Heimsbyggð á leið í þrot.

 

Það þarf sérstaka hæfileika, oft kennda við strúta, að afneita hlýnun jarðar af mannavöldum.

Ýmislegt er týnt til, meðal annars reglulega hér á Moggablogginu, en flest af því á það sannmerkt að vísa í afbökun staðreynda, eða hreinan tilbúning.

Þegar lygi eða staðleysa er forsenda skoðana, þá geta þær ekki verið merkilegar, spyrjið bara kommúnista heimsins í gegnum tíðina.

Eða Góða fólkið um allt bullið sem vellur frá því.

 

Vissulega hjálpar margt til að kynda undir okkur og ekki allt af mannavöldum, ég hef til dæmis sterkan grun um að sá í neðra hafi nýtt sér aukinn liðstyrk til slíkra verka, en viðurkenni að sú kenning á sér ekki margar vísindalega stoðir.

En það breytir samt ekki þeim staðreyndum að athafnasemi mannsins í yfirfullum heimi hefur raskað viðkvæmu jafnvægi náttúrunnar þannig að enginn sér endi þar á.

Sérstaklega ekki tryggingarfélög, þau eru ekki í góðum málum.

 

Við hin venjulegu, sem alltaf eru látin borga alla brúsa, sama hvers eðlis þeir eru, eða af hvaða völdum, getum kosið að láta annarlega hagsmuni afneitunarsinna spila með okkur, eða beðið þá sem ráða að hætta þessu bulli, og fara að gera eitthvað.

Og þá eitthvað að viti en ekki gera eitthvað til að gera eitthvað.

Það fyrsta er að horfa í eigin barm og spyrja um árangur þess sem gert hefur verið hingað til í rúm 30 ár eða frá því að fyrsta hamfaraloftslagsráðstefnan var haldin Rio de Janeiro 1992.

 

Lengi hafa ráðandi öfl treyst á markaðslausnir, að ef markaðurinn fái hvata, þá sjái hann sjálfur um að redda málunum.

Hvað allt ruglið heitir getur ekki nokkur maður lagt á minnið, losunarheimildir, kvótar, grænir skattar, kolefnisspor, kolefnisgjald svo ég reyni með harmkvælum að rifja upp nokkur orð þessa markaðstrúboðs.

Gígantískir fjármunir hafa farið í allskonar vitleysu sem engu hafa skilað eða af hverju er heimurinn að brenna þessa dagana rúmum 30 árum eftir að menn sögðust ætla að gera eitthvað??

Losun heimsbyggðarinnar hefur verið í veldisaukningu allan tímann þó vissulega hafi hlutur vestrænna iðnríkja af heildarlosun gróðurhúslofttegunda hlutfallslega minnkað, en það breytir engu í heildarmyndinni.

 

Og hver skyldi skýringin vera á þessu árangursleysi??

Jú forheimskan að baki meintum aðgerðum, kerfisbundið hefur verið unnið að því með alls konar sköttum og gjöldum, sem bæði hækka orkukostnað sem og framleiðslukostnað almennt, að færa framleiðslu heimsins frá minni mengun í meiri.

Sem skýrir veldisaukningu losunarinnar.

 

Við Íslendingar höfum um nokkurn tíma upplifað þessa forheimsku á eigin skinni.

Tilbúinn orkuskortur og tilbúinn orkumarkaður hækkar verð á innlendri framleiðslu, grænir skattar og kolefnisgjald hækkar verð á innlendri framleiðslu.

Og vörur, sem þegar eru dýrar fyrir, framleiddar með grænustu orku í heimi, hækka og hækka, og valkostur neytandans er þá innfluttar vörur, með öllum sínum kolefnissporum, en fyrst og síðast er leitnin að fá þær sem ódýrast frá orkusóðum heimsins, Kína og öðrum löndum í Fjarskaistan.

 

Þetta er það sem er að gerast um alla Evrópu, hin meinta barátta við hlýnun jarðar, eykur losun gróðurhúsloftegunda en dregur ekki úr henni.

Að baki liggur sú hugsun að ef eitthvað er vitlausara þá framkvæmum við það.

Toppurinn á ísjaka heimskunnar er líklegasta sú skylda að blanda matvælum í eldsneyti og síðan hafa keðjusagirnar í regnskógum heimsins ekki þagnað.

 

Hvaða hagsmunir liggja að baki vitleysunni ætla ég ekki að reifa í þessum pistli, hvað þá að ég nenni að taka eitthvað debat við afneitara hins augljósa, að jörðin sé að brenna.

Vil aðeins benda á að það var og er hægt að gera eitthvað, sem hefur ekki verið gert.

 

Ég er svo lánsamur að vera orðinn það grár að ég man sem ungur drengur eftir fréttum af fyrsta laxinum sem gekk upp ána Thames, það þótti mjög merkilegt því áin hafði verið steindauð í nokkrar kynslóðir, ekki vegna breytinga á umhverfisaðstæðum eða af því bara sem afneitarar nútímans myndu örugglega halda fram, heldur vegna landlægs sóðaskapar iðnaðar og byggða við ána sem hleyptu öllum sínum óþverra út í ána í þeirri trú að tært vatnið myndi láta óþverrann hverfa einhvern veginn.

Einhverjum áratugum áður, uppúr 1950, sagði einn maður, það gengur ekki að þessi einu sinni fallega á, stolt okkar Londonbúa, sé orðin eins og hvert annað holræsi, við þurfum að gera eitthvað í málunum, og að lokum var það gert.  Vissulega eftir smá umræðu um að hann væri skrýtinn, áin hefði alltaf verið svona í mannaminnum, og svo væri ekkert hægt að gera.

Það væri ekkert hægt að gera.

 

Sem er náttúrulega argast þvæla og vitleysa, vandamál eru til að leysa, þess vegna erum við jú Homo sapien, hinn vitiborni maður.

Þetta var fyrir daga Góða fólksins og Rétthugsunarinnar, fyrir dag Grétu og alla hinna krakkanna, þess vegna var vandinn ekki leystur með því að eyða byggð og loka fyrirtækjum, eða fara aftur á hestöld eins og núna er lagt til.

Skólp þurfti að losa og iðnaðarúrgangur var staðreynd, en það var hægt að hreinsa skólpið, og það var hægt að setja hömlur á losun skaðlegs úrgangs út í fljótið.

Mengun er nefnilega ekkert náttúrulögmál, hún er mannanna verk, og það er hægt að takast á við hana eins og allt annað í þessum heimi.

 

Ef mannkynið hefði sett þó ekki nema væri brot af þeim fjármunum sem hafa farið í græna skatta, jafna út kolefnisspor, losunarkvóta eða hvað sem öll þessi vitleysa heitir, í að þróa tækni til að hreinsa út mengunina, fanga hana í skorsteinum, útblæstri og öðru, þá væri þessi mál á réttri leið í dag.

Græn orka er nauðsynleg, hana þarf að þróa, en hún þarf að vera sjálfbær, ekki þvinguð.

Og þangað til hreinir orkugjafar eru í boði, þá átti að þróa áfram lausnir tengdar kjarnorku, en ekki láta skrípi kostuð af jarðeldsneytisiðnaðinum loka vel reknum kjarnorkuverum.

Skattar geta verið skynsamlegir ef þeim er beitt rétt, en markmið þeirra getur ekki verið að auka vandann eins og í dag með því að koma allri framleiðslu til orkusóða glóbal hagkerfisins.

Orkusóðagjald myndi til dæmis skila miklum árangri, bæði með því að beina neyslu frá orkusóðum sem og til að knýja þá að gera eitthvað í sínum málum, menn færu þá kannski að sjá til sólar í borgum Indlands eða Kína.

 

Meinið er að annarlegir hagsmunir hafa stýrt umræðunni frá skynsemi til forheimskunnar.

Bullráðstefnur kenndar við loftslag eru haldnar reglulega, virðast þjóna fáum öðrum tilgangi en að næra athyglissýki athyglissjúkra.

Ásamt því að skaffa ríflega dagpeninga og ókeypis ferðalög á framandi slóðir.

 

Rúm 30 ár hafa farið í súginn, tíminn sem við höfðum til að gera eitthvað, er senn á þrotum.

Og þrýtur brátt því ekkert lát er á vitleysunni.

Mengun heimsins minnkar ekkert þó Evrópa hætti að framleiða og þó fátækari íbúar álfunnar hafi ekki lengur efni á að kynda húsin sín.

Hækkun raforkuverðs á Íslandi, hækkun grænna skatta á Íslandi, mun þar engu breyta.

 

Við gætum samt undirbúið okkur fyrir það sem koma skal.

Heim í upplausn.

 

Og eitt er víst að sá undirbúningur felst ekki í því að afleggja innlenda matvælaframleiðslu eða aðra framleiðslu.

Það get ég svarið.

 

Innflutningur frá Kína er ekki lausnin.

Kveðja að austan.


mbl.is Líklega dýrustu gróðureldar í sögu Bandaríkjanna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla

Bæta við athugasemd

Hver er summan af tíu og sautján?
Nota HTML-ham

Um bloggið

Ómar Geirsson

Höfundur

Ómar Geirsson
Ómar Geirsson
Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Screenshot (49)
  • Screenshot (49)
  • ...img_0104a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (10.1.): 360
  • Sl. sólarhring: 583
  • Sl. viku: 1257
  • Frá upphafi: 1409039

Annað

  • Innlit í dag: 292
  • Innlit sl. viku: 1032
  • Gestir í dag: 267
  • IP-tölur í dag: 261

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband