28.10.2024 | 08:33
Börn og barnaskapur.
Spursmál Morgunblaðsins hefur vakið mikla athygli fyrir beinskeyttar spurningar og fyrir að láta fólk ekki komast upp með að svara í innantómum frösum, eða fullyrða eitthvað sem rífst beint við staðreyndir eða raunveruleikann.
Fyrir mig sem er fæddur þannig séð rétt uppúr miðri síðustu öld, þá rifjast upp fyrir mér þau tímamót í sjónvarpinu þegar menn eins og Vilmundur heitinn Gylfason, Ólafur Ragnar, og svo seinna Ögmundur Jónasson, mættu ráðamönnum, og spurðu, í stað þess að lúta höfði og hlýða í auðmýkt.
Eitthvað sem hefur ekki sést í áratugi hjá Ríkisútvarpinu, vissulega hefur einn og einn spyrill verið hvass en hlutdrægnin út í menn og málefni, þjónkun við þá hagsmuni peninganna að vilja inní Evrópusambandið, svipti þá allan trúverðugleik.
Þegar ég skoðaði alnetið til að fá nafnið á Sönnu Magdalenu, frambjóðanda Sósíalistaflokks Gunnars Smára, þá rakst ég á skítkastumræðu allra þeirra sem fannst hún ekki standa sig vel í viðtalinu, þekkt umræðuhefð meðal skítadreifara Góða fólksins, þar sem vegið var að spyrlinum í Spursmálum.
Mig langar að vitna í svar hans, fannst það gott; "Sanna mætti bara til leiks, svaraði fyrir sínar hugsjónir og ég lét hana hafa fyrir því. Hún stóð sig bara vel. Svo er það kjósenda að leggja mat á flokka og fólk.".
Mikill munur á þessu svari og síröflinu um hvíta miðaldra karlinn sem er vondur við ungar konur, eða konur yfir höfuð.
Tek undir það að Sanna er glæsilegur fulltrúi sinna hugsjóna, fengur fyrir alla flokka.
Annar ungur frambjóðandi sem gustar um er sigurvegari fólksins yfir stuðningsmannahjörð þingmanna Pírata; Lenya Rún Taha Karim.
Lenya mætti líka í hakkavél Spursmála, hnarreist, bar sig vel, þurfti enga silkihanska eða sérmeðferð vegna þess að hún er ung kona.
En eitt svara hennar, sem rifjaði upp fyrir mér annað sem haft var eftir Sönnu, er ástæða fyrra orðs fyrirsagnar minnar, þetta með börnin.
Vitnum í Lenyu þegar hún játar að hún ætli að leggja á stóreignaskatt, enn vissi bara ekki hve hár hann ætti að vera, hvað þá að hún vissi um að í heimi þar sem allt er opið, og það þarf aðeins einn Enter áslátt og fólk er flutt landa á milli, þá hefur stóreignaskattur skotið þá í fótinn sem hafa lagt þessa skatta á. "Við erum ekki að hækka skatta, þessu var bara kastað út í cosmosið í stefnuvinnunni sem er að fara fram akkúrat núna. Bara endurvekja stóreignaskatt, já eða nei.".
Stjórnmálastarf og mótun stefnu stjórnmálaflokka er svona eins og að vera á leikskóla og spyrja krakkana hvaða nammi þau vilja á nammidaginn, eða hvað viljið þið börnin mín.
Eitthvað sem hefur ekkert með raunveruleik lífsins að gera.
Að sama meiði er sú kotroskna fullyrðing Sönnu Magdalenu að hún og flokkurinn hennar vilji þjóðnýta fiskveiðar með því að endurvekja gömlu Bæjarútgerðirnar, líkt og hún væri stödd á kreppuárum síðustu aldar.
Hún hefði alveg eins geta sagt að ætla afnema saltskattinn til að bæta kjör fátækra, eða flytja inn betra torf í húsin.
En meinið er að sá sem fékk Sönnu til að segja þetta, Gunnar Smári, hlær sig máttlausan þegar hann heyrir þetta, en Sanna trúir þessu.
Alveg eins og Lenya trúir að hún sé að vinna að betri heimi með því að kasta hugmyndum inní cosmoið, sama hverjar þær eru.
Jón Gnarr vissi að það vissu allir að hann var að grínast þegar hann sagðist ætla að fá ísbirni í Húsdýragarðinn, en börnin í pólitíkinni í dag, fatta ekki að raunveruleikinn ræður því sem hægt er að gera í stjórnmálum, ekki óskhyggja.
Hvað þá að þær fatti að þegar óánægja fólks með auðinn og auðhyggjuna sem hér ræður öllu, fer að ógna ríkjandi kerfi, þá gerir einmitt sá sami auður út börn eins og þær stöllur til að fanga róttækni ungs fólks, svo sú róttækni ógni ekki einu eða neinu, er aðeins skemmtun fyrir þá sem eru aðeins eldri.
Eru verkfæri þess sem þær vilja knésetja.
Og sjá það ekki í barnaskap sínum.
Barnaskapur er annað orðið í fyrirsögn þessa pistils, og hann tengist ekki þeim stöllum sem ég fjalla um hér að ofan, það orð er til komið eftir að ég las orð Guðlaugs Þórs oddvita Sjálfstæðismanna í Reykjavík.
Ekki að Guðlaugur þjáist að barndómi, hann er eldri en það og marga fjöruna sopið í tækifærismennsku sinni í pólitík, en aldrei náð markmiðum sínum, sem er að leiða Sjálfstæðisflokkinn.
Sá metnaður fær hann ekki til að gráta ef flokkurinn býður afhroð í komandi kosningum, því þá veit hann að það er bæði út um Bjarna og krónprinsessuna Þórdísi Kolbrúnu.
Og hver verður þá formaður??, ha!!
Það vita allir hvernig þessi ríkisstjórn hefur starfað síðustu ár, hefur í raun verið óstarfhæf til að takast á við vandamál þjóðarinnar, eða marka nýja stefnu úr forarvaði vitleysu og trúarbragða loftslags og rétttrúnaðar.
Þar er Guðlaugur Þór sekari en sjálf syndin, dansað með loftslagstrúboðinu og í raun haft áhuga á fáu öðru en hagsmunum sínum tengdum vindmylluumhverfisvánni.
En hann treystir á barnaskap, barnaskap þess fólks sem hefur ætíð verið Sjálfstæðisflokknum trúr, eldra íhaldsfólki, sem vill hag lands og þjóðar sem bestan, og er sjálfstætt, það og foreldrar þess börðust ekki fyrir sjálfstæði þjóðarinnar, til þess að sjá flokk sinn afhenda það sama sjálfstæði skriffinnum Brussel.
Þann barnaskap að orðavaðall fái raunveruleikanum breytt.
Gegn aðgerðaleysinu og undanlátsseminni er þessum orðum stefnt; "Frelsi, ráðdeild og ábyrgð með Sjálfstæðisflokknum eða vinstristjórn í anda Reykjavíkurmeirihlutans".
Og til að lægja reiðöldur hægri manna eftir slátrunina í Suðvestur og Suður kjördæmi, þá var gamall maður, skemmtilegur maður, tekinn út úr skápnum á háalofti, sem er undanfari þess að farið er með það sem hætt er að nota, í Sorpu.
Og rykinu kastað í augu hinna trúföstu sem eiga í raun ekkert sameiginlegt með hægri krötum flokksins; "Auðvitað vitum við að þetta er brekka en það er gríðarlegur styrkur að hafa Brynjar á listanum. Vegna hans starfa og framgöngu þá hefur hann verið í eftirspurn um allt land og ég var mjög ánægður að hann féllst á það að vera með okkur. Markmiðið er auðvitað að koma honum inn og ég hef fulla trú á því að við munum vinna á í kosningabaráttunni,".
Ha, ha, mikil er einfeldni ykkar og trúgirni hefur Guðlaugur Þór örugglega hugsað þegar hann lét þessi orð falla.
Spurningin er.
Hafði hann rétt fyrir sér??
Kveðja að austan.
Guðlaugur segir valkostina vera skýra | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Um bloggið
Ómar Geirsson
Færsluflokkar
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (18.1.): 18
- Sl. sólarhring: 18
- Sl. viku: 2658
- Frá upphafi: 1412716
Annað
- Innlit í dag: 12
- Innlit sl. viku: 2320
- Gestir í dag: 12
- IP-tölur í dag: 11
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Sanna: Fjármagnstekjuskattur hefur verið lækkaðu.
Rétt er: Fjármagnstekjur voru skattfrjálsar þar til um og eftir síðustu aldamót þegar settur var á 10% skattur. Hann er nú 22%.
Sanna: Erfðafjárskattur hefur verið lækkaður.
Rétt er: Erfðafjárskattur var fyrir einhverjum áratugum 5-10% eftir upphæð arfs. Er núna 10% en með frítekhumark.
SANNA: Iðgjald í lífeyrissjóð hefur hækkað til að niðurgreið greiðslur frá TR.
Rétt er: Framlag launþega er 4% af launum og hefur verið í áratugi. Framlag launagreiðenda hefur hækkað úr 8% í 11,5%. Við bætist 2% framlag launagreiðenda í zéreignasparnað. Semsagt úr 8% í 13,5% á síðustu árum.
Bjarni (IP-tala skráð) 28.10.2024 kl. 15:37
Blessaður Bjarni.
Sanna segir ýmislegt.
En hún lærir.
Hygg ég.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 28.10.2024 kl. 17:16
Sagt hefur verið að í pólitík sé vika langur tími
Allar líkur eru nú á að Trump verð kjörinn forseti í næstu viku og svo strax á eftir er COP 29 ráðstefnan í olíuríkinu Azerbaijan - með yfir 32.000 þátttakendum!
enda birtist nú hver skýrslan af annarri sem sýnir svart á hvítu að samkvæmt módelinu sem sumir trúa á
þá ættum við öll að vera löngu dauð og helst er að Covid hefði getað bjargað okkur því það ár minnkað útblástur CO2 en hefur svo aukist hratt.
Aðallega er víst ástandið nú verulega slæmt vegna skógarelda sem spúðu út CO2 og brunnin skógur bindur ekki CO2
en þar sem erfitt er að skattleggja skógarelda þá verður bara bætt í að skattleggja almenning og afkomendur þeirra með grænum kolefnisjöfnar sköttum - nema Trump segi nei
Grímur Kjartansson, 28.10.2024 kl. 17:33
Blessaður Grímur.
Mikið rétt, vika er langur tími, og mikil hreyfing og gerjun í gangi, en meginlínurnar eru skýrar.
Froðan og tómhyggjan hefur yfirhöndina á Íslandi í dag.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 29.10.2024 kl. 07:21
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Þú ert innskráð(ur) sem .
Innskráning