13.2.2009 | 12:03
"Guð blessi Ísland" Afhverju myndaði Geir Harde ekki þjóðstjórn?
Þetta mun verða stóra spurning sagnfræðinga framtíðarinnar. Þegar Davíð Oddsson kom inná fund ríkistjórnar Íslands til að kynna henni stöðu mála, þá sagði hann eitthvað á þá leið að ef einhvern tímann væri ástæða til að mynda þjóðstjórn, þá væri það eftir svona skipbrot. Úr orðum hans var snúið og umræðan fór út um víðan völl. Persóna Davíðs virtist skipta þjóðina meira máli en það alvarlega ástand sem hún var komin í. Almenningur kallaði á hefnd og refsingu sökudólga. Óumflýjanlega leystist allt uppí deilur og þvarg því hverjum fannst sinn fugl fagur en börn nágrannans ljót.
Þó var áberandi að VinstriGrænir héldu sig til hlés. Formaður þeirra Steingrímur Joð Sigfússon, lagði strax til við Geir Harde að það yrði mynduð þjóðstjórn, allt karp yrði lagt til hliðar og flokkarnir einhentu sig í það verkefni að reisa þjóðina við á nýjan leik. Síðan mætti kjósa þegar um hægðist. Geir hafnaði þessu boði. Lofaði samræði en taldi stjórnina hafa nægan styrk til að takast á við ástandið.
En öllum sem á horfðu virtist ljóst að stjórnin réði ekki við verkefni sitt. Sérstaklega var það áberandi hvað Samfylkingin efndi til mikils ófriðar við samstarfsflokk sinn. Aðförinni að Davíð Oddssyni var greinilega stjórnað af Samfylkingarfólki og svo var það krafan um tafarlausa umsókn í ESB. Jafnvel neyðarstundin virtist ekki geta hindrað Samfylkinguna í að skora pólitískar keilur. En það vekur aftur upp spurninguna hvað Geir Harde var að hugsa. Var þetta afneitun á alvarlegu stöðu mála? Eða var það ofmat á getu ríkisstjórnar hans?
Svarið er kannski að finna í spá Alþjóðagjaldeyrissjóðsins um þróun helstu hagstærða næstu þrjú árin. Spáin er alvarleg en í sjálfu sér ekki kolsvört. Stofnun spáir hagvexti eftir "tveggja ára efnahagskreppu". Um þessa spá og horfurnar segir Gylfi Magnússon, dósent við HÍ en núverandi viðskiptaráðherra, þetta í frétt Morgunblaðsins 21. nóv 2008. "Lífskjör ættu ekki að þurfa að fara neitt óskaplega niður og verða ekki úr takti við þau lönd sem við viljum bera okkur saman við" Í fréttinni var haft eftir Gylfa að "þrátt fyrir orð forsætisráðherra um að fá dæmi séu um alvarlegri fjármálakreppu segir Gylfi stöðu landsmanna almennt ekki slæma. Þjóðarbúið fari nú aftur um fjögur til sex ár sé miðað við spár um nær 10 prósenta samdrátt í landsframleiðslu og 20 % samdrátt í neyslu".Atvinnuleysið fer mest í 7 % sagði IFM og síðan átti að taka við hagvaxtaskeið á tímabilinu 2011-2013, með sirka 4,4% hagvexti á ári.
Frægt er síðan viðtalið við Tryggva Þór Herbertsson, fyrrum efnahagsráðherra ríkisstjórnarinnar, þar sem hann færir rök fyrir því að ástandið sé ekki eins slæmt og af er látið. Erlendu skuldir þjóðarbúsins verði minni vegna eignasölu nýju bankanna og atvinnuleysið verði varla meira en 4,5%.
Til hvers þá að mynda þjóðstjórn. Í raun eru sérfræðingarnir að lýsa miklum samdrætti en varla einhverju sem mætti kalla kreppu. Spá Alþjóðagjaldeyrissjóðsins tekur mið að því að ríkisstjórn Íslands fari eftir þeim efnahagsráðstöfunum sem sjóðurinn leggur til. Þar sem efnahagssérfræðingur sjóðsins eru hámenntaðir hagfræðingar þá er þeim örugglega kunnugt um neikvæð áhrif efnahagsráðstafana sjóðsins. Um þessi neikvæð áhrif liggja fullgildar rannsóknir sem ekki verða vefengdar.
Þannig að ekkert hefði verið aðhafst og hagkerfið látið sjálft um að rétta úr kútnum, þá hefði bæði samdrátturinn og atvinnuleysið orðið minna og ef eitthvað Keyneískt hefði verið framkvæmt á svið efnahagsstjórnunarinnar, þá hefði mátt því sem næst mátt komast hjá stórfelldu atvinnuleysi, það ef grunnspár sjóðsins eru réttar. En er það svo? Eru spár Alþjóðagjaldeyrissjóðsins ekki hreinlega bara fegraðar til að stjórnvöld samþykki peningastefnu sjóðsins. Láta forsætisráðherra trúa því að betra sé að hafa háa stýrisvexti til skamms tíma en háa verðbólgu til langs tíma eins og haft er eftir blaðafulltrúa Geirs Harde.
En af hverju segja okkar best menntuðu hagfræðingar af yngri kynslóðinni þetta í blaðgrein í Morgunblaðinu?
"Því lengur sem stjórnvöld bíða með aðgerðir til þess að stemma stigu við vítahring gjaldþrota fyrirtækja og heimila, þeim mun verra verður ástandið. Þetta segja hagfræðingarnir Gylfi Zoega og Jón Daníelsson í grein í Morginblaðinu ..".
Annaðhvort hefur Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn rétt fyrir sér og þeir félagar rangt eða öfugt. Það eru almenn sannindi og margrannsakað að hin stranga peningamálastefna IFM leiðir til vítahrings gjaldþrota fyrirtækja og heimila. Endi samdrátturinn í 10% af þjóðarframleiðslu þrátt fyrir þennan vítahring gjaldþrota, þá hefur upphaflegi vandinn varla átt skilið að kallast kreppa og þeir Jón og Gylfi eru stórlega að ýkja ástandið. En ef ekki?
En Geir Harde tók af skarið og ákvað að trúa "sérfræðingum" Alþjóða gjaldeyrissjóðsins og hundsa ráð innlendra sérfræðinga. Hann taldi líka stjórn sína ráða eina við ástandið og ekki væri ástæða til að mynda þjóðstjórn. Eftir stendur þá sú spurning; Af hverju var þá Geir Harde að segja upphaflega "Guð blessi Ísland"?
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt 14.4.2010 kl. 22:00 | Facebook
Um bloggið
Ómar Geirsson
Færsluflokkar
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.11.): 585
- Sl. sólarhring: 642
- Sl. viku: 6316
- Frá upphafi: 1399484
Annað
- Innlit í dag: 500
- Innlit sl. viku: 5355
- Gestir í dag: 458
- IP-tölur í dag: 451
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.