23.11.2024 | 13:32
Handbók 101 í að klúðra kosningum.
Er lærdómur þessara kosningabaráttu.
Hvort sem það er mislukkaður málflutningur, traust á hina svokallaðar banka/tryggingaauglýsingar sem höfða til ímyndar, ekki vitsmuna, eða augljós valdabarátta sem ekki er hægt að fela, allt leggst á eitt til að skaða fylgi viðkomandi flokka, hvort sem það er fyrra kjarnafylgi líkt og hjá Framsókn eða Sjálfstæðisflokknum, eða fæla frá fylgi sem skoðanakannanir spáðu.
Núna þegar vika er til kosninga og línur liggja fyrir þá langar mig að benda á augljósa hluti sem fóru úrskeiðis hjá flokkunum í aðdraganda kosninganna.
Þar sem flokkarnir eru margir, og sumir staðið sig betur en aðrir, þá ætla ég að telja niður, og byrja hjá Framsókn í fjórða sæti.
Framsókn eins og hinir stjórnarflokkarnir var að tapa fylgi á kjörtímabilinu en ekki nálægt því að detta út eins og fyrirsögn viðtengdar fréttar er.
Ráðherrar Framsóknar hafa staðið sig misjafnlega en það er staðreynd að í ráðherratíð Willum Þórs í heilbrigðisráðuneytinu hefur mörgu grettistakinu verið lyft í að fjármagna ýmsa jaðarþjónustu, losa um ríkiseinokun á aðgerðum og svo framvegis.
Einhver hefði þá haldið að flokkurinn tæki það saman, keyrði á ágæti Willums sem og annarra góðra verka sem ráðherrar flokksins hafa komið að.
Nei ekki svo, heldur endurtók flokkurinn sama stefið og fyrir síðustu kosningar, einhvers konar "er ekki best að kjósa Framsókn" í nýjum búningi. Og svo þegar alvarleikinn blasti við, fylgishrunið og árangursleysi kosningabaráttunnar, þá var grátur Ásmunds Einars endurtekinn, hann þekkti þetta að eigin raun og svo framvegis.
Taktleysið algjört, engin tilfinning fyrir því af hverju flokkurinn er að tapa fylgi.
Miðflokkurinn er í þriðja sæti yfir klúðrara kosningabaráttunnar, hann fékk dauðafæri til að auka fylgi sitt með óánægðum hægri sjálfstæðismönnum eftir slátrunina miklu á framboðslistum flokksins.
Eina sem flokkurinn þurfti að gera var að skerpa hægrið frá miðju og vera duglegur að útskýra forsendur stefnu sinnar í blaðagreinum og á samfélagsmiðlum. Reyna að koma henni í umræðuna og halda þá úti málefnalegum vörunum. Síðan þurfti Sigmundur að hafa kjarkinn til að losa sig við Borgþór, hann fælir frá.
Góðar greinar hefur Sigmundur vissulega skrifað, en þær eru ekki í umræðunni heldur allskonar vitleysa þar sem flokkurinn og flokksmenn koma ekki sérstaklega vel út. Síðan eru auglýsingar flokksins sérkapítuli í klúðri, mætti halda að þær væru hannaðar sem sýningargagn á Árbæjarsafninu og Sigmundur Davíð ákvað síðan að sýna eftirhermuhæfileika sína með því að herma eftir leikaranum sem hermir eftir honum í áramótaskaupinu.
Ekkert að því að vera gamaldags en að vera gamaldags út úr takti, er broslegt, höfðar ekki til, vekur aðhlátur ef eitthvað er.
Svo er menn ekki með dólg eða krota á auglýsingaplaköt annarra framboða; Kommon!!!.
Í öðru sæti er Samfylking sem hóf flug sitt með innkomu Kristrúnar, alltí einu var komið nýtt andlit, sem ólíkt fyrirrennurum sínum, gat talað af þekkingu, án upphlaupa og froðu, var ekki aðeins vonarstjarna flokksins heldur um leið þjóðarinnar sem er orðin langþreytt á upphlaupsstjórnmálum, almennu bulli og innihaldslausri froðu, a la Dagísku.
Það eina sem þurfti að gera var að skapa Kristrúnu umgjörð, styrkja hana í kosningabaráttunni og gömlu andlitin héldu sig til hlés á meðan Kristrún smalaði kjósendum í dilka flokksins.
Það eina var ekki gert með því að setja Dag B Eggertsson á lista til höfuðs forystu Kristrúnar, eitthvað sem Kristrún skyldi, enda ekki heimsk, og hún brást við með að stíga fast til jarðar og óbeint skoraði á kjósendur að strika Dag út og síðan niðurlægði hún hann opinberlega með því að segja að hann væri bara óbreyttur fótgönguliði, og vísaði þar í hans eigin orð. Orð sem enginn lagði trúnað á, allra síst Dagur sjálfur.
Eftir þessa uppákomu hefur Kristrún misst taktinn, hún nær ekki nógu vel að koma áherslum sínum á framfæri og alltum liggjandi er skuggi valdabaráttu og innanflokksátaka.
Það dómgreindarleysi að setja Þórð Snæ ofarlega á lista, annan miðaldra karl til höfuðs Kristrúnu og málflutningi hennar, bætti ekki úr, búmmerang sem mætti halda að Viðreisn bæri ábyrgð á því klúður kosningabaráttu Samfylkingarinnar er sigur þeirra sömu baráttu Viðreisnar.
Samfylkingin hefði orðið stærst, og ráðandi næsta kjörtímabil, aðeins ef gamla rakkarapakkið hefði haldið sig til hlés, en það klúður þó stórt er, kemur henni aðeins í annað sætið yfir klúðrara kosningabaráttunnar því Sjálfstæðisflokkurinn trónir þar á toppnum, ótvíræður sigurvegari kosningaklúðurs haustkosninganna 2024.
Það er meiriháttar afrek í klúðri og handabakavinnubrögðum að þessi kjölfesta íslenskra stjórnmála sé að berjast við að falla ekki niður fyrir 10%-in.
Á því eru margar skýringar, hluti af þeim má rekja til að veðjað er á vitlausan hest á atkvæðaveiðum. Eftir slátrunina miklu, eftir að flokkurinn losaði sig við áberandi þingmenn hægri arm flokksins án þess að bjóða uppá aðra frambjóðendur úr þeim armi, ekki nema þá til skrauts líkt og með Brynjar Níelsson sem trúðinn á lista, þá ákvað hann að gera út á sömu mið og Samfylkingin og Viðreisn.
Mið hægri krata og frjálslyndra, nema að það eru bara miklu betri sjósóknarar í síðarnefndu flokkunum, Kristrún er ný og fersk og hefur ágætis hugmynd um hvað hún er að segja, og þær stöllur Þorgerður Katrín og Hanna Katrín ólíkt þroskaðri og reyndari en stúlkurnar sem eru vonarstjörnur Sjálfstæðisflokksins.
Samt á Sjálfstæðisflokkurinn að hanga í 20%, annað er algjört hrun, og hugsanlega tekst honum það en þá þarf eitthvað virkilega dramatískt að gerast.
Að flokkurinn fari í stríð, í alvöru kosningabaráttu, láti í sér heyra, hætti að afsaka, hætti að verjast, sæki fram á eigin ágæti.
Þar stendur allt og fellur með formanni flokksins, Bjarna Benediktssyni.
Bjarni byrjaði vel, þökk sé Svandísi sem reitti hann til reiði með brigslum um óheiðarleika, en síðan koðnaði Bjarni niður í eitthvað sem segir; kjósið mig því Seðlabankinn lækkaði vexti. Traust efnahagsstjórn og bla bla, örugglega eitthvað sem fólk finnst skipta máli, en í augnablikinu treysta kjósendur hæga meginn við miðju bara öðrum flokkum betur til þess.
Hvað eiga sjónvarpsauglýsingar flokksins að þýða??, ganga þær út frá því að kjósendur flokksins séu fífl??
Hvar eru baráttumál flokksins??, hvað hefur hann áunnið á síðasta kjörtímabili???, hvaða meint ógn stafar af stefnu Viðreisnar svo dæmin séu tekin??
Og af hverju las Bjarni ekki Rúv pistilinn eftir þá fordæmalausu lágkúru að gera vikufrétt um eitthvað sem sonur einhvers sagði á ópinberum vettvangi hins tveggja manna tals?
Í stað þess að láta endalaust lemja á sér án þess að æmta eða skræmta??
Vika er langur tími í stjórnmálum, og vika í kosningar getur mörgu breytt, bæði til góðs eða ills.
Þjóðarinnar vegna vona ég að Bjarni nái vopnum sínum á ný og rífi kosningavél flokksins úr þeirri öndunarvél sem hún hefur verið í fram að þessu.
Reki það fólk sem ber ábyrgð á lélegustu kosningabaráttu seinni tíma, fái hauka og stríðmenn til að sækja fylgi og sameina hægrið um flokk sinn.
Af hverju??
Jú, Viðreisn er þjóðarógn.
Ekkert flóknara en það.
Núna eru það skjaldrendurnar.
Kveðja að austan.
Tíðindi í nýrri könnun: Framsókn út af þingi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Um bloggið
Ómar Geirsson
Færsluflokkar
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (18.1.): 8
- Sl. sólarhring: 57
- Sl. viku: 2648
- Frá upphafi: 1412706
Annað
- Innlit í dag: 4
- Innlit sl. viku: 2312
- Gestir í dag: 4
- IP-tölur í dag: 4
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Greinargóður pistill um hinar vonardaufu kosningar sem framundan eru. Flækjufótaklúður vonarstjarnanna hefur magnað upp fylgi við minnipokamenn. Gott reyndar ef VG og Píratat hverfa endanlega.
Símon Pétur frá Hákoti (IP-tala skráð) 23.11.2024 kl. 17:47
Bara smá viðbót við þennan fína pistil.
Ég ætla að hrósa Willum Þór. Hann var viðskiptavinur afa míns og frænda á verkstæðinu að Digranesheiði 8 og pabbi hans líka. Jarðbundinn maður og traustur. Ég þekki hann ekki persónulega en honum er borin vel sagan.
Ég held að fólk sé óákveðið. Línur eru ekki skýrar. Hér er komið vel inná að þessi kosningabarátta er ekki skýr. Fólk týnir sér í persónulegu skítkasti eða leiðinlegum málum sem dúkka upp í fjölmiðlum. Málefnin týnast.
Margt fínt í þessum pistli.
Það er eins og sumir séu af hálfum hug að reyna að fara eftir Bandaríkjamönnum, að finna eitthvað óhreint á aðra frambjóðendur, sbr Þórðar Snæs málið. Nema hvað við Íslendingar erum ekki vanir því. Það er klúðurslegt, og auglýsingar eru máttlausar og litlausar.
Já hér er ágætlega farið yfir það sem betur mætti fara. Sammála.
Ingólfur Sigurðsson, 23.11.2024 kl. 20:37
Ekki hægt að klúðra neinu.
Enda kýs fólk aldrei ríkisstjórnir!
Að mynda ríkisstjórn þýðir að flokkar henda kosninga loforðum, svíkja, beygja þau eða teygja.
Að kalla þetta þingkosningarnar er auðvitað helber brandari!
Þingið er strengjabrúða framkvæmdavaldsins!
Er það virkilega þannig að kosinn þingmaður sem skipaður er í stōðu framkvæmdavalds sverji aukalega eið að stjórnarskrá?
Mesti brandarinn er líklega að sá sem skipar ráðherra og ef þeir ráðherrar sýna afglöp í starfi, þá hefur sá ekkert um það að segja hvort þeir verði afskipaðir frá vōldum?
Vantraust tillaga sem yrði samþykkt?
Eina sem hægt er að klúðra er að mæta á kjōrstað?
Vestrænt lýðræði, rænt úr vestri?
L. (IP-tala skráð) 24.11.2024 kl. 03:57
"sem sonur einhvers sagði á ópinberum vettvangi hins tveggja manna tals?"
Ég hef verið kallaður nautheimskur fyrir að biðja um útskýringar á hvernig fólk getur talið þetta mesta spillingarmál seinni tíma á Íslandi
Grímur Kjartansson, 24.11.2024 kl. 09:30
Blessaður Ómar, -af því ég horfi aldrei á sjónvarp og fylgist illa með, þá er svona 101 greining ákjósanleg fyrir álf út úr hól til að ná áttum.
Þó er eitt sem veldur mér samt heilabrotum eftir lesturinn. Getur það verið að auglýsingar Sjálfstæðisflokksins séu farnar að hafa áhrif?
Sem fyrr með bestu kveðjum í neðra úr kófinu í efra.
Magnús Sigurðsson, 24.11.2024 kl. 13:59
Blessaður Símon Pétur.
Við fögnum því að sjálfsögðu, farið hefur fé betra út af þing, en fagnið mitt er ekki eins mikið yfir uppgangi skúffunnar til hægri á skrifborði Samtaka Atvinnulífsins.
Eiginlega er það ekkert.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 24.11.2024 kl. 14:45
Takk fyrir það Ingólfur.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 24.11.2024 kl. 14:45
Þú segir það L minn kæri.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 24.11.2024 kl. 14:46
Blessaður Grímur.
Það er nú þetta með heimskuna, og hvernig hún skipar sér á fólk.
Ég væri bara stoltur í þínum sporum að hafa ekki fallið fyrir þessum tilbúningi.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 24.11.2024 kl. 14:48
Blessaður Magnús.
