Óskum landsmönnum öllum velfarnaðar á nýju ári.

 

Hljómar áramótakveðja svo margra í upplestri Sigvalda og félaga á Rúv.

 

Sögunni fylgir ekki hve margir óska hinni nýju ríkisstjórn velfarnaðar á nýju ári, örugglega margir, margir sem líka óska landsmönnum velfarnaðar.

Meinið er að þetta tvennt fer ekki saman, velferð þjóðar og velferðar hinnar nýju Evrópusambandsstjórnar.

Eins og þjóðin þarfnast stöðugleika, þá þarfnast hún ekki stöðugleika um að innlima hana í hið nýja stórríki Evrópu, myndað af ríkjum sem öll eru á fallandi fæti og eiga í styrjöld við hitt stóra ríkið í Evrópu.

 

Mein þjóðarinnar eru mörg, en þau eru innanmein, og þau lagast ekki við að innlimast í stærri mein sem aðeins eiga eftir að versna.

Sem og að flest sem hrjáir efnahagslíf okkar má rekja til hins evrópska regluverks, hins kæfandi faðmlag þess, sjálfvirkan innflutning á fólki sem viðheldur síþenslu á húsnæðismarkaði, orkumarkað orkupakkanna og svo framvegis.

 

Hin nýja ríkisstjórn er ríkisstjórn fagurra fyrirheita, líkt og tryggingarfélag sem lofar úrvals þjónustu nema í smáaletrinu segir að sú úrvalsþjónusta í raun sé aðeins fyrir tjónlausa.

Fögru fyrirheitin falla hvert um annað í smáletri ríkisstjórnarsáttmálans, allt sem á að gera, allt sem á að bæta, er allt háð meintu jafnvægi í ríkisfjármálum.

Það jafnvægi krefst niðurskurðar, ekki nýrra útgjalda.

Hin fögru fyrirheit eru því blekking ein.

 

Ríkisstjórnin segist ætla að hagræða eins og þjóðin þekkir ekki sögu hagræðingar Bjarna Ben og forvera hans í embætti fjármálaráðherra.

Undantekningarlaust auka þær kostnað til lengri tíma, því þjónustu þarf að viðhalda, kjarasamninga um veikindarétt að virða, og yfirvinnu að greiða því starfsfólki sem tekur á sig aukavaktir sólarhringsþjónustunnar.

Allt afleiðing undirmönnunar sem leiðir til viðvarandi stressástands með tilheyrandi fjarvistum og veikindum starfsfólks sem er komið yfir þolmörk starfsgetu sinnar.

Annars staðar í kerfinu myndast svo flöskuhálsar ákvarðanatöku með tilheyrandi aukakostnaði í samfélaginu.

Ríkisstjórn sem segist ætla að hagræða er ríkisstjórn sem segist ætla að gera vont verra.

 

Ekkert í fögrum fyrirheitum ríkisstjórnarinnar bendir til nýrrar hugsunar eða nýrrar nálgunar.

Aðeins gamla slitna platan um misvitra stjórnmálamenn sem þykjast hafa vit og getu til að segja fólkinu sem vinnur störfin, hvernig eigi að vinna þau.

Að hugsa hlutina uppá nýtt, hafa kjark til að segja sig frá hinu kæfandi evrópska regluverki, það er ríkistjórn sem þjóðin þarf, en fær ekki.

 

Enginn skilningur á forsendum gróskunnar og gróandans.

Hóflegri skattheimtu, skilvirku regluverki sem og traust á einstaklinginn og fyrirtækjum hans.

Þess vegna fáum við það sama og við höfðum, margt gott því í kjarna vill stjórnmálafólk okkar vel, óháð í hvaða deild það er í Einflokknum, en innviðir okkar, forsendur alls í samfélaginu, minna orðið frekar á gamalt fúið fiskiskip, sem vissulega fiskar ennþá en hve lengi enn?, í stað nýtísku báta sem þola öll veður og vinda, og eiga sér langa framtíð.

 

Þjóðin þarfnast ekki ríkisstjórnar um óbreytt ástand.

Um stöðnun og hnignun.

Um evrópskt regluverk, um Hönd dauðans.

 

Hún þarfnast nýrrar hugsunar, nýrrar nálgunar.

Hún þarf að leita aftur til uppruna síns þegar áar okkar horfðu fram í tímann, og voru sammála um að gera þann tíma betri fyrir þjóðina þó þeir deildu vissulega um leiðir en alltaf sammála um markmiðið.

Og hún þarf kjark og leiðsögn.

 

Kjark til að takast á við sjálfsköpuð innanmein, leiðsögn inní framtíð óvissu og óöryggis.

Það sem var, er ekki lengur.

 

Loftslagsbreytingar, ófriðurinn, við sem þjóð erum ekki íslensk lengur heldur einhver samtíningur innlendra og erlendra þar sem aðeins örfá ár eru í að íslensk tunga og íslensk menning verður aflögð.

Viljum við það?, við höfum allavega ekki verið spurð, og ef við viljum afleggja tungu okkar og menningu, hvað viljum við þá fá í staðinn??

Sænska ástandið, miðaldahverfi Íslamista líkt og er í Þýskalandi, Danmörku, Noregi, Svíþjóð, Frakklandi, Bretlandi, Hollandi, hverfi sem lúta hvorki lögum eða siðum þess samfélags sem hýsir þau??

Eða viljum við bara halda áfram að vera íslensk, með kostum okkar og göllum??

 

Þeirri spurningu hefur hin nýja ríkisstjórn hinna fögru fyrirheita ekki svarað, frekar en öðru.

Hún hefur aðeins gefið þjóðinni eitt svar, eitt öruggt stefnumál, einn fastan vegvísir.

Sem er ægivald peningastefnu Seðlabankans yfir þjóðinni, og fékk sérstakan nýfrjálshyggjumann frá Háskóla Íslands til að tryggja þessi yfirráð peninganna yfir íslensku samfélagi.

Þjóðin skal rænast, þjóðinni skal blæða, peningapúkar auðvaldsins fitna.

 

Það er eldgos, hækkum vexti.

Það er heimsfaraldur, hækkum vexti.

Það er uppskerubrestur loftslagshamfaranna, hækkum vexti.

Það er erlend verðbólga, hækkum vexti.

Evrópska reglugerðin hækkar orkuverð, hækkum vexti.

 

Að ekki sé minnst á svikamylluna, sístreymi fólks til landsins þrýstir upp íbúðaverði, í stað þess að stöðva sístreymið, eru vextir hækkaðir.

Skorti á íbúðum kennt um þá hækkun, ekki sístreyminu.

En þegar það er byggt og byggt til að mæta þeim skorti, þá er talað um þenslu, og við þeirri þenslu er brugðist við með vaxtahækkunum.

Sem aftur draga úr íbúðaframboði sem aftur leiðir til skorts á íbúðahúsnæði, sem þrýstir upp verði og þá eru vextir aftur hækkaðir.

 

Svikamylla í sinni tærustu mynd.

Rænir og ruplar almenning, einstaklinginn og fyrirtæki hans.

Birtingarmynd Hönd dauðans, hagfræði þess í neðra.

Upplausn samfélaga, óöld, vargöld.

Heimurinn í dag.

 

Og verður okkar á morgun.

Ef við tryggjum ekki þjóð okkar, menningu og tungu.

Ef við svíkjum hugsjónir ferða okkar, óháð flokkum, um velsæld lands og þjóðar.

Velsæld allra, ekki fárra.

 

Ég óska þjóðinni velfarnaðar í þessum síðasta pistli Kveðjunnar að austan á þessu ári.

Í þeirri ósk felst von um breytingar kjarksins, um endurheimt menningu hennar og tungu, að við fögnum fjölbreytileikanum án þess að útrýma sjálfum okkur.

Að við gerum gott úr því sem við höfum og eigum, úr gæðum lands og miða, eflum gróskuna og gróandann.

Stöðvum niðurrifið, mygluna og handarbakavinnubrögðin, hefjum mannvit og verksvit til virðingar á ný.

 

Við höfum verk að vinna.

Fyrsta verkið er að losa okkur við þjóna auðsins úr valdastólum.

 

Treystum á okkur sjálf, við getum þetta.

Með Kveðju að austan.


mbl.is Enginn ríkisráðsfundur á morgun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla

Athugasemdir

1 identicon

Frábær pistill!

Frábær herhvöt!

Tek heilshugar undir greiningu þína og brýningu.

Ég hélt fyrr á árinu að hætta væri á að mynduð yrði ESB sinnuð ríkisstjórn, C+D+S

og sú varð reyndar raunin, nema hvað ESB sinnaða stjórnin er skipuð Flokki fólksins, sbr. viljayfirlýsingu þess flokks að samþykkja bókun 35,

í stað Sjálfstæðisfl., C+F+S.

Já, ekki veitir af að óska íslenskum almenningi gæfu og góðs gengis á nýju ári, því fátt bendir til að nokkurt gott muni koma frá nýju ríkisstjórninni. 

Símon Pétur frá Hákoti (IP-tala skráð) 30.12.2024 kl. 18:13

2 Smámynd: Ómar Geirsson

Enda skrifaður til þess kæri Símon.

Það gekk ekki að láta úrilluna vera lokaorð Kveðjunnar, þó úrillan hafi vissulega kveikt á þessari pistlaröð.

