29.11.2024 | 08:55
Vér lofum, þið trúið.
Það er mikið til í þessu hjá Sigmundi Davíð að fyrir kosningar komi sömu flokkarnir með sömu loforðin sem hvarflar ekki að þeim að standa við.
Enda hvernig ættu menn geta endurnýtt loforð sín ef þeir tæku uppá því að standa við þau??
Sigmundur Davíð segist ætla að standa við loforð sín og hefur það þó sér til tekna að hann er eini íslenski stjórnmálamaðurinn sem þorði í bankana þegar hann lagði á sértæka bankaskattinn sælla minninga.
En flokkar sem eru búnir að vera í stjórnarandstöðu lengur en miðaldra menn muna, og sumir reyndar alltaf verið í slíkri stöðu, lofa og lofa, og gera eiginlega loforð núverandi stjórnarflokka hláleg í samanburðinum.
Svona eins og þeir kunni ekki almennilega að lofa uppí ermina hjá sér??
Og þar stendur nefnilega hnífurinn í hinni sárasaklausu kú, það er okkur kjósendum.
Hversu trúverðug er þessi loforðasúpa??
Hverjar eru forsendur hennar???, og þó enginn efist um einlægan vilja, það er að lofa, þá má spyrja, er eitthvað að þessu raunhæft??, svona í ljósi þess að peningar vaxa ekki á trjánum á Íslandi, ekki frekar en bananar.
Sá flokkur sem mér finnst persónulega að hafi gengið lengst í hinu geirneglda viðhorfi íslenskra stjórnmálamanna til kjósenda sinna, að þeir séu fífl, Viðreisn, fékk pílu á feisbók frá einum af fyrri kjósendum sínum, og Mogginn greinir samviskusamlega frá, kjósenda sem spurði, þarf ekki stefnu til að framkvæma loforðin??
Og réttilega lýsti hann kosningabaráttu Viðreisnar; "Ég get ekki áttað mig á því hver stefnan er, önnur en að segja það sem talið er að kjósendur vilji heyra til ná í atkvæði og komast í ráðherrastóla. En samt að segja ekki neitt um það hvað á að gera eða það eru engar raunhæfar lausnir til að setja fram".
Það að segja allt sem flokkarnir telja að kjósendur vilja heyra, því þetta gildir ekki bara um kosningabaráttu Viðreisnar, segir ekkert hvernig flokkarnir munu standa sig í ríkisstjórn, en þó er líklegra en hitt að þeir sem hafa eitthvað "plan" (ha ha, varð að nota þennan frasa) muni koma einhverju í verk.
Annars er það bara hinn blákaldi raunveruleiki fjárskortsins og hvernig flestöll fjárútlát ríkissjóðs eru bundin í lög og kjarasamninga.
Það er samt margt hægt að gera ef menn átta sig á örsök og afleiðingum eins og þessi fyrrum kjósandi Viðreisnar, Guðmundur Ragnarsson, fyrrum formaður VM, félags vélstjóra og málmtæknimanna, bendir réttilega á þegar hann segir: ".. að áframhaldandi stuðningur við þéttingarstefnu á höfuðborgarsvæðinu muni eingöngu viðhalda verðbólgu og hærri vöxtum. "Stjórnmálaflokkur sem ætlar ekki að viðurkenna þau efnahagsmistök sem búið að gera þar, er ekki að fara að leysa nein vandamál"."
Þarna eru þrír flokkar sekir, Viðreisn, Samfylkingin og Framsókn, og ef þeir geta ekki viðurkennt efnahagsmistök sín sem felst í þessari þéttingarstefnu lóðabraskara, hvað viðurkenna þá??
Til dæmis að stefna þeirra um Opin landamæri í þágu mannsals og flóttamannaiðnaðarins er ávísun á síþrýsting á íbúðamarkaðinn því einhvers staðar þarf þetta fólk sem leitar að betra lífi, að búa.
Sem og þetta sístreymi fólks til landsins viðheldur biðlistum velferðarkerfisins, hvort sem það er biðin eftir leikskólaplássi, að komast að hjá heilsugæslunni eða hinum átakanlega skorti á úrræði handa ungmönnum í vanda, úrræðaleysi biðlistanna sem kostar tugi mannslífa á hverju ári.
Eða eins og einhver góður maður sagði að þá þykir íslenskum stjórnmálamönnum vænna um fólk sem kemur að, helst nógu langt úr Fjarskaistan, en sitt eigið fólk. Það má éta það sem úti frýs, deyja drottni sínum eða kveljast undir hávaxtastefnu húsnæðiskortsins.
Stjórnmálaflokkar sem búa til vanda eru ekki líklegir til að leysa sama vanda, þó þeir lofi öllu fögru.
Eða er líklegt að brennuvargur komi í veg fyrir íkveikjur með því að kaupa eldspýtustokk í næstu sjoppu??
Það er eins og hagsmunir og gróði liggi í vitleysunni og það sé enginn vilji til að takast á við eitt eða neitt, nema þó með þeirri undantekningu að eldra fólk hefur þaggað niður í stelpuskottunum í Sjálfstæðisflokknum og stuðningi þeirra við Opin landamæri.
Og fjölmiðlar okkar virðast lúta stjórn þessara hagsmunaafla.
Allavega taka þeir þátt í vitleysunni fyrir kosningar, láta eins og þeir trúi öllu sem lofað er, kannski með Spursmál sem undantekningu.
Þeir spyrja um loforð, ekki efndir, eða hvernig menn hugsa sér að takast á við afleiðingar þeirra eigin stefnumála.
Það er þegar þeirra eigin stefna er vandinn.
Stórt dæmi um lönguvitleysuna sem þrífst athugasemdarlaust er ákvæði laga um fjölskyldusameiningu fólks, sem hefur hlotið hér á landi það sem kerfið okkar kallar "alþjóðlega vernd" og bæði erlendar glæpaklíkur sem og hryðjuverkasamtökin Hamas hafa notað til að koma liðsmönnum sínum inn fyrir varnir þjóðarinnar.
Einn angi þeirrar glæpastarfsemi er það sem kennt er við fylgdarlaus börn á flótta, á svo miklum flótta að þau koma hlaupandi lengst úr Fjarskaistan, til dæmis frá Sómalíu eða Palestínu, ekki beint nágrannalönd okkar og yfir mörg landamæri að fara áður en hingað er komið.
Lögreglustjórinn á Suðurnesjum benti nýlega í blaðaviðtali réttilega á misnotkun glæpasamtaka á þessari glufu í vörnum þjóðarinnar, hvernig atvinnugóðmenni, sem hafa góðar tekjur og framfærslu á að vera atvinnugóðmenni, tala um börn á flótta í þessu samhengi og rétt þeirra samkvæmt lögum að fá að sameinast fjölskyldum sínum.
Einhverjum hefði þá reyndar talið að í þeirri fjölskyldusameiningu fælist að flugmiðinn heim yrði þá borgaður fyrir þessi ungmenni, en Nei, það er fjölskyldan sem fær borgaða flugmiða og landvernd hér á landi, kannski hátt í þúsund manns á þessu ári sem gæti fengið slíka landvernd, án þess meira að segja að vera í Landvernd líkt og ásatrúarfólk sækist eftir.
Ég ætla að gefa lögreglustjóranum orðið; ""Telja má nokkuð víst að útlendingalög hér á landi séu misnotuð ekki með ósvipuðum hætti og menn misnota önnur kerfi velferðarríkisins" Hann segir að hafa beri í huga að flestir þessara drengja komi hingað frá öðru Evrópuríki eða öruggu ríki og komi þar af leiðandi ekki inn í landið um ytri landamærin á Keflavíkurflugvelli. "Gera má ráð fyrir að ferðalag þeirra sé skipulagt af öðrum og þá í þeim tilgangi að aðrir fjölskyldumeðlimir komi í kjölfarið til landsins á grundvelli fjölskyldusameiningar"."
Og spyrja síðan, af hverju er þessi grafalvarleiki ekki ræddur í kosningabaráttunni??
Síðan hreinlega spyrja; Hvert var fjárstreymið í vasa þess stjórnmálafólks sem samþykkti þessa sjálfvirku glufu fyrir glæpa og hryðjuverkasamtök að flytja sitt fólk til landsins, eða mannsalsiðnaðinn að eiga hér fólk sem er skuldbundið honum í bókstaflegri merkingu??
Nei, Nei, auðvita spyrja menn ekki svona og auðvita ræða menn ekki augljósar staðreyndir.
Hvað þá að menn spyrji hinu meintu atvinnugóðmenni um hver ávinningur þeirra er af Opnum landamærum, svona í ljósi þess að á annað hundruð milljónir eru á vergangi í heiminum, og fjölgar um milljónir á hverju ári.
Á allt þetta fólk að koma til Íslands??, og hver er þá þinn hluti af gróðakökunni??
Vitleysan aðeins viðgengst, forheimskan forherðist.
Eins og enginn sé morgundagur, eins og engin séu skuldaskilin.
En eins og þeir vita sem hafa lifað daginn í dag, þá kemur morgundagur.
Og eins og þeir vita sem hafa tekið smálán, þá kemur að skuldaskilum.
Óumflýjanlegt, sama hvað froðu stjórnmálamenn okkar bjóða okkur uppá.
Svo spyrja má; Af hverju trúum við??
Af hverju er sami sirkusinn á 4 ára fresti eða svo??
Það er jú við sem erum fórnarlömbin, það erum við sem blæðum af sjálfstýringu stefnuleysisins.
Spyr sá sem ekki veit.
En þakkar guði fyrir að verða laus við auglýsingaflóðið að morgni sunnudags.
Og er ekki einn um þær þakkir.
Það þarf samt að kjósa.
Það er skylda manns.
Finna það góða sem þó býr í flestum stjórnmálamönnum okkar.
Þeir vilja vel allavega.
Flestir.
Kveðja að austan.
Dregur saman með helstu flokkum en deilur harðna | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 08:57 | Facebook
Um bloggið
Ómar Geirsson
Færsluflokkar
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (4.12.): 7
- Sl. sólarhring: 23
- Sl. viku: 1523
- Frá upphafi: 1404977
Annað
- Innlit í dag: 4
- Innlit sl. viku: 1334
- Gestir í dag: 4
- IP-tölur í dag: 4
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Líklegast stafar gott gengi Viðreisnar af þeirri hugsun margra að fullreynt sé með krónuna og svarið sé að ganga í ESB og taka upp evru. Þetta sé jú "göngum í ESB" flokkurinn.
Hversu vanhugsað sem þetta nú er á alla kanta.
Þorgerður hefur síðan nægilegt hrekkjavit til að átta sig á að nú gildir sókn til miðjunar. Hún nær að kasta nægilega miklu glópagullryki í auga kjósenda til að halda að þessi frjálshyggjuflokkur sé einhver miðjuflokkur. Á meðan alvöru stjórnmálamaður eins og Sigmundur er gjörsamlega úti að aka og upptekin við að ræna frjálslhyggjupostulum frá Sjálfstæðisflokknum og færa þannig Miðflokkinn til hægri.
Eins er Sjálfstæðisflokkurinn búinn að finna það út eftir naflaskoðun að hann sé ekki nógu mikill hægriflokkur og af því stafi fylgistapið. En hann yfirgaf aldrei þá hægristefnu að púkka undir þá ofurríku meðan litli sjálfstæðismaðurinn gleymdist.Eina vinstri hjá þeim flokki hefur verið að leyfa VG að atast í einhverri voke umræður og hleypa inn nógu miklu af fólki í nafni góðmennsku en til að fá starfsfólk í öll fjárfestingatækifærin.
Hlálegt var svo að hlusta á umræður formannanna í gær þar sem stöðugt var verið að kljást við afleiðingar EES samningsins en hann aldrei nefndur á nafn nema kannski einu sinni af Heimi þáttarstjóra.
Eða hver ætlar að mismuna hér fólki frá ESB varðandi landakaup?
Hvernig á að stemma stigu við gríðarlegum innflutningi verkafólks undir hinni frjálsu för fólks skv. samningnum?
Hver ætlar að stöðva uppkaup fjársterkra erlendra aðila á húsnæði undir frjálsri för fjármagns?
Undarlegast af öllu var að heyra Þórhildi Sunnu stela ræðunni sem Sigmundur hefði átt að flytja um ruðningsáhrif ferðamennskunnar, undir háværum mótmælum Sigmundar sjálfs sem vill ekkert sjá nema mögulegan og meintan vanda af hælsisleitendum.
Bjarni G. Bjarnason (IP-tala skráð) 29.11.2024 kl. 09:48
Blessaður Bjarni.
Þakka þér fyrir athugasemd þína, hún fyllir vel uppí þá mynd sem ég er að reyna að teikna upp, tek undir margt, til dæmis þetta með EES samninginn, hann er bein orsök margra vandamála sem þjóðin og landsstjórn glímir við.
Ógæfusamningur í alla staði, brýnasta verk íslenskra stjórnmála er að losa þjóðina úr klóm þess regluveldis.
Ég sá ekki þessar umræður, er eiginlega alveg áhugalaus hvað þær varðar, en mér þykir þú segja fréttir með að Þórhildur Sunna af öllum hafi vakið máls á neikvæðum ruðningsáhrifum ferðamennskunnar.
Henni greinilega ekki alls varnað.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 29.11.2024 kl. 16:59
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Þú ert innskráð(ur) sem .
Innskráning