10.2.2009 | 12:38
Ólafur sagði satt, en það var spurning hvort hann átti að gera það.
Ólafur Ragnar var að segja Þjóðverjum sannleikann um stöðu Íslands og ósanngirni þess að að eina sem stórþjóðir Evrópu gætu sameinast um gegn heimskreppunni væri að láta Ísland borga.
Frétt hans hefur vakið hörð viðbrögð og segir mikið um Íslenska þjóðarsál. Uppistaðan í borgunarfólkinu, er jakkafatafólkið sem heldur að það sleppi frá hörmungunum, bara ef ESB kemur til hjálpar. Við eigum að borga allt segir það, allt sem við erum beðin um. Allir vita að græðgi var uppgötvuð á Íslandi og var skelfilegt hvernig græðgiguttarnir gátu níðst á saklausu fólki Evrópu, alveg eins og víkingarnir forðum. Alveg eins og engir stunduðu rán og gripdeildir í gamla daga, þá hafa engir aðrir í einkabissniss hagað sér svona illa í dag. Þjóðin ber ábyrgð á þeim því hún stöðvaði ekki þessa gutta. Skiptir engu þó starfsemi þeirra hafi verið í einkarekstri, samkvæmt þeim lögum og reglum sem voru settar af sömu Evrópuþjóðum. Þeir voru Íslenskir og við eigum að borga. Auðvita ráðum við ekki við skuldirnar segja jakkafatamennirnir en þegar við göngum í ESB, þá mun sambandkið sjá aumur á okkur og borga þær allar fyrir okkur. Við munum bara þurfa að játa og iðrast á torgum og þá mun okkur vera fyrirgefið.
Ekki veit ég hvað þeir hafa fyrir sér um góðsemi Evrópu, en mér hefur ekki þótt hún vera sérstaklega góð fram að þessu. Ég reikna að innst inni vita þeir sama. En þeir vita líka að Evrópa þarf þjóna og þó landar þeirra svelti og missi eigur sínar þá er þeim alveg sama ef þeir ná til að bjarga sínu eigin skinni. Og þó þetta kosti tortímingu fátæks fólks, sjúka og aldraða, öryrkja og veikra barna, þá er þeim alveg sama. Þeir og framtíðar jakkafatabörn þeirra munu fljóta ofaná eins og korktappinn.
En svo er það Íslendingar í útlöndum sem eiga ekki orð yfir okkur heima á skerinu. Þið eruð aumingjar, borgið segja þau. Í fullri vissu þess að þau sjálf munu ekki þurfa að bera byrðarnar. Mér blöskraði innlegg einnar konu í Þýskalandi um Ólaf og ákvað að senda henni innslag í athugasemdarkerfi hennar. Innslagið er ágætt innlegg í það sem ég hef verið að segja um borgunarliðið svo ég ætla að prenta það hér á eftir. Neistinn sem kveikti í mér var spurning hennar um af hverju Þýskir sparifjáreigendur ættu að borga fyrir Íslensku útrásina. Mitt svar var eftirfarandi:
Blessuð Margrét og kveðja til ykkar í Þýskalandi.
Það er ekkert réttlæti í því að Þýskir sparifjáreigendur borgi fyrir Íslensku útrásina. Það er ekkert réttlæti í að ég eða börnin mín geri það heldur, en ég sit samt uppi með það tjón, sem bankagaurarnir gerðu hagkerfi Íslands. Það er rjúkandi rúst á eftir. Ólafur var aðeins að benda á þetta en sjálfsagt má satt oft kjurt liggja.
Ég á ekkert val með að vera Íslenskur ríkisborgari en Þýskir sparifjáreigendur áttu val hvort þeir létu glepjast af hávaxtatilboðum Íslensku bankanna. Af hverju heldur þú að innan við eitt prósent þeirra gerðu það. Hinir sáu fáránleika þess við þessi tilboð.
En málið snýst ekki um réttlæti, heldur lög og reglur og það er skýrt kveðið á um í reglugerð EES samningsins hvernig stjórnvöld eiga að standa að innlánstryggingum. Íslensk stjórnvöld uppfylltu þau skilyrði samviskulega. Ástæða þess að lítið var í sjóðnum við hrunið var sú að bankarnir máttu greiða árið eftir að innlán féllu til. Það var líka í samræmi við reglur EES.
Það er sárt að tapa peningum við bankahrun en skattgreiðendur hvers lands bera aðeins ábyrgð á sínum innlánsmarkaði, enda stangast annað kerfi algjörlega á við stjórnarskrár allra Evrópulanda. Stjórnmálamenn hafa ekki það vald í lýðræðisríkjum að geta gert samninga, sem setja þessar þjóðir sjálfkrafa á hausinn. Enda gerir tilskipun EES ekki ráð fyrir því, vegna þess að í því væri engin innlántrygging fólgin. Smáþjóðir hafa enga burði til að ábyrgjast innlán stórþjóða en fjórfrelsið gerir ráð fyrir því að bankar smáþjóða starfi á innlánsmörkuðum stórþjóða og öfugt. Til þess var tilskipunin um Innlánstryggingarsjóðinn sett.
Ef þú trúir mér ekki þá skaltu hafa samband við Franska eða Þýska fjármálaráðuneytið til að fá hjá þeim lagaálit um nákvæmlega þetta sem ég var að segja þér. Þú trúir kannski þeim.
Kveðja að austan.
Svona mörg voru þau orð.
Kveðja í bili.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Um bloggið
Ómar Geirsson
Færsluflokkar
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (10.1.): 37
- Sl. sólarhring: 312
- Sl. viku: 934
- Frá upphafi: 1408716
Annað
- Innlit í dag: 30
- Innlit sl. viku: 770
- Gestir í dag: 28
- IP-tölur í dag: 28
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.