Í UPPHAFI SKAL MAÐUR ENDANN SKOÐA.

Hvað fær miðaldra, þreyttan karlmann til að setjast niður og fara að blogga um þjóðfélagsmál?  Eftir 20 ára afskiptaleysi.  Sjálfsagt sama ástæða og hjá svo mörgum öðrum, sem urðu virkir og fóru að tjá sig eftir hörmungarnar síðasta haust.  Okkur er ofboðið og við erum reið.  Og jafnvel síðustu vikurnar örvingluð, það virðist ekkert vera að gerast annað en mulningsvél eyðileggingarinnar fær að stunda sitt starf lítt óáreitt.

Til hvers bloggar maður? Per se þá höfum við ekki mikil áhrif sem einstaklingar en sem heild þá virkar þessi aðferð til að hafa áhrif á atburðarrásina.  Og hvað mig varðar þá er þetta öryggisventill.  Fyrst eftir áfallið var maður í losti en svo kom reiðin og þá kom löngunin til að lemja mann og annan.  Bloggið var mín leið í reiðistjórnun.  Ég reifst og skammaðist og stríddi og erti og reyndar hrósaði líka út um víðan völl netsins.  Um leið var ég að athuga hvort ég gæti þetta, haldið þræði og staðið í rökræðu um eitthvað sem ég hef takmarkað vit á og tæknin til að skrifa var ónotuð í rúm 20 ár.  Ég held að mér hafi tekist að vera, eins og sagt er á góðri íslensku, að vera verkur í rassi hjá mörgum bloggurum, hvort sem það var til góðs eða ills.  Aldrei hvarflaði það að mér að blogga á minni eigin síðu, af mörgum ástæðum.  Sá aðallega ekki tilganginn að vera skrifa eitthvað sem fáir lesa og ennþá færri eru sammála um, á einkasíðu sem enginn veit um. 

Enn  núna er komið að því hvort ég er maður eða mús.  Andspyrnan krefst þess að fólk hætti að hugsa um eigin hag og láti hagsmuni þjóðar sinnar og föðurlands ganga fyrir.  Þeir sem byrja að segja hingað og ekki lengra og grípa til vopna gegn yfirgangi og kúgun erlendra afla og innlendra leppa þeirra, eru oft taldi skrítnir og alveg lausir við allt skynsamlegt raunveruleikaskyn.  Til hvers að berjast við alltof öflugan andstæðing, og sem malar þig mélum smærra?  

Svarið er einfalt.  Það þarf einhver að byrja.  Unga fólkið sem hélt til fjalla í Frakklandi á fyrstu dögum Vichy stjórnarinnar, það naut lítils stuðnings og hafði enga von í baráttu sinni.  Enda tortímdist það flest.  En barátta þeirra gaf öðru fólki von.  Sérstaklega öðru ungu fólki, sem vildi ekki lifa sem þrælar undir erlendri stjórn.  Það skipti ekki máli þó hagsmunaaðilarnir og stjórnmálamennirnir sögðu að öll barátta væri vonlaust og víst væri hægt að lifa bærilegu lífi, sem þjónar erlendra innrásarmanna.  Unga fólkið vildi frekar upplifa þjáninguna og erfiðleikana heldur en að börn þeirra myndu alast upp við kúgun og þrældóm erlendra afla.  Barátta þessa fólks var uppistaðan af endurreisn Franskrar þjóðarsálar og sá vegvísir sem stuðlaði að falli illskunnar.  En Andspyrnufólkið var ekki eitt í sinni baráttu.  Illska vekur alltaf upp andstöðu, og eftir því sem illskan eflist, þá  snúast fleiri gegn henni.  Frjálsar þjóðir studdu andspyrnuna og loks var illskan sigruð og unga fólkið, það sem lifði af baráttuna, var frjálst á ný.

Eins er það með frjálshyggjuna.  Þetta er deyjandi hugmyndafræði.  Þeir ráðamenn hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum sem skilja ekki vonsku sinna gjörða, þeir munu verða settir af á næstu misserum.  Þeir ráðamenn í vestrænum ríkjum sem hafa stutt þessa hugmyndafræði munu þurfa að víkja.  Fólk mun krefjast svara og fólk mun krefjast ábyrgðar.  Nýir ráðamenn, hjá þjóðum sem eru í sömu klemmu og við, munu sína okkur skilning og ef þeir geta ekki hjálpað, þá munu þeir að minnsta kosti ekki styðja eyðingaröflin.  Það er enginn eyland, ekki heldur þeir sem eiga um sárt að binda.  Að lokum snýst þetta alltaf um frjálst val þjóðar.  Hvað hún vill og hvað hún ætlar sér að gera.  Kúgun og áþján er tímabundið ástand sem mun ekki vara um alla eilíf.  Því fyrr sem er snúist gegn henni, því fyrr birtir til.  

Mörgum mun finnast full mikið lagt í dramatíkina að líkja stöðu okkar við hernumda þjóðir seinna stríðs.  Vissulega er það rétt að enginn er hér herinn (enda duga lepparnir vel til að kúga þjóð sína) og engum skotum hefur verið hleypt af.  En það er hægt að leggja undir sig þjóðir og kúga þær án þess að nota til þess skriðdreka.  Það er hægt að svelta þær til hlýðni.  Neyða þær með efnahagsþvingunum að samþykkja drápsklyfjar sem þær rísa aldrei undir.  Líka er hægt að þvinga þær til að rústa sínu eigin atvinnulífi og gera alla íbúa að eignalausum þrælum.  Slíkt er að gerast í dag á Íslandi.  Á Englandi í den þá tóku Normannar flestar jarðeignir af Söxum.  Á Írlandi var kaþólikkum meinað að eiga jarðir og þeir sem áttu fyrir urðu að sætta sig við eignaupptöku.  Allt þetta var gert með vopnavaldi sigurvegaranna.  Á Íslandi voru landsmenn þvingaðir til að taka á sig skuldir auðmanna sinna án þess um það væri samið eða lög kvæðu á um það.  Íslendingar voru þvingaðir til að gangast undir öfgastefnu vitleysinga (spyrjið bara söguna ef þið trúið mér ekki) í efnahagsstjórnun, sem hægt og örugglega er að ganga að hagkerfinu dauðu.  Erlendar hýenur eru mættur til að hreinsa upp náinn og aðeins tímaspursmál hvenær þær eignast auðlyndir landsins.  Jarðir, fiskimið, orkulindir, þetta mun allt falla þeim í skaut þegar fyrri eigendur eru orðnir gjaldþrota.  Erlendar fjárfestingar er þetta kallað en það er ónefni á þvingun þar sem annar samningsaðilinn er neyddur til að láta eigur sínar á smánarverði því honum er meinað að bjarga sér sökum trúarbragða öfgafólks.  Ef þetta er ekki hernám og landeyðing, hvað er þá hernám og landeyðing.  Voru t.d Ísraelsmenn fyrst að hernema Gaza þegar þeir sendu skriðdreka sína inn til að sprengja upp mannvirki og börn?  Voru þeir bara góðu gæjarnir fram að því þó þeir héldu Palintísku þjóðinni í herkví fátæktar og hungurs?  Í mínum huga þá er svarið einfalt.  Á þessu er kannski stigsmunur en enginn eðlismunur.  Kúgun og ofríki er alltaf kúgun og ofríki þó þvingunaraðilinn beiti mismunandi ráðum til að ná fram markmiðum sínum.

Og það er rétt  að í dag þarf hin Íslenska andspyrna ekki að hafa áhyggjur af byssukúlu í höfuð eins og hin frönsku  ungmenni sem héldu til fjalla.  En hver veit hvað gerist eftir nokkur ár þegar Íslensk ungmenni, þau sem eru börn í dag en erfa skuldir okkar og fjötra, rísa upp gegn örbrigðinni og kúguninni?  Heimta land og eigur feðra sinna og réttin til að vera sjálfstæðir einstaklingar hjá sjálfstæðri þjóð?   Hver veit hvað mun gerast þá. 

Í dag er andstaðan þögguð niður með háði og spéi.  Og ef það dugar ekki, þá erum við kallaðir lýðskrumarar fyrir að skilja ekki snillinganna ráð.  En við þessa snillinga vil ég segja eitt og aðeins eitt.  Ég skildi ekki ykkar ráð þegar þið komuð þjóð ykkar á kné og ég skil ykkur enn verr þegar þið meinið henni að rísa upp aftur.  Slæm voru ykkar ráð, verri eru þau í dag.  

En allt á sitt upphaf og sinn endi.  Ég ætla að reyna að vera virkur næstu þrjá mánuðina.  Þann 5. maí næstkomandi verða viss tímamót í lífi mínu og þá mun ég gera upp hug minn um áframhald.  Heilsan eða annað óvænt getur bundið endið á þetta blogg mun fyrr en ég mun örugglega ekki hætta fyrr en ég kem frá mér stemmunni "Guð blessi Ísland" og fjallar um nauðsyn þjóðstjórnar og Andstöðugrein minni gegn ICEsave og IFM.  Í báðum þessum greinum þá mun vera hægt að orða hlutina á betri veg og koma með skarpari greiningu á ástandinu.  Það er ekki minn höfuðverkur, mér nægir að vita að ég hef rétt fyrir mér, alveg eins og litla stúlkan sem benti á fatalausa Keisarann.  Það sem rétt er, er rétt, óháð því hver segir það.  Verði þessar greinar og annað það sem ég skrifa á þessu bloggi mínum einhverjum innblástur til frekari skrifa og andstöðu, þá er það vel.  En ef ekki þá eru mín viðbrögð ekki sú að segja að "það mátti alltaf reyna".  Þetta snýst frekar um skyldu og ábyrgð gagnvart drengjunum mínum að pabbi þeirra hafi gert sitt besta í þeirri stöðu sem hann var í.  

Hvernig framtíðin vinnur svo úr andstöðunni, er svo hennar mál, sem aðeins hún veit.  Ég vona það besta fyrir hönd þjóðar minnar og barna.  Í dag er reynt að ná samstöðu um ógæfu.  Á morgun næst kannski samstaða um framtíðina.  Það er mín von.

Kveðja að austan.

 


Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Ómar Geirsson

Höfundur

Ómar Geirsson
Ómar Geirsson
Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Screenshot (49)
  • Screenshot (49)
  • ...img_0104a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (10.1.): 570
  • Sl. sólarhring: 652
  • Sl. viku: 1467
  • Frá upphafi: 1409249

Annað

  • Innlit í dag: 474
  • Innlit sl. viku: 1214
  • Gestir í dag: 423
  • IP-tölur í dag: 415

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband