14.7.2025 | 16:20
Smánin sem smækkar.
Smækkar bæði þingmenn, þingflokka, ríkisstjórn Íslands og allt fólkið sem styður þessa aðför að sjávarbyggðum þjóðarinnar, kristallast í orðum Hönnu Katrínar Friðriksson atvinnuvegaráðherra þegar hún fagnaði samþykkt frumvarps síns um hækkun veiðigjalda.
"Þetta er góður dagur hér í dag, vegna þess að við erum loksins að festa það hér í lög að þjóðin fái loksins beint eðlilegt gjald fyrir nýtingarréttinn að þjóðarauðlindinni."
Dagurinn er góður vegna þess að ríkisstjórn Íslands tókst að knýja fram lýðskrum sitt um ofurskatt á sjávarútveginn, ofurskatt sem þekkist hvergi í dag í vestrænum löndum, en var vissulega til staðar á kratísku árum Norðurlanda um og uppúr 1970, og endaði með stöðnun og afturför grunnatvinnuvega viðkomandi landa.
Niðurlagður með skömm, aðeins vitfirrtir tala um að leggja aftur á slíka ofurskatta.
Þetta orðskrípi, eðlilegt gjald fyrir nýtingarrétt, hefði kannski ekki hljómað svona Orwelskt þegar kvótakerfið var tekið upp, þá vissulega var fyrirséð að nýtingarrétturinn yrði smán saman verðmætur, en Alþingi ákvað þá að kvótinn gæti gengið kaupum og sölum, þeir sem keyptu borguðu fyrir þennan nýtingarrétt, þeir sem seldu, gátu gert upp skuldir sínar við bankakerfið, eitthvað sem bjargaði bankakerfinu á sínum tíma.
Eftir að sú hrina var yfirstaðin þá seldu menn kvóta með hagnaði, margir urðu ríkir og tóku arðinn út úr sjávarútveginn.
Hvort eitthvað af þeim arði hefði mátt lenda í vasa almennings á annan hátt en þáverandi skattkerfi ákvað, er eitthvað sem snýr að fortíðinni, en þeir sem eiga kvótann í dag hafa sannarlega borgað fyrir þann nýtingarrétt, aðeins brotabrot af núverandi útgerð gerir út á upprunalegan kvóta.
Með batnandi afkomu fór útgerðin að borga veiðigjöld, og þau hafa hækkað mikið á síðustu árum, svo mikið að fáar smærri og meðalstórar útgerðir treysta sér til að endurnýja skip sín, flotinn er smán saman að úreldast, og ákveðnum tímapunkti neyðast smærri og meðalstórar útgerðir að selja frá sér skip og kvóta, skipin orðin verðlítil en keypt vegna þess að kvóti fylgir með.
Og þeir sem kaupa eru stærri útgerðir, sem hafa bæði meira fjármagn sem og greiðari aðgang að fjármögnun, hvort sem það er í gegnum hlutafé eða betri aðgang að bankakerfinu.
Á þessa staðreynd hafa allir hagsmunaaðilar bent á, bæði fulltrúar útgerðar, sveitarfélaga sem og hins vinnandi fólks.
Og þessi staðreynd er hundsuð af meirihluta Alþingis, þar eru ekki undanskilin þingmenn landsbyggðarinnar.
Með offorsi, rangfærslum og lygum skal hið Nýja Ísland byggjast.
Sú Smán smækkar fólk niður í að vera Ekkert.
Þingmenn stjórnarflokkanna sem koma í heimabyggðir sínar, eru Ekkert.
Aðeins smánin sem fylgir hverju þeirra fótspori.
Stuðningsfólk þeirra í sveitarstjórnum sjávarbyggðanna er Ekkert.
Því það reis ekki upp og mótmælti, kaus að þegja, þegar það átti að segja;
Við mótmælum.
Svona fer það sem ekki er hægt að verja með hið besta fólk.
Gott fólk.
En þegar á reyndi án manndóms og æru.
Lýðskrumið sigraði í dag.
Smánin fitnaði hraðar en púkinn á fjósabitanum gat nokkurn tímann gert þó aðeins hefði verið bölvað og ragnað í baðstofunni.
Eftir stendur smátt fólk.
Fólk sem varð að engu.
Því það sveik bæði mennskuna og hugsjónina um betri heim.
Gengur erinda hins svarta af öllu því svarta sem mannleg græðgi og valdaþorsti hefur alið af sér.
Smánin sem smækkar.
Er þeirra smán.
Kveðja að austan.
![]() |
Veiðigjaldafrumvarpið samþykkt |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 16:23 | Facebook
Um bloggið
Ómar Geirsson
Færsluflokkar
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (12.8.): 44
- Sl. sólarhring: 71
- Sl. viku: 127
- Frá upphafi: 1470178
Annað
- Innlit í dag: 43
- Innlit sl. viku: 124
- Gestir í dag: 43
- IP-tölur í dag: 31
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Það eina góða við þessi lög, er að það mun fella Ríkistjórnina og setja fylgi Samfylkingar aftur í lámark.
Flokkur Fólksins fer sömu leið og VG og Píratar, þurkkast út !
Viðreisn sekkur í sín 9 % og Þorgerður hættir loksins.
Þá verður hægt að endureisa Ísland.
Birgir Guðjónsson (IP-tala skráð) 14.7.2025 kl. 16:50
Því miður Ómar, -sama hvað þú segir, jafnvel þó þú þegir.
Þjóðin hún lækar því þjóðin er glöð. Næst verður það auðlindarenta á sólina, -nema þá kannski í kolefnisfríi á Tene.
Það vill næstum engin vinna í slori frekar en þurfa að pissa í skóinn sinn, og meirihlutinn ræður.
Með sólríkum samúðarkveðjum úr efra í funheitt neðra.
Magnús Sigurðsson, 14.7.2025 kl. 17:06
Veðsetning kvótans og frameljanleikinn voru drýsildjöflarnir í þessu öllu.
Frá Hákoti séð þarf að koma á föstum byggðakvótum. Það ætti að vera verðugt keppikefli hvers byggðarlags að styrkja grundvöll sinn þannig.
Símon Pétur frá Hákoti (IP-tala skráð) 14.7.2025 kl. 20:48
Blessaður Birgir.
Eftir 2009 hef ég alið með mér þann draum að Samfylkingin þurrkaðist út af þingi, en af því varð ekki því miður 2016.
Flokkur fólksins virðist búinn vera, og þá er ég ekki að vísa í núverandi stöðu í skoðanakönnunum, heldur virðist einhver óstöðugleiki hafa grafið um sig hjá Ingu Sæland, það er eins og hún hafi ekki þolað álagið við að komast í ríkisstjórn. Og Inga er flokkurinn, svo einfalt er það.
En ég er því miður ekki viss um að þetta mál verði til þess að fella ríkisstjórnina, dagar lýðskrumsins eru ekki liðnir hér á Íslandi.
Vonum samt það besta.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 15.7.2025 kl. 07:17
Góðan daginn Magnús.
Það vottar fyrir þunglyndi þarna í sólarhitanum í efra, hélt að gnægð fífla og fíflaafurða inni gegn slíkum ofsólarkvillum, og séð hef ég myndir af vígreifum í fjallagrasatínslu og náttúruskoðun.
Innlend gleðiefni án auðlindarentu.
Magnús minn þú veist það alveg eins og ég að við skrifum ekki vegna þess að við höldum að einhver taki mark á okkur, þá hefði lítið verið skrifað á Íslandi í gegnum aldir og tíð.
Vissulega veður hið svarta uppi og vill setja skatt á öll gæði og í mörgum fátækum löndum þar sem AGS hefur knúið fram hugmyndafræði þess í neðra er fátækt fólk rúið inn að skinni því allt skal verðleggja, einkavæða og síðan skattleggja.
En það þýðir ekki að leggjast í þunglyndi yfir því Magnús, heldur brýna gamla axlir, hamra deigt járn á steðja og kyrja að það þýði ekkert að gráta hann Björn bónda.
Vissulega er mennskan á undanhaldi, og þá fyrst og fremst fyrir hinni sálarlausu græðgi, sem ekki bara kyndir elda ófriðarins, heldur líka sér manninn aðeins sem óþarfa kostnað. Í gær minnir mig að ég hafi lesið montfrétt um að gervill geti þýtt bækur, og afmennskan sér þar tækifæri til að skipta fólki út fyrir vél, í stað þess að vélin sé hjálpartæki. Lítil frétt um sjálfa ógnina sem auðurinn ætlar að nota til að útvista manneskjunni.
Það breytir samt því ekki Magnús að við erum menn og höldum því áfram á meðan lífsandinn gerir okkur það kleyft.
Er það ekki??
Með kveðju úr líkn þokunnar í neðra.
Ómar Geirsson, 15.7.2025 kl. 07:42
Blessaður Símon Pétur frá Hákoti.
Veistu, eiginlega held ég þið kotbændur ættu bara að halda ykkur við orfið og ljáinn og nýta þannig túnbletti ykkar.
Við sjávarbyggðina eru árabátar og nútímaútgáfan af þeim, stærri spýtubátur með lítið stýrishús aftur í skut, sem skýldi vélinni sem var mikið framfaratæki uppúr aldamótunum 1900., allir með tölu komnir á byggðasöfn, það er þeir sem sluppu við bálið sem Þorsteinn Pálsson skipaði að yrði kynnt til dýrðar Hayek og Friedman.
En þessar minjar á byggðasöfnum voru forsenda hinna dreifðu sjávarbyggða þar sem hver eyri og túnblettirnir út frá þeim var nýtt til að byggja bryggjur fyrir vélbátana, og frá þeim var sótt.
Nútíminn er einfaldlega miklu stórtækari og hann öskrar á nútíma lífskjör. Það þýðir stærri einingar sem geta keppt við nútímann í öðrum löndum með samkeppnishæfa vöru, skapað þannig arð og góð lífskjör.
Ef það hefði verið byggðakvóti og óframseljanlegur kvóti, þá væru sjávarbyggðirnar líka komnar á byggðasafn, því það hefðu allir orðið löngu gjaldþrota, reksturinn hefði aldrei borið sig.
Það þýðir ekki Símon Pétur að ræða áskoranir dagsins í dag út frá rómantík liðinna daga, það felst í eðli þeirra að þeir eru liðnir, þó auðvita eiga þeir að skila okkur lærdómi og reynslu, og jafnvel visku á köflum.
Kvótakerfið lét sjávarbyggðirnar vissulega illa, og fólkið sem bjó í þeim var algjörlega varnarlaust, þó útgerðarmaðurinn kannski slyppi með því að selja kvótann, þá voru það allir hinir, fyrirtæki sem misstu rekstrargrundvöll sinn, samdráttur í tekjum sveitarfélaga, verðlitlar og jafnvel verðlausar eignir. Og fátt gert á móti, allavega hvað varðar fólk og fénað.
Það er samt liðið og út úr þessum rústum kom arðbærasta atvinnugrein þjóðarinnar, miðað við hausatölu og fjármagn sem er bundið í henni, skilar hún mestu út í þjóðarbúið. Samt ætla menn að eyðileggja hana og koma af stað annarri hringekju byggðaeyðingar þó vissulega séu færri byggðir undir núna, það voru svo fáar sem lifðu af þá fyrri.
Hugtök eins og að hafa skyldur gagnvart nærumhverfi, það sem oft hefur verið kallað samfélagsleg ábyrgð, verða undir því aðeins er spurt um hagræðingu, að fækka störfum, að sjúga sem mest út og gefa sem minnst til baka.
Sú hugsun, sú ómennska er drýsildjöfull dagsins Símon Pétur, nýtur stuðnings meirihluta þjóðarinnar, og þess vegna tala ég um siðrof, á milli þjóðar og gilda.
Í því siðrofi liggur meinið.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 15.7.2025 kl. 08:09
Brýna axlirnar segirðu Ómar, -já það er fleira sem dregur Austfjarðaþokuna niður í augnabrúnir en illa innrættir örvitar á alþingi og svo sem ekki von til annars en axlirnar standi einar og sér upp úr þokunni, líkar tindum austfjarða fjallanna þegar hamfara ritsmíðar eru ástundaðar.
Annars er það svo skrítið með gervigreindina, að þó svo facebook hafi lofað friðhelgi á meðal fífla og fjallagrasa, -þá virðist gervigreindin vita allt. Okkur Matthildi minni var boðið að eiga góða stund á tjaldstæði í gærkvöldi eftir að fór að kula af þokunni. Þar var boðið upp á fágætar veitingar, m.a. grillað lambkjöt þó svo ekki væru rauðar íslenskar hafðar með, en nýjar kartöflur þó, -og svo kveðskap að fornum sið. Ljóðin þau voru að vísu gervigreind og ljóðið um okkur Matthildi mína vísaði beint í facebook, og lá ekkert á því, -en þvílíkur leirburður maður minn lifandi.
Annars vil ég sérstaklega taka undir orð Símonar Péturs frá Hákoti um að framsalið sé í raun allt í senn fíllinn í stofunni, líkið í lestinni og hundurinn grafinn. Þess vegna lækar þjóðin því þjóðin er glöð, -svo lengi sem hún kemst gervigreind og kolefnisfrítt til Tene.
Vond er lygin er víst á leiðinni til landsins, nú er bara að vita hvað hún hefur í farteskinu, -sú sem tekið hefur að sér að vera allt í senn, -Grýla og jólasveinar þjóðarinnar. Síðast þegar hún kom kom hún með kolefnisfríar ferðir til Tene í tvö ár, -sjáum hvað setur.
Kveðja í morgunn heiðríkjuna í neðra.
Magnús Sigurðsson, 15.7.2025 kl. 08:58
Blessaður Magnús.
Það er ekki verra ef mismælin eða á maður kalla þetta ritmismælin búi til nýja meiningu af þekktum tilvísunum, er ekki mikla betra fyrir gamla menn að brýna axlirnar áður en þeir fara að hamra járnið á steðjanum??, eða ætla sér að halda til einhverra afreka, það er í þeirra huga.
Gott er lambakjötið, ég sjálfur grillaði fyrir fjölskylduna yfir gaseldi, annar sona minna sem kom svangur af æfingu, sagði við mig í óspurðum fréttum; Pabbi þetta var gott kjöt.
En hann slapp við leirburð, og fékk ekki nýjar kartöflur heldur forsoðnar úr Þykkvabænum.
Já, það eru víst ýkjur að Grýla gamla sé dauð, og jólasveinarnir virðast fjölga sér sjálfkrafa.
En Tene hvað!! sagði ég við gamlan æskufélaga núna rétt áðan, og við vorum sammála um að þó minnið væri farið mjög að förlast, þá hefðum við upplifað mörg svona hitasumur í æsku okkar.
Þokunni létti en það er stutt í hafgoluna, en þeim mun heitara í skjólsælunni hér á Hólsgötunni.
Með greindarkveðju, samt ekki gervigreindar, að neðan.
Ómar Geirsson, 15.7.2025 kl. 13:21
Það er til hæstaréttadómur að Jón Jónson er greindur og því verður ekki breytt. Hvernig gat það gerst að fá slíkan dóm hjá þessum aðila þó engin sérstakur fræðingur hafði skrifað upp á það jú það átti að standa tilgreindur Jón Jónsson í niðurstöðu dómsins ekki greindur
Já þetta með alvöruna ,,Veiðigjaldið'' er gert til að búa til nýja skútuöld ekki fyrir franskar fiskiskútur sem ná í þjónustu á Fáskrúðfirði eins og í den fyrir löngu heldur munu okkar stóru skip sem eru líka fraktarar verða á endanum í eigu ESB stórútgerðarinar sem eru í þýskalandi og Spáni sem dæmi Þessi sýn er ástæðan fyrir því að allt skal í kvóta grásleppan líka eins og menn þekkja.
Aðild Íslands að ESB er klár að við eigum a ðfá að kíkja í pokann til að sjá hvað er í boði er ekki málið samningar sem um 27 lönd sem eru í ESB hafa samþykkt einróma er það sem er í boði það þarf bara að klára kaflan um fiskinn og breyta stjórnarskráni svo allt sé löglegt. Jón Baldvin sagði þegar hann skrifaði undir EES samninginn að við fengum allt fyrir ekkert. Jæja nú hætti greindin fer þverandi og ég hef engan hæstaréttadóm að ég sé greindur.
Bestu kveðjur Baldvin Nielsen
P.S. Hversu aumt er ásættanlegt? Íslenski landbúnaðurinn er deyjandi stétt
SS pylsur eru gerðar úr hollensku kjöti og íslensku sá það í Bónus í dag Að blanda kjöti saman frá mörgum löndum finns mér ólystugt
Áfram Ísland!
Baldvin Nielsen (IP-tala skráð) 15.7.2025 kl. 15:17
Blessaður Baldvin.
Svona er þetta.
Ég las fróðlega frétt núna rétt áðan áður en ég setti á kaffikönnuna, fyrir mig, hugsanlega son minn, en líklegast ekki móðir hans, mér skilst að hún stefni á eitthvað íslenskt, gamalt og gott, sem er að fara á okkar norðfirska kaffihús, Nesbæ með vinkonu sinni.
Fréttin var um barnið sem bauð sig fram til forseta, og náði á ákveðnum tímapunkti fylgi í skoðanakönnunum, eða alveg þar til barnið þurfti að opna munninn, og þá hvarf líklegast helmingur fylgis þess.
Sigurður Ingi, rebbi gamli sjálfur, sá von í að blekkja barnið til fylgis við Framsóknarflokkinn og ætlaði að nota meintar persónulegar vinsældir þess til að koma sjálfum sér á þing, rétt mat, því með Sigurð Inga, raðlygara allra kosningaloforða hefði Framsókn ekki fengið hálfan, hvað þá heilan þingmann í Suður kjördæmi.
Flétta Rebba gamla gekk upp, en svo fáum við frétt um að barnið vilji að þjóðin fái arð af auðlind sinni.
Auk margskonar fávisku, þá áttar fyrrum forsetaframbjóðandi sig ekki á, að sama hugmyndafræði mun næst verða beitt gegn hennar eigin kjósendum, ferðamannaiðnaði Suður kjördæmis, þó vissulega í minna mæli verði.
Heimskast samt að barnið skuli ekki vita að þjóðin nýtur þegar mikils arðs af sjávarauðlindum sínum, þar gerist arðurinn ekki mikið meiri nema ef Kristján í Hval fái að veiða hvali í friði, þar er ónýtt auðlind sem hægt er að nýta.
Baldvin, ég er ekki að gera lítið úr ástæðu skaðafrumvarpsins, að eyða því sem vel er gert hjá þjóð okkar, með því eina markmiði að koma landinu okkar undir beint skrifræðisvald ESB, þó ég telji að bókun 35 muni gera slíkt, en þegar rótgrónir flokkar eins og Framsókn, sætta sig við formenn eins og Sigurð Inga, sem býður börn velkomin ef þau koma honum á þing, þá tel ég vanda þann sem þú lýsir, djúpstæðari en hægt sé að benda á Samfylkingu eða Viðreisn.
Og það er engin varnarbarátta gegn hjáleigusambandinu við Brussel fyrr en við gerum okkur grein fyrir því.
Við byggjum hvorki landið með ólögum, lygum og rangfærslum, eða börnum.
Eitthvað sem er erfitt fyrir Framsókn og Sjálfstæðisflokkinn að skilja.
En sem betur fer vann Guðrún.
Hún er allavega ekki barn.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 15.7.2025 kl. 15:51
Já vertu Ómar
Gott að þú komst inn á Kristján í Hval hf hef hugsað til hans nokkuð lengi hvernig þeir tóku hann úr umferð ESB sinnar.
Ísland fer ekki í ESB nema tryggt verði að bann við hvalveiðum haldi áfram eins og augað sér og helst lengra inn í framtíðina eins og hugurinn leyfir.
Hvað gerist þegar okkar stóru útgerðir á Íslandi sjá möguleikann að selja kvótann hæstbjóðenda í evrópu sem horfa 500 ár fram í tímann í sínum fjárfestingum á himinn háu verðum til að fá meiri völd og áhrif?
Var veiðigjaldið kannski gildra eftir allt saman leikrit fyrir okkur þjóðina sem meiri og minnihluti léku í kannski voru eru verða flestir sammála að við förum í ESB eiga bara eftir að skifta kökunni sem eftir er áður en við fáum að sjá það
Kveðja Baldvin
Baldvin Nielsen (IP-tala skráð) 15.7.2025 kl. 17:24
P.S. frétt í dag kl 17.59 í rúv eða 35 mín eftir að ég skrifaði síðustu athugasemd hérna inni Ísland og ESB efla samvinnu um sjálfbærar fiskveiðar og málefni hafsins - RÚV.is
Baldvin Nielsen (IP-tala skráð) 15.7.2025 kl. 22:30
Ísland og ESB efla samvinnu um sjálfbærar fiskveiðar og málefni hafsins - RÚV.is
Baldvin Nielsen (IP-tala skráð) 15.7.2025 kl. 22:34
Góðan daginn Baldvin.
Þegar útgerð Þórunnar Sveinsdóttir treystir sér ekki til að endurnýja skipið og hætta því útgerð, þá er ljóst að núverandi veiðigjald, það er veiðigjaldið sem er búið að vera í nokkur ár, að það sé hægdrepandi eitur fyrir smærri og meðalstórar útgerðir.
Að rífast um hækkun þess, sama hve hún á að vera mikil, er í raun sama súpan í sama potti.
Stjórnvöld eiga að reyna að viðhalda fjölbreytni í eignarhaldi útgerðar, ekki ganga frá því dauðu.
Ég svo sem ætla stjórnarandstöðunni að hafa barist af heilindum, nema þá helst Rebba gamla og öllum hans málamiðlunum, en það er eins og þetta fólk allt saman skilji ekki vandann, það er innbyggt í kerfið að menn hafa meira uppúr því að selja en að basla í útgerð, að auka erfileikastigið, að baslið sé meira áður en einhver króna kemur í vasann, flýtur þeirri þróun.
Þeir sem það skilja segja Nei við öllum málamiðlun um hækkun.
Varðandi ESB þá er ljóst að þangað liggur hugur Alþingis, aðeins blæbrigðamunur á beinni aðild eða samþykkt bókun 35. EES samningurinn er löngu hættur að vera viðskiptasamningur heldur er hann miniútgáfa að aðild að sambandinu. Það vita allir nema Björn Bjarnason.
Það er í þess anda sem menn ræða monttilögur um samvinnu um sjálfbærar veiðar, svona eins og að; Evrópa þarfnast okkur.
Leikrit allt saman, hve víðtækt veit ég ekki.
Kveðja að austan
Ómar Geirsson, 16.7.2025 kl. 07:21
Mér skilst að Ursula komi í dag?
Það er ekki skrýtið að ofuráhersla hafi verið lögð á að klára þennan skatt svo hægt væri að fá lof frá Úrsúlu
sem leggur til í nýrri fjármálaáætlun ESB að leggja sérstakan ESB skatt á "stóru" fyrirtækin til að fjármagna ESB batteríið
Nogle af de forslag, som har været diskuteret internt i Kommissionen, er for eksempel en skat på store virksomheder, som opererer på EU's indre marked, og hvor virksomhedens værdi er mere end 50 millioner euro. Disse virksomheder kunne betale en skat, som går direkte i EU-kassen. En slags "corporate afgift" til EU-kassen fra de største virksomheder i verden.
https://www.dr.dk/nyheder/udland/analyse-om-lidt-er-alle-i-europa-rasende-paa-ursula-von-der-leyen
Grímur Kjartansson, 16.7.2025 kl. 07:39
Já Grímur, smátt fólk gerir mikið fyrir lof höfðingjanna.
En það er fulllangt gengið að stunda landeyðingarstefnu fyrir hrósið.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 16.7.2025 kl. 07:52
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Þú ert innskráð(ur) sem .
Innskráning