21.10.2024 | 08:33
Aðeins dauðir breytast ekki.
Hvort þeir gangi aftur eins og gamla Alþýðubandalagið í VG og nái í atkvæði sem eru ekki þessa heims, er alltaf fræðilegur möguleiki, en ólíklegur.
Flokkur sem vill lifa, og hefur lifað af í áratugi, upplifað tvenna tíma, á rætur aftur í sjálfstæðisbaráttu 19. aldar, var kjölfesta hægri fólks alla 20 öldina, og vill áhrif á þeirri 21., hann breytist, rær á þau mið sem hann telur gefa.
Og í anda hins sterka leiðtoga, sem losaði sig við ógnina af þessu leiðinda lýðræði sem prófkjör eru með því að boða til kosninga með engum fyrirvara, þá boðar Bjarni breytingar á Sjálfstæðisflokknum.
Út með miðaldra karlmenn fortíðarinnar, inn með ungt fólk nýrra tíma, það sem hann sagt hefði viljað fyrir síðustu kosningar, en prófkjörin voru ekki sammála um, raungerir hann núna með smölun trúnaðarfólks á kjördæmaþing.
Hefur húmor fyrir öllu saman; "... það hafa verið mjög ánægjulegt hve mikill kraftur hefði færst í öll kjördæmin og hvað þingin hefðu verið fjölmenn. ... Alltaf sé hægt að gera ráð fyrir því að breytingar verði þegar lífi sé hleypt í flokksstarfið með röðun, líkt og nú var gert".
Gott og vel.
Þannig vinna sterkir leiðtogar, og það er bara svo, ein af staðreyndum lífsins, að lýðræðið fúnkerar ekki án sterkra leiðtoga.
Annað er ávísun á upplausn og yfirtöku sterkra einræðisherra eða tyranna.
Tíminn einn veit svo hvernig tekst til með tiltektina, nái Bjarni varnarsigri þá getur hann afhent Þórdísi Kolbrúnu lyklavöldin, nái hann að sigra kosningarnar, það er að Sjálfstæðisflokkurinn verði áfram stærsti flokkurinn á þingi, þá verður Bjarni áfram óskoraður leiðtogi flokksins, og ræður sjálfur tímasetningu afsagnar sinnar sem formaður flokksins.
Tapi hann, þá tekur hann Þórdísi Kolbrúnu með sér í fallinu, þá hefur breytingin úr Sjálfstæðisflokki í landsöluflokk Samfylkingarinnar mistekist.
Sem Austfirðingur fagna ég að prófkjör voru ekki viðhöfð, þar með tókst að rjúfa ægiveldi Akureyringa á skipan framboðslista í Norðausturkjördæmi.
Ægiveldi sem hefur leitt til þess að forystufólk kjördæmisins keppa um fyrsta sæti á lista meðalmennskunnar, jafnvel þó flestir Akureyringar yrðu þráspurðir, þá þekkja þeir ekki nöfn þingmanna sinna.
Nema kannski Loga greyið, en það kemur ekki til að góðu.
Eftir langa eyðimerkurgöngu fáum við Austfirðingar loksins forystumann í kjördæmið, óska Jens Garðari alls hins besta í störfum sínum.
Megi svo fleiri flokkar fylgja þessu fordæmi.
Nefni engin nöfn.
En þetta var reyndar útidúr sem ég gat ekki stillt mig um.
Annars er það;
Kveðjan að austan.
Finn kraft í öllum kjördæmum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Um bloggið
Ómar Geirsson
Færsluflokkar
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (19.1.): 0
- Sl. sólarhring: 13
- Sl. viku: 2019
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1772
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Með þessari fyrirsögn þinni, Ómar, virðist þú fagna hreyfingum innan flokksins og telur það merki um líf. En það þarf alls ekki að vera, því menn geta verið að fara úr öskunni í eldinn.
Jákvætt getur verið að flokkurinn hreinlega deyi líkt og þegar hinn holdi klæddi maður deyr þá hættir hann að syndga.
Er ekki tími nú á dauða flokksins og uppristu með nýju heiti: Lýðræðisflokkurinn?
Guðmundur Örn Ragnarsson, 21.10.2024 kl. 18:32
Blessaður Guðmundur Örn.
Ég held enn og aftur að þú sért að misskilja þessa "sjálfstæðis" pistla mína, það er sko einn eftir í þessari lotu að ég held.
Vissulega er ég að mínum hætti að greina hræringar innan Sjálfstæðisflokksins, og þá þróun hans að breytast úr íhaldsflokki í nútíma hægrikrataflokk, en í þeirri greiningu felst engin afstaða til eins eða neins, enda er ég jafn lítill sjálfstæðismaður eins og þú ert trúleysingi Guðmundur.
Ég er hins vegar Sjálfstæðismaður með stóru Essi, það erum við allir úr frændgarði Bjarts frá Sumarhúsum. Á þá lífsskoðun sameiginlega með mörgu fólki, með ólíkar lífsskoðanir, hafandi styðjandi flesta ef ekki alla flokka þjóðarinnar. Fólki sem telur að núna sé komið að Ögurstundinni, að á næsta kjörtímabili verði skorið úr um framtíð okkar, bæði sem þjóðar, það er íslensku þjóðarinnar og hvort við verðum sjálfstæð þjóð meðal sjálfstæðra þjóða.
Þess vegna er ég að spá í spilin, en ekki að prédika eitt eða neitt.
Varðandi dauðann í fyrirsögninni, í pistli sem fjallaði um breytingaferli Sjálfstæðisflokksins úr hægriflokk í krataflokk, þá var ég bara að grínast með Svandísi og VinstriGræna, finnst Svandís ekki beint pólitískt klók.
Þeir sem neita að breytast þeir einfaldlega deyja út því lífið er síbreytilegt, bæði sjálft lífið sem og samfélög. Þróunin sker hins vegar úr um hvort breytingar séu til góðs eða séu ávísun um ferðalag úr ösku í eld.
Ég sá það til dæmis ekki fyrir sem ungur maður, þegar ég mótaði mínar lífsskoðanir, að fólkið vinstra megin við miðju myndi selja sálu sína hinum alþjóðlega síarðrænandi auð, kenndan við glóbal, hvað það væri leitun af félagshyggjufólki sem ekki hefur gengið fyrir björg forheimsku og fávitaháttar.
En svona er þetta bara Guðmundur Örn, það veit enginn sína ævi en það þýðir ekkert að gefast upp, heldur feisa stöðuna og reyna sitt besta til að takast á við hana.
Við getum tapað stríðinu, getum jafnvel tapað lífinu, en það er okkar val hvort við töpum okkur sjálfum.
Mér sýnist að þeir hægri menn, sem ætla að taka taktinn með Bjarna Ben undir lúðrablæstri endurunna frasa og svikinna loforð, hafi einmitt kosið slíkt tap.
En það er þeirra val.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 21.10.2024 kl. 21:36
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Þú ert innskráð(ur) sem .
Innskráning