Þetta er svona statement (sorrý fyrir enskuslettuna en yfirlýsing finnst mér alltaf vera veikari birtingarmynd þessa enska orðs) þess sem við stöndum fyrir Símon, og höfum gert frá því að fyrsti framhlaðningurinn var hlaðinn í skotgröf Lífsins í atlögu auðsins eftir Hrunið 2008, þegar mitt fólk til vinstri sveik svo ennþá svíður.

Minning þess sem við vorum, og erum í dag.

Ekki okkar sök að hún sé ekki margra annarra.

En á meðan minning lifir, þá lifir vonin, um blóm í haga og betri tíð. Um okkar góða samfélag sem ól okkur og kom okkur til manns.

Samfélag sem átti aðeins eftir að batna þar til að auðurinn undir fánum og merkjum þess í neðra, Nýfrjálshyggjunnar, stal því. Lofaði gróða undir fána græðgi, og líkt og drengirnir í Gosa sem gengu inní þessa falska veröld sérhyggju græðginnar, en breyttust í ansa i fjötrum, þá lagði Hagfræði þess í neðra helsi yfir samfélag okkar.

Helsi sem við erum ennþá að berjast við Símon minn kæri.

Við munum samt aðra tíma.

Þó við séum ekki mikið fleiri, þá munum við þá.

Mitt hlutverk var aðeins að orða minningar okkar, um að helið og helsið væri ekki náttúrulögmál, eitthvað annað, betra hefði verið til.

Að gróskan og gróandinn væri svar lífsins við höft og helsi frjálshyggjunnar, auðránsins, að það væri til eitthvað annað en glóbalið og þrælabúðir þess.

Til dæmis við sjálf, athafnasemi okkar, fjölskyldur okkar, samfélag okkar.

Hið góða sem veitir börnum okkar skjól og framtíð.

Ókei, megnið af þessu skrifaði ég þegar ég hlustaði á Supertrampa spila um rigninguna sem heldur áfram að rigna; Its raining again.

Hughrif kannski, en ekki verri en hver önnur.

Við Símon minn kæri óskum þjóðinni velfarnaðar á nýju ári.

Eins og við höfum gert áður, og munum alltaf gera.

Með snemmbúinni áramótakveðju að Austan.

Ómar Geirsson, 30.12.2024 kl. 18:39

3 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Blessaður Ómar, -þetta ár hefur verið sannkallað kellingafár, annars bara amen á eftir efninu.

Áramóta- og afmæliskveðjur í neðra.

Magnús Sigurðsson, 30.12.2024 kl. 18:46

4 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Magnús.

Það hefur verið eins og það er.

Kveðjum það með amen á eftir efninu.

Nýjárskveðjur í froststilluna í efra.

Kosturinn við skammdegið er að það birtir alltaf til aftur.

Kveðja úr neðra.

Ómar Geirsson, 30.12.2024 kl. 23:31

5 Smámynd: Grímur Kjartansson

Það er nú margt skemmtilegt hjá Supertramp meðal annars

"And then your wife seems to think you're part of the furniture"

og það virðist vera langur vegur heim í heiðardal minninga um hvað allt var betra þegar maður var yngri

En ég er sammála maður hefur litla hugmynd um hvers er að vænta hjá þessari ríkisstjórn "ríkisstjórn fagurra fyrirheita"

Grímur Kjartansson, 31.12.2024 kl. 08:55

6 Smámynd: Ómar Geirsson

Já Grímur, ég hlustaði mikið á þá ásamt Rafljósahljómsveitina á mótunarárum mínum þegar kynhvötin kviknaði og gleðin sprakk út síðdegis á föstu og laugardögum með einu vodkaglasi, létt þynnt með kók, hina björtu sumardaga þegar lífið var æska og vinna, og böll.

Geri það ennþá og finnst þeir mjög góðir, þrátt fyrir aldur og fyrri störf.

Það skýrist með stelpurnar, það eina sem ég ætla að treysta á er strigakjaftur Ingu, hvað sem annars má segja, þá stendur hann alltaf fyrir sínu, vekur upp minningar um tungutak æskunnar, í beitningarskúrum og kaffipásum, þá var talað mannamál.

Árið Grímur.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 31.12.2024 kl. 18:31

Bæta við athugasemd

Hver er summan af fimm og sautján?
Nota HTML-ham

Um bloggið

Ómar Geirsson

Höfundur

Ómar Geirsson
Ómar Geirsson
Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Screenshot (49)
  • Screenshot (49)
  • ...img_0104a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (2.1.): 7
  • Sl. sólarhring: 22
  • Sl. viku: 2539
  • Frá upphafi: 1407763

Annað

  • Innlit í dag: 6
  • Innlit sl. viku: 2195
  • Gestir í dag: 6
  • IP-tölur í dag: 6

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband