Gjör rétt.

 

Sjaldan hefur eins stór hópur af mannlegum skít og viðbjóði sést samankominn frá því að Ísland byggðist eins og sjá mátti á tröppum Bessastaða í kvöldfréttum sjónvarpsins.

Minnti einna helst á lýsingar meistara Tolkiens á Orkum og Orkabælum, hvernig sá kynþáttur legði lykkju á leið sína til að traðka niður nýútsprungið blóm í auðninni, eðli þeirra að saurga og svívirða, hatast út í ljósið og fegurðina.

 

Stór var Ásthildur Lóa að virða þetta fólk ekki viðlits, smár var Haukur Hólm að kalla til hennar spurningu og vera svo hissa að hún virti hann ekki svara.

Smá var forseti okkar, Halla Tómasdóttir, þegar hún tók við afsögn Ásthildar Lóu og funda síðan með nýju ríkisráði, stór Halla hefði lesið bæði þingi og fjölmiðlum pistilinn og sagt síðan; Gjör rétt.

 

Gjör rétt var einu sinni kjörorð sjálfstæðismanna og Sjálfstæðisflokksins, þegar flokkurinn taldi það frumskyldu sína að standa vörð um sjálfstæði lands og þjóðar.

Núna þegar ýldufýla rógberans liggur inní innstu kima flokksins þarf Guðrún Hafsteinsdóttir að sýna styrk sinn og forystuhæfileika.

 

Ekki bara að lofta út róginn með því að biðjast afsökunar á því sem snýr að flokknum og einstökum flokksmönnum, heldur líka að leggja strax fram þingsályktunartillögu um að Alþingi krefjist afturköllunar á brottvikningu Ásthildar Lóu úr embætti, öllum hafi orðið á og því beri að gera rétt.

Vísa í orð Björns Bjarnasonar í morgunsárið; "Nú renna tvær grímur á marga sem töldu fyrir tveimur sólarhringum að skipta yrði um ráðherra. Það hafi ef til vill verið alltof harkalegt miðað við málavexti.".

Ég efa ekki að Sigurður Ingi og Sigmundur myndu styðja þá tillögu, það vill enginn láta skítafnykinn fylgja sér inní nýhafið kjörtímabil.

 

Ábyrgð Morgunblaðsins er síðan mikil.

Orðstír Spursmála er undir, öll framtíðarumfjöllun þessa beinskeyttu viðtalsþátta verður undir skugga þessa máls, aðeins ærleg afsökunarbeiðni getur hrakið þann skugga á brott.

Ritstjórar blaðsins verða að gera sér grein fyrir að borgarlegt fólk gerir aðrar kröfur til blaðsins en að eltast við sorann líkt og Rúv hefur gert um langan tíma.

Aðförin að Ásthildi Lóu er aðför ómennskunnar að lífinu, að líf skyldi vera alið og komið til manns í stað þess þægilega, að eyða því svo enginn meintur blettur fylgdi inní framtíðina.

Og aðförin að Ásthildi Lóu er líka aðför að hina kristna samfélagi því mykjudreifararnir voru fljóti að tengja það við eitthvað meint barnaníð og óeðli.

 

Morgunblaðið er smátt á meðan afsökunar er ekki beðið.

Og það smækkar við hverja frétt sem reynir að réttlæta fyrri fréttaflutning líkt og þessi frétt sem pistill minn er tengdur við.

Ritstjórarnir verða þar smæstir.

 

Það skiptir nefnilega máli að Gjöra rétt.

Að viðurkenna hið mannlega eðli, að við erum öll breysk og gerum mistök.

Sem við lærum að og biðjumst afsökunar á gerist þess þörf.

 

Og við afneitum hinu miskunnarlausu þjóðfélagi fordæmingar hinna dyggðugu sem aldrei verða á.

Of lengi hefur þetta rakkarapakk stjórnað hinni opinberu umræðu á Íslandi.

 

Ekki meir, ekki meir sagði skáldið af öðru tilefni.

Tökum samt undir orð hans af þessu tilefni.

 

Segjum einum rómi;

Vér mótmælum öll.

 

"Skammist ykkar svo".

Svo vitnað sé í Eirík Fjalar.

