Slátrun hægri manna.

 

Íhaldsmanna, sem stoltir kenna sig við sjálfstæði, hefur greinilega skaðað fylgi Sjálfstæðisflokksins.

 

Raunveruleikinn er einfaldlega sá að þegar forysta Sjálfstæðisflokksins ákvað að leggja niður bæði stefnuna um sjálfstæði þjóðarinnar sem og gildi íhaldsmanna, en veðja þess í stað á hægri kratisma, sem krónprinsessa flokksins, Þórdís Kolbrún var andlit fyrir að þá gleymdi hún einu.

Samkeppninni við aðra hægrikrata flokka, Viðreisn og Samfylkinguna.

Með sína öflugu leiðtoga, Hönnu Katrínu og Kristrúnu.

Já, já og Þorgerði Katrínu.

 

Hvort nýjasta útspilið, að shanghæja Jón Gunnarsson á listann, geri einhvern diff, veit tíminn einn.

En Jón setti niður við að þiggja brauðmolann og brandarinn um breytingu á löggjöf um hvalveiðar, lítilsvirðir kjarna flokksins, það er eins og það að vera íhaldsmaður, hægri maður, Sjálfstæðismaður, snúist um það eitt að fá hvalkjöt á diskinn.

 

Eftir stendur.

Forysta Bjarna Benediktssonar, sem reis upp eins og fuglinn Fönix þegar hann loksins mætti kúgun VG.

Gamli Bjarni er kominn og gamli Barni er öflugur.

Hann gefur Sjálfstæðisflokknum vigt sem aðrir leiðtogar hans gera ekki.

 

Breytir samt ekki að hann fyrirskipaði slátrunina á sjálfstæðismönnum flokksins.

Eftir öll þessi ár tók hann afstöðu með kratisma, með Eurokrötum gegn sjálfstæði þjóðarinnar.

Hann treysti á að sjálfstæðir íhaldsmenn myndu ganga jarmandi í dilkinn sem flokksforystan ætlaði þeim, þeir væru jú sjálfstæðismenn.

 

Þessi skoðanakönnun segir að sú ætlun Bjarna hafi mistekist.

Sem og að hægri kratar Viðreisnar og Samfylkingarinnar fiski betur en stelpurnar sem flokkurinn ákvað að veðja á.

 

En það skyldi enginn vanmeta Bjarna Benediktsson og styrk hans þegar á móti blæs.

Þá er Bjarni eiginlega sterkastur.

Þá gustar af honum.

 

En trúið mér.

Í kirkjugörðum landsins heyrist grátur liðinna Sjálfstæðismanna.

 

En þeirra kosningaréttur er liðinn.

Hins vegar veit ég ekki hvort þeir sem lifa heyri þann grát.

Kveðja að austan.

 


mbl.is Ný könnun: Sjálfstæðisflokkur dalar og VG botnfrosið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Afar greinargóður pistill.

Napurlega sannur.

Og það að kvenskörungurinn og sjálfstæðiskonan Sigríður Andersen sé gengin í Miðflokkinn segir allt um það hversu illa er komið fyrir hinum svokallaða Sjálfstæðisflokki.  

Símon Pétur frá Hákoti (IP-tala skráð) 25.10.2024 kl. 15:08

2 Smámynd: Ómar Geirsson

Bjóstu við öðru Símon minn?

Ég er nú að reyna að leggja vogarskálar á lóð þeirra sem berjast gegn draumi hægrikrata um hjáleigusambandið við Brussel, þá fer maður ekki með fleipur eða gárungaskap.

Ég hélt hins vegar að skotgrafir sjálfstæðissinna lægju fyrir eftir að Litla litla Samfylkingin (Viðreisn er víst komin með meira fylgi en Sjálfstæðisflokkurinn, þar með bætist eitt lýsingarorð í viðbót við hið rétta nafn hans; Litla Samfylkingin og verður að Litla litla) myndi kynna framboðslista sína í Reykjavíkurkjördæmunum, og einhver plataði mig til að trúa að það myndi gerast í gær.

Pistillinn í kjarna tilbúinn, hugurinn gæti þá farið að leita á ný mið, til dæmis heilsumið.

En maður á ekki að kvarta þegar maður er lesinn líkt og þetta hliðarsjálf mitt, sem fáir eða engir vita um alvöru mína að baki, hún er örugglega einhver, samt ekki alveg ég.

En það gerist samt sitt lítið af hverju í byggðinni minni sem krefst tjáningar þeirra sem kunna að tjá sig, þar með enginn skjöldur í hliðarsjálfi eins og Kveðjan að austan er.

Og þó ótrúlegt sé, þá er Ómar Geirsson líka lesinn á Íbúaspjalli Fjarðabyggðar, en þar er hann til friðs. Eða þannig.

Flokkar koma og fara.

En góða byggð á að verja.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 25.10.2024 kl. 15:33

3 identicon

Smá viðbót:

Hér í athugasemd hef ég áður varað við þeim möguleika að Sjálfstæðisflokkur, Viðreisn og Samfylking muni mynda stjórn sem muni sækja um ESB aðild um leið og sú stjórn kæmist í færi til þess.  Bendi á að samanlagt % fylgi þeirra mælist hér 52,5%.

Mitt svar, sem sjálfstæðismanns er því að kjósa alls ekki Sjálfstæðisflokk júróbúrakratanna, en fylgja fremur og kjósa M flokk Sigmundar og Sigríðar Andersen.  Megi vegur þeirra verða sem mestur, landi og þjóð til heilla um alla framtíð.

Símon Pétur frá Hákoti (IP-tala skráð) 25.10.2024 kl. 15:36

4 identicon

Ert þú ekkert Ómar að spá í hina svokölluðu VINSGTRI GRÆNU. Ég hefði haldið að þeir væru meira áhyggjuefni þitt en BB og co, ekki það að ég kjósi BB lengur og ekki gert lengi. Þetta er líklega yfirbreiðslugrein hjá þér ef ég þekki VG liða rétt. Það varð rosaleg áferðarbreyting á VG við uppstokkunina.

Hjörvar O Jensson (IP-tala skráð) 25.10.2024 kl. 16:54

5 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Hjörvar.

Ég hygg að upplýsingar þínar um kjósendahegðun mína séu aðeins yngri en þegar þið bankamenn þurftuð að taka upp þá ráðgjöf að mæla gegn skuldsetningu viðskiptavina ykkar, það væri komin verðtrygging þannig að verðbólgan eyddi ekki lengur skuldum. Mig minnir að ég hafi einhvern tímann játað í fyrstu pistlum mínum, 2009-2010, að ég hefði kosið blakfélaga minn Steingrím Joð í tvennum kosningum, en þreyta með blaðrið í meintum kvenfrelsiskjaftakellingum varð til þess að ég kaus nafna minn og flokk hans, sem mér er lífs ómögulegt að muna hvað hann hét, 2007.

Það þarf ekki síðan að ræða vonbrigði mín með Steingrím Joð, það vita allir lesendur þessa bloggs. Sem og afstöðu mína gagnvart svikum fólks sem ég mat, tók mark á, eða fyrrum félögum mínum úr stúdentapólitíkinni, ef ég fer til helvítis eftir dauða minn, þá er það vegna ábyrgðar minnar á stofnun regnhlífarinnar sem síðan útungaði verstu síðgerendum Hrunsins, fólksins sem sveik, fyrir medalíu og upphefð í Brussel.

Á vissan hátt komst þú við kaunin á mér Hjörvar, en þú þekkir ekki þá sögu. Mér til afsökunar var að við Hriflungar áttum engan hljómgrunn með Halldóri Ásgrímssyni og miðjumoði hans.

Ég sveik ekki miðjuna, þó ég reyndar er frá fornu fari aðeins vinstra megin við hana, það var miðjan sem sveik mig.  Tilfinning um svik sem til dæmis Sigríður Andersen kannast við, en brauðmoli kæfði þá hugsun hjá Jóni Gunnarssyni.

Þetta ítarlega svar mitt Hjörvar er vegna þess að þú sem Austfirðingur, búandi eins næst og hægt er að búa byggðinni minni, þykist þekkja mig og lífsskoðanir mínar, gleymandi að ég hef svo sem pistlað um margt frá 2009, þá byrjaði ég að vega VG liða og svikahyski Samfylkingarinnar.

Víkjum aftur að nútíðinni, munurinn á mér og þér er sá að ég ber mikla virðingu fyrir BB, og hef ekki farið leynt með þá virðingu.

Hins vegar vorkenni ég þér Hjörvar að hafa fallið fyrir lygavaðli Viðreisnar, þess arfleið að vilja hafa selt allt sem hægt var að selja úr sjávarbyggðum landsins, flokks þar sem Þorsteinn Pálsson er blótaður eins og hjáguð Mammons, og Mammon sé guðinn.

Sem betur fer var Sjálfstæðisflokkurinn þá nógu sterkur til að verjast þessari eyðingu sjávarbyggða, og sem betur fer henti Davíð Þorsteini á gaddinn.

Sem gegnheilt íhald Hjörvar væri þér nær að kjósa upprunann en fláráð og svik þeirra sem þykjast vel, en reynast illt.

Þessi ráðlegging markast að því að það hvarflar ekki að mér í mínútu að þú kjósir eftir sjálfstæði þjóðarinnar, gegn bókun 35.

Það geri ég hins vegar.

Kveðja aðeins austar en frá þinni gömlu heimabyggð.

Ómar Geirsson, 25.10.2024 kl. 17:25

6 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Sæll Ómar, -nú stormar í neðra.

Þessi könnun er hat trick, eins og Símon Pétur reyndar bendir réttilega á, hægri kratisminn er með hreinan meirihluta.

Það eru orðnir áratugir síðan að newspeak tók yfir stjórnmál heimsins og að vera til sölu þýðir sjálfstæði, þetta newspeak má m.a. sjá hjá gömlu herra þjóðinni þar sem Venstre er til hægri.

Mig grunar meir að segja að sá sem fékk kokkað þessa Morgunnblaðskönnun teljist til siðfræðings, þó hann sé inn við beinið kommúnisti rétt eins og allt heila júróbúrókratið.

En sjálfsagt nær BB annað hvort að tárast eða baka sig í beinni út úr þessu sé það á annað borð meiningin, -sem ég reyndar stór efast um, hann vill sjálfsagt vera með í taktískum kosningasigri þjóðarinnar þegar hún leggur sjálfa sig niður eins og hvert annað hreppsfélag á Íslandi undanfarna áratugi.

Með með frekar vindasamri kveðju úr efra.

Magnús Sigurðsson, 25.10.2024 kl. 17:26

7 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Magnús.

Það var reyndar lognið þegar ég fór góðglaður heim núna rétt áðan,frá vinafundi, nær klukkunni eitt en tólf.

Veit svo sem ekki um skoðanakannanir, veldur sá sem heldur og ég reikna með að oft sé mælt það sem ekki er ætlunin að mæla, en þær ljúga svo sem ekki heldur.

Hvernig slátrun hægra fólks fór framhjá mér, veit ég ekki,

Ómar Geirsson, 26.10.2024 kl. 00:53

8 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Góðan daginn Ómar, -já það er ljúft nætur lognið í neðra.

En að telja Sjálfstæðisflokkinn til hægri flokka eru náttúrulega annaðhvort elliglöp eða þá æva gamalt newspeak, -hann var orðin að kommúnistaflokki fyrir áratugum síðan.

Varðandi þessa könnun þá má benda á að formenn þeirra flokka sem líklegast er að myndi næstu ríkisstjórn, samkvæmt könnuninni hvort sem hún er taktískt hönnuð eða ekki, -koma öll úr Sjálfstæðisflokknum og eiga sínar rætur þar eftir að hann varð að kommúnískum júrókratisma.

Slátrun sjálfstæðis fólks sumarhúsanna, bæði til hægri og vinstri, -hefur þegar farið fram innan stjórnmálaflokka landsins. Nú stendur yfir að skipta um þjóð í landinu og er það á pari við slátrun íslensku þjóðarsálarinnar, -en sú sál hefur verið nokkuð lífseig til þessa.

Með kveðju úr morgunn myrkri í efra.

Magnús Sigurðsson, 26.10.2024 kl. 06:12

9 Smámynd: Ómar Geirsson

Já og svo lokuðu þeir sláturhúsinu á Vopnafirði, það var þó ærlegt sláturhús í heimabyggð.

Góðan daginn Magnús, blessuð blíðan lætur ekki að sér hæða.

Fallegur dagur þegar Nytjamarkaðurinn-Steinninn opnar núna á eftir í stærra húsnæði.

Það er þó eitthvað sem lifir, og það góðu lífi.

Fagna ber því sem við höfum.

Megi góðir göngutúrar verða gegnir í efra sem og í neðra í dag.

Með kveðju úr neðra.

Ómar Geirsson, 26.10.2024 kl. 10:53

10 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Eigðu góðan göngutúr Ómar, -ég er í þann veginn að bruna í neðra til að heilsa upp á afkomendurna.

Já þeir slátra, slátra og slátra, -ég tók eftir því í morgunn að ég var tekin út af sakramentinu á mogga-blogginu, er hvorki sýnilegur lengur á nýjustu færslum né í umræðunni.

Finnst það reyndar sérkennilegt eftir bænagerðina í gær. En hvað veit maður um hvenær eitthvað fer úrskeiðis á milli eyrna siðfræðinganna.

Með kveðju úr sólinni í efra.

Magnús Sigurðsson, 26.10.2024 kl. 11:15

11 identicon

Gott að sjá að þú ert í stuði Ómar. Stjórnmálin hafa sýnt okkur að þeir sem fæddir eru á síðustu öld skilja flestir að fullveldi og sjálfstæði þjóðar eru lykill að þeirri hagsæld sem að íbúar þessa lands búa við. Auðvitað lenda einhverjir alltaf á milli skips og bryggju enda hefur borgarastéttin með píratísku ívafi og borgarlega þenkjandi krötum vaxið fiskur um hrygg. Ríkið á að vaxa og dafna í gegnum skattheimtu og það á að helst að skattleggja þá sem hafa sparað í gegnum lífið og eiga eignir. Sú kynslóð sem er að ganga á engin peningatré sem hægt er að plokka lengur. Í dag snýst allt um að komast á spenann hjá ríkinu og það á að skattleggja flest svo hægt sé að útdeila gæðum sem byggja ekki á verðmætasköpun.

Er hissa á Jóni fýlkupúka Gunnarssyni. Það kom honum á óvart að vera ekki valinn í 2. sætið í SV kjördæmi. Hann gerði ekkert, hringdi ekki einu sinni í þá sem höfðu atkvæðisrétt en það gerðu konurnar miskunnalaust og uppskáru eftir því. Nú er hann kominn aftur eftir að hafa hætt, sennilega hefur hann fengið dúsu. Held að þetta sé ekki að virka.

Sjálfstæðistflokkum hefur ekki tekist að endurnýja sig og það að engin prófkjör séu haldin hjálpar ekki lýðræðinu né nýju fólki að koma fram.

Það nenna fáir að standa í stjórnmálum í dag því skítkastið er mikið. Því miður. Ef einhvern tímann þarf sterkt og íhaldssamt stjórnarfar þá er það núna þegar hver höndin er uppi á móti annarri.

mummi meinhorn (IP-tala skráð) 26.10.2024 kl. 12:55

12 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður aftur Magnús.

Ég er orðlaus við þessar fréttir, þetta hljóta að vera einhver mistök, óreiðan þarna uppá Héraði, sem hefur gefið af sér marga af bestu pistlum Moggabloggsins, getur ekki hafa farið fyrir brjóstið á einum eða neinum.

Þetta hlýtur að vera einhver kerfisvillan.

Líklegast hjá gervigreind sem hefur sloppið laus.

En gangan var góð í blíðunni þó slitgigtin í öðru hnénu sé eitthvað að ybba sig, alltaf að tuða eitthvað um að labba styttra.

En það þýðir samt ekkert annað en að halda áfram, jafnt í þessu sem öðru.

Við eru allavega ekki gervigreind.

Kveðja úr neðra.

Ómar Geirsson, 26.10.2024 kl. 13:46

13 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður mummi.

Þetta er svona, ætlum við séum ekki bara að verða of gamlir, tuðandi svona um sjálfstæði og verðmætasköpun.

En einhverjir verða að gera það, ekki gera allavega vonbiðlarnir það, eða hefur einhver ennþá minnst á bókun 35?

Það eina sem skiptir máli í dag

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 26.10.2024 kl. 13:54

Bæta við athugasemd

Hver er summan af einum og fjórtán?
Nota HTML-ham

Um bloggið

Ómar Geirsson

Höfundur

Ómar Geirsson
Ómar Geirsson
Okt. 2024
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31    

Nýjustu myndir

  • Screenshot (49)
  • Screenshot (49)
  • ...img_0104a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (28.10.): 106
  • Sl. sólarhring: 1010
  • Sl. viku: 6232
  • Frá upphafi: 1386301

Annað

  • Innlit í dag: 94
  • Innlit sl. viku: 5231
  • Gestir í dag: 93
  • IP-tölur í dag: 93

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband