Þórdís Kolbrún hefur lög að mæla.

 

Það var hlálegt svar norska varnarmálaráðherrans þegar Ólafur krónprins spurði hann um herkvaðningu norska hersins, eftir að ljóst var að þýska hernaðarvélin stefndi á Noreg, þá svaraði hann; Við gerðum það í pósti.

Þetta og margt fleira kom fram í einni betri mynd sem ég hef séð á síðari árum; norsku myndinni Nei konungs, eð Kongens nei.

Það þarf ekki að taka það fram að bréfin höfðu ekki borist til viðtakanda þegar innrás Þjóðverja hófst.

 

Önnur eftirminnileg setning sem er höfð eftir þýskum ofursta, þegar hann sagði þýska stjórnarerindrekanum sem vildi allt til þess vinna að forða átökum; Við semjum, ekki við tökum.

Sem er kjarni málsins, yfirgangsmenn semja ekki, þeir taka.

Og gera það alveg þangað til þeir eru stöðvaðir.

Að tala um frið við þá er eins og að skvetta vatni á gæs.

 

Pútín Rússlandsforseti er yfirgangsseggur, heldur áfram þar til hann er stöðvaður.

Hann rauf grið við siðmenninguna þegar hann hótaði að beita kjarnorkuvopnum á nágrannaríki sín.

Svarið við þeim griðrofum er ekki að senda bréf í pósti og vona að málið leysist á meðan.

 

Svarið er að mæta Pútín.

Því fyrr sem það er gert, því minni líkur eru á allsherjarstríði.

Sé það ekki gert, er allsherjarstríð öruggt

Ekkert friðartal fær því breytt.

 

Þess vegna hefur Þórdís Kolbrún lög að mæla.

Og sem betur fer er hún ekki ein um það.

Kveðja að austan.


mbl.is Án fordæma á lýðveldistímanum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðmundur Örn Ragnarsson

Make America Great Again, Gerum Ameríku volduga aftur er pólitískt slagorð sem Donald Trump notaði í þrennum forsetakosningum og það verða ekki orðin tóm hjá Trump, hann mund stand við það.

Vladimir Putin hugsar eins, Сделаем Россию снова великой, Gerum Rússland voldugt aftur og hann hefur staðið við það.

Eftir hina frægu viðtalsþætti kvikmyndaleikstjórans Olivers Stones við Vladimir Pútín, sagði Stone um valdatíð hans: Rússneska þjóðin hefur aldrei haft það betra.

Guðmundur Örn Ragnarsson, 20.11.2024 kl. 09:59

2 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Guðmundur Örn.

Ég held að hún hafi það  ekki sérstaklega gott eftir kjarnorkubál, síðan er ólíkt saman að jafna, þeim Pútín og Trump.

Eiginlega er það svívirða gagnvart Trump þó hann sé um margt gallagripur.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 20.11.2024 kl. 11:23

3 Smámynd: Jóhann Elíasson

Ólafur krónprins í Noregi??????

Jóhann Elíasson, 20.11.2024 kl. 12:47

4 Smámynd: Ómar Geirsson

Þú hefur greinilega ekki séð myndina Jóhann, hún er örugglega til á spilara Rúv, og er þess virði að horfa á.

Sem kennslustund um af hverju siðuð samfélög standa ístaðið gegn ofbeldisseggjum og ofbeldisríkjum.

En Nei-ið er eins og þú veist þegar Hákon Noregskonur, sá fyrst frá því á miðöldum, sagðist virða þingræðið, og ef það væri vilji ríkisstjórnarinnar að lúffa fyrir Þjóðverjum og sætta sig við Quisling sem forsætisráðherra, þá virti hann þá ákvörðun.  Hann myndi hins vegar segja af sér konungsdóminum, og það sama gilti um hans "hús" eins og hann orðaði það.

Þetta kallast að standa í lappirnar.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 20.11.2024 kl. 13:06

5 Smámynd: Sindri Karl Sigurðsson

Ég veit nú ekki betur en að 1944 hafi verið heimsstyrjöld í gangi og mannfall í hæstu hæðum. Dálítið vandræðaleg tilvitnun í söguna, þó ekki sé meira sagt.

Sindri Karl Sigurðsson, 20.11.2024 kl. 19:44

6 Smámynd: Ingólfur Sigurðsson

Það er gott að Ómar er vanur æstum rökræðum. Að því öllu slepptu þá standa eftir grunnspurningar.

Hvernig á að mæta Pútín? 

Það er búið að mæta honum á allri þessari stríðsvegferð, það hefur verið reynt, Úkraína með fullum stuðningi Vesturlanda og það er mjög mikið.

En eftir að hafa lesið vel ofaní öll þessi svör og misjöfnu skoðanir þá er ég rólegri að því leyti að enginn er hér vitandi vits að segja að vit sé í kjarnorkustríði.

Jafnvel Bjarni sem segir að kjarnorkuflaugar verði skotnar niður getur ekki útskýrt eða afsakað það viðbjóðslega tjón sem verður þegar þær koma niður annarsstaðar. Eða á að vera hægt að gera þær skaðlausar í andrúmsloftinu? Kemur ekki alltaf geislavirkt ryk niður og brot úr þeim?

Menn eru sem sagt að tala um að mæta Pútín á vígvellinum, senda fleiri hermenn. Já, það er áframhald á sömu stefnu.

En engu að síður, samlíkingin við Þriðja Ríkið er ofnotuð. Í þessu tilfelli og langflestum öðrum.

Menn hafa verið að "svara" Pútín. Það hefur bara ekki skilað neinu sérstöku. Nema mannfalli og eyðileggingu. 

Það átti að semja strax í upphafi. Þau rök mín standa og verða ekki hrakin.

Allt sem hefur verið gert til að "mæta" Pútín hefur aukið líkur á allsherjarstríði, WW3. Nokkrar staðreyndir til að styðja það:

1) Norður Kórea var ekki að senda hermenn á svæðið fyrir nokkrum mánuðum.

2) Ég hlustaði á hvað Kínaforsetinn sagði á BRICS ráðstefnunni nýlega. Hann er yfirleitt loðinn í orðum, þarna studdi hann Pútín í orðum og tók undir fannst mér. Það getur þýtt að Kínverjar hugsi sér að taka beinni þátt.

3) Viðskiptaþvinganir hafa bara ekki virkað.

4) BRICS blokkin er vissulega laustengd, en þar er þó jarðvegur fyrir WW3. Það er gott að hér eru menn að tala um að nota hefðbundin vopn og herafla, þannig er jú hægt að sigra stríð, með þrautseigju. En það þýðir samt, að ef WW3 hefst úr þessu á Pútín næga bandamenn.

Þetta er ekki úthugsað hjá Þórdísi Kolbrúnu eða öðrum Natóistum, og þetta er ekkert einfalt eða auðunnið mál.

Ég er þó farinn að skilja betur ykkar sjónarmið. Rétt hjá Guðmundi Erni, rússneska þjóðin hefur aldrei haft það betra. 

Það er heldur ekki Pútín sem byrjaði þetta, heldur Nató með sæmdarbyltingunni 2014, staðgengilsstríðinu. 

Ef gereyðingarstríð hefst er ekki hægt að kenna Pútín einum um, nei fráleitt. 

Það er ENGINN samningsvilji í Vesturlöndum, bara hatur og fyrirlitning á Rússum. Nató er hreint stríðsbandalag núna, ekki vottur af friðarvilja.

Ingólfur Sigurðsson, 20.11.2024 kl. 20:14

7 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Sindri.

Þjóðverjar réðust inní Noreg í apríl 1940, myndin er um hvernig kjúklingar í þáverandi ríkisstjórn Noregs létu undan Nei-i konungs.

Mótspyrna Norðmanna ásamt því beina tjóni sem breski flotinn olli á þeim þýska, er skýring þess að þýski flotinn hafði ekki afl gegn þeim breska þegar kom að innrás í England ári eftir.

Það varð mannfall í seinna stríði, varlega áætlað 80 milljónir, en það varð ekki vegna þess að frjálst fólk stóð ístaðið gegn yfirgangsseggjum, heldur vegna þess að til að byrja með þá héldu kjúklingarnir að það væri hægt að semja sig frá stríði.  Þess vegna fór sem fór en við eigum allavega því að þakka að við göngum ekki gæsagang á sunnudögum og hrópum; Heil Hitler.

Hins vegar er ekki vitað hvað hefði gerst ef yfirgangsseggjunum hefði verið mætt með styrk frá fyrsta degi. Því ef og hefði eru ekki gerendur sögunnar.

Samt alltí lagi að spá í það.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 21.11.2024 kl. 07:15

8 Smámynd: Ómar Geirsson

Og meðan ég man Sindri þá fjallar dæmisagan um asnann og gulrótina ekki um neyslu á grænmeti, þá sérstaklega gulrótum, það er hún var ekki kostuð af Sölufélagi garðyrkjamanna enda Ísland ekki byggt þegar sú dæmisaga var sögð í fyrsta skiptið.

Það er samt oft vísað í hana fyrir það, alveg eins og það mun lengi vera vitnað í Nei konungs, sem dæmi um styrk og æðruleysi á ögurstundu.  Og missa ekki sjónir á að friður er ekki keyptur með undanlátssemi gegn ofbeldis og yfirgangsseggjum.

En mér fannst þetta reyndar svo fyndið með bréf-herkvaðninguna, eitthvað svo norskt, sparaði örugglega pening því ríkið átti póstinn.

En dæmið, það sem unnið var út frá í pistli mínum var auðvitað þessi setning hérna; "Við semjum, ekki við tökum".

Þess vegna hefur Þórdís Kolbrún lög að mæla þó menn geti gert ágreining við aðferðir hennar og taktík.

Það er bara önnur saga.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 21.11.2024 kl. 07:52

9 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Ingólfur.

Svona til að hafa það á hreinu því ég nenni ekki að reka mig á þessa röksemd hjá þér aftur og aftur, þá er ekki verið að tala um Þriðja ríkið eða annað bull sem átti sér stað í ga ga heimi nasistanna, þegar verið er að tala um reynsluna af fjórða og fimmt áratug síðustu aldar. Það er verið að tala um Þýskaland og árásarstefnu þess, sem hófst úr engu en varð svona banvæn því menn héldu að undanlátssemi gagnvart ofbeldisseggjum myndi tryggja stöðugleika og frið. 

Það er bara ekki svoleiðis, sagan þekkir engin dæmi þar um en hún þekkir mörg dæmi um vopnaðan frið það síðasta er Kalda stríðið þar sem Sovétmenn reyndu ítrekað að veikja varnir Vesturlanda með svipuðu rökum og þú hefur fallið fyrir Ingólfur. Það tókst bara ekki, og þegar skammdrægu kjarnavopnin voru komin til Þýskalands á áttunda áratugnum, þá vissi Varsjárbandalagið að skriðdrekaher þeirra myndi aldrei ná Ermasundinu, sama hvað bandalagið æfði oft slíkar árásir.

Þá vantaði ekki grátinn að það væri verið að stofna heimsfriðnum í tvísýnu, það er varnarviðbrögðin, en þeir sem kveinuðu hæst á torgum yfir þeim þögðu hins vegar þunnu hljóði á meðan árásarbandalagið æfði ítrekaðar skriðdrekaárásir á Vestur Evrópu.

Þetta er sama kvein og við heyrum í dag Ingólfur, og rótin, uppruni þess í báðum tilvikum er Moskva.  Á fjórða áratugnum var rót kveinsins mun flóknara, auðvelt er að benda á Berlín, en ég segi hið skítuga fjármagn Wall Street, það fjármagnaði valdatöku bolsévika í Rússlandi, það fjármagnaði yfirtöku nasista á lýðræði Weimarlýðveldisins, og það fjármagnaði afneitun Vesturveldanna á sama tíma.

Einhver slíkur skítur er í gangi í dag, þú þekkir það Ingólfur, kennir hann við glóbal og þú gengur þess takt í dag.

Friðarsamningar á forsendum árásaraðila eru ekki friðarsamningar, þeir eru uppgjöf.  Svo kemur næsta innrás, svo næsta, svo næsta, það er eins öruggt og tunglið sjáist á morgun, sagan þekkir ekkert dæmi um annað. 

Forsaga stríða skiptir ekki máli, það eru rök fyrir öllum átökum.  Deadlænið er að þú líður ekki stríð á 21. öldinni, sem akkúrat heimsbyggðin gerir í dag, og þá endar þetta bara á einn veg.

En ef þú ætlar að koma í veg fyrir beitingu kjaravopna þá er aðeins ein leið til þess, og það er að gera viðkomandi aðila ljóst, að fyrsta beiting hans er jafnframt sú síðasta. Þar treysti ég Trump, hann er ekki eins vitlaus og fólk heldur, líkt og til dæmis þeir sem halda að hann gangi taktinn með Pútín

Þannig á að mæta Pútín, hart á móti hörðu, það er það eina sem Moskva skilur, og hefur alltaf skilið.

Eftir síðustu árásir Pútín á orkuinnviði, þá er rökrétt afleiðing að leyfa notkun á árásarvopnum yfir landamærin, þú byrjaðir, við svörum.  Hve Úkraínumenn treysta sér lengi að verja land sitt, hef ég ekki hugmynd um, ef við í vestri yfirgefum þá, þá færist stríðið bara nær landamærum okkar, því þeim sem hefur einu sinni tekist að kúga okkur, reynir það aftur.

Þó hann segi annað.

Þannig er það bara Ingólfur, við breytum ekki ritma sögunnar með því að afneita honum.

Hins vegar er fátt svo illt að ekki megi finna gott.  Á öld Kellingarinnar var fólk á Vesturlöndum farið að trú að lífið væri ljósbleik Barbie veröld, á meðan rændi glóbalauðurinn okkur framleiðslunni og afvopnaði okkur.  Kaldur raunveruleikinn hefur fengið jafnvel heimskustu ráðamenn til að skilja, að styrkur byggist ekki á því að fá allan iðnvarning sendan frá Kína, þó menn viðurkenni það ekki, þá skilja allir nauðsyn þess að gera þjóðfélög okkar "great again".  Og í framhaldinu erum við að hervæðast, enda veitir ekki af, það stefnir óðfluga í borgarstyrjaldir í flestum innflytjendaríkjum Vestur Evrópu, Íslam sér til þess.

Aðeins styrkur kemur í veg fyrir að slíkt borgarastríð verði mjög blóðugt.

Jæja, núna er ég búinn að moka snjó í morgun, tala við þig og Sindra, var eitthvað eldgos þarna fyrir sunnan??

Best að fara að kíkja á Moggann.

Kveðja að austan.

PS. Bjarni var að grínast.

Ómar Geirsson, 21.11.2024 kl. 08:42

10 Smámynd: Jóhann Elíasson

Ég þurfti ekki að sjá neina mynd til þess að benda þér á þá augljósu mistök þín að krónprins Noregs heiti Ólafur, enda vísaðir þú ekki í neina mynd þegar þú sendir þessa vitleysu frá þér....

Jóhann Elíasson, 21.11.2024 kl. 10:43

11 Smámynd: Ómar Geirsson

Var önnur setning mín þá kínverska Jóhann?; "Þetta og margt fleira kom fram í einni betri mynd sem ég hef séð á síðari árum; norsku myndinni Nei konungs, eð Kongens nei.".

Kannski þess vegna sem ég skrifaði um Kína núna í morgunsárið??

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 21.11.2024 kl. 11:38

12 Smámynd: Jóhann Elíasson

Þó svo að þú sért staðinn að ósannindum þá og vitleysu er óþarfi að vera með "skæting".  En þau viðbrögð lýsa þér kannski best sem persónu?????

Jóhann Elíasson, 21.11.2024 kl. 12:44

13 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Jóhann minn.

Ég veit ekki alveg hvað ég hef gert þér, þó veit ég ekki annað en ég hafi svarað fyrsta innslagi þínu af fyllstu kurteisi, og ítrekað að um  mynd væri að ræða sem væri til á spilara Rúv.  Það er ekki mér að kenna að vorið 1940 hafi Ólafur verið krónprins enda Hákon konungur ennþá á lífi, vissulega varð Ólafur konungur eftir daga hans, og sonur hans Haraldur, sem var snáði í myndinni, núverandi konungur Noregs.  Hver erfðaröðin er eftir það hef ég ekki glóru enda fylgist ég ekki með konungsfjölskyldum Evrópu, börnum þess eða barnabörnum.

Seinna svarið held ég að hafi verið frekar vægt miðað við tilefnið.  Þú segir að það hafi verið augljós mistök hjá mér að segja Ólaf krónprins, samt segir þú að þú hafir leiðrétt þá vitleysu mína með því að segja að krónprins Noregs heiti Ólafur, gott og vel, en rök þín gátu ekki verið að ég hefði ekki vísað í myndina Nei konungs, þegar ég gerði það.  Annars hefði byrjunin á þessum pistli verið óskiljanleg öllum þeim sem ekki sáu myndina á Rúv á sunnudagskvöldið.

Ég var hins vegar ekki að benda þér á viðkomandi mynd til að þú gætir komist að því hvort krónprins Noregs í byrjun apríl 1940 héti Ólafur, Karl eða Gústav, heldur var ég að benda á að þessi mynd væri þess virði að sjá, þó ekki væri annað en fyrir þann snilldarleik þess ágæta leikara sem lék Hákon konung. 

En svona er þetta bara Jóhann, það er misjafnt yfir hverju goðin reiðast.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 21.11.2024 kl. 13:29

14 Smámynd: Sindri Karl Sigurðsson

Las ágætist bók sem ég keypti í vinnuferð um Noreg, Kampen om Narvik, en það og þinn pistill kemur lítið við sögu í titli Moggans, ef rétt er haft eftir Þórdísi "Án fordóma á lýðveldistímanum".

Sindri Karl Sigurðsson, 22.11.2024 kl. 22:07

15 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Sindri.

Ég gerði nú fátt annað en að leggja út af myndinni Nei konungs eða Kongens nei til að færa rök fyrir að Þórdís Kolbrún hefði lög að mæla, um að ekki þýddi að lúffa fyrir ofbeldis og yfirgangsseggjum.  Fyrri útleggingin var sú kaldhæðni að eftir að norska ríkisstjórnin mátti gera sér grein fyrir að innrás Þjóðverja var yfirvofandi, þá var herinn kallaður út með því að póstleggja bréf, eins og nægur væri fyrirvarinn, og sú seinni var reyndar kjarni málsins; yfirgangsseggir semja ekki, þeir taka.

Út frá lærdómi sögunnar færi ég rök fyrir því að Þórdís hafi lög að mæla með því að benda á stigvaxandi ógn sem þarf að mæta, og einmitt það, að vera tilbúinn að mæta ofbeldisseggjum, það dregur úr líkum á meiriháttar átökum.

Flóknara var það nú ekki, og hvort rökleiðsla mín og ályktun sé rétt, réttari eða réttust, eða vitlaus, vitlausari eða vitlausust, eða eitthvað þar á milli, hefur ekkert með baráttu Norðmanna við Þjóðverja á stríðsárunum að gera, fyrirsögn Moggans eða annað.

Þetta er bara stuttur pistill þar sem ég tek undir sjónarmið Þórdísar Kolbrúnar, aldrei þessu vant.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 22.11.2024 kl. 22:22

Bæta við athugasemd

Hver er summan af tveimur og sex?
Nota HTML-ham

Um bloggið

Ómar Geirsson

Höfundur

Ómar Geirsson
Ómar Geirsson
Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Screenshot (49)
  • Screenshot (49)
  • ...img_0104a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (18.1.): 9
  • Sl. sólarhring: 34
  • Sl. viku: 2649
  • Frá upphafi: 1412707

Annað

  • Innlit í dag: 5
  • Innlit sl. viku: 2313
  • Gestir í dag: 5
  • IP-tölur í dag: 5

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband