Jón og Gylfi lýsa. Bara þessi óráð gætu útaf fyrir sig útskýrt 10% samdrátt landsframleiðslu og 6 % atvinnuleysi. Jafnvel þó ekkert mikið annað væri að.
En það er annar mjög alvarlegur vandi við að glíma og það er ástand heimsbúskapsins. Alltaf er betur og betur að koma í ljós að heimurinn er að fara inní sitt dýpsta samdráttarskeið frá dögum Kreppunnar miklu. Aðeins toppurinn á þeim vanda er kominn í ljós. Þegar hafa gífurlegar fjárhæðir farið í bankakerfi hins vestræna heims til að hindra hrun þess. En það stendur ennþá á brauðfótum. Segja má að ennþá hafa þessir peningar farið í að bregðast við afleiðingum innri vanda fjármálakerfisins og þeirra bóluviðskipta sem þar þrifust. Ennþá hafa framleiðslufyrirtækin, þjónustu fyrirtækin og heimilin, sem eru þó grunnur viðskipta bankanna og í raun eina tekjuuppspretta þeirra í dag eftir að millibankamarkaðir lokuðust, ekki farið á hausinn sem neinu nemur. En fárviðrið er að bresta á. Restin af hlutabréfamarkaðnum mun hrynja í kjölfarið. Það er að segja ef ekkert verður að gert.
Sakorsky Frakklands spáði því í haust að heimurinn hefði frest fram í apríl til að gera grundvallarbreytingar á Fjármálakerfinu. Annars yrði vandinn óviðráðanlegur. Ennþá hefur ekkert slíkt verið gert. Rótin liggur í afleiðuviðskiptum, fyrrum gullkistu bankanna, sem eru það tröllaukinn að engin fjármálastofnun hefur fjármuni til að gera þau upp, og enginn ríkiskassi nógu djúpur til að gera slíkt hið sama. Þessi viðskipti einkenndust af þeirri rökveilu að bankarnir reiknuð aldrei með að illa færi og þau yrðu gerð upp. En það fór allt á versta veg og allt er að hrynja. Hýennur markaðarins, Vogunarsjóðirnir gera svo illt verra með stöðutökum sínum. Sakorsky sagði að það yrði að láta sem þessi viðskipti hefðu ekki átt sér stað. Það þyrfti að þurrka þau út. En opinberlega, hið minnsta, var þaggað niður í honum og núna eru aðeins tveir mánuðir eftir í "dead end". Það er að segja fyrsta ársfjórðungsuppgjör ársins 2009. Hlutabréfamarkaðirnir munu ekki þola þau, nema náttúrulega að til komi kraftaverk. En þau hafa ekki gerst ennþá. Allt það slæma, sem menn áttu von á, hefur gerst nema mun verra en spáð var.
Afleiðingarnar af heimskreppunni hefðu útaf fyrir sig getað valdið 10-15% samdrætti þó ekkert annað hefði til komið. Álið hefur þegar fallið um helming. Þegar eftirspurnarþurrðin er orðin að staðreynd þá veit enginn hvaða verksmiðju verður lokað næst. Þorskurinn er hættur að seljast. Og hann mun ekki gera það fyrr en verð á honum lækkar mikið. Hann hefur lengi verið á yfirverði en núna mun hann örugglega fara undir meðalverð. Helmingslækkun þegar kemur fram á árið 2009 er ekki óvarleg spá. Ferðamannaiðnaðurinn mun einnig dragast mikið samann. Þegar kreppan og atvinnuleysið er skollin á fyrir alvöru í Evrópu, þá hættir fólk að ferðast. Auðvitað ekki allt en það dregur stórlega úr dýrum ferðalögum. Það er öruggt.
Og þá er ekki allt upptalið. Hin meinta "nýsköpun" sem hér átti að rífa allt upp aftur, hún þarfnast erlends markaðar ef hún á að skapa gjaldeyri. Hvar er markað að finna á krepputímum? Þeir voru allavega ekki margir í kreppunni miklu á þriðja áratug síðustu aldar. En auðvita er tækifæri fyrir vöru sem sparar kostnað. Því þau fyrirtæki, sem fjárfesta á krepputímum í nýrri tækni, það eru þau sem eru líklegust til að lifa af. En eigum við mikið af slíkum viðskiptahugmyndum? Það er spurning en Frjálshyggjufíflin hjá IFM drepa alla nýsköpun með efnahagsstefnu sinni. Þeirra efnahagsstefna gengur út á það að rústa því sem fyrir er og láta síðan erlenda fjárfesta hirða náinn fyrir lítið. Og hvar finnur fátæk þjóð erlenda fjárfesta sem vilja þróa með henni nýsköpun á tímum heimskreppunnar? Allt er óvissu háð en líkindin á þessu bjargræði eru mjög lítil.
Og þegar það er heimskreppa þá koma ekki erlendir bankar og fjárfestar til að hjálpa okkur. Ekki einu sinni til að hirða náinn.
Hver verður hinn endanlegi samdráttur er spurning? Þó hver og einn þáttur sem talinn er hér upp að framan geti valdið samdrætti á bilinu 5-15%, þá fer sama fyrirtækið og sama heimilið ekki á hausinn nema einu sinni. Og svo fer þetta að mestu eftir ástandi heimsbúskaparins hvað kreppan verður djúp og langvinn. Ef Obama nær forystu um grundvallar breytingar á Fjármálakerfi heimsins og hleypa nýju lífi í eftirspurn heima hjá sér þá ætti þetta að verða snarpt og ganga fljótt yfir. En það þarf eitthvað að gerast sem ekki hefur gerst í dag. Og svo veit enginn hvort gliðnun heimsviðskipta leiði til átaka í Austurlöndum og svo er alltaf hætta á borgarastyrjöld í Kína. Þar er örbrigð svo marga slík að þeir þola ekki meira. Í sögu Kína hefur slíkt alltaf leitt til borgarastyrjaldar og á meðan eru þeir ekki að framleiða ódýrar vörur. Og hverjir framleiða þær þá þegar svo mikið af framleiðslu hefur verið lögð niður í hinu vestræna hagkerfi.
Verður samdrátturinn 20-25%, ég veit það ekki. Það er von að hann stoppi í því bili ef það næst samstaða um að takast á við vandann. Það er ekki of seint. En til þess þarf að myndast stjórnmálaleg sátt og það þarf að stinga fulltrúum IFM í svartan poka eins og gert var við erlenda yfirgangsmenn fyrr á öldum. En við Íslendingar eigum ekki neina Ólöfu ríku sem vill hætta grenjum og safna liði.
Framtíðin er hlaðin óvissu og með hverjum deginum aukast lýkur á kerfishruni. Allar þær aðstæður sem voru til staðar í upphafi Kreppunar miklu í Bandaríkjunum eru til staðar hér í dag. Enginn pólitískur flokkur virðist skynja hvað stjórnvöld eru að gera þjóð sinni.
En þetta þurfti ekki að fara svona.
Um það fjallar næsti pistill minn um "Guð blessi Ísland". Hvað var hægt að gera. En það verður einhver bið á því.
Kveðja að austan.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Um bloggið
Ómar Geirsson
Færsluflokkar
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 3
- Sl. sólarhring: 20
- Sl. viku: 449
- Frá upphafi: 1412811
Annað
- Innlit í dag: 3
- Innlit sl. viku: 388
- Gestir í dag: 3
- IP-tölur í dag: 3
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Þakka þér pistilinn Ómar. Það þarf að huga að aðgerðum sem bæta mannlíf og fela í sér fjölbreytt atvinnulíf. Hér settu menn alla athygli í ál og banka á kostnað þess að skapa önnur tækifæri. Nú blæðir þjóðin fyrir þessa áhættumiðuðu stefnu yfirvalda.
Jakobína Ingunn Ólafsdóttir, 18.2.2009 kl. 01:10
Blessuð Jakobína.
Takk fyrir innlitið. Ég tók hér að ofan saman helstu ástæður þess að kreppan er miklu dýpri og ekkert af því sem ég segi er ofmetið. Frekar hitt að sökum bloggrammans þá gat ég ekki farið ítarlegar í þessi atriði. Ég heyrði t.d í fréttunum í morgunn að kínverskur ráðherra tjáði miklar áhyggjur sínar um stöðugleika og öryggi landsins í kjölfar samdráttarins. Borgarastyrjöld þar er raunhæfur möguleiki og þegar eru komin fram merki að örvinglað fólk snýst til varnar gegn lögreglu. Ég er minnast á þetta til að fólk geri sér grein fyrir því að við erum ekkert eyland og kreppan hrjáir alla heimsbyggðina. Stjórnmálastétt okkar lifir í Pollýönnu heim þar sem ekkert fær haggað hennar rósrauðum skýjum.
Við verðum fátæk og gamli kapítalisminn mun ekki rífa okkur upp. Lausnin felst í einhverju sem þú ert að tala um. Höfum við ekki oft orðað að Ísland ætti að vera í forystu um að byggja upp grænt vistvænt þjóðfélag. Þegar þú t.d hefur ekki efni á hátæknilækningum nema í alverstu tilfellum, kemur þá Sólheimaleiðin ekki til greina til að byggja upp heilbrigðari lífsstíl þannig að fólk þurfi ekki til læknis að fara út af lífsstílssjúkdómum.
Það hlusta fáir á svona raddir núna en þetta breytist hratt í Kreppunni. Þess vegna treysti ég á að Kreppan haldi áfram að hljóma á bylgjum netmiðlanna. Mér finnst það dæmigert þegar þú t.d talar tæpitungulaust, þá færð þú 70 og eitthvað athugasemdir en þegar þú hamrar á ICEsave ógæfunni og glæpalýðnum hjá IFM, þá tjá sig fáir. Eins er það með þennan pistil. Hann tekur á kjarna málsins og er því ekki ræddur. En þegar ég fíflast í lögfræðingum í dáraskap mínum, þá hefur fólk skoðanir.
En svona er þetta. Umræðan þarf sinn tíma til að þroskast. Þess vegna er ég í hlutverki eldpredikarans eins og Jón Steingrímsson forfaðir minn. Allir sem vilja borga ICEsave og rústa þjóðfélaginu með aðstoð IFM eru skotspónar gagnrýnar minnar. En ég vildi miklu frekar vera ræða framtíðina og þá möguleika sem í henni felast. En þeir liggja allavega ekki í hvalveiðum.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 18.2.2009 kl. 08:53
Flottur pistill. Eðlilega vill fólk ekki hlusta. Þekki það á mínu heimili. Sendi þér beiðni um bloggvináttu. Vonadi samþykkir þú?
Arinbjörn Kúld, 18.2.2009 kl. 11:11
Takk Arinbjörn.
Að sjálfsögðu. Góðar kveðjur í baráttuna.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 18.2.2009 kl. 13:58
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.