Kveðja að austan.


mbl.is Fékk síma og heimilisfang frá aðstoðarmanni forsætisráðherra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Dittó. Vér mótmælum allir.

jósef Ásmundsson (IP-tala skráð) 24.3.2025 kl. 09:58

2 Smámynd: Guðmundur Örn Ragnarsson

Og Drottinn leit með velþóknun til Abels og fórnar hans, en til Kains og fórnar hans leit hann ekki með velþóknun.

Þá reiddist Kain ákaflega og varð niðurlútur.

Þá mælti Drottinn til Kains: Hví reiðist þú, og hví ert þú niðurlútur? Er því ekki þannig farið:

Ef þú gjörir rétt, þá getur þú verið upplitsdjarfur.

En ef þú gjörir ekki rétt, þá liggur syndin við dyrnar og hefir hug á þér, en þú átt að drottna yfir henni? (1. Mós. 4:5-7).

Guðmundur Örn Ragnarsson, 24.3.2025 kl. 10:07

3 Smámynd: Grímur Kjartansson

Sýnist á öllu að það hafi helst verið Heimir Már framkvæmdastjóri og upplýsingafulltrúi Flokks fólksins
sem  klúðrað þessu ráðherraembætti fyrir Ásthildi Lóu varanlega

Grímur Kjartansson, 24.3.2025 kl. 10:42

4 Smámynd: Ómar Geirsson

Takk fyrir innlit og athugasemdir félagar.

Grímur, ég held að þú sért ekki alveg að ná síðustu pistlum mínum.  Þetta snýst ekkert um atburðarrás síðustu daga, þetta snýst um að gjöra rétt, bæta úr óréttlæti, að láta rógtungur og níðhöggva ekki stjórna samfélaginu.

Og ég efa ekki mínútu Grímur að þú sért ekki sammála því.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 24.3.2025 kl. 11:37

5 Smámynd: Grímur Kjartansson

"þingsályktunartillögu um að Alþingi krefjist afturköllunar á brottvikningu Ásthildar Lóu"

Held bara að ef rétt hefði verið haldið á málum þá hefði verið hægt að koma í veg fyrir þennan fjölmiðlafarsa sem svipti hana embætti en ekki ærunni

Grímur Kjartansson, 24.3.2025 kl. 12:16

6 Smámynd: Ómar Geirsson

Alveg sammála þér um það Grímur, en því miður spólum við ekki aftur á bak.

En við þurfum að endurheimta æru þjóðarinnar.

Kveðja að austan.

Ps. Þetta með þingsályktunartillöguna er nú bara stílbragð til að vekja athygli á að fólk getur staðið upp og mótmælt, sagt þingheimi að Gjöra rétt.

Ómar Geirsson, 24.3.2025 kl. 12:34

7 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Blessaður Ómar. -gjör rétt segirðu.

Án þess að ég ætli að gera lítið úr þætti ríkis gufunnar og hrútakofans í Hádegismóum hvað þá orðum H Tomas, þá má hafa það í huga að rétt áður en skúbbið sauð undan gufunni þá funduðu valkyrjurnar með Ásthildi Lóu. Af þeim fundi gekk Ásthildur Lóa beint í gufuna og sagði af sér sem ráðherra. Svona samkvæmt tímalínunni en ekki hrútaskýringunum.

Mín hrútaskíring er sú, á meðan annað kemur ekki fram, að barnamálaráðherrann hafi ekki fengið stuðning valkyrjanna, -að þar hafi ekki runnið tvær grímur heldur þrjár alveg grímulaust, og valkyrjurnar því tekið sinn þátt í mannorðsmorði sem mistókst, þó svo að hæfum barnamálaráðherra hafi stútað.

Ef á að gjöra rétt, þá skal rétt vera rétt, en ekki meir og minna byggt á hálfsannleika eða jafnvel lygi.

Bestu kveðjur úr nepjunni að ofan engu að síður.

Magnús Sigurðsson, 24.3.2025 kl. 13:30

8 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Magnús.

Var þessi fundur ekki eftir skúbbið???

Án þess að ég er nokkuð að gera lítið úr þætti valkyrjanna, þá snýst málið að mínum dómi um óttastjórnun fordæminganna.

Ég er vissulega einn af þeim sem hélt að Ásthildur hefði tekið rétta ákvörðun, um það má lesa í fyrsta pistli mínum um málið minnir mig.

Svo segi ég bara eins og Björn Bjarna, á mig fóru að renna grímur þegar ég fattaði að rangur fréttaflutningur hafði stjórnað þessu mati mínu.

Það er ein ástæða þess að ég hef haldið áfram með pistla mína þó ég hafði fyrir þetta mál einbeittan vilja til að hvíla huga og hönd en láta þess í stað reyna á skemmda fætur svo ég verði göngufær með konu minni í komandi fríi okkar út í Salou í Katalóníu í byrjun mai-mánaðar.

Ég tek mína yfirbót enda ekki göngufær vegna langrækinnar pestar, en ég tel að við sem samfélag þurfum líka að taka út yfirbót, eyða óréttlæti, og læra af öllum þessu máli.

Svo vil ég að Guðrún rannsaki þátt Áslaugar í þessari aðför allri saman.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 24.3.2025 kl. 13:40

9 Smámynd: Ómar Geirsson

Það má margt segja um þetta ömurlega mál, fjölmiðlar biðjast ekki afsökunar á rangfærslum sínum, ömurmenni reyna að slá sig til riddara.

Ég las góða færslu áðan, hugsanlega kíkir einhver hérna við á síðu mína, sem hefur ekki kynnt sér alla málavöxtu, því vil ég vitna í færslu Þóru Kristínar Ásgeirsdóttur, fyrrverandi fréttamann Rúv sem á ekki til orð yfir fréttamennsku ríkisútvarpsins, staðleysur, lygar, rangfærslur, og ekkert leiðrétt. En eins og ég segi, hugsanlega les einhver þessa athugasemd, þá allavega er eitthvað gagnið gert.

Þóra Kristín:

Það var hryggilegt að horfa á frettir af ríkisráðsfundi þar sem barnamálaráðherrann læddist út bakdyramegin en samráðherrar hennar sögðu næstum ekkert um þessa dæmalaustu aftöku nema helst dómsmálaráðherrann sem taldi málinu lokið, þar sem ráðherrann hefði axlað ábyrgð. Og ábyrgð á hverju þá?

Lúkasarmálið nýja hefur verið leitt til lykta. Andlit fyrrverandi barnamálaráðherra hékk um helgina á flettiskiltum í erlendum borgum eins og höfuðleður og fullyrðingar um að hún hefði haft kynmök við 15 ára dreng. Það er eins og það sé skortur á barnaníðingum á Íslandi, þegar fólk tekur andköf af hneykslun út af kynlífi tveggja sjálfráða ungmenna fyrir 36 árum. Ótrúlegasta fólk hefur svo látið draga sig á geislabaugnum út í þetta skitafen og Jón Gunnarsson boðar fleiri „beinagrindur“ í boði flokksins.

RUV hefur ekki séð ástæðu til að leiðrétta neitt í fyrstu frétt um málið, ekki dregið neina fullyrðingu til baka. Helsta vörnin er sú að erlendir fjölmiðlar hafi líka fjallað um málið, því það sé svo merkilegt, en þar er kyrfilega vitnað í fyrstu frétt RUV svo þar étur hver slúðurtunnan upp úr annarri.

Leirburðurinn var rakinn inn í aldhús fyrrverandi tengdamóður barnsföður ráðherrans sem sá ástæðu til að senda málið til Áslaugar Örnu þingmanns Sjálfstæðisflokksins og kalla eftir fundi með forsætisráðherra um málið (Hvergi nema á Íslandi væri einhliða frásögn þesarar konu, sem á enga aðild að málinu, orðin burðarás í fyrstu frétt á stærsta og virðulegasta miðli landsins án þess að staðreyndir væru tékkaðar af).

Dómharkan í samfélaginu krefst nýrra fórnarlamba á hverjum degi. Pólitíkin er alveg til í að knýja þá drápsvél áfram ef það hentar málstaðnum hverju sinni. Við erum öll ábyrg af einhverju leyti fyrir því að samfélagið er komið á þennan stað. Nýlega fréttist af ofbeldisöldu þar sem hópar fólks gera út tálbeitur til að lokka til sín barnaníðinga, misþyrma þeim og kúga úr þeim peninga. Það hefur allavega kostað eitt mannslíf. Þekktir misyndismenn hafa blandað sér í hópinn enda gott að geta göfgað græðgi sína og blóðþorsta með „góðum tilgangi.“ En ef við treystum ekki lögreglu og dómstólum til að höndla þessi mál, er þá betra að margdæmdir ofbeldismenn kveði upp dóma eða landslið netrölla?

Og af hverju er það orðin árás á fjölmiðla, að biðja um að staðreyndir í svona viðkvæmum málum sé tékkaðar af eða að fólk leiðrétti missagnir og rangfærslur. Konan í eldhúsinu, undir moggaklukkunni sem hvæsti í hljóðnema fréttamannsins að ráðherrann hefði ekki átt að skríða upp í rúm með 15 ára dreng, skilur vissulega eftir óbragð í munni, en það breytir ekki því að fréttamaðurinn hefði átt að fletta því upp hvenær barnið væri fætt og hvað foreldrar þess voru þá gamlir. Og það hefði átt að leita eftir áliti barnsföðurins og hafa allavega eitt sjónarmið í fréttinni frá manneskju sem taldi sig ( eða ekki) grátt leikna. Og hvernig fékk fréttastofan það staðfest að hún hefði verið leiðbeinandi drengsins? Eða þótti tengdamamman fyrrverandi nægilega staðfesting á því? Tálmunin í málinu hefur nú verið snyrtilega afgreidd af syni konunnar.

Eftir stendur að eina réttlætingin sem fólk getur núna fundið fyrir afsögn ráðherrans er örvænting hennar og hvatvisi, þegar hún fréttir af því að kynferðismál hennar á unga aldri séu á leið í fjölmiðla og hún sé máluð upp sem lögbrjótur og barnaníðingur.

Ráðherrann passaði ekki inn í elítuna, hún var prinsessa venjulega fólksins, vann stórsigur í Suðurkjördæmi, með fleiri atkvæði á bak við sig en núverandi formaður Sjálfstæðisflokksins. Núna segir fólk með áhyggjusvip að hún hefði átt að gera grein fyrir málinu þegar hún var tilnefnd til ráðherra. Ég reikna þá með því að hinir ráðherrarnir sitji núna hnípnir á biðstofunni í forsætisráðuneytinu, til að gera grein fyrir því með hverjum, hvar og hvernig þeir stunduðu kynlíf fyrir 20, 30 eða 40 árum og það verði skrifað inn í möppu sem hægt verði að fletta upp í jafnóðum og óhróðurinn safnast upp. Það er verst að það verður enginn tími til að stjórna landinu en kannski finnst einhverjum það bara fínt.

Ómar Geirsson, 24.3.2025 kl. 15:31

10 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Sæll Ómar, -mín hrútaskýring er sú að Ásthildur Lóa hafi reynt að skýra sína hlið fyrir valkyrjunum rétt eins og uppljóstraranum, -komið að öllum dyrum lokuðum. 

Tek undir með þér hvað Guðrúnu og Áslaugu varðar. Auk þess ættu allar valkyrjur og hrútar vera til sjálfskoðunar, sýna yfirbót og læra af þessu máli, þetta er með ljótari máltilbúnaði, og afvegaleiðir siðferði okkar sem horfum á og trúum öllu í fréttum sem nýju neti.

Náðu heilsunni fyrir konuna og Katalóníu. 

Bata kveðjur úr efra.

Magnús Sigurðsson, 24.3.2025 kl. 15:53

11 Smámynd: Ómar Geirsson

Reyni mitt besta Magnús, hefði kosið að ritstjórn Morgunblaðsins hefði hjálpað til, á meðan kom víst enn einn pistillinn.

Ég skil alveg hvað þú ert að fara, ég hefði persónulega kosið að Inga hefði tekið það kefli sem ég skamma Höllu að hafa ekki tekið.

En þú veist það alveg eins og ég Magnús, að í mörg, mörg ár, hefur fordæmingin og óttinn við hana, mengað allt okkar samfélag, og ég hygg að eftir fyrsta fréttaflutning níðhöggvarana, þá hafi valkyrjurnar panikað, gugnað.

Í gegnum tíðina Magnús höfum við báðir tekið slaginn við þessa fordæmingu, við þetta óeðli sem gegnsýrir samfélag okkar, en við höfum gert það í þessum verndaða heimi sem Moggabloggið er.

Lausir við kárínur, útskúfanir, jafnvel lögsóknir líkt og félagi okkar Páll Vilhjálms.

Maður veit aldrei hvað maður hefði gert ef Rétttrúnaðurinn hefði ráðist á okkur og hótað lögsókn?

Ég skil óttann og ætla ekki að dæma hann.

En ég krefst þess núna þegar lygarnar og rangfærslurnar hafa verið afhjúpaðar, að við látum ekki slúðurberana og fréttamiðla fordæmingarinnar, stjóra gjörðum okkar, að við þorum ekki að standa við sannfæringu okkar vegna ótta við við þessa níðmiðla.

Ég veit ósköp vel Magnús að þessir pistlar mínir skipta engu máli, en ég væri án æru og sóma ef ég skrifaði þá ekki.

Virtu það við mig Magnús að ég ræðst að kjarna þess sem ég tel rangan, sem ég tel að hafi vegið að sóma og sæmd þjóðarinnar.

Ég er ekki í pólitískum leiðangri, og ég finn að margur hefur metið þessa afstöðu mína.

Ég breyti engu, en það þarf samt að segja satt.

Þar reyndi ég mitt besta.

Með ósk um að það hlýni í neðra, stundum þarf jafnvel sjálfstæður maður hjálp, til dæmis frá hita og hlýindum, til að ná heilsu.

Við höldum samt haus Magnús.

Með kveðju úr neðra.

Ómar Geirsson, 24.3.2025 kl. 17:02

12 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Góður Ómar.

Þetta sýður smá saman upp úr lukkupottinum, eftir því sem oftar er spurt. 

"Fram kom hjá forsætisráðherra, Kristrúnu Frostadóttur, að margt hefði gert það að verkum að ekki hefði verið er eðlilegt að Ásta Lóa starfaði áfram sem ráðherra. Nefndi hún sérstaklega afskipti Ástu Lóu þegar hún reyndi síendurtekið að hafa samband við konuna sem sendi erindið inn í forsætisráðuneytið og falaðist eftir fundi."

Þetta er forsætisráðherrann sem vissi ekki meira aðrir fyrr en fram kom í skúbbinu á fimmtudag. En þarna er væntanlega vitnað til þess hvað fór valkyrjunum og Áthildi á milli korter í skúbb.

Nú er þetta eina haldbæra ástæðan sem eftir situr að hennar mati. Rétt eins og ég hrútaskýrði, -öllum dyrum lokað þegar tilraun var gerð til að leiðrétta lygi, hvort sem var hjá slúðurbera úti í bæ eða valkyrjunum.

Já maður stundum hugsi yfir því hvað moggabloggið lifir, eini hrútaskýringamiðill landsins sem fær frið, og það skulum við ekki vanmeta.

Að því sem máli skiptir; það hlýnar fyrir rest, það er verst að við yngjumst ekki á meðan eftir því er beðið. Svo láttu þér batna svo þú komist suður um höfin í sumaraukann. Þér að segja þá er ég ættur að treysta mér út úr fjórðungnum, þó ég skakklappast í Húsasmiðjuna og steypi af og til fyrir hádegi.

Kveðja úr efra.

Magnús Sigurðsson, 24.3.2025 kl. 19:00

Bæta við athugasemd

Hver er summan af einum og tuttugu?
Nota HTML-ham

Um bloggið

Ómar Geirsson

Höfundur

Ómar Geirsson
Ómar Geirsson
Mars 2025
S M Þ M F F L
            1
2 3 4 5 6 7 8
9 10 11 12 13 14 15
16 17 18 19 20 21 22
23 24 25 26 27 28 29
30 31          

Nýjustu myndir

  • Screenshot (49)
  • Screenshot (49)
  • ...img_0104a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.3.): 829
  • Sl. sólarhring: 958
  • Sl. viku: 4774
  • Frá upphafi: 1435992

Annað

  • Innlit í dag: 689
  • Innlit sl. viku: 4035
  • Gestir í dag: 626
  • IP-tölur í dag: 615

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband