15.2.2025 | 15:05
Rauð ljós loga.
Kann Kristrún Frostadóttir hagfræði ekki eftir allt saman??
Eða stjórnar lýðskrum málflutning hennar??
Lýðskrum sem ætlað til að höfða til fávísra kjósenda Samfylkingarinnar, sem og annarrar, sem styðja ofurskattlagningu á fyrirtæki landsbyggðarinnar kennda við auðlindagjöld.
Þessar spurningar og fleiri komu upp í huga mér þegar ég las þessa grein Heiðrúnar Lindar, sem með hnitmiðuðum rökum afhjúpar falskan tón í málflutningi Kristrúnar Frostadóttur varðandi veiðigjöld og að meintar fjárfestingar og afskriftir í sjávarútvegi sé leki úr skattstofni þeirra, leki sem Kristrún virðist telja að það þurfi að koma böndum á.
Heiðrún Lind bendir kurteislega á að þarna sé Kristrún að boða áður óþekkta hagfræði; "Þetta eru hagfræðilegar málflutningsæfingar sem ekki hafa heyrst áður." Hingað til hefur verið viðurkennt að fjárfestingar eru forsenda verðmætasköpunar, ekki skattlagning; "Fjárfesting hefur því verið lykillinn að aukinni verðmætasköpun í sjávarútvegi og þar með auknum skatttekjum ríkissjóðs, en ekki öfugt."
Það er þessum fjárfestingum að þakka að uppsjávarfloti þjóðarinnar er það öflugur að hann getur brugðist við loðnubresti með því að sækja kolmuna og makríl á fjarlægar veiðislóðir, og koma aflanum svo ferskum í land að það mætti halda að hann væri nýveiddur.
Í stað þess að fara í gúanó fortíðarinnar er hægt að vinna hann í verðmætustu afurðir, tryggir fyrirtækjum hagnað, launþegum góð laun, samfélaginu arð í formi fjármuna sem velta um hagkerfið og svo að sjálfsögðu hærri skatttekjur í sameiginlega sjóði þjóðarinnar.
Sbr að allir búmenn vita að þegar þú fóðrar kýrnar vel, þá færðu það margfalt til baka í aukinni mjólkurframleiðslu þó vissulega séu til einfeldningar sem kjósa Samfylkinga sem vilja auðlindagjöld á blessaðar kýrnar svo bóndinn hafi aðeins efni á að gefa þeim gras með tilheyrandi minnkun á mjólkurframleiðslunni, og þar með stofni ofurskattlagningarinnar, þar til sá stofn verður smán saman að engu.
Einnig afhjúpar Heiðrún Lind fáheyrða rangfærslu, því hagfræðimenntuð manneskja á að vita betur, þegar Kristrún heldur því fram að sjávarútvegurinn njóti einhverra sérkrafa með flýtifyrningu, og þá hugsaða til að koma greininni frá sanngjarnari skattlagningu.
Gefum Heiðrúnu Lind orðið; "Fjölda atvinnugreina er heimilt að flýta fyrningu eigna með sambærilegum hætti eða meiri. Þetta kemur skýrt fram í 37. gr. tekjuskattslaga, sem æskilegt væri að formaðurinn kynnti sér. Hér má nefna eignir á borð við flugvélar, verksmiðjuvélar, iðnaðarvélar, leiðslukerfi og skrifstofutæki. Það er óásættanlegt að staðhæft sé að sjávarútvegur njóti einhverrar sérmeðferðar."
Fleiri orð þarf ekki að hafa um rangfærsluna.
Fyrirsögn þessa pistils; Rauð ljós loga, er hins vegar ekki vegna þessarar afhjúpunar á fölskum tón Kristrúnar Frostadóttir, henni til vorkunnar má benda á að lýðskrum og froða er forsenda þess að réttlæta ofurskattlagninguna á landsbyggðina, og hún er jú formaður Samfylkingarinnar.
Klár engu að síður.
Fyrirsögnin er vísan í þau björg sem Sjálfstæðisflokkurinn er að ganga í svo hver einasta læmingjahjörð gæti verið mjög stolt af.
Í dag þarf þjóðin á því að halda að þessi hefðbundni hægri og íhaldsflokkur okkar nái vopnum sínum á ný, líkt og breski íhaldsflokkurinn gerði nýliðið sumar þegar flokkurinn kaus íhald en ekki gufu Rétttrúnaðarins sem formann.
Nema flokkseigandafélagið ætlar að bjóða fram vandamálið en ekki lausnina, ég er ekki flokksmaður, ekki heldur í næsta lífi, þar næsta lífi eða þarþarnæsta, en góður málefnalegur íhaldsmaður skrifaði grein í Morgunblaðið og benti á akkilesarhælinn sem fylgir því vandamáli. Gef Hirti Guðmundssyni orðið;
"Vandséð er þannig hvernig framboð Áslaugar Örnu getur talizt fela í sér trúverðugt nýtt upphaf í ljósi þeirrar staðreyndar að hún sat í fimm ár við ríkisstjórnarborðið með Vinstri grænum þar sem teknar voru þær fjölmörgu ákvarðanir sem valdið hafa megnri óánægju og reiði í röðum okkar sjálfstæðismanna, farið í berhögg við hugmyndafræði flokksins okkar, hrakið fólk frá stuðningi við hann og átt í seinni tíð stærstan þátt í þeirri afleitu stöðu sem við stöndum frammi fyrir."
Þeir sem samt þykjast vera hægri menn, íhaldsmenn, ekki í Viðreisn heldur Sjálfstæðisflokknum, og klöppuðu fyrir æfðri framboðsræðu Áslaugar Örnu, sendi Hjörtur þessa pílu;
"Það er ekki nóg að segja réttu hlutina þegar eitthvað allt annað er síðan gert. Til að mynda að tala gegn inngöngu Íslands í Evrópusambandið en taka síðan vel í það fyrir kosningar að tekin verði skref í þá átt með þjóðaratkvæði í þeim efnum. Eða tala fyrir góðri meðferð á skattfé en láta síðan kaupa dönsk hönnunarhúsgögn fyrir milljónir í nýja ráðuneytið sitt."
Áslaug Arna sagðist nefnilega, fyrir kosningar, að ætla að gera það sem Inga gerði; "en taka síðan vel í það fyrir kosningar að tekin verði skref í þá átt með þjóðaratkvæði í þeim efnum."
Jafnvel Björn Bjarnason getur ekki snúið út úr þessum svikum Áslaugu Örnu.
Burtséð frá því að Hjörtur lýsti yfir stuðningi við Guðrúnu Hafsteinsdóttur, sýndarframboði flokkseigandafélagsins til að skapa trúverðugleik um kjör Áslaugu, hennar meinti trúverðugleiki felst í því að hún kom svo seint að ríkisstjórnarborðinu og gat því ekki átt stóran þátt í því þeirri afleitu stöðu sem blasir við Sjálfstæðisflokknum, svo ég vísi í orð Hjartar hér að ofan, þá stendur eftir þörfin á alvöru frambjóðenda.
Skýrum, rökföstum, veit til dæmis að það þarf konu og karl, það er bæði kynin til að búa til barn og viðhalda þar með lífinu.
Og Rauðu ljósin loga vegna þess að þó við hefðum hundrað ár, þá hefði Áslaug Arna aldrei getað skrifað eins einfalda skýra grein, sem afhjúpaði rökveilur grundvallarstefnu Kristrúnar Frostadóttur, sem eru ofurskattlagning undirstöðu atvinnugreinar þjóðarinnar, forsendu lífskjara hennar og velmegunar, jafnt núna sem og í gegnum tíðina.
Eyði ekki orðum á Guðrúnu, hún er embættismaður, fín sem slík, en leiðtogi er hún ekki.
Rauðu ljósin loga vegna þess að Sjálfstæðisflokkurinn reynir ekki að finna hæft fólk til að leiða flokkinn.
Burt séð frá Áslaugu Örnu, sem er ekki lausnin, heldur hluti af vandanum, þá kristallast fáviskan í því að rætt er um fyrsta þingmann flokksins í Norð-Austur kjördæmi sem hugsanlegan varaformann.
Einstakling sem hefur ÞAGAÐ eftir að vanvitið í meirihluta Reykjavíkur náði fram lokun Reykjavíkurflugvallar, munum að það er skýrt brot á lögum að reka þann flugvöll með einni flugbraut, og hefur hvorki manndóm eða vitsmunalegan styrk til að vega að pólitískri Rétthugsun innan Vegagerðarinnar sem leggur matvæli á vegi landsins með þekktum afleiðingum, vegirnir eru að leysast upp í algjöra matarolíudrullu.
Samt er vitið til staðar innan flokksins.
Það þarf aðeins að lesa þessa grein Heiðrúnar Lindar Marteinsdóttur til að sjá það.
Þjóðarheill er undir.
Að Viðreisn taki ekki yfir hægri væng borgaralegra íhaldsmanna.
Fái bókun 35 samþykkta og síðan inngönguna í Evrópusambandið.
Fullorðið fólk leiðir Viðreisn.
Fullorðið fólk þarf að leiða Sjálfstæðisflokkinn.
Skýrt, rökfast, skynsamt.
Davíð og Styrmir heitinn risu upp gegn vélarbrögðum flokkseigandafélagsins þegar það átti endanlega að negla ICEsave svikin og neyðarlán AGS til að borga út braskarakrónur hrægammanna, með því að landsfundur Sjálfstæðisflokksins átti að samþykkja tillögu um inngöngu íslensku þjóðarinnar í Evrópusambandið.
Styrmir er allur og Davíð er tannlaus, þeir koma ekki til bjargar.
En er manndómurinn þar með dauður?
Það er innan Sjálfstæðisflokksins.
Spyr sá sem ekki veit.
Ég er ekki sjálfstæðismaður.
En ég er Íslendingur.
Kveðja að austan.
![]() |
Er forsætisráðherra að smána fjárfestingu? |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Um bloggið
Ómar Geirsson
Færsluflokkar
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.2.): 31
- Sl. sólarhring: 1174
- Sl. viku: 4607
- Frá upphafi: 1422665
Annað
- Innlit í dag: 27
- Innlit sl. viku: 4057
- Gestir í dag: 27
- IP-tölur í dag: 27
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Þú ert innskráð(ur) sem .
Innskráning