14.7.2025 | 12:05
Smánin.
Lýðræði er gjaldþrota þegar lýðskrumarar geta æst meirihluta fólks gegn einhverjum hópi sem er í minnihluta.
Mýmörg dæmi um þetta þekkir sagan, en þau tengjast yfirleitt endalok lýðræðis eða alræði eins og þegar herforingjastjórnin í Búrma æsir til óaldar gegn minnihlutahópi múslima í landinu eða þegar félagi Stalín æsti íbúa borganna til að fara ránshendi um sveitir Úkraínu og ræna þær af öllum matvælum, þeir sem ekki létu þau af hendi, voru skotnir.
Allir þekkja afleiðingarnar, hungursneyðina miklu þar sem milljónir sultu til dauðs.
Rökin sem lýðskrumið notaði voru þau að smábændurnir sem voru rændir, væru kúlakkar eða svokallaðir stórbændur, þegar sannleikurinn var sá að kommúnistastjórnin hafði fyrir löngu upprætt þá, eftir voru harðduglegir smábændur sem höfðu keypt jarðir sínar af gamla landeigandaaðlinum áratugum áður.
Mjög svipuð rök eru notuð til að réttlæta þessa aðför íslensku borgarbúanna að sjávarbyggðum landsins.
Það eru 4-5 fjölskyldur sem eiga megnið af kvótanum og þær arðræna samfélagið, þegar sannleikurinn er sá að eignarhald stórfyrirtækjanna er dreift, þær meðal annars í eigu lífeyrissjóða, og leitun er að kvóta sem ekki hefur verið keyptur af öðrum útgerðum, sem sáu hag sinn í að hætta í stað þess að halda áfram útgerð.
Og það vinnur fólk, lifandi fólk hjá þessum útgerðum, og það eru byggðir, lifandi byggðir sem eiga allt sitt undir arðsemi þeirra, vexti og viðgangi.
Engin útgerð bað um kvótakerfið, það er ákvörðun stjórnmálanna, og stjórnmálin settu lögin g reglurnar.
Að þeim lögum og reglum þurfti útgerðin að aðlaga sig, sem gekk misvel, en í dag er þjóðin með vel rekin, öflugan sjávarútveg, sem stendur sig í alþjóðlegri samkeppni, og skilar mikilli framlegð og veltu til annarra greina atvinnulífsins.
Að ekki sé minnst á miklar skatttekjur ríkis og sveitarfélaga.
Á þessa atvinnugrein er ráðist af þvílíku offorsi að flestir hefðu skammast sín nema kannski Stalín, hann var jú ekki alveg í lagi.
Afleiðingarnar eru augljósar og ég ætla að gefa Heiðrúnu Lind Marteinsdóttir, framkvæmdastjóra Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi orðið. " Þegar ríkið er farið að taka yfir 70% hagnaðar fiskveiða í formi veiðigjalds þá er ljóst að við því þurfa fyrirtæki að bregðast með hagræðingu. Fjárfesting dregst saman, kaup á þjónustu minnka og starfsfólki fækkar, svo hin augljósu áhrif séu sett fram"
Hún segir líka "að breytingar í meðförum þingsins um innleiðingu hækkunar í skrefum hafa lítil áhrif. Ef aðferðafræði er gölluð og forsendur byggjast á röngum tölum þá verður böl ekki bætt með lítils háttar tímabundnum afsláttum árið 2026 og 2027."
Hið sorglega við þessi sannindi er að lýðskrumið hundsar þau algjörlega, lýgur til um samráð eða kallar staðreyndir fals.
Fals sem er runnið undan hagsmuna þessara 4-5 fjölskyldna sem frumvarpinu er ætlað að bregða fæti fyrir.
Þegar forystufólk samtaka sjávarbyggða benda á að skaðann, og þá sérstaklega það sem þeir óttast mest, að þessi ofurskattur á sjávarútveginn muni verða banabiti lítilla og meðalstórra fyrirtækja í sjávarútveginum, að fiskvinnslu verði lokað og svo framvegis, þá er það líka fals sem runnið eru undan þeim stóru.
Allt er fals segir lýðskrumið nema þeirra eigin lygar og rangfærslur.
Lýðskrum er alltaf lýðskrum og lýðskrumarar haga sér alls staðar eins, en Smánin er þeirra sem taka undir málflutning þeirra, og finnst það í góðu lagi að ræna náungann, á meðan ránið og ruplið beinist ekki að þeim sjálfum.
Og þar erum við því miður að tala um góðan meirihluta þjóðarinnar, sem hefur orðið viðskila við sið og rétta hegðun.
Siðrof í sinni tærustu mynd.
Kveðja að austan.
![]() |
Umræðum um veiðigjöldin er lokið |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Um bloggið
Ómar Geirsson
Færsluflokkar
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (14.7.): 485
- Sl. sólarhring: 757
- Sl. viku: 5621
- Frá upphafi: 1465407
Annað
- Innlit í dag: 440
- Innlit sl. viku: 4789
- Gestir í dag: 399
- IP-tölur í dag: 387
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Þú ert innskráð(ur) sem .
Innskráning