Hugleiðingar um klúður í kosningabaráttu hafa lítt með það að gera hverjum við greiðum atkvæði, kannski mesta klúðrarnum, ef við erum þannig stemdur.
Og Nei, ég held að auglýsingar Sjálfstæðisflokksins virki ekki, en hins vegar virkar sú grímulausa ásýnd nýfrjálshyggjunnar sem Viðreisn hefur látið grilla í, íhaldsmenn upp til hópa eru ekki nýfrjálshyggjumenn, þeir vilja velferð og innra sjálfstæði þjóðarinnar.
Flest af því sem Viðreisn í kjarna er ekki.
Og þó ég sé ekki hægri maður, langt í frá, og hef sjaldnast grátið fylgistap Sjálfstæðisflokksins, sjálfsagt bara út af gömlum vana, þá er mér ekki sama um fylgisaukningu hins svarta af hinu svarta.
Þess vegna hvet ég hægri menn til að brýna skjaldrendurnar.
Ég hins vegar kýs gegn ESB, hef lengi gert það eftir að ég áttaði mig hvers eðlis þetta frjálshyggjubandalag er.
En það er bara mitt val, val hvers og eins er persónubundið og það eigum við að virða.
Hvort maður hins vegar ástundar dólg og vígaferli, skammist út þá sem maður vill skamma þessa stundina, er hins vegar önnur saga.
Valkostur alveg eins og það er valkostur hvort menn lesi skrif minn, séu sammála þeim eða ósammála, og allt þar á milli.
En þjóðin er búin að tapa þessum kosningum, þar er enginn efi í mínum huga.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 24.11.2024 kl. 14:58
Takk fyrir taktískt svar, -eða þannig.
Sammála því að þjóðin er búin að tapa.
Kveðja úr efra.
Magnús Sigurðsson, 24.11.2024 kl. 15:56
Tek heilshugar undir það
að það er óhugnanlegt
að sú nashyrningahjörð sem Jón Baldvin nefndi réttilega framboðshjörð SA, þ.e.a.s. ESB Viðreisn skuli ásamt Ný-Samfylkingu Blairista, Ný-frjálshyggju andskotans, vera við það að landa svo miklum sigri að það dugi þeim að hafa hvaða smáhækju sem er með, líkast til hækjuna Framsókn, sem er og hefur alltaf verið föl. Þannig verður til afat ESB sinnið stjórn ... og ekki batnar þegar ÞKRG verður orðin formaður þess flokks sem eitt sinn var einhvers verður, en nú verri en enginn!
Símon Pétur frá Hákoti (IP-tala skráð) 24.11.2024 kl. 19:08
Vil þó vara mest við ESB stjórn andskotans, þeirri stjórn sem ég hef undanfarna mánuði varað ítrekað við:
– Samfylking, eindreginn ESB flokkur, hóf á sínum tíma aðildarviðræður þvert á vilja þjóðarinnar.
– Viðreisn, yfirlýstur ESB flokkur, allt frá stofnun.
– Sjálfstæðisflokkur, enginn flokkur verið duglegri að taka við og innleiða ESB reglugerðir og lög og ofsinn slíkur, að sá flokkur talar mest fyrir bókun 35.
Símon Pétur frá Hákoti (IP-tala skráð) 24.11.2024 kl. 20:08
Blessaður Símon Pétur.
Það er ekki að ástæðulausu að við Magnús séum sammála um að þjóðin sé búin að tapa kosningunum.
En eins og Magnús bendir réttilega á þá er ég taktískur, það er í einkastríði mínu við frjálshyggjubandalagið og leppa þess.
Og í mínum huga er það ekki spurning að það er mun skárra að Sjálfstæðisflokkurinn leiði hægri væng stjórnmálanna en Viðreisn. Því í Sjálfstæðisflokknum lifir í glæðum þjóðlegrar íhaldssemi, þar er ennþá fólk sem veit hvað það er að vera borgarlegur íhaldsmaður.
Slíkt fólk fyrirfinnst ekki í Viðreisn, þetta eru allt leppar auðs, og lúta hugmyndafræði Mammons í einu og öllu.
Sjálfstæðisflokkurinn er eins og hann er en Viðreisn er skaðræði.
Sbr að þó að kálmaðkurinn sé leiðinda kvikyndi í kálökrum, þá er það ekki í forgangi að berjast við hann þegar engisprettur ógna.
Það er bara svo.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 25.11.2024 kl. 09:12
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Þú ert innskráð(ur) sem .
Innskráning