Prófessor Gylfi og ICESAVE

Það er mikill misskilningur að regluverk Evrópusambandsins hafi kveðið á um að skattgreiðendur smáþjóðar ættu að ábyrgjast innlán stórþjóða.  Fyrir utan siðferðileg rangindi þess að leggja slíka áþján á smáþjóðir vegna ábyrgðarleysis stjórnmálamanna hennar, þá þarf ábyrgðarkerfið að uppfylla þá grundvallarforsendu að innlán séu tryggð.  Það er sama hvað hann Emil maur lýsir því oft yfir að hann ætli að kyrkja fílinn, hann mun aldrei geta það því það er óframkvæmanlegt.  Það er sama hve oft Íslenskir stjórnmálamenn lýsa því yfir að þeir muni borga öll innlán á Bretalandseyjum, þá væri það aldrei framkvæmanlegt sökum smæðar landsins.  Tryggingakerfi innlána, sem gengur útfrá svona rökvillu, stæðist aldrei, sama hvað margir misvitrir stjórnmálamenn og hagfræðingar lýstu því yfir við öll möguleg og ómöguleg tækifæri.  ÞESS VEGNA HANNAR ENGINN SVOLEIÐIS TRYGGINGARKERFI, allrasíst alvöru  ríkjabandalag eins og Evrópusambandið.

Nokkrir hagfræðingar (32), örfáir stjórnmálamenn í Samfylkingunni og ritstjórar Morgunblaðsins og Fréttablaðsins, hafa verið á fullu að reyna að sannfæra þjóð sína að hún eigi að borga ICEsave kröfur breskra stjórnvalda, og vísa máli sínu til stuðnings í að ESB segi það líka, en ekkert af þessu liði hefur reynt að rökstyðja mál sitt, með að vísa í staðreyndir málsins, þá reglugerð sem liggur að baki frjálsri bankastarfsemi á Evrópska efnahagssvæðinu.  Eitthvað var bullað til að byrja með en eftir að Prófessor Stefán Már Stefánsson og Lárus Blöndal hæstaréttarlögmaður útskýrðu regluverk "Innlánssjóðatryggingar" EES þá þagnaði þetta bull að mestu.  Rökin um nauðunguna, sem hlaust af viðskiptaþvingunum ESB, hótunum þeirra að knésetja Ísland, og loks þeim fantaskap að beita ópólitískri stofnun, Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, fyrir sig,  þau eru aftur á móti fullgild í umræðuna.  Hvað gerist ef við borgum?  Hvað gerist ef við stöndum á rétti okkar og borgum ekki?  Í því liggur efinn.

Þegar ESB umræðan var að koðna niður, og æ fleiri voru farnir að sjá í gegnum helstefnu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, þá kom samstillt áróðursátak frá hagfræðingum og Ritstjórunum.  Samfylkingin var hinsvegar búin að átta sig á að stefna hennar var að koma henni í útrýmingarhættu, svo hún tók ekki þátt í plottinu, í bili að minnsta kosti.  Plottið eða landráðin, eftir því hvernig á það er litið, var mjög einfalt.  Ef þú forðast rökræður, en reynir að skrumskæla það rétta og lauma því inní umræðuna að stefna þín, þó röng sé, er hin heilbrigða skynsemi, þá er hægt að blekkja fólk og einangra sannleikann. 

Krafa Íslands um að neita að borga, nema að undangengnum dómi, var afgreidd sem eitthvað lagatæknilegt þras, sem afvegleiddi umræðuna frá "þeirri augljósu staðreynd" að Íslandi ætti að borga, en að biðja um aumingjaafslátt eftir að við værum gengnir í ESB.  Grein Yngva Arnar Kristinssonar í Morgunblaðinu 25 jan. átti að vera lokahnykkurinn á þessu áróðursferli.  Þessi afvegleiðing hefði kannski gengið ef Yngvi Örn hefði ekki afgreitt málstað Íslands sem eitthver lagatæknileg rök.  Slíkt orðalag hjá hagfræðingi til að gera lítið úr lögfræðingum, er eins og rauð dula æsingar, og svarið lét ekki á sér standa.  Svo lengi verður munað.

 Stefán Már og Lárus Blöndal skrifuðu grein í Morgunblaðið 28. jan., "Lagatæknileg rök um innistæðutryggingar" og í stuttu máli þá flengdu þeir Yngva Örn svo illilega að kunnugir segja að hann hafi í marga daga gengið um ganga, haldið um vissann líkamshluta og sagt æ,æ, æææi.  Í lokakaflanum, Réttarríkið - dómstólar, segja þeir félagar:

"Yngvi nefnir einnig að líklegt sé , ef íslenska ríkið hafni því að greiða til innistæðueigenda í samræmi við kröfur Bretlands og fleiri þjóða, muni þessi lönd sækja rétt sinn fyrir dómstólum.  Vonandi er það rétt.  Það er nefnilega þannig að ef ágreiningur er um réttindi og skyldur þá leysa menn úr honum fyrir dómstólum.  Þá kröfu hefur íslenska ríkið sett fram og við það eigum við að halda okkur.  Það er alveg fráleitt að halda því fram að málsókn fyrir alþjóðlegum dómstólum geti dregið úr trúverðugleika.  Ef ríki eða ríkjasambönd vilja hins vegar beita öðrum aðferðum við lausn ágreiningsmála sinna eins og þvingunaraðgerðum eða nauðung þá er verið að fara á svig við grundvallarreglur réttarríkja."

Svo mörg voru þau orð.  Lögfræði handrukkarans er lögfræði ofbeldis og kúgunar og ef um grundvallarhagsmuni þjóðar og jafnvel sjálfan tilverurétt er að ræða, þá mega menn aldrei gleyma því hvað er rangt og hvað er rétt og aldrei láta neina landráðapésa afvegleiða sig, því þeir starfa alltaf eftir annarlegum sjónarmiðum eða hagsmunum.  Það má vera að Íslendingar þurfi að sætta sig við nauðunguna en við eigum aldrei að kalla hana öðru nafni.  Jafnvel þeir sem sjá framtíðina fyrir sér í ESB, verða að gæta að grunnforsendum réttarríkisins.  Það þjónar aldrei málstað þeirra, hversu góður og skynsamur hann er, að hæðast að lýðræðinu og hlutverki dómstóla innan þess.

Og þá er ég kominn að efni þessa pistils.  Hvað gekk prófessor Gylfa Zoega til í Kastljósinu í gær þegar hann sagðist skilja sjónarmið breta?  Sér hagfræðin enga annmarka á því að málglaðir og/eða  fávísir stjórnmálamenn geta aldrei gengið gegn stjórnskipan landsins og innihaldi alþjóðasamninga þess, með orðavaðli og innistæðulausum loforðum.  Orð stjórnmálamanna hafa aldrei lagagildi.  Til þess eru sett lög á Alþingi og síðan þurfa þau lög að standast stjórnarskrána.  Að lofast til að greiða annarri þjóð einhverja óskylgreinda upphæð, á hæpnum lagalegum forendum, er alltaf brot á stjórnarskránni og það varðar líka við landráðakafla hennar.  Þú mælir ekki með stjórnárskráarbroti og helsi þjóðarinnar, þó þú skiljir gremju annarra þjóða yfir framgangi ráðamanna þinnar þjóðar.

Um þetta er enginn vafi.  Um þetta þarf ekki að deila.  Stjórnarskráarbrot og landráð er dómstóla að skera úr um en við breytum ekki stjórnarskránni með orðavaðli, hvað þá að kalla hana eitthvað "lagatæknilegt atriði".  Heimur græðgikapítalismans hrundi áður en hagfræðingar fengu svo mikil völd. 

Kveðja að austan.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Ómar Geirsson

Höfundur

Ómar Geirsson
Ómar Geirsson
Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Screenshot (49)
  • Screenshot (49)
  • ...img_0104a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (10.1.): 226
  • Sl. sólarhring: 465
  • Sl. viku: 1123
  • Frá upphafi: 1408905

Annað

  • Innlit í dag: 182
  • Innlit sl. viku: 922
  • Gestir í dag: 172
  • IP-tölur í dag: 169